Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 517  —  93. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Álfheiði Ingadóttur og Lilju Jónasdóttur frá Þingvallanefnd.
    Umsagnir bárust frá Landssambandi sumarhúsaeigenda, Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga og Bláskógabyggð.
    Frumvarpið er endurflutt frá 136. löggjafarþingi og lagði allsherjarnefnd þá til að það yrði samþykkt (þskj. 924 – 386. mál). Þar kom fram að markmið frumvarpsins væri að tryggja að Þingvallanefnd gæti samið um lengd leigutíma á lóðum undir sumarhús óháð ákvæðum laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, en þau áskilja að leigusamningar frístundahúsa séu gerðir til 20 ára. Þeir samningar sem í gildi eru í þjóðgarðinum eru til styttri tíma, eða 10 ára, og þykir það nauðsynlegt svo að unnt sé að grípa til ráðstafana með tiltölulega skömmum fyrirvara til að tryggja að markmið laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum náist, enda er Þingvallanefnd falið að fara með málefni þjóðgarðsins.
    Nefndin bendir á að jafnframt kunna ýmis önnur ákvæði laga um frístundabyggð að vera í nokkru ósamræmi við lög um þjóðgarðinn, en nefndin minnir einnig á þá meginreglu að sérlög ganga framar almennum lögum og vísar í því sambandi til sérstöðu þjóðgarðsins á Þingvöllum.
    Nefndin fjallaði um kosningu og kjörtíma Þingvallanefndar. Samkvæmt gildandi lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, skal Alþingi kjósa sjö alþingismenn í Þingvallanefnd í upphafi hvers þings. Fyrir gildistöku þeirra laga var þriggja manna Þingvallanefnd kosin í lok hvers þings eftir nýafstaðnar kosningar, sbr. 5. gr. laga nr. 59/1928, um friðun Þingvalla. Rökin fyrir breytingunni 2004 var að vel færi á því að sama gilti um Þingvallanefnd og fastanefndir þingsins, sem þá voru kosnar í upphafi hvers þings. Með breytingum á þingsköpum 2007 var kjörtími þingnefnda lengdur þannig að kosningin gildir allt kjörtímabil alþingismanna. Nefndin leggur til að kjörtími Þingvallanefndar verði færður til samræmis við þessa breytingu á kjörtíma þingnefnda þannig að ekki þurfi að kjósa nýja nefnd á hverju löggjafarþingi. Þá leggur nefndin einnig til að tryggt verði með bráðabirgðaákvæði að sú Þingvallanefnd sem kosin var í upphafi yfirstandandi þings sitji áfram þar til ný nefnd hefur verið kjörin eftir næstu alþingiskosningar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Við frumvarpið bætist ný grein sem verði 1. gr., svohljóðandi:
                   Í stað orðsins „þings“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: kjörtímabils.
     2.      Við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Þingvallanefnd sem nú situr skal halda umboði sínu þar til ný nefnd hefur verið kjörin eftir næstu alþingiskosningar.

    Birgir Ármannsson, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.

Alþingi, 18. des. 2009.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Vigdís Hauksdóttir.


Ásmundur Einar Daðason.



Ólöf Nordal.


Róbert Marshall.