Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 519  —  239. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í skattamálum (virðisaukaskattur o.fl.).

Frá 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Frumvarpið mælir fyrir um miklar hækkanir á alls kyns gjöldum hins opinbera, breytingar á lögum um virðisaukaskatt, lögum um bifreiðagjald, lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um olíugjald, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um skyldatryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Gjaldahækkanir.
    Í ljósi tímapressu, vegna þess hve ríkisstjórnin lagði frumvarpið seint fram, fór nefndin ekki ítarlega yfir áhrif hækkananna. Sökum hraða í málsmeðferð gafst ekki tími til að fara yfir einstakar gjaldahækkanir (jafnvel þótt verið sé að breyta 161 af 176 gjöldum, þ.e. aðeins 15 eru skilin eftir óbreytt í öllum lagabálkinum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991).

Óæskileg áhrif á stöðu heimilanna.
    Þriðji minni hluti telur ljóst að áhrif skattahækkana stjórnvalda munu hafa óæskileg áhrif á stöðu heimilanna sem mörg hver eru yfirskuldsett.
    Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á að verði allar skattbreytingar og gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar að veruleika muni skuldir heimilanna hækka um 11.900 millj. kr. Ofan á þessar 11.900 millj. kr. eiga síðan eftir að bætast verðbætur og vextir í framtíðinni, þannig að uppsöfnuð áhrif aðgerðanna fyrir heimilin eru álitin verða nálægt 50.000 millj. kr. þegar upp verður staðið. Sú staða er þvert á það sem heimilin þurfa nú á að halda, sem er lækkun á höfuðstól skulda þannig að vandamálið verði viðráðanlegra en það er nú.
    Hækkun á eldsneytissköttum mun koma sérstaklega niður á heimilunum, ekki síst á landsbyggðinni. Kostnaður við eldsneyti á meðalbílinn hefur aukist um 30–50 þús. kr. á ári hjá dísil- og bensínknúnum bílum.

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.
    Merkilegt er að sjá forgangsröðun stjórnvalda þegar kemur að skattlagningu á hinum ýmsu atvinnugreinum. Hópferðabifreiðarnar munu þegar tillit er tekið til allra hækkana greiða um 600 millj. kr. meira í álögur heldur en fyrir breytingar. Málflutningur stjórnarliða um mikilvægi ferðaþjónustunnar í þessu samhengi er beinlínis hlægilegur.
    Ef horft er til skattlagningar á stóriðju annars vegar og ferðaþjónustu hins vegar kemur fyrrnefnda atvinnugreinin mun hagstæðar út – ekki er jafnræði í skattatillögum ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum atvinnugreinum.
    Til viðbótar þessari mismunun liggur í loftinu gríðarleg hækkun Keflavíkurflugvallar á lendingargjöldum sem mun hafa veruleg áhrif á uppbyggingu og fjölgun ferðamanna á Íslandi til framtíðar.

Umhverfisskattar og afsal loftslagsheimilda.
    Verið er að setja hér á umhverfisskatta um leið og íslensk stjórnvöld eru nú að afsala sér loftslagsheimildum með því að sækjast ekki eftir áframhaldandi undanþágu (Kyoto-bókunin). Til framtíðar litið mun þetta hafa mjög neikvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf og samkeppnishæfni þess. Það leiðir aftur af sér að störfum mun fækka og íslensk þjóð verður því lengur að ná sér upp úr þeim öldudal efnahagskreppunnar. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar.
    Í ljósi margra afleitra ákvarðana ríkisstjórnarinnar í efnahags- og skattamálum styður 3. minni hluti það að almenningur geti tekið út séreignarsparnað sinn, allt að 1,5 millj. kr. Margar fjölskyldur geta því miður ekki framfleytt sér í núverandi árferði. Hækkaðir skattar, hækkun á verðlagi, auknar afborganir og lægri laun eru meðal annars ástæða þess.

Hækkun á virðisaukaskatti.
    Nú er verið að leggja til að virðisaukaskattsstigin verði áfram þrjú en hæsta þrepið verði hækkað enn meira þannig að virðisaukaskattsstigin verði 0%, 7% og 25,5%. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir því, þótt efsta stigið verði hækkað um 1%, að hlutfallslega breytist ekki innheimta af viðkomandi skattstigi. Það er afar hæpið að gefa sér slíkt í ljósi verðteygniáhrifa. Þessi grundvallarbreyting var fyrst kynnt og afgreidd af meiri hlutanum kl. 20.30 á föstudagskvöldi og til stendur að ræða málið á laugardegi. Fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni óskaði eftir því að fá viðbrögð hagsmunaaðila við þessum breytingum á frumvarpinu en við því varð ekki orðið. Þau vinnubrögð sem ástunduð eru við breytingar á skattkerfinu eru fáheyrð, ef ekki einsdæmi.

Afleit málsmeðferð.
    Sú málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð í þessu máli er ekki Alþingi Íslendinga til sóma og ekki íslenskum almenningi bjóðandi. Verklag Alþingis frá hruninu 2008 hefur verið með þeim hætti að mörg lagafrumvörp hafa verið „keyrð í gegn“ á stuttum tíma og afleiðing þess hefur í einhverjum tilfellum verið sú að mistök hafa verið gerð í lagasetningunni. Nú er verið að breyta margvíslegum lögum sem snerta viðkvæmt skattkerfi og nær öruggt að mati 3. minni hluta að einhverjar meinlegar villur séu í þeim frumvörpum er snerta skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Slíkt getur orðið ríkissjóði dýrkeypt og þar með almenningi og íslenska velferðarkerfinu.
    Þriðji minni hluti leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari meðhöndlunar enda hefur undirbúningur málsins verið óásættanlegur.

Alþingi, 18. des. 2009.

Birkir Jón Jónsson.