Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 525  —  239. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um ráðstafanir í skattamálum (virðisaukaskattur o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Maríönnu Jónasdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Vilhjálm Egilsson, Hannes G. Sigurðsson og Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Elínu Björgu Jónsdóttur og Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Baldursson frá Bandalagi háskólamanna, Jón Steindór Valdimarsson og Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Sigurð Þór Ásgeirsson frá ÍSAL, Ragnar Guðmundsson frá Norðuráli, Gunnar Jónsson hrl. fyrir hönd Alcoa Fjarðaáls, Gunnar H. Sigurðsson frá Sementsverksmiðjunni, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, Árna Gunnarsson, Ernu Hauksdóttur og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Birki Hólm Guðnason og Björgólf Jóhannsson frá Icelandair, Matthías Imsland og Bjarna Jónsson frá Sambandi garðyrkjubænda, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Árna Bjarnason og Guðjón Ármann Einarsson frá Farmanna og fiskimannasambandi Íslands, Guðmund Ragnarsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Friðrik Jón Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Sigríði Ósk Sigurðardóttur frá ÁTVR, Andrés Magnússon, Signýju Sigurðardóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu, Finn Oddsson og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Almar Guðmundsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Guðjón Rúnarsson og Helgu Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Braga Gunnarsson frá Nýja Landsbankanum, Tönyu Zharov frá Auði Capital, Örn Gústafsson frá Okkar líf, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Hrafn Magnússon og Gunnar Baldvinsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Marinó G. Njálsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Unnar Stefánsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Kristjönu H. Guðmundsdóttur frá Félagi eldri borgara í Kópavogi, Helga K. Hjálmsson og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur frá Landssambandi eldri borgara, Guðmund Magnússon og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Karl Björnsson og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Gunnarsson, Markús Möller, Þórarin Gunnar Pétursson og Þorvarð Tjörva Ólafsson frá Seðlabanka Íslands, Svein Agnarsson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Axel Hall frá Háskólanum í Reykjavík, Þóri H. Ólafsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Friðgeir Sigurðsson og Elínu Árnadóttur frá PriceWaterhouseCoopers hf., Völu Valtýsdóttur og Garðar Valdimarsson frá Deloitte hf., Sigurð Jónsson, Alexander Eðvardsson og Sigurjón Pál Högnason frá KPMG, Árna Stefánsson og Gunnar Birgisson frá Vífilfelli, Ingvar J. Rögnvaldsson, Guðrúnu J. Jónsdóttur, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur og Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Runólf Birgi Leifsson, Sigurð Grétarsson og Rögnu Haraldsdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins, Stefán Skjaldarson frá skattrannsóknarstjóra ríkisins, Eddu Símonardóttur frá tollstjóra, Barböru Wdowiak og Magdalenu Láru Gestsdóttur frá Félagi viðurkenndra bókara.
    Þá bárust umsagnir og athugasemdir frá Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bílum og fólki ehf., Bændasamtökum Íslands, Deloitte hf., Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna sameiginlega, Félagi ferðaþjónustubænda, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Félagi viðurkenndra bókara, Fjármálaeftirlitinu, fjármálaráðuneytinu, Guðmundi Tyrfingssyni ehf., Hagsmunasamtökum heimilanna, Háskólanum í Reykjavík, Íbúðalánasjóði, Jafnréttisstofu, Kauphöll Íslands, KPMG hf., Landssambandi eldri borgara, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva sameiginlega, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi veiðifélaga, Landssamtökum lífeyrissjóða, Lýðheilsustöð, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Olíuverslun Íslands hf., Orkustofnun, Orkuveitu Húsavíkur, Persónuvernd, PriceWaterhouseCoopers hf., Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi garðyrkjubænda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samtök iðnaðarins o.fl. (SA, SI, SART, SFF, LÍÚ, SAF, SF, SVÞ) sameiginlega, Seðlabanka Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Skattstofu Suðurlandsumdæmis, Skattstofu Vestfjarðaumdæmis, Skattvís slf., Skeljungi hf., Strætó bs., SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Tollstjóranum í Reykjavík, Tónastöðinni, Tryggingastofnun ríkisins, Umhverfisstofnun, Viðskiptaráði Íslands, Vínbúðinni – ÁTVR og Æðarræktarfélagi Íslands.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að auka tekjur ríkissjóðs sem, eins og alkunna er, stendur illa eftir fall bankanna í október 2008. Fela þær fyrst og fremst í sér breytingar á sviði helstu vörugjalda og virðisaukaskatts en jafnframt eru þar lagðar til hækkanir á aukatekjum ríkissjóðs ásamt framlengingu heimildar til tímabundinnar útgreiðslu séreignarsparnaðar. Þá er í frumvarpinu kveðið á um framhald ýmissa skattalegra ívilnana sem m.a. felast í endurgreiðslu virðisaukaskatts og niðurfellingu stimpilgjalds við tilgreindar aðstæður. Áætlaðar tekjur af þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér eru 14.700 millj. kr. á ársgrundvelli en verða einungis 13.900 millj. kr. árið 2010 þar sem lagt er til að breytingar á virðisaukaskatti komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Áætluð verðlagsáhrif með samþykkt frumvarpsins eru 0,85%.

Virðisaukaskattur.
    Meiri hlutinn leggur til að efra þrep virðisaukaskatts hækki úr 24,5% í 25,5% en frumvarpið gerir ráð fyrir 25%.
    Nefndin ræddi nýtt 14% þrep í virðisaukaskatti sem lagt er til í frumvarpinu að taki til tilgreindra matvæla og veitingareksturs. Að margra mati er þessi breyting varasöm vegna hættu á að hún flæki skattkerfið og auki hættu á skattundanskotum. Aðilar í veitingarekstri og fulltrúar verslunar og þjónustu bentu á að erfitt geti verið að gæta jafnræðis í skattframkvæmd milli aðila og að einfaldara hefði verið að hækka neðra þrep skattsins um nokkur prósentustig til að auka tekjur ríkissjóðs. Samtímis komu fram sjónarmið innan nefndarinnar um mikilvægi þess fyrir heimili að láta hækkun virðisaukaskatts ekki taka til undirstöðumatvöru almennt.
    Meiri hlutinn telur gild rök vera fyrir nýju virðisaukaskattsþrepi en í ljósi gagnrýni sem fram kom leggur hann til að fallið verði frá því. Þetta gerir meiri hlutinn að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti og með hliðsjón af miklum skattkerfisbreytingum samfara sameiningu skattumdæma og fyrirhuguðum breytingum á tekjuskatti. Enn fremur bendir meiri hlutinn á að horfur um tekjur ríkisins á árinu 2010 hafa batnað að mati fjármálaráðuneytis um rúmlega 3 milljarða kr. þar af eru um 1.600 millj. kr. vegna skatta á vöru og þjónustu.
    Upplýst var á fundum nefndarinnar að matvæli sem til stæði að færa upp í nýja þrepið væru hin sömu og lögð voru á vörugjöld síðastliðið haust. Samtök iðnaðarins telja að ef tilgangurinn er að skattleggja sykur í þágu lýðheilsusjónarmiða sé miklu nær að skatturinn legðist á allar sykraðar vörur. Fjármálaráðuneytið tók fram að þessar hugmyndir væru í skoðun samhliða endurskoðun á umræddu vörugjaldafyrirkomulagi. Meiri hlutinn telur eðlilegt að við þá vinnu verði einnig tekið tillit til athugasemda Lýðheilsustöðvar og annarra umsagnaraðila.

Olíugjald, bensíngjald og bifreiðagjald.
     Í I. og II. kafla frumvarpsins er kveðið á um hækkun á olíu- og bensíngjaldi. Er um að ræða hækkun á olíugjaldi um 1,65 kr. á lítra og 2,5 kr. á bensíngjaldi á hvern lítra. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru 600 millj. kr. og verðlagsáhrif 0,10%. Einnig er lagt til í IV. kafla að bifreiðagjöld hækki um 0,85 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar allt að 1.000 kg, um 1,15 fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar umfram það að 3.000 kg og um 282 kr. af hverju byrjuðu tonni af eigin þyngd bifreiðar umfram 3.000 kg. Er jafnframt lagt til að gjaldið skuli ekki vera lægra en 4.650 kr. og ekki hærra en 5.074 kr. á hverju gjaldtímabili. Talið er að þessar hækkanir bifreiðagjalda muni skila ríkissjóði 500 millj. kr. en engin verðlagsáhrif verða við þessa hækkun. Þá er í III. kafla mælt fyrir um framlengingu á ákvæði til bráðabirgða IX í lögum um vörugjald sem felur í sér að fella niður eða endurgreiða vörugjald af sérhæfðum varahlutum í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni.
    Á fundum nefndarinnar kom fram gagnrýni á að hér sé, í annað skiptið á árinu, verið að hækka olíu- og bensíngjald. Þegar lagðar væru saman hækkanir á olíu- og bensíngjaldi ásamt fyrirhuguðu kolefnisgjaldi væri um talsverðar fjárhæðir að ræða sem væru mjög íþyngjandi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og hefðu einnig áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs. Jafnframt var bent á að þessar álögur muni leiða til hækkunar í flutningskostnaði sem hefði neikvæð áhrif á samgöngur, ekki síst á landsbyggðinni. Bent var á að þetta kæmi einnig illa við rekstur ýmissa aðila í ferðaþjónustu sem hefðu nú þegar gefið út verðskrá fyrir komandi ár.

Áfengisgjald og tóbaksgjald.
    Í fimmta kafla frumvarpsins er lögð til hækkun á gjaldi af áfengi og tóbaki. Er um að ræða jafna almenna hækkun um 10% utan pakka af vindlingum (20 stk.) sem hækka um 9,3%. Gert er ráð fyrir að ríkið muni afla tekna upp á 1.100 millj. kr. við þessar hækkanir og að verðlagsáhrifin verði 0,15%.
    Á fundum nefndarinnar var athygli vakin á að hækkanir á áfengis- og tóbaksgjaldi gætu í raun dregið úr tekjum ríkissjóðs og þannig haft öfug áhrif þar sem neytendur væru nú næmari fyrir verðbreytingum en áður. Svo mikið gæti dregið úr sölu áfengis að tekjur ríkissjóðs yrðu minni við hækkun gjaldanna en þær væru að óbreyttu. Aftur á móti kom fram í gögnum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að þrátt fyrir um 10% magnsamdrátt mætti gera ráð fyrir að áfengisgjöld af sölu muni hækka nokkuð. Meiri hluti nefndarinnar telur samt sem áður að fara þurfi varlega í frekari gjaldahækkanir af þessum toga.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar og starfsemi lífeyrissjóða.
    Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði VIII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, um heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar verði framlengd. Með lögum nr. 13/2009 var heimild veitt til útgreiðslu í áföngum og upp að 1. millj. kr. sem tæki jafnt til allra rétthafa. Í frumvarpinu er kveðið á um að rétthafar geti innleyst allt að 1,5 millj. kr. til viðbótar. Landssamtök lífeyrissjóða tóku fram að sjóðirnir væru færir um að standa undir þessari viðbót en lögðu til aðra útfærslu við útgreiðslu. Að virtum þeim athugasemdum og að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti leggur meiri hlutinn til breytingu sem ætlað er að auðvelda framkvæmdina. Miðar breytingin að því að samanlagður útgreiðslutími fjárhæðar sem nemur 2.500.000 kr. verði 23 mánuðir í stað 18 mánaða þannig að mánaðarleg greiðsla verði jafnhá mánaðarlegri greiðslu samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæði VIII.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að útgreiðsla séreignarsparnaðar hafi ekki áhrif á bætur skv. lögum 22/2006.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að bráðabirgðaákvæði VI í lögum nr. 129/1997 verði framlengt um eitt ár en það varðar heimil vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða. Í ákvæðinu kemur fram að mörkin geti numið allt að 15% sem er frávik frá almennu reglunni í 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Vísar meiri hlutinn til röksemda sem fram koma í áliti efnahags- og skattanefndar þegar umrætt bráðabirgðaákvæði var sett, sbr. lög nr. 171/2008. Er um að ræða heimildarákvæði sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér en líkt og á síðasta ári er útlit fyrir að einhverjir sjóðir séu með neikvæða stöðu yfir 10%.
    Við afgreiðslu umræddra breytingarlaga, nr. 171/2008, lagði efnahags- og skattanefnd einnig til að sjóðunum yrði heimilt að eiga allt að 20% af hlutafé í samlagshlutafélögum í þeim tilgangi að hraða endurreisn atvinnulífsins, sbr. nú bráðabirgðaákvæði VII. Lagði nefndin jafnframt til að þessi heimild yrði tímabundin til 31. desember 2013. Meiri hlutinn telur að þörf sé á að breyta þessu ákvæði þannig að sjóðunum verði gert kleift að halda allt að 20% eignarhlut í félögum sem þeir hafa fjárfest í fram yfir umrætt tímamark en að nýjar fjárfestingar í slíkum félögum þaðan af skuli lúta almennri reglu 4. málsl. 5. mgr. 36. gr.
    Við meðferð málsins óskuðu Landssamtök lífeyrissjóða eftir að tekin yrðu af öll tvímæli um heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í verðbréfum sem geta falið í sér skuldbindingu yfir tiltekið tímabil og jafnframt að sjóðunum yrði heimilað að gera kröfu um að iðgjaldagreiðslur næðu tilteknu lágmarki til að réttur skapist til örorkulífeyris. Meiri hlutinn telur að þetta þurfi að skoða nánar.

Stimpilgjald o.fl.
    Að fengnum ábendingum fjármálaráðuneytis leggur meiri hlutinn til að nýrri málsgrein verði bætt við bráðabirgðaákvæði II í lögum um stimpilgjald. Nokkuð hefur borið á því að útbúin hafi verið skuldabréf sem ekki bera vexti, en af þeim er greitt 0,5% stimpilgjald skv. 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna. Síðan er þessum bréfum skilmálabreytt þannig að þau beri vexti og við þá breytingu fæst stimpilgjaldið endurgreitt. Hér er lögð til breyting á gildandi bráðabirgðaákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir slíka málamyndagjörninga.
    Meiri hlutinn tekur fram að á fundum nefndarinnar hafi komið fram sá skilningur fjármálaráðuneytis og skattyfirvalda að endurskoða þurfi verklag við álagningu virðisaukaskatts á sölu vef- og rafbóka, hljóðbóka, nótnabóka, landabréfa o.þ.h.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 18. des. 2009.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Mósesdóttir.


Magnús Orri Schram.Ögmundur Jónasson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.