Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 543  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2010.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur fjallað áfram um frumvarpið frá því að 2. umræða fór fram 13. desember sl. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 3. umræðu nema samtals 229,8 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 461.881,3 m.kr. en það er hækkun um 3.151,5 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir við 2. umræðu um frumvarpið. Reiknað er með að tekjuskattur af útgreiddum séreignarsparnaði verði 700 m.kr. hærri en áætlað var, tryggingagjald verði 900 m.kr. hærra og virðisaukaskattur er áætlaður hækka um 1.600 m.kr. Hækkun tekjuáætlunar frumvarpsins leiðir til minni halla sem nemur um 2,9 milljörðum kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður sem nemur 98,9 milljörðum kr.
    Lagt er til að sú breyting verði gerð á fjármunahreyfingum í 2. gr. frumvarpsins, sjóðstreymi ríkissjóðs, að önnur eiginfjárframlög og hlutabréfakaup verði -2.000 m.kr. í stað -1.000 m.kr. Það er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til með nýrri heimildagrein um að efla eiginfjárstöðu Byggðastofnunar með 1.000 m.kr. stofnframlagi.
    Meiri hluti fjárlaganefndar telur í ljósi bréfs Ríkisendurskoðunar, dags. 15. desember 2009, til verkefnastjórnar um byggingu nýs Landspítala að ástæða sé til að taka undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar.
    Mælt er fyrir um, þrátt fyrir að verkefnið byggist á reglugerð nr. 343/2006 um þjónustukaup og samninga þess lútandi, að sérlög verði sett um byggingu nýs Landspítala, jafnvel þótt ákvæði 30. gr. fjárreiðulaga gildi.
    Í breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið er að finna 6. gr. heimild sem lýtur að stofnun undirbúningsfélags og lóðarréttindum því tengdum. Óháð því telur meiri hlutinn að sérlaga sé þörf um verkefnið og að nauðsynlegt sé að huga að því áður en meiri háttar skuldbindingar hefjast. Nú eru til staðar fjárheimildir í verkefnið á fjárlagalið 08-376, en ljóst er að fyrr en síðar þarf að horfa til frekari fjármögnunar í ljósi mikils umfangs.
    Verkefnið skuldbindur ríkið til langs tíma og um leið er verið að ráðstafa eignum og kveða á um fyrirkomulag framkvæmda. Með sérlögum verður öllum efa eytt og skilgreiningar verkefnisins munu liggja betur fyrir. Slík sérlög geta því komið fram síðar óháð afgreiðslu fjárlaga 2010.
    Í framhaldi af þessu er það mat meiri hlutans samhljóða mati Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt sé að tilgreina í fjárlögum hvers árs í framtíðinni þær greiðslur og skuldbindingar sem falla til á viðkomandi fjárlagaári.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans.



SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 10 m.kr.
996     Íslenska upplýsingasamfélagið, sameiginleg verkefni ráðuneyta.
        6.51
Íslenska upplýsingasamfélagið, sameiginleg verkefni ráðuneyta. Lögð er til 10 m.kr. fjárveiting til þriggja verkefna: Mínar síður á Ísland.is, 3 m.kr., Netríkið Ísland í fyrirrúmi, 3 m.kr., og Skilvirk, samræmd og örugg samskipti milli upplýsingakerfa ríkisins, 4 m.kr. Við 2. umræðu um frumvarpið var liðurinn felldur brott en hér er lögð til fjárveiting til þriggja verkefna sem gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpinu á þessum lið. Hins vegar eru fjögur önnur verkefni sem gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpinu felld brott að fjárhæð 10 m.kr.

02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild mennta- og menningarmálaráðuneytis verði aukin um 86,9 m.kr.
216     Landbúnaðarháskóli Íslands.
        1.01
Landbúnaðarháskóli Íslands. Gerð er tillaga um 70 m.kr. hækkun á fjárveitingu til skólans. Fyrir nokkrum árum var komið á fót námi við skólann í umhverfisfræðum á háskólastigi sem tekur til náttúru- og umhverfisvísinda, skipulags- og landslagsarkitektúrs, skógfræði og endurheimtar landgæða. Hefur nemendum í deildinni fjölgað ár frá ári en ekki hefur þó til þessa verið gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til að fjármagna þá námsbraut. Tillagan gerir ráð fyrir að fjárheimildir skólans verði aðlagaðar að forsendum reiknilíkans mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir háskólanám miðað við núverandi nemendafjölda. Í undirbúningi er gerð samnings við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem tekið verði á helstu markmiðum í starfsemi hans. Í samningsdrögunum er ákveðin grein sem snýr að aðlögun að reglum um fjárveitingar til háskóla. Ljóst er að fjárframlög til kennslu skólans eru mun lægri en þörf er á til að standa undir núverandi námsframboði í umhverfisfræðum. Jafnframt er að störfum vinnuhópur sem kannar kosti þess að sameina Háskóla Íslands, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Landbúnaðarháskóla Íslands og þykir nauðsynlegt að fjármögnun skólanna verði reist á sama grunni til að unnt verði að skoða slíkan samruna á sambærilegum forsendum.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.01
Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Forsvars á Hvammstanga vegna fjarvinnslu.
911     Náttúruminjasafn Íslands.
        1.01
Náttúruminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um 4,5 m.kr. tímabundna hækkun á framlagi til Náttúruminjasafns Íslands.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarsjóður. Gerð er tillaga um 2,9 m.kr. tímabundið framlag til tveggja verkefna. Þau eru annars vegar Verslunarhús í Englendingavík í Borgarnesi, 2,5 m.kr., og hins vegar gamla félagsheimilið Dagsbrún í Skarðshlíð undir Eyjafjöllum, 0,4 m.kr.
982
     Listir, framlög.
        1.24
Starfsemi atvinnuleikhópa. Lagt er til að 4,5 m.kr. tímabundið framlag verði veitt til Sjálfstæðu leikhúsanna.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.52
Skriðuklaustur. Gerð er tillaga um 1 m.kr. tímabundið framlag til fornleifarannsókna til viðbótar við 1,4 m.kr. framlag sem samþykkt var við 2. umræðu um frumvarpið.
989     Ýmis íþróttamál.
        1.21
Skáksamband Íslands og 1.22 Launasjóður stórmeistara í skák. Lögð er til 1,5 m.kr. hækkun á framlagi til Skáksambands Íslands en á móti lækkar framlag í Launasjóð stórmeistara í skák um sömu fjárhæð.
999
     Ýmislegt.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 1 m.kr. hækkun á liðnum og er framlagið ætlað Sögufélagi. Í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta breytist 9. yfirlit í samræmi við það.
        1.98
Ýmis framlög mennta- og menningarmálaráðuneytis. Lagt er til að fellt verði niður 2 m.kr. framlag til verkefnisins árvekniþjónusta á bókasöfnum. Í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta breytist 10. yfirlit í samræmi við það. Á móti hækkar framlag til verkefna á liðnum 01-996 Íslenska upplýsingasamfélagið, sameiginleg verkefni ráðuneyta, eins og þar greinir.

04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 4 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 4 m.kr. hækkun á liðnum. Framlagið er ætlað samtökunum Beint frá býli í samræmi við tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og kemur til viðbótar við 2 m.kr. framlag sem þeim var veitt við 2. umræðu um frumvarpið. Í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta breytist 12. yfirlit í samræmi við það.

06 Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dómsmála- og mannréttindaráðuneytis verði lækkuð um 2 m.kr.
303     Ríkislögreglustjóri.
        1.01
Ríkislögreglustjóri. Lagt er til að fellt verði niður 2 m.kr. framlag til verkefnisins lögreglustöð á netinu. Á móti hækkar framlag til verkefna á liðnum 01-996 Íslenska upplýsingasamfélagið, sameiginleg verkefni ráðuneyta, eins og þar greinir.
434     Sýslumaðurinn í Reykjanesbæ.
        1.01
Sýslumaðurinn í Reykjanesbæ.
         og
448     Sýslumaður Suðurnesja.
        1.01
Sýslumaður Suðurnesja. Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur ákveðið að fresta framlagningu frumvarpa til breytinga á skipan lögreglu- og sýslumannsembætta. Gert er ráð fyrir að frumvörpin verði undirbúin frekar og lögð fram á vorþingi. Gerðar voru tillögur við 2. umræðu um frumvarpið um að nýir fjárlagaliðir fyrir umdæmi sýslumanna sem voru í frumvarpinu yrðu felldir niður og að fjárheimildirnar yrðu fluttar aftur á fyrri fjárlaganúmer sýslumanns- og lögregluembætta. Við frágang málsins við 2. umræðu misfórst millifærsla fjárheimilda í tengslum við þessar breytingar þannig að 0,3 m.kr. urðu eftir á fjárlagalið 06-448 sem nú er lagt til að verði leiðrétt með millifærslu á fjárlagalið 06-434.

07 Félags- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félags- og tryggingamálaráðuneytis verði lækkuð um 6.636,5 m.kr.
207
     Varasjóður húsnæðismála.
        6.21
Varasjóður húsnæðismála vegna félagslegra íbúða sveitarfélaga. Gerð er tillaga um 30 m.kr. fjárveitingu til Varasjóðs húsnæðismála. Til sjóðsins var stofnað árið 2002 og tók hann við öllum eignum, réttindum og skyldum Tryggingarsjóðs viðbótarlána og Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla. Starfsemi sjóðsins byggist á lögum um húsnæðismál, sérstakri reglugerð og samkomulagi félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fyrst var gert árið 2002. Samkomulagið var endurnýjað árið 2006 og gildir til ársloka 2009. Árlegt framlag ríkisins til sjóðsins hefur undanfarin ár verið 60 m.kr. auk þess sem sveitarfélögin hafa með Jöfnunarsjóði sveitarfélaga lagt honum til 20 m.kr.á ári. Fjármagnið hefur verið nýtt til að borga upp mismun á söluverði og áhvílandi lánum við sölu íbúða í eigu sveitarfélaga úr félagslega íbúðakerfinu þar sem söluverð hefur verið lægra en áhvílandi lán. Enn eru nokkur sveitarfélög í erfiðleikum með að afsetja slíkar félagslegar íbúðir. Framlagið er ætlað til að áfram verði hægt að styðja við félagslega íbúðakerfið og halda þessu fyrirkomulagi gangandi þótt gera verði ráð fyrir talsvert minni sölu íbúða úr félagslega kerfinu en undanfarin ár vegna erfiðra aðstæðna á fasteignamarkaði.
505     Öldrunarstofnanir, almennt.
        6.99
Bygging hjúkrunarheimila og endurhæfingarstofnana, óskipt. Lagt er til að framlög til liðarins lækki um 35 m.kr. og að á móti hækki framlög til umönnunarbóta.
    Samkvæmt samkomulagi félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra eru málefni nokkurra hjúkrunarheimila auk tveggja samninga við sveitarfélög um öldrunarþjónustu færð frá félags- og tryggingamálaráðuneyti til heilbrigðisráðuneytis til eins árs. Eftirfarandi fjárlagaliðir flytjast til heilbrigðisráðuneytis:
         524     Sunnuhlíð, Kópavogi.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
                       1.15
Dagvist.
         525     Hjúkrunarheimilið Skjól.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
         526     Hjúkrunarheimilið Eir.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
                       1.15
Dagvist.
         528     Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
                       1.71
Endurhæfingardeild.
         529     Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
         541     Fellsendi, Búðardal.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
         544     Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
                      1.11
Dvalarrými.
                      1.15
Dagvist.
         546     Samningur við Sveitarfélagið Hornafjörð um öldrunarþjónustu.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
                       1.11
Dvalarrými.
                       1.15
Dagvist.
         554     Sóltún, Reykjavík.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
825     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
        1.15
Umönnunargreiðslur. Lagt er til að framlög til umönnunarbóta hækki um 200 m.kr. Á móti lækkar ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar um 20 m.kr., vasapeningar ellilífeyrisþega um 35 m.kr. og stofnkostnaður öldrunarheimila um 35 m.kr. Nettóhækkun nemur þannig 110 m.kr.
827     Lífeyristryggingar.
        1.28
Vasapeningar ellilífeyrisþega. Lagt er til að framlög til liðarins lækki um 35 m.kr. og að á móti hækki framlög til umönnunarbóta.

08 Heilbrigðisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðisráðuneytis verði aukin um 6.806,3 m.kr.
358     Sjúkrahúsið á Akureyri.
        1.01
Sjúkrahúsið á Akureyri. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til sjúkrahússins vegna læknanema.
    Samkvæmt samkomulagi félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra eru málefni nokkurra hjúkrunarheimila auk tveggja samninga við sveitarfélög um öldrunarþjónustu færð frá félags- og tryggingamálaráðuneyti til heilbrigðisráðuneyti til eins árs. Eftirfarandi fjárlagaliðir flytjast til heilbrigðisráðuneytis frá félags- og tryggingamálaráðuneyti:
         408     Sunnuhlíð, Kópavogi.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
                      1.15
Dagvist.
          409     Hjúkrunarheimilið Skjól.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
          410     Hjúkrunarheimilið Eir.
                      1.01
Hjúkrunarrými.
                      1.15
Dagvist.
          412     Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
                      1.71
Endurhæfingardeild.
          413     Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
          428     Fellsendi, Búðardal.
                       1.01
Hjúkrunarrými.
          434     Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu.
                      1.01
Hjúkrunarrými.
                       1.11
Dvalarrými.
                       1.15
Dagvist.
          437     Samningur við Sveitarfélagið Hornafjörð um öldrunarþjónustu.
                      1.01
Hjúkrunarrými.
                       1.11
Dvalarrými.
                        1.15
Dagvist.
         447     Sóltún, Reykjavík.
                      1.01
Hjúkrunarrými.
    515     Heilsugæslustöðin Lágmúla í Reykjavík.
                  1.01
Heilsugæslustöðin Lágmúla. Gerð er tillaga um 5,8 m.kr. aukna fjárheimild til leiðréttingar á verðlagsuppfærslu. Við uppfærslu á launa- og verðlagslið frumvarpsins og uppfærslu vegna hækkunar á tryggingagjaldi misfórst útreikningur á þessum lið.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði lækkuð um 1.250 m.kr.
989     Ófyrirséð útgjöld.
        1.90 Ófyrirséð útgjöld. Lagt er til að fjárheimild til að mæta ófyrirséðum útgjöldum á þessum lið lækki um 1.230 m.kr. Svarar það til aukinna framlaga til sveitarfélaga í tengslum við samkomulag við þau um að þeim verði bætt hækkun launakostnaðar sem leiðir af hækkun tryggingagjalds vegna áforma um aukna tekjuöflun ríkissjóðs. Fjárheimild þessa liðar er ætluð til að mæta óvissum útgjöldum sem kann að leiða af frávikum í forsendum fjárlaga eða ákvörðunum um ýmis stærri mál eftir að fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fram. Vegna ýmissa aukinna útgjalda sem fallið hafa til við frekari umfjöllun frumvarpsins í þinginu, sérstaklega vegna framangreindra framlaga til sveitarfélaga við 3. umræðu, þykir vera tilefni til þess að nýta þessa fjárheimild í samræmi við tilgang hennar. Þar með skerðist jafnframt það svigrúm sem er til staðar á þessum lið til að mæta öðrum ófyrirséðum útgjöldum eftir setningu fjárlaganna.
990     Ríkisstjórnarákvarðanir.
        1.10
Til ráðstöfunar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Lagt er til að ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar lækki um 20 m.kr. og að á móti hækki framlög til umönnunarbóta.

10 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis verði aukin um 1.204,1 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.11
Fastanefndir. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til eftirlits með fjármálum sveitarfélaga vegna aukinna verkefna.
        1.23
Slysavarnaskóli sjómanna. Gerð er tillaga um 2,1 m.kr. aukna fjárheimild til leiðréttingar á verðlagsuppfærslu. Við uppfærslu á launa- og verðlagslið frumvarpsins og uppfærslu vegna hækkunar á tryggingagjaldi misfórst útreikningur á þessum lið.
        1.98
Ýmis framlög samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Lagt er til að fellt verði niður 3 m.kr. framlag til tilraunar með rafrænar sveitarstjórnarkosningar árið 2010. Í 18. yfirliti í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta fellur því 1. tölul. brott. Á móti hækkar framlag til verkefna á liðnum 01-996 Íslenska upplýsingasamfélagið, sameiginleg verkefni ráðuneyta, eins og þar greinir.
335     Siglingastofnun Íslands.
        1.01
Almennur rekstur. Hækkun á vitagjaldi verður 50 m.kr. minni en áformað var. Gert hafði verið ráð fyrir að ríkistekjur stofnunarinnar hækkuðu um 145 m.kr. með hækkun vitagjalds samkvæmt frumvarpi til breytinga á lögum um vitamál, nr. 132/1999. Við afgreiðslu frumvarpsins var gjaldið hækkað minna sem nemur 50 m.kr. Markaðar tekjur Siglingastofnunar lækka því um þá fjárhæð og framlag úr ríkissjóði hækkar samsvarandi.
        6.80
Sjóvarnargarðar. Við 2. umræðu um frumvarpið var veitt 30 m.kr. tímabundið framlag á liðnum 10-335-6.80 til að byggja sjóvarnargarð við Reykhólahöfn. Framlagið átti hins vegar að vera á liðnum 10-335-6.70 Hafnabótasjóður og er nú fært yfir á þann lið.
336     Hafnarframkvæmdir.
        6.70
Hafnabótasjóður. Við 2. umræðu um frumvarpið var veitt 30 m.kr. tímabundið framlag á liðnum 10-335-6.80 til að byggja sjóvarnargarð við Reykhólahöfn. Framlagið átti hins vegar að vera á liðnum 10-335-6.70 Hafnabótasjóður og er nú fært yfir á þann lið.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.11
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sérstök viðbótarframlög. Gerð er tillaga um að sjóðurinn fái sérstakt viðbótarframlag sem nemi 1.200 m.kr. til að mæta hækkun á launakostnaði sveitarfélaga í kjölfarið á hækkun á tryggingagjaldi í samræmi við samkomulag þar um. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn greiði sveitarfélögum út framlög vegna þessarar kostnaðarhækkunar í samræmi við upplýsingar um skil þeirra á tryggingagjaldi eða launaveltu.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði lækkuð um 3 m.kr.
205     Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
        1.01
Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Lagt er til að fellt verði niður 3 m.kr. framlag til gagnvirkrar þjónustumiðstöðvar fyrir einstaklinga og fyrirtæki um stofnun og rekstur fyrirtækja. Á móti hækkar framlag til verkefna á liðnum 01-996 Íslenska upplýsingasamfélagið, sameiginleg verkefni ráðuneyta, eins og þar greinir.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 10 m.kr.
211     Umhverfisstofnun.
        5.41
Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Gerð er tillaga um 10 m.kr. til verkefna í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 19. des. 2009.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Ásmundur Einar Daðason.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Þuríður Backman.


Oddný G. Harðardóttir.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal I.



Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2010, sbr. sundurliðun 1, tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Arason, Lúðvík Guðjónsson, Elínu Guðjónsdóttur, Sigurð Guðmundsson og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti. Umfjöllun nefndarinnar í þessu máli er reist á 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Fulltrúar ráðuneytisins gerðu nefndinni grein fyrir breytingum á lánsfjárheimildum sem gerðar voru á fjárlagafrumvarpi 2010 við 2. umræðu og nema þær nú um 460 milljörðum kr. Helming heimildarinnar á að nýta til innlendrar lántöku, þar af eru 135 milljarðar kr. vegna afborgana á gjalddaga, 85 milljarðar kr. vegna halla á ríkissjóði og 20 milljarðar kr. vegna eiginfjárframlaga ríkis til sparisjóða. Erlend lántaka á næsta ári er heimil 220 milljarðar kr. og varðar hún lán samstarfsþjóða vegna fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Á fundinum var sérstaklega rætt hvernig fara skyldi með skuldbindingar í reikningum ríkisins og áhersla lögð á að bókhaldið væri gagnsætt. Þá var vísað til þess að umræða um þessi mál væri í brennidepli á vettvangi OECD.
    Nefndin fékk kynningu á uppfærðri tekjuáætlun fyrir árið 2010 þar sem fram kom það mat fjármálaráðuneytis að tekjur yrðu 3,2 milljörðum kr. meiri á rekstrargrunni en í fyrri áætlunum. Fulltrúar ráðuneytisins tóku fram að óvissa væri mikil en uppfærslan byggðist á innheimtum tekjum fyrir desember auk samtala við starfsmenn Hagstofu Íslands um þjóðhagsforsendur. Reiknað er með að skattar á tekjur og rekstrarhagnað hækki um 700 millj. kr., tryggingagjöld um 900 millj. kr. og skattar á vöru og þjónustu um 1,6 milljarða kr.
    Meiri hlutinn vekur athygli fjárlaganefndar á að iðnaðarnefnd hefur vísað til efnahags- og skattanefndar tveimur stjórnarfrumvörpum til umsagnar, annað varðar fyrirframgreiðslu tekjuskatts (mál nr. 318) en hitt heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ (mál nr. 320).
    Meiri hlutinn fagnar batnandi horfum á tekjuhlið ríkisrekstrarins.
    

Alþingi, 18. des. 2009.

Helgi Hjörvar, form.,
Lilja Mósesdóttir,
Magnús Orri Schram,
Ögmundur Jónasson,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.






Fylgiskjal II.


Álit



um frv. til fjárlaga 2010 (08 Heilbrigðisráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir yfirfærslu verkefna frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Nemur lækkun útgjalda heilbrigðisráðuneytis vegna reksturs öldrunarheimila 18.943,5 m.kr. og 431,5 m.kr. vegna sjúkratrygginga, þ.e. greiðslum daggjalda fyrir hjúkrunarrými.
    Nefndin hefur kynnt sér þær breytingar sem þessi yfirfærsla hefur í för með sér, aðdraganda þeirra og ástæður. Hefur nefndin fengið á sinn fund fulltrúa verkefnisstjórnar í öldrunarmálum en í henni sitja Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneyti, Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti og Örn Hauksson frá fjármálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Hallgrímur Guðmundsson, sérfræðingur af fjármálasviði félags- og tryggingamálaráðuneytis, Margrét Björnsdóttir og Margrét Sigurðardóttir, frá heilbrigðisráðuneyti, Gísli Páll Pálsson frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Elsa B. Friðfinnsdóttir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Þorbjörg Guðmundsdóttir frá landlæknisembættinu, Pálmi V. Jónsson frá vistunarmatsnefnd höfuðborgarsvæðisins og Kristjana H. Gunnarsdóttir, Valgerður Katrín Jónsdóttir og Ragnheiður Stephensen frá Landssambandi eldri borgara.
    Með breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, fluttist yfirstjórn öldrunarmála til félags- og tryggingamálaráðuneytis 1. janúar 2008. Með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 munu nú flytjast fjárheimildir vegna öldrunarmála og þar á meðal fjárheimildir til hjúkrunarrýma til félags- og tryggingamálaráðuneytis og verður daggjaldi þeirra ekki skipt. Aftur á móti verður faglegt eftirlit með hjúkrunarrýmum og fjárheimildir til heimahjúkrunar áfram hjá heilbrigðisráðuneyti.
    Nefndin gekk fast eftir þeim rökum sem að baki þessara breytinga liggja. Í svörum verkefnastjórnar félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, sem falin er samræming og framkvæmd verkefnaflutningsins, kom fram að þetta væri lokahnykkur á margræddri yfirfærslu málaflokksins og verið væri að hrinda í framkvæmd grundvallarstefnu Landssambands eldri borgara um að öll málefni aldraðra ættu að flytjast til félags- og tryggingamálaráðuneytisins en Landssamband eldri borgara leggur áherslu á að öldrun sé ekki sjúkdómur. Einnig kom fram að fjarlægjast beri núverandi stofnanaþjónustu, líta bæri á öldrunarheimili sem heimili dvalargesta, að huga þyrfti betur að félagslegri stöðu þeirra einstaklinga sem dveldust á öldrunarheimilum og efla ætti samþættingu allra þjónustuaðila aldraðra, þ.m.t. heimahjúkrun. Jafnframt var nefnt að ríkið væri að litlu leyti veitandi öldrunarþjónustu heldur fyrst og fremst ábyrgðaraðili, kaupandi og greiðandi þjónustunnar. Með fyrirhuguðum breytingum yrði það félags- og tryggingamálaráðuneytið sem færi í kaupandahlutverk á móti verksölum og sjálfstætt starfandi rekstraraðilum sem eru í hlutverki seljanda. Yrði þetta sambærilegt við meðferðarheimili þar sem félags- og tryggingamálaráðuneytið keypti þjónustu ýmissa aðila. Inn á meðferðarheimili er síðan keypt sú heilbrigðisþjónusta sem við ætti. Meiri hlutinn áréttar að í tilviki hjúkrunarheimila er heilbrigðisþjónusta algjör grundvallarþjónusta og mikilvægt að þeir einstaklingar sem dvelja á hjúkrunarrýmum njóti bestu heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga kost á. Í nýsamþykktum lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, er frestað flutningi samningsgerðar er varðar samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili til Sjúkratrygginga Íslands. Þessir samningar verða því enn á ábyrgð heilbrigðisráðuneytis. Heilbrigðisnefnd hefur ekki fengið skýr svör við því hvernig ráðuneytin munu fara með samningagerð með tilliti til þessa. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að öryggi og fagleg rök séu ávallt sett í öndvegi þegar ráðist er í skipulagsbreytingar innan heilbrigðisþjónustunnar og vel sé staðið að öllum undirbúningi.
    Meiri hlutinn tekur heilshugar undir þau sjónarmið að öldrun sé ekki sjúkdómur en vill árétta að þeir einstaklingar sem fá úthlutað hjúkrunarrými samkvæmt vistunarmati þurfa mikla umönnun, óháð aldri, og er rétt að undirstrika að ungt fólk dvelst í dag einnig á hjúkrunarheimilum aldraðra. Á fundum nefndarinnar kom fram að slíkt mat byggist fyrst og fremst á mati á vitrænni getu og líkamlegri færni einstaklingsins en ekki félagslegri aðstöðu. Þessir einstaklingar þurfi fyrst og fremst af heilsufarsástæðum á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda, hvort tveggja hjúkrunarþjónustu og læknisþjónustu, en einungis að mjög litlum hluta á félagslegum úrræðum. Þeir einstaklingar sem í dag vistast á hjúkrunarheimilum, hjúkrunarrýmum dvalarheimila og hjúkrunarrýmum aldraðra á sjúkrastofnunum þurfa mun meiri umönnun en áður og allar líkur benda til að sú þróun haldi áfram, þ.e. að margs konar heilbrigðisvandamál verði helsta ástæða vistunar, auk líknandi meðferðar. Á fundum nefndarinnar kom jafnframt í ljós að við undirbúning þessa flutnings hefði mátt vera í betra samráð við hagsmunaaðila. Var það almennt viðhorf þeirra hagsmunaaðila sem komu á fund nefndarinnar að með þessari yfirfærslu væri rofin ákveðin samfella í faglegu eftirliti á hjúkrunarrýmum og var óttast að gæði mundu minnka með ráðningu ófaglærðs starfsfólks í störf sem faglærðir sinni nú. Meiri hlutinn tekur undir þessar áhyggjur og áréttar mikilvægi þess að fagleg vinnubrögð og gæði heilbrigðisþjónustunnar haldist og skerðist ekki við þessa yfirfærslu. Nefndin gerir ekki lítið úr félagslegum þætti í lífi eldra fólks og bendir á að fjölga þarf úrræðum fólks sem vistast á öldrunarheimilum og þeirra einstaklinga sem ekki eru líkamlega eða andlega nógu hraustir til að búa í einir í heimahúsi eða eru félagslega einangraðir en uppfylla ekki skilyrði vistunarmats hjúkrunarheimila. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að starfsemi hverrar stofnunar heyri einungis undir eitt ráðuneyti og að yfirfærsla öldrunarþjónustu frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis verði tekin í áföngum og í fyrsta áfanga 2010 flytjist sá þáttur sem að mestu er tengt félagslegri þjónustu en hjúkrunarheimili verði yfirfærð síðar.
    Það er stefna núverandi sem og fyrrverandi stjórnvalda að búa svo um að aldraðir geti verið sem lengst í heimahúsum, að nærþjónusta verði efld með tilheyrandi fækkun hjúkrunarrýma og byggist samkomulag ráðherra félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis á þessum grunni. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að sú yfirfærsla sem frumvarpið boðar valdi ekki töfum eða erfiðleikum á þessari þróun og hvetur því verkefnastjórnina til samráðs við alla er málið varðar. Sá fjárhagslegi ávinningur sem hlýst af fækkun hjúkrunarrýma í framtíðinni verði að renna til uppbyggingar og samþættingar annarrar þjónustu við aldraða, til að mynda heimahjúkrun sem áfram verður á fjárhagslega ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins. Meiri hlutinn áréttar að hún muni fylgjast náið með framkvæmd yfirfærslunnar, áhrifum hennar á gæði heilbrigðisþjónustu sem veitt er á hjúkrunarrýmum sem og að þeir fjármunir sem falla til við fækkun hjúkrunarrýma verði nýttir til samþættingar og uppbyggingar á til að mynda heimaþjónustu og heimahjúkrun.
    Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að öldrunarþjónusta verði færð úr þjónustusamningi heilbrigðisráðuneytis við Akureyri og Höfn í Hornafirði yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Meiri hlutinn varar við því að brjóta upp þá samninga sem í alla staði hafa reynst íbúum viðkomandi sveitarfélags vel og hvetur til þess að samningarnir verði á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins enn um sinn.

Alþingi, 21. des. 2009.

Þuríður Backman, form.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.
Valgerður Bjarnadóttir, með fyrirvara.
Anna Pála Sverrisdóttir.