Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 336. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 571  —  336. mál.
Frumvarp til lagaum heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar (GuðbH, BVG, ÁsmD, SER, ÞBack, OH).1. gr.

    Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs Íslands er heimilt að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. við skilanefndir Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf., allt í tengslum við samninga sem gerðir hafa verið um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda í kjölfar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá í október 2008 á grundvelli laga nr. 125/2008.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svokallaðra neyðarlaga, var að heimila mjög róttæk inngrip ríkisins í bankakerfið til að bjarga því frá algeru hruni þannig að unnt yrði að halda uppi órofinni bankastarfsemi í landinu. Strax í október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið þeim heimildum sem veittar voru í lögunum og yfirtók stjórn Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Samhliða voru stofnuð þrjú ný fjármálafyrirtæki af hálfu ríkisins. Stofnhlutafé umræddra fyrirtækja var lágmarksframlag til stofnunar slíkra fjármálafyrirtækja. Eftir stofnun fyrirtækjanna voru á grundvelli laga nr. 125/2008 og samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fluttar tilteknar skuldbindingar og eignir gömlu bankanna yfir í hin nýju fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið skipaði í framhaldinu alþjóðlega sérfræðinga til að meta sannvirði eigna og skulda sem færðar voru yfir í hina nýju banka. Segja má að félögin sem stofnuð voru á grundvelli framangreindra laga hafi í raun verið nokkurs konar umgjörð utan um þær eignir og skuldbindingar sem færðar voru úr gömlu bönkunum en þá lá þegar fyrir að endanlegri fjármögnun yrði ekki lokið fyrr en niðurstaða fengist um uppgjör við gömlu bankana. Þrátt fyrir að ríkissjóður hafi við stofnun félaganna verið skráður eigandi alls hlutafjár í þessum félögum lá fyrir að það framlag mundi ekki nægja til að fjármagna starfsemi bankanna til framtíðar eða til uppgjörs fyrirliggjandi skuldbindinga þar sem uppgjör eigna og skulda á grundvelli neyðarlaganna hafði ekki farið fram. Sú niðurstaða sem nú liggur fyrir varðandi uppgjör vegna uppskiptingar Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. og fyrirliggjandi breytingar á eignarhlutföllum nýju bankanna byggist m.a. á mati hinna sérfróðu aðila sem skipaðir voru af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli laga nr. 125/2008, ásamt niðurstöðu af langvinnum viðræðum ríkisins við skilanefndir gömlu bankanna og kröfuhafa. Í þeim samningum hafa verið útkljáð ýmis mál sem tengjast verðmati eignanna sem fluttar voru til nýju bankanna svo og endurgjaldi fyrir eignirnar sem m.a. felast í því að uppgjörskröfum gömlu bankanna hefur verið umbreytt í hlutafé í hinum nýju bönkum.
    Fyrir liggur skýr afstaða fjármálaráðuneytisins um að sú breyting sem varð á eignarhlutföllum nýju bankanna við umrædda samninga hafi verið í samræmi við niðurstöður af framangreindu verðmati og samningaviðræður um skuldaskil og uppgjör milli ríkisins og þeirra aðila sem í raun áttu stærstan hluta allra verðmæta í nýju bönkunum. Uppgjörið og þær breytingar sem urðu á eignarhlutföllunum hafi verið í beinum og órofa tengslum við lög nr. 125/2008 og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá í október 2008 um að færa yfir í hin nýstofnuðu fjármálafyrirtæki eignir og skuldir hinna föllnu banka. Af þessum ástæðum taldi fjármálaráðuneytið að 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, ætti ekki við þar sem umrædd lagagrein mælir fyrir um að afla skuli heimildar í lögum til að selja eignarhluta í félögum. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur ríkið ekki selt eignarhluta sinn, enda á ríkið enn stofnframlag sitt eða jafngildi þess í nýju bönkunum þrátt fyrir að eignarhluti þess sé ekki 100% eins og við stofnun félaganna. Eignarhlutföll eins og þau eru á grundvelli þeirra samninga sem nú liggja fyrir byggjast á raunverulegum eignarhlutföllum ríkisins og kröfuhafa miðað við þær eignir sem eru í nýju bönkunum og það fjármagn sem aðilar munu þurfa að leggja til þeirra. Ríkið hefur því í raun ekki selt þá hluti sem það hefur skráð sig fyrir í nýju bönkunum þótt eignarhlutföll hafi breyst með aukningu hlutafjár af hendi skilanefnda gömlu bankanna.
    Í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 15. desember sl., til fjárlaganefndar Alþingis í framhaldi af umsagnarbeiðni frá nefndinni vegna þessa máls er hins vegar komist að gagnstæðri niðurstöðu. Ríkisendurskoðun telur að samkomulag ríkisins við skilanefndir bankanna um yfirtöku á umræddum eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjunum teljist vera ráðstöfun á eignum ríkisins skv. 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Ekki skipti máli í þessu sambandi að fyrirkomulag á ráðstöfun þessara eignarhluta sé óvenjulegt og ekki fylgt hefðbundnu söluferli samkvæmt verklagsreglum um útboð og sölu ríkisfyrirtækja. Ekki skipti heldur máli að mati Ríkisendurskoðunar að ósamið hafi verið um endurgjald af hálfu ríkisins um uppgjör vegna mismunar á virði eigna og skulda frá gömlu bönkunum sem lagðar voru til þeirra nýju. Jafnframt bendir Ríkisendurskoðun á að verið sé að minnka eignarhlut ríkissjóðs í umræddum fjármálafyrirtækjum.
    Í ljósi þess vafa sem upp virðist kominn um þörf á sérstakri lagaheimild vegna umræddra samninga ríkisins er lagt til í frumvarpi þessu að lögfest verði skýr og afdráttarlaus heimild fyrir fjármálaráðherra til að staðfesta breytingar á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. við skilanefndir Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. í tengslum við samninga sem gerðir hafa verið um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda í kjölfar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá í október 2008 á grundvelli laga nr. 125/2008. Eðli máls samkvæmt er ekki aflað heimildar til að selja tiltekna hluti heldur mælt fyrir um staðfestingu á þeim ráðstöfunum sem leiðir af samningum fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs og þessara aðila um endurfjármögnun og uppgjör og snerta eignarhald ríkisins í hinum nýju bönkum.