Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 583, 138. löggjafarþing 275. mál: samruni opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.
Lög nr. 153 29. desember 2009.

Lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.


1. gr.

Heimild til samruna opinberra hlutafélaga.
     Heimilt er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að ákveða samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í nýtt opinbert hlutafélag sem stofna skal af þessu tilefni. Við gildistöku samrunans skulu allar eignir og skuldir, réttindi og skuldbindingar opinberu hlutafélaganna, án sérstakra skuldaskila, renna til nýs félags.

2. gr.

Framkvæmd samruna, slit, tilkynning o.fl.
     Ákvæði XIV. kafla laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gilda ekki um framkvæmd samruna samkvæmt lögum þessum. Yfirteknu félögunum telst slitið í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 127. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, við tilkynningu til hlutafélagaskrár um gildistöku samrunans. Stjórn félags sem stofnað er skv. 1. gr. skal annast tilkynningu samrunans til hlutafélagaskrár.

3. gr.

Eignarhald og forræði á hlutafé.
     Hlutafé í félagi sem stofnað er skv. 1. gr. skal allt vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess og önnur ráðstöfun óheimil.
     Fjármálaráðherra skal fara með hlut ríkisins í félaginu.

4. gr.

Tilgangur félags o.fl.
     Tilgangur yfirtökufélags skv. 1. gr. skal vera í samræmi við tilgang hinna yfirteknu félaga. Honum skal nánar lýst í samþykktum þess. Félaginu skal vera heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Félaginu er heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.

5. gr.

Yfirtaka réttinda og skyldna.
     Við samruna samkvæmt lögum þessum skal yfirtökufélag skv. 1. gr. taka yfir öll réttindi og allar skuldbindingar yfirteknu félaganna sem kveðið er á um í lögum nr. 102/2006, um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, og lögum nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Yfirtakan veitir ekki samningsaðilum yfirteknu félaganna, sem samruninn kann að varða, heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.
     Að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum gilda ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995 (opinber hlutafélög), um félag þetta.

6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Stofnfundur nýs félags sem stofnað er skv. 1. gr. skal haldinn fyrir 31. janúar 2010. Skal á stofnfundi leggja fram til samþykktar stofnyfirlýsingu og samþykktir fyrir félagið í samræmi við ákvæði laga þessara og ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Á þeim fundi skal kjósa félaginu stjórn sem starfar fram að fyrsta aðalfundi félagsins, svo og endurskoðanda félagsins. Heimilt er að stofna hlutafélagið með stofnfé að fjárhæð 10 millj. kr. sem greiðist úr ríkissjóði.
     Á stofnfundi félagsins skal taka ákvörðun um samruna skv. 1. gr. og hvenær hann tekur gildi, sem skal vera innan fjögurra mánaða, en tímamark samruna skal miðast við áramót 2009–2010. Stofnefnahagsreikningur yfirtökufélags skal liggja fyrir eigi síðar en 31. mars 2010. Þegar stofnefnahagsreikningur liggur fyrir skal halda framhaldsstofnfund þar sem stofnefnahagsreikningurinn er lagður fram og hlutafé hins nýja félags ákveðið á grundvelli efnahagsreikninga hinna sameinuðu félaga. Tilkynning skv. 2. gr. skal send til hlutafélagaskrár innan mánaðar frá því að samruninn hefur tekið gildi og telst þá Flugstoðum ohf. og Keflavíkurflugvelli ohf. slitið með samruna við hið nýja félag.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 2009.