Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 171. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 585  —  171. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Valgerði Maríu Sigurðardóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Útlendingastofnun, Landssambandi lögreglumanna, embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi sem gildir um framsal manna milli Norðurlandanna og byggjast þær á samningi um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna. Hugtakinu framsal er skipt út fyrir afhendingu. Afhendingarfyrirkomulagið er frábrugðið gildandi framsalsfyrirkomulagi í fjórum atriðum, þ.e. norræn handtökuskipun kemur í stað venjubundinnar framsalsbeiðni. Norrænu ríki ber að handtaka mann og afhenda því ríki sem gaf beiðnina út nema til staðar séu nánar tilgreindar synjunarástæður. Þá verður dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu ekki blandað í málsmeðferðina heldur er ríkissaksóknara falið að sjá um hana og enn fremur munu stuttir frestir gilda um málsmeðferð og afhendingu.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að með frumvarpinu er lagt til einfaldara og skilvirkara fyrirkomulag á afhendingu sakamanna milli norrænu ríkjanna. Kom fram að samningurinn byggist á gagnkvæmri viðurkenningu á ákvörðun dómsmálayfirvalda viðkomandi ríkja. Þörfin fyrir nýtt fyrirkomulag byggist m.a. á því að í auknum mæli eiga afbrot sér ekki landamæri og eru skipulögð. Talið er að afhendingarfyrirkomulagið sé árangursríkara tæki í baráttu gegn afbrotum en gildandi ákvæði um framsal.
    Fyrir nefndinni var vakin athygli á því að í 6. gr. frumvarpsins, sem fjallar um valkvæðar synjunarástæður, væri ekki að finna heimild til handa íslenskum yfirvöldum til að synja um afhendingu á manni á þeim forsendum að rannsókn vegna sama máls hér á landi hafi ekki leitt til útgáfu ákæru (rannsókn hætt, mál fellt niður eða fallið frá saksókn) en í 4. tölul. 5. gr. samningsins sem frumvarpið byggist á er gert ráð fyrir að heimilt sé að synja um afhendingu á þessum grundvelli. Á fundum nefndarinnar kom fram að ekki hefði verið ætlunin að undanskilja þetta ákvæði samningsins en það hefði farist fyrir að taka það upp í frumvarpið. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu sem felur í sér að við 6. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: dómsmálayfirvöld í landinu sem beðið er um fullnustu hafa ákveðið annaðhvort að hefja ekki saksókn vegna afbrotsins sem norræna handtökuskipunin grundvallast á eða hafa hætt við saksókn sem hafin er, eða hinn eftirlýsti hefur hlotið dóm í öðru norrænu landi vegna sömu háttsemi sem kemur í veg fyrir frekari saksókn.
    Nefndin ræddi nokkuð gildistökuákvæði frumvarpsins. Þar er ráðherra falið að ákveða hvenær lögin öðlist gildi gagnvart hverju ríki sem um getur í 1. gr. en þar er vísað til norrænna ríkja. Í skýringum í greinargerð kemur fram að ástæðan fyrir þessari útfærslu ákvæðisins sé sú að stefnt sé að því að fyrirkomulag þetta á afhendingu á eftirlýstum mönnum milli Norðurlanda öðlist gildi á sama tíma í öllum ríkjunum. Í samningnum kemur fram að hann öðlist gildi þremur mánuðum eftir að öll norrænu löndin, þ.e. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, hafa veitt samþykki sitt til að vera bundin af samningnum. Fyrir liggur að Ísland og Svíþjóð eru einu aðildarlöndin sem eiga eftir að gera nauðsynlegar lagabreytingar svo að samningurinn geti tekið gildi en gert er ráð fyrir að það verði á árinu 2010. Varðandi Grænland og Færeyjar gilda sérreglur en samningurinn tekur fyrst gildi þremur mánuðum eftir að danska dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytum Grænlands og Færeyja að samningurinn skuli gilda að því er þau varðar.
    Nefndin telur að með þessari útfærslu felist of mikið valdframsal til ráðherra og leggur því til breytingu á gildistökuákvæðinu sem feli í sér að lögin öðlist gildi þegar samningur um framsal vegna refsiverðra verknaða milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun) tekur gildi í öllum aðildarríkjunum, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, og skal ráðherra birta auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna enda eiga við gildistökuna að falla brott gildandi lög um framsal sakamanna milli Norðurlanda. Nefndin telur þó rétt að fela ráðherra þá heimild að ákveða með auglýsingu í Stjórnartíðindum að lögin öðlist gildi fyrr gagnvart þeim einstöku aðildarríkjum sem hafa skuldbundið sig samkvæmt samningnum. Fyrir nefndinni kom fram að ætlunin er að láta samninginn taka gildi í öllum ríkjunum samhliða og jafnvel áður en Svíar hafa gert nauðsynlegar lagabreytingar.
    Nefndin telur ekki koma nægilega skýrt fram við hvaða ríki er átt með tilvísun gildistökuákvæðisins í 1. gr. sem vísar almennt til norrænna ríkja í 1. gr. og leggur því til að í stað norrænna ríkja komi upptalning á aðildarlöndum samningsins, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.
    Nefndin leggur til smávægilega lagfæringu á heiti ráðuneytisins svo að samræmis sé gætt í frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Birgir Ármannsson, Ólöf Nordal og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 21. des. 2009.Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Arndís Soffía Sigurðardóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.Siv Friðleifsdóttir.


Ásmundur Einar Daðason.


Róbert Marshall.