Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 601  —  76. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.1. Inngangur.
    Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi haft uppi hörð mótmæli gegn því að Íslendingar taki á sig Icesave-skuldbindingarnar. Barist hefur verið fyrir því frá upphafi málsins að öll gögn væru lögð fram, allar upplýsingar væru uppi á borðinu og að skýr og hlutlaus mynd yrði dregin upp af þeim atriðum sem lúta að Icesave-nauðasamningunum. Því miður hefur hörð andstaða þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við það að upplýsa málið gert það að verkum að baráttan hefur verið löng og strembin.
    Eftir að hafa haft uppi stanslausar aðvaranir í um 1 ár og háð stanslausa baráttu í um sex mánuði frá því að frumvarpið um ríkisábyrgðina vegna Icesave var lagt fram af hálfu fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar telur 2. minni hluti að hann hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að benda fólki á um hversu óaðgengilegir Icesave-samningarnir eru fyrir íslensku þjóðina. Allir sem skilning hafa á afleiðingum þess að frumvarpið verði samþykkt hafa einnig lagst eindregið gegn samþykkt þess. Því miður er enn lítill hluti þjóðarinnar sem neitar að horfast í augu við sannleikann, hvað þá að kynna sér þau gögn sem lögð hafa verið fram. Sama ábyrgðarleysi hefur því miður einkennt stóran hluta meiri hlutans sem frá upphafi hefur barist fyrir því að ríkisábyrgð yrði veitt á Icesave-samningana, jafnvel að þeim óséðum. Aðvörunarorð okkar færustu sérfræðinga sem stigið hafa fram án hagsmunatengingar við aðra en þjóðina hafa einnig algjörlega verið hunsuð.
    Annar minni hluti hætti efnislegri umfjöllun um málið eftir aðra umræða gegn því skilyrði að farið yrði vandlega yfir 16 atriði sem lúta að þeirri lagalegu og efnahagslegu óvissu sem ríkisábyrgðin á Icesave-skuldbindingunum mun setja Íslendinga í. Einnig lýsti formaður fjárlaganefndar því yfir í ræðustól að fylgt yrði því verklagi sem minni hluti fjárlaganefndar lagði fram eftir að formaður og varaformaður fjárlaganefndar lýstu því yfir að þeir væru ekki skuldbundnir því samkomulagi sem forseti Alþingis og formenn stjórnar- og stjórnarandstöðu gerðu sín á milli. Í stuttu máli var samkomulagið svikið af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar af þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

2. Lok annarrar umræðu um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna.
    Önnur umræða um breytingu á lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave er sú lengsta sem fram hefur farið á Alþingi. Helgast það fyrst og fremst af þeirri staðreynd að Alþingi hefur ekki áður haft til umfjöllunar frumvarp sem mun hafa áhrif á afkomu þjóðarbúsins til næstu tugi ára og áhrif á lífsafkomu komandi kynslóða. Einnig sú staðreynd að fjölmörg álitaefni voru enn ókönnuð, réttarstaða Íslendinga óljós eftir breytingarnar og efnahagsleg áhætta þjóðarbúsins hafði ekki verið metin. Þá hafði engin efnisleg umræða hafði farið fram innan fjárlaganefndar, hvað þá öðrum nefndum þingsins um málið.
    Stjórnarandstaðan hætti umræðum eftir að samkomulag var gert við formenn stjórnarflokkanna og forseta Alþingis um að fjölmörg atriði yrðu könnuð og til þess fengnir hlutlausir einstaklingar.
    Samkomulagið var svohljóðandi:
    „Verði málið áfram til meðferðar á þinginu krefst stjórnarandstaðan þess að vandlega verði farið yfir þau fjölmörgu álitamál sem enn er ósvarað. Þau varða m.a.:
          Hvort frumvarpið samrýmist ákvæðum stjórnarskrár Íslands
          Hversu miklar fjárhagsskuldbindingar samningarnir fela í sér
          Efnahagslegar hættur af því að hafa skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum
          Áhrif breytinga sem gerðar voru á efnahagslegu fyrirvörunum frá því í sumar
          Áhrif breyttra reglna um úthlutun úr þrotabúi Landsbankans (Ragnars Hall ákvæðið)
          Gera þarf betur grein fyrir mögulegri gengisáhættu í málinu
          Gera nákvæmari samanburð á áhrifum þess að hafa vexti fasta en ekki breytilega
          Nýjar upplýsingar varðandi mat AGS á greiðsluþoli ríkissjóðs benda til þess að hann ráði ekki við þær skuldbindingar sem í samningunum felast
          Upplýsa þarf nánar hvaða forsendur bjuggu að baki Brussel-viðmiðanna
          Fyrir liggur misræmi í túlkun forsætisráðherra Íslands og Bretlands sem þarf að skoða
          Mat sérfræðinga í enskum lögum á texta samninganna liggur ekki fyrir
          Lögfræðilegt mat skortir á afleiðingum þess að ensk lög gildi um samninginn en ekki íslensk verði látið á ákvæði þeirra reyna fyrir dómstólum
          Óljóst er hvaða áhrif það hefur á skuldbindingar íslenska ríkisins verði ráðist í endurskoðun á innlánstryggingakerfi ESB, sem mun vera hafin
          Hvaða afleiðingar það mun hafa verði frumvarpið ekki samþykkt eða verði dráttur á lyktum deilunnar
    Stjórnarandstaðan leggur mikla áherslu á að gangi frumvarpið til lokaatkvæðagreiðslu og verði það samþykkt verði tryggt að forseti Íslands, en ekki handhafar forsetavalds, taki það til frekari meðferðar samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár.“
    Daginn eftir að samkomulagið var gert fór fram fundur í fjárlaganefnd Alþingis. Stjórnarandstaðan stóð í þeirri meiningu að þar yrði fjallað um það verklag sem haft yrði við að afla þeirra álita sem 16 punkta samkomulagið fjallaði um. Eftir að formaður og varaformaður nefndarinnar lýstu því yfir að fjárlaganefnd væri óbundin af samkomulaginu gengu fulltrúar Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar á dyr. Fóru þá fram langar samningaviðræður á milli formanna stjórnmálaflokkanna, þingflokksformanna, forseta Alþingis ásamt formanni fjárlaganefndar sem urðu til þess að formaður fjárlaganefndar gaf yfirlýsingu úr ræðustól Alþingis:
    „Hæstv. forseti. Í framhaldi af umræðum sem áttu sér stað í dag um Icesave-málið með fulltrúum úr fjárlaganefnd langar mig að lesa eftirfarandi yfirlýsingu, með leyfi forseta:
    „Formaður fjárlaganefndar hefur fengið tillögu stjórnarandstöðunnar um málsmeðferð í nefndinni vegna ofangreinds máls“ – þ.e. meðferð málsins á milli 2. og 3. umr. Málsmeðferð í nefndinni mun byggja á nefndum tillögum og að öðru leyti leita samkomulags um þau atriði sem taka þarf ákvörðun um. Varðandi hið breska lögfræðiálit mun verða leitað álits lögmannsstofunnar Mishcon de Reya sem samninganefnd ríkisstjórnarinnar leitaði til á fyrri stigum“ – að vísu um aðra þætti málsins en hér er til umfjöllunar. Sá fyrirvari gildir þó að samþykki Mishcon de Reya að taka að sér verkið“ – það er náttúrlega forsendan – „og að það sem krafist er til endurgjalds fyrir vinnuna verði ekki hærra en sambærilegar stofur eru reiðubúnar að vinna verkið fyrir.“
    Aðilar eru sammála um þessi atriði og eru þau lögð inn í umræðuna í von, ósk og vissu um að það muni liðka fyrir umræðunum í þinginu þannig að málið komist til umræðu í fjárlaganefnd og afgreiðslu í framhaldinu.“
    Í ræðunni vísaði formaðurinn til eftirfarandi samkomulags um verklag sem haft yrði að leiðarljósi við vinnu fjárlaganefndar.
     „Í samræmi við yfirlýsingu og samkomulag forseta Alþingis og stjórnarandstöðu er samkomulag um að eftirfarandi verklag verði viðhaft við meðferð málsins innan fjárlaganefndar Alþingis, og annarra fastanefnda Alþingis, milli 2. og 3. umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2009.
    Fengið verði álit bresku lögfræðistofunnar Mishcon de Reya á eftirfarandi álitaefnum:
    Óskað er eftir lögfræðilegu álit á texta samninganna með hliðsjón af hagsmunum samningsaðila málsins. Er þar einkum óskað eftir lögfræðiáliti á efni og gerð samningsins, hvort þau teljist hefðbundin með hliðsjón af samningsákvæðum sambærilegra samninga og hvort þau beri það með sér að jafnræðis hafi verið gætt milli samningsaðila við samningsgerðina.
    Hvaða þýðingu hefur það fyrir hagsmuni íslenska ríkisins eða íslenska aðila, sem hugsanlega munu í framtíðinni höfða dómsmál vegna samninganna, að um þá gildi ensk lög en ekki íslensk? Leiða slík samningsákvæði til þess að réttarstaða íslenska ríkisins eða íslenskra aðila, s.s. Landsbanka Íslands hf., skerðist og að sama skapi til þess að réttarstaða breska ríkisins styrkist?
    Hvaða áhrif mun hugsanleg endurskoðun á löggjöf ESB um innlánstryggingakerfi hafa á efnislegt gildi samninganna og skuldbindingar Íslands samkvæmt þeim, einkum með hliðsjón af þeim lagalegu skuldbindingum sem núverandi löggjöf ESB um innstæðutryggingar hefur í för með sér fyrir íslenska ríkið?
    Hvaða afleiðingar hefði það í för með sér fyrir samningsaðila ef afgreiðsla frumvarps fjármálaráðherra Íslands, um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, myndi dragast eða það hlyti ekki samþykki sem lög frá Alþingi? Í framhaldi er óskað eftir áliti hinnar bresku lögmannsstofu á því með hvaða hætti hún teldi að við slíkar aðstæður væri skynsamlegast fyrir báða aðila málsins að leiða málið til lykta.
     Lögfræðiálit sérfræðinga í enskum lögum á texta samninganna.
    Lögfræðiálit á þýðingu þess að ensk lög gildi um samningana en ekki íslensk, verði látið reyna á ákvæði þeirra fyrir dómstólum.
    Mat á áhrifum endurskoðunar á löggjöf ESB um innlánstryggingakerfi á skuldbindingar Íslands samkvæmt samningunum.
    Mat á afleiðingum þess að frumvarpið verði ekki samþykkt óbreytt eða að dráttur verði á samþykkt þess.

    Fengin verði skrifleg álit þeirra Guðrúnar Erlendsdóttur og Péturs Hafstein á álitaefnum sem tengjast umræðum um framsal dómsvalds og umfang ríkisábyrgðar:
     Lögfræðiálit um hvort frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrár.
    Efnahags- og skattanefnd fái til umsagnar eftirfarandi atriði. Nefndin skal leita álits Centre for European Policy Studies við vinnu sína.
    Auk þess verði IFS-greining kölluð til viðtals vegna greiningar fyrirtækisins á sjálfbærni skulda og gengisáhættu samninganna.
    Viðskiptanefnd leiti eftir upplýsingum frá skilanefnd LÍ um fjárflæði úr þrotabúinu. Starfsmaður skilanefndar verði kallaður fyrir nefndina vegna þessa.

     Mat á því hversu miklar fjárhagsskuldbindingar samningarnir fela í sér
    Mat á hættu á því að kveða á um skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum
    Mat á fjárhagslegri þýðingu breytinga á efnahagslegum fyrirvörum
    Mat á fjárhagslegri þýðingu á breytingu fyrirvara er varða reglur um úthlutun úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf. (Ragnars Hall ákvæðið)
    Mat á gengisáhættu samninganna.
    Mat á fjárhagslegri þýðingu þess að vextir samkvæmt samningunum séu fastir (5,55%) en ekki breytilegir
    Mat á þýðingu nýrra upplýsinga um mat AGS á greiðsluþoli ríkissjóðs.

    Fengin verði álit frá Seðlabanka Íslands og Hagfræðistofnunar Háskólans á áhættu þjóðarbúsins vegna lánasamninganna. Sérstaklega verði eftirfarandi álitaefni greind og um niðurstöður þeirra verði haldinn sameiginlegur fundur fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar:
     Mat á fjárhagslegri þýðingu þess að vextir samkvæmt samningunum séu fastir (5,55%) en ekki breytilegir.
    Mat á þýðingu nýrra upplýsinga um mat AGS á greiðsluþoli ríkissjóðs

    Ræða þarf og leita skýringa á vegum fjárlaganefndar á eftirfarandi álitaefnum. Kalla þarf fyrir nefndina fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde og fyrrv. utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
     Nánari upplýsingar frá fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um hverjar forsendur Brüssel-viðmiðanna voru.
    Skýra misræmi í túlkun forsætisráðherra Íslands og Bretlands á ákvæðum samninganna.
    Vegna eftirfarandi atriða verði fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon kallaður til fundar við fjárlaganefnd:
     Mat á afleiðingum þess að frumvarpið verði ekki samþykkt óbreytt eða að dráttur verði á samþykkt þess.
    Mat á áhrifum endurskoðunar á löggjöf ESB um innlánstryggingakerfi á skuldbindingar Íslands samkvæmt samningunum.

    Formaður fjárlaganefndar mun hafa forgöngu um að eftirfarandi atriði verði fullnustað.
     Þær fundargerðir, skrifleg gögn og frásagnir, sem óskað hefur verið eftir á Alþingi, af fundum íslenskra ráðherra og erindreka þeirra við erlenda aðila.
    Í samræmi við yfirlýsingu forseta Alþingis mun fjárlaganefnd fara rækilega yfir þau álitamál sem út af kunna að standa varðandi þau atriði sem að ofan greinir sem og þau álit nefnda sem kunna að veita fjárlaganefnd umsögn sína.“
    Eftir að samkomulagið var staðfest lauk 2. umræðu um málið í trausti þess að staðið yrði við samkomulagið.

3. Atburðarás málsins eftir aðra umræðu.
    Því miður reyndist það meiri hluta fjárlaganefndar um megn að standa við framangreint samkomulag.
    Í fyrsta lagi var þeim aðilum sem leitað var til veittur afar skammur frestur til að veita álit á því hvort frumvarpið samrýmdist stjórnarskrá Íslands. Var beiðni send út á föstudegi en sagt um leið að álitið þyrfti að liggja fyrir á miðvikudeginum þar á eftir þrátt fyrir samkomulag um að nefndin tæki sér þann tíma sem hún þyrfti til að afla álitsins. Útilokað er að færustu sérfræðingar geti klárað jafn mikilvægt og viðamikið álitaefni á jafn skömmum tíma.
    Í annan stað var leitað til Eiríks Tómassonar lagaprófessors og Bjargar Thorarensen, deildarforseta Lagadeildar HÍ, um að þau mundu veita skriflegt álit um álitaefnið en þau höfðu áður gefið munnlega skýrslu fyrir fjárlaganefnd um álitaefnið. Taldi 2. minni hluti að þar sem þau höfðu veitt nýrri samninganefnd fulltingi og almenna ráðgjöf í málinu ásamt Nigel Ward hjá Ashurst-lögmannsstofunni, Benedikt Bogasyni héraðsdómara og Helga Áss Grétarssyni, sérfræðingi hjá Lagastofnun HÍ, samkvæmt fréttatilkynningum forsætisráðuneytis, mætti líta á þau sem vanhæf til að meta hvort eigin ráðgjöf stangaðist á við stjórnarskrána. Leit 2. minni hluti svo á að samkomulag hefði verið um að leita til óháðra sérfræðing en við það var ekki staðið.
    Að sama skapi telur 2. minni hluti í þriðja lagi gagnrýnisvert að meiri hlutinn hafi óskað eftir áliti frá Ashurst-lögmannsstofunni um mat á enskum lögum á texta samningsins en sú lögmannsstofa var til ráðgjafar við samningsgerðina eins og áður hefur komið fram. Taldi 2. minni hluti nægjanlegt að leita til hinnar virtu bresku lögmannsstofu Mishcon De Reya, sér í lagi vegna þess að þegar frumvarpið var í fyrsta sinn lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar var í greinargerðinni með frumvarpinu sérstaklega vísað til þess að ríkisstjórnin hefði leitað aðstoðar þeirrar lögmannsstofu.
    Í fjórða lagi var samkomulag um að leita til Centre for European Policy Studies, sem er virt stofnun innan Evrópusambandsins, til að kanna hinn efnahagslega óvissuþátt málsins. Það var ekki gert.
    Í fimmta lagi ákvað meiri hlutinn að taka málið út úr nefndinni án þess að viðeigandi gögn, m.a. frá IFS-greiningu ehf. hefðu borist. Að mati 2. minni hluta var um að ræða svik við það samkomulag sem gert var.
    Í sjötta lagi átti að fara fram efnisleg umræða um þau álit sem bærust fjárlaganefnd. Við það var ekki staðið. Fór svo að málið var tekið út úr nefndinni í ágreiningi þar sem minni hluti nefndarmanna greiddi atkvæði gegn því að málið færi til 3. umræðu. Bókaði 2. minni hluti af því tilefni andmæli við það vinnulag.

4. Breytingar á fyrirvörum í lögum nr. 96/2009.
    Eins og kom fram í áliti 2. minni hluta eftir 1. umræðu um frumvarpið uppfylla hinir nýju og útþynntu fyrirvarar sem ríkisstjórnin leggur til að verði samþykktir á engan hátt þau skilyrði að gæta hagsmuna Íslendinga. Má segja að þeir séu marklausir. Þau álit sem borist hafa fjárlaganefnd bera það líka flest með sér. Þannig segir Ragnar H. Hall að fyrirvarinn sem kenndur eru við hann sé nánast að engu orðinn. Einnig bendir lögmannsstofan Mishcon de Reya á að samningarnir séu ekki bara ósanngjarnir, þeir séu einnig óskýrir og óvíst sé að þeir verði túlkaðir Íslendingum í hag. Undir þau sjónarmið taka Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson og Sigurður Líndal lagaprófessorar sem segja að álit Mishcon de Reya staðfesti gagnrýni þeirra á samningana. Lárus bendir sérstaklega á að óvarlegt sé að samþykkja ríkisábyrgðina sem myndi höggva nærri fullveldi Íslands. Þá hafa IFS-greining ehf. og greiningarfyrirtækið CMA bent á að töluverðar líkur séu á að íslenska ríkið verði gjaldþrota og að lífsskilyrði á landinu muni versna til mikilla muna. Sérstaklega er athyglisvert að flestir ef ekki allir, þar á meðal Seðlabanki Íslands, eru sammála um að skuldastaða þjóðarinnar sé um eða yfir 300% af vergri þjóðarframleiðslu. Þá skal vakin athygli á því að þær fullyrðingar sem fram komu um að núverandi samningar séu sambærilegir, ef ekki betri en fyrirvararnir sem birtast í lögum nr. 96/2009, eru hljóðnaðar. Enda stóðust þær engan veginn nánari skoðun. Ef sú væri raunin lægi það einnig fyrir að Bretar og Hollendingar hefðu meiri áhuga á að gæta íslenskra hagsmuna en ríkisstjórn Íslands.

5. Lögfræðileg álitaefni.
a. Útgreiðsla úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf.
    Annar minni hluti hefur ítrekað bent á að fyrirvari kenndur við Ragnar H. Hall hrl., sem fjallar um útgreiðslur úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf., sé útþynntur og í reynd marklítill. Þetta staðfestir Ragnar sjálfur og segir að álit Mishcon de Reya staðfesti að fyrirvarinn hafi verið þynntur verulega út. Þarna sé um að ræða mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga enda getur kostnaður ríkisins vegna málsins hækkað um hundruð milljóna króna fái íslenski tryggingarsjóðurinn ekki úthlutun úr búinu á undan þeim breska og hollenska. Staðfestir Ragnar að álit bresku lögmannsstofunnar hafi verið ítarlegt og vandað.

b. Almennir lagalegir fyrirvarar.
    Mishcon de Reya fjallar ítarlega um þá almennu fyrirvara sem settir hafa verið við ríkisábyrgðina en þeir fela í sér að Íslendingar fái notið þess ef dómur eða úrskurður fellur þeim í hag. Þessir fyrirvarar eru verulega útþynntur í breytingartillögum meiri hlutans. Segir í áliti Mishcon de Reya að greinilegur lögfræðilegur vafi leiki á hvort ríkisstjórn Íslands beri skylda til að greiða lágmarkstrygginguna þar sem tryggingarsjóðurinn getur ekki staðið undir henni. Lögfræðistofan bendir á að í nýlegri skýrslu breska fjármálaeftirlitsins (FSA), um áhættuhorfur í fjármálakerfinu 2009, séu ummæli sem aðeins sé hægt að skilja þannig að aðildarríkjum beri engin skylda til að standa við bakið á tryggingarsjóðum. Í skýrslu FSA kemur fram að gjaldþrot Landsbankans hafi sýnt fram á veikleika í regluverki Evrópusambandsins um viðskiptabanka. Innstæðueigendur í einu ríki séu í veikri stöðu við hrun banka í öðru ríki, þ.e. ef viðkomandi ríki hafi ekki getu til að takast á við gjaldþrot banka, hafi ekki burði eða vilja til að koma bönkum til bjargar eða ef tryggingarsjóður innstæðueigenda sé ekki nægjanlega vel fjármagnaður. Lögfræðistofan bendir þó á að ekki hafi fallið dómur um þetta álitamál í tilskipun Evrópusambandsins um tryggingarsjóði innstæðueigenda og því sé ekki að finna skýr og ótvíræð ákvæði um þetta efni. Þótt það komi greinilega fram í álitinu að engin dómafordæmi séu fyrir hendi fjallar lögfræðistofan um niðurstöður í forúrskurði Evrópudómstólsins í máli frá 2004 sem 2. minni hluti hefur þegar bent á og fjallar um þýska fjármálastofnun sem hafði fengið leyfi til fjármálastarfsemi án þess að vera hluti af tryggingarsjóði innstæðueigenda þar í landi. Það er niðurstaða lögfræðistofunnar að greinilegur lögfræðilegur vafi leiki á um hvort ríki beri skylda til að tryggja að sérhver innstæðueigandi fái lágmarkstryggingu ef tryggingarsjóður getur ekki innt hana af hendi.

c. Brussel-viðmiðin.
    Eins og 2. minni hluti hefur ítrekað bent á hefði verið æskilegt að þjóðréttarleg staða íslenska ríkisins hefði verið betur tryggð í Icesave-samningunum. Einnig að ekki hafi verið um neina tilvísun að ræða til hinna umsömdu Brussel-viðmiða. Þeim má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um EES og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum ESB. Í öðru lagi að tekið yrði tillit til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.“ Í þriðja lagi var lögð sérstök áhersla á að stofnanir ESB og EES tækju áframhaldandi þátt í samningaferlinu sem færi fram í samráði við þær. Þær væru því í hlutverki nokkurs konar milligönguaðila ef á þyrfti að halda.
    Þetta staðfestir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fv. utanríkisráðherra, í minnisblaði sem hún ritaði utanríkismálanefnd Alþingis 18. desember sl. Þar bendir hún á að hin svonefndu Brussel-viðmð hafi verið kjarni málsins fyrir Íslendinga í Icesave-deilunni. Þau hafi ekki einungis tekið tillit til erfiðra og fordæmislausra aðstæðna Íslands, heldur kveðið á um aðkomu Evrópusambandsins að deilunni. ESB þurfti að skynja ábyrgð sína, því Ísland sem EES-ríki átti ekki að hafa lakari stöðu í deilunni en sem ESB-ríki. Þessu var hinsvegar ekki fylgt eftir í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. Segir Ingibjörg enn fremur um Brussel viðmiðin: „þannig mörkuðu þau nýtt upphaf auk þess sem tíminn hefur unnið með okkur, því í október/nóvember voru öll stjórnvöld í Evrópu eins og þaninn strengur af ótta við óróann á fjármálamörkuðum og áhlaup á banka hver hjá sér. Sú staða hefur róast.“ Þá minnir hún á að samkvæmt Brussel-samkomulaginu 14. nóvember 2008 hafi minnisblaði MOU við Hollendinga frá 11. október verið úr sögunni, en það hefur oft skotið upp kollinum í opinberri umræðu upp á síðkastið.
    Ingibjörg telur ótvírætt að Brussel viðmiðin hafi verið svikin í samningaviðræðum milli Íslendinga, Breta og Hollendinga. Af Íslands hálfu hefur verið lögð mikil áhersla á að framhald yrði á aðkomu ESB enda höfðu verið gefin skýr fyrirheit í þá veru, og þess vegna segi í þriðja lið viðmiðanna: „Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær. Ástæðan fyrir þessu var fyrst og fremst sú að við litum ekki einvörðungu á þetta sem tvíhliða deilu við Hollendinga og Breta heldur væri sú deila afleiðing af því gallaða regluverki sem gilti um evrópska fjármálamarkaðinn. Mikilvægt væri að ESB skynjaði ábyrgð sína gagnvart íslandi sem þátttakanda í hinum innri markaði með frjálsu flæði fjármagns þó það væri ekki aðildarríki að bandalaginu.“
    Er ljóst af þessum ummælum Ingibjargar að hún hrekur með öllu fullyrðingar núverandi ríkisstjórnar um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar hafi ákveðið þetta allt saman og að ekkert sé hægt að gera meira í málinu. 2. minni hluti hefur ítrekað bent á sömu sjónarmið jafnvel þó hann fallist á að sú ríkisstjórn hafi gert margvísleg mistök. Staðfestir Ingibjörg að samninganefndin fór langt út fyrir skyldur okkar Íslendinga og niðurstaða samningaviðræðnanna voru ekki í samræmi við það sem rætt var um í upphafi. Kemst Ingibjörg Sólrún í samantekt sinni að þeirri niðurstöðu sem hún sendi utanríkismálanefnd Alþingis að núverandi stjórnvöld séu ekki pólitískt bundin samningnum. Lítur 2. minni hluti svo á að þar með sé allri ábyrgð varpað á núverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og að þau skref sem hún stígur muni vald varanlegri lífskjaraskerðingu heillar kynslóðar.

6. Efnahagsleg álitaefni.
    Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði jákvæður árið 2011 og fari fljótt í 2,5%. IFS-greining bendir á að í finnsku kreppunni á tíunda áratugnum var hagvöxtur neikvæður í fjögur ár. Samkvæmt IFS-greiningu hefur engin bankakreppa verið jafn stór og sú íslenska og er niðurstaða þeirra sú að hagvaxtarspá Seðlabankans sé sú spá sem við vonumst eftir að rætist ef allt fer á besta veg. M.ö.o. kemur fram í skýrslu IFS að efnahagsspár Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu full bjartsýnar og að verulegur vafi leiki á að þjóðin rísi undir þessum skuldbindingum og er niðurstaða skýrslunnar að „varfarið mat á líkum á verulegum greiðsluerfiðleikum (greiðslufalli) séu 10%“. Þeir komast einnig að þeirri niðurstöðu að það muni reyna á fyrirvarana í viðaukum í öllum þeim sviðsmyndum sem þeir lögðu fram og að samningurinn sé bæði óskýr og ósanngjarn.
    Greiningarfyrirtækið CMA greindi frá því að skuldatryggingarálagið á íslenska ríkið væri 413 punktar og að líkurnar á greiðslufalli Íslands um 25%. Í samanburði má nefna að líkur á greiðslufalli furstadæmisins Dubai um þessar mundir eru taldar vera um 27% og Grikklands um 22%. Þá bendir Mishcon de Reya á að bresk og hollensk stjórnvöld heimti allt of háa vexti vegna Icesave-samkomulagsins. Þá er ótrúlegt að samkvæmt skýrslu IFS-greiningar hafi mönnum ekki verið orðin ljós gjaldeyrisáhættan fyrr en á haustmánuðum og að ekki sé gert ráð fyrir gjaldeyrisáhættu í mati Seðlabankans á Icesave-samningunum „sem birt var í júní 2009.“
    Að teknu tilliti til alls þessa er ótrúlegt til þess að hugsa að fjármálaráðherra Íslands skuli hafa látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum þegar honum voru kynntar þessar niðurstöður að ekki væri „hyggilegt að ræða málin áfram“. Þetta minnir óneitanlega á eiginleika frosksins en ef hann er settur í kalt vatn og vatnið hitað smátt og smátt þá aðlagast hann hitastiginu alveg upp í suðu. Það virðist ekki skipta máli hvaða upplýsingar berast, hversu alvarlegar sem þær eru, engin viðbrögð eru af hálfu ríkisstjórnarinnar.

7. Breytingartillögur.
    Hinn 28. ágúst sl. voru samþykkt fyrrgreind lög nr. 96/2009 sem kveða á um að íslenska ríkið gangist í ábyrgð fyrir skuldbindingum innstæðutryggingarsjóðsins að vissum skilyrðum uppfylltum og með ákveðnum fyrirvörum. Í því fólst að ábyrgðin mundi takmarkast ef tiltekin atvik ættu sér stað. Þetta varð niðurstaðan eftir margra mánaða vinnu alþingismanna í fjárlaganefnd til að reyna að ná sáttum í málinu. Það kom þó skýrt fram í þjóðfélagsumræðunni að fjölmargir töldu engu síður of langt gengið í veitingu ríkisábyrgðar. Þar á meðal voru þingmenn Framsóknarflokksins sem töldu að hinir lagalegu fyrirvarar þyrftu að vera sterkari og skýrari til þess að ná markmiði sínu og lögðu því til ýmsa fyrirvara til þess að styrkja ríkisábyrgðina enn frekar og gæta þar með hagsmuna íslenskra borgara sem og komandi kynslóða. Lítið bar hins vegar á því að menn teldu of skammt gengið. Þessi niðurstaða var vissulega betri en skilyrðislaus ríkisábyrgð eins og hugur margra þingmanna ríkisstjórnarinnar stóð til að samþykkja, jafnvel óséða. Fullyrða má að skilyrðislaus ríkisábyrgð við þær aðstæður sem nú eru uppi á Íslandi sé lögfræðilega og siðferðilega ótæk.
    Annar minni hluti leggur fram að nýju breytingartillögur sínar frá því að lög nr. 96/2009 voru samþykkt. Þeir fyrirvarar sem þar koma fram eru sterkir og gæta hagsmuna Íslendinga. Ítrekar 2. minni hluti rökstuðning sinn við fyrrgreindar breytingartillögur og vísar til álits síns við frumvarp sem varð að lögum nr. 96/2009 (þskj. 338, 136. mál).

8. Niðurlag.
    Gjá hefur myndast á milli þings og þjóðar. Um 70% þjóðarinnar vilja að ákvörðun um veitingu ríkisábyrgðar á Icesave-reikningunum verði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta staðfestir skoðanakönnun Viðskiptablaðsins. Þá hefur komið fram í skoðanakönnun sem Gallup lét gera og í rafrænni kosningu sem vefmiðillinn Eyjan.is lét gera að skýr meiri hluta þjóðarinnar vill að Alþingi hafni frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þá telur 2. minni hluti að líkur á að til greiðslufalls þjóðarinnar geti komið geti numið allt að 25% séu óásættanlegar. Í raun gengur ekki að þjóð sé látin ganga að slíkum afarkostum, hvað þá að leggja slíkar byrðar á komandi kynslóðir sem ekki stofnuðu til þessara skuldbindinga.
    Annar minni hluti hefur frá upphafi gagnrýnt þá málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð af hálfu meiri hlutans og bendir á að ef ekki hefði komið til ákveðin andstaða af hálfu 2. minni hluta hefðu Icesave-samningarnir jafnvel verið samþykktir óséðir eins og til stóð í upphafi. Einnig er gagnrýnt það sinnuleysi sem stjórnvöld hafa sýnt ítrekuðum aðvörunarorðum innlendra og erlendra sérfræðinga. Hefur ríkisstjórnin keppst við að leita álits launaðra sem ólaunaðra sérfræðinga sem raunverulegur vafi leikur á um að séu hæfir til að fjalla um málið sökum persónulegra tengsla og fyrri aðkomu að málinu. Er það til marks um óheppileg vinnubrögð og veltir einungis upp þeirri spurningu hvort stjórnvöld séu að misbeita valdi sínu til að ná fram andstæðri skoðun varðandi tiltekin atriði. Er þá hægt að segja í umræðunni að ágreiningur sé um efnið og úr honum verði því ekki skorið.
    Fullt tilefni var til að gera þetta álit ítarlegra. Ekki gafst þó tími til þess þar sem forseti Alþingis ætlaðist til að það yrði unnið yfir jólahátíðina. Ítarlegur listi er í nefndaráliti meiri hlutans yfir þau gögn sem bárust nefndinni og vísar 2. minni hluti til þeirra fylgiskjala og hinna fjölmörgu aðvörunarorða sem þar er að finna og vert hefði verið að gera nákvæmari skil.
    Þar sem fram hefur komið að:
     a.      mörg álitaefni og gallar eru á málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar við þinglega meðferð málsins,
     b.      samningarnir eru ekki í samræmi við umboð Alþingis frá 5. desember 2008 sem kvað á um að mál skyldu leidd til lykta á grundvelli hinna umsömdu viðmiða, Brussel- viðmiðanna svokölluðu, og
     c.      endurskoðunarákvæði samninganna eru þegar virk vegna skuldastöðu þjóðarinnar
leggur 2. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að
taka upp viðræður á nýjan leik við bresk og hollensk stjórnvöld á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Leitað verði eftir pólitískum farvegi til lausnar deilumálinu eða samningsniðurstöðu á sanngjarnari forsendum.

Alþingi, 28. des. 2009.

Höskuldur Þórhallsson.