Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 618  —  94. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Davíðs Stefánssonar um opinn aðgang að gögnum opinberra stofnana.

     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að öll gögn opinberra stofnana sem ekki varða brýna hagsmuni eða þjóðaröryggi verði gerð aðgengileg?
    
Afstaða ráðherra er að skoða beri til hlítar hvaða leiðir séu færar til að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að gögnum og upplýsingum hjá hinu opinbera, að teknu tilliti til málefnalegra sjónarmiða, m.a. um einkalífsvernd, almannahagsmuni og þjóðaröryggi. Í þessu skyni hefur ráðherra sett á fót starfshóp sem hefur það verkefni að endurskoða upplýsingalög, nr. 50/1996. Starfshópnum er m.a ætlað að skoða í ljósi reynslunnar af upplýsingalögum og framkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál hvernig megi rýmka aðgengi almennings að upplýsingum í fórum stjórnvalda. Jafnframt er starfshópnum ætlað að skoða hvort möguleiki sé á að víkka út gildissvið upplýsingalaganna, t.d. þannig að þau nái til einkaaðila, þ.e. hlutafélaga og sameignarfélaga, sem alfarið eru í eigu hins opinbera. Er starfshópnum ætlað að taka mið af löggjöf í nágrannalöndum og sáttmála Evrópuráðsins um aðgang að opinberum upplýsingum. Þá er gert ráð fyrir að starfshópurinn leiti eftir viðhorfum almennings og blaðamanna til málefnisins. Áætlað er að hópurinn skili niðurstöðum sínum og tillögum til ráðherra á vordögum.

     2.      Hefur ráðherra kynnt sér þá framsæknu hugmyndafræði sem áhugafólk um opinn aðgang að gögnum aðhyllist og þá möguleika til nýsköpunar sem felast í nýtingu slíkra gagna?
    Ráðherra hefur kynnt sér þá hugmyndafræði sem vísað er til í fyrirspurninni, en upplýsingar um hana má m.a. finna á vefsíðunni opingogn.net. Ráðherra mun beina því til framangreinds starfshóps að hafa þessa hugmyndafræði til hliðsjónar, ásamt öðru, við endurskoðun upplýsingalaga.