Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 352. máls.

Þskj. 628  —  352. mál.



Frumvarp til laga

um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010,
um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska
og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum
til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en fyrsta laugardag í mars 2010 skal fara fram, í samræmi við 26. gr. stjórnarskrárinnar, almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.
    Dómsmálaráðherra tekur ákvörðun um dagsetningu atkvæðagreiðslunnar að höfðu samráði við landskjörstjórn.

2. gr.

    Um kosningarrétt og kjörskrár til afnota í þjóðaratkvæðagreiðslunni skv. 1. gr. fer á sama hátt og við alþingiskosningar. Kjörskrár skulu þó miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag og skulu liggja frammi hjá sveitarstjórnum í heila viku fyrir kjördag.
    Meiri hluti greiddra atkvæða ræður niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

3. gr.

    Á kjörseðli skal borin upp eftirfarandi spurning: „Eiga lög nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti en forseti synjaði staðfestingar, að halda gildi?“
    Á kjörseðli skulu gefnir tveir möguleikar á svari: „Já, þau eiga að halda gildi“ eða „Nei, þau eiga að falla úr gildi“.

4. gr.

    Dómsmálaráðuneytið lætur gera kjörseðla til afnota við atkvæðagreiðsluna. Kjörseðlar sem nota skal við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skulu gerðir í öðrum lit.

5. gr.

    Dómsmálaráðuneytið skal auglýsa kjördag skv. 1. gr. eigi síðar en þremur vikum fyrir atkvæðagreiðsluna. Þá skal einnig viku fyrir kjördag birta spurninguna skv. 3. gr., sem lögð verður fyrir kjósendur, með auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum. Þar skal jafnframt vakin athygli á því að lög nr. 1/2010, frumvarp til laganna og öll skjöl varðandi meðferð málsins á Alþingi séu aðgengileg á áberandi stað á vefsíðu Alþingis.

6. gr.

    Undirkjörstjórnir, yfirkjörstjórnir og landskjörstjórn eru hinar sömu og við alþingiskosningar.
    Mörk kjördæma, kjörstaðir og kjördeildir skulu vera hin sömu og í síðastliðnum alþingiskosningum.

7. gr.

    Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að kjörseðlar hafa verið fullgerðir. Um framkvæmd hennar fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um kosningar til Alþingis.

8. gr.

    Dómsmálaráðuneytið lætur yfirkjörstjórnum í té kjörseðla sem nota skal við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Yfirkjörstjórnir annast framsendingu þeirra til undirkjörstjórna með sama hætti og við alþingiskosningar.

9. gr.

    Að þjóðaratkvæðagreiðslunni lokinni senda undirkjörstjórnir oddvita yfirkjörstjórnar tafarlaust atkvæðakassana og ónotaða og ónýtta kjörseðla í þeim umbúðum er segir í lögum um kosningar til Alþingis. Á áður auglýstum stað og stund opnar yfirkjörstjórn atkvæðakassana og fer síðan fram talning atkvæða á sama hátt og segir í lögum um kosningar til Alþingis, svo og um það hvort kjörseðill telst gildur eða ekki, og um meðferð ágreiningsseðla. Landskjörstjórn skal skipa umboðsmenn til að gæta sjónarmiða andstæðra fylkinga við atkvæðagreiðsluna og úrlausn ágreiningsmála. Ekki skal meta atkvæði ógilt nema um það megi villast hvernig kjósandi greiðir atkvæði.

10. gr.

    Að lokinni talningu atkvæða sendir yfirkjörstjórn landskjörstjórn eftirrit af gerðabók sinni ásamt þeim kjörseðlum sem ágreiningur hefur verið um milli umboðsmanna og yfirkjörstjórnar. Þegar landskjörstjórn hefur fengið í hendur eftirrit gerðabóka allra yfirkjörstjórna og ágreiningsseðla auglýsir hún með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til að úrskurða um gildi ágreiningsseðlanna og lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að umboðsmönnum gefist færi á að vera viðstaddir. Að því loknu tilkynnir landskjörstjórn dómsmálaráðuneytinu um niðurstöður sínar.
    Ráðuneytið auglýsir úrslit atkvæðagreiðslunnar í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi.
    Verði lögin felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal ráðuneytið auk þess birta sérstaka auglýsingu þess efnis í A-deild Stjórnartíðinda daginn eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir.

11. gr.

    Um atkvæðagreiðsluna sjálfa, sem og undirbúning hennar, fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
    Kjörstjórnir nota sömu gerðabækur og við alþingiskosningar.
    Ákvæði 114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um þjóðaratkvæðagreiðsluna að svo miklu leyti sem við getur átt.

12. gr.

    Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 10. gr.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðargildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti en forseti Íslands synjaði staðfestingar á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar 5. janúar 2010. Þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar hefur ekki áður farið fram og hafa almenn lög ekki verið sett um slíkar atkvæðagreiðslur. Í því ljósi er frumvarp þetta lagt fram enda verður það talið æskilegt, ef ekki nauðsynlegt, að um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu gildi sett lög frá Alþingi þannig að umgjörð og framkvæmd hennar liggi ljós fyrir og sé ekki dregin í efa.

Helstu efnisatriði frumvarpsins.
1. Byggt er á reglum um forsetakosningar og kosningar til Alþingis.
    Lagt er til að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar taki, eftir því sem við á, mið af því kosningakerfi sem þegar er til í landinu. Frumvarpið byggist þannig í meginatriðum á sömu skipan og kemur fram í lögum um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, sem gera aftur ráð fyrir að um kjörið gildi lög um alþingiskosningar, að svo miklu leyti sem sérreglna er ekki þörf. Hér er m.a. litið til fordæmis sem sett var við framkvæmd síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu, um sambandsslitin við Danmörku og hina nýju lýðveldisstjórnarskrá árið 1944. Af því tilefni voru sett sérstök lög, nr. 17/1944, um tilhögun atkvæðagreiðslu um þingsályktun um niðurfelling dansk-íslenska sambandslagasamningsins frá 1918 og lýðveldisstjórnarskrá Íslands.
    Í frumvarpinu er því vísað almennum orðum til ákvæða laga um kosningar til Alþingis sem skulu þá gilda um kjörskrár, kjörstjórnir, kosningarathöfnina sjálfa, atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörstað.

2. Meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum.
    Í frumvarpinu er lagt til að meiri hluti greiddra atkvæða ráði niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Með öðrum orðum eru engin skilyrði sett um lágmarksþátttöku kjósenda eða að tiltekið hlutfall kjósenda þurfi til að ná fram niðurstöðu, enda verður ekki talið að 26. gr. stjórnarskrárinnar heimili löggjafanum að setja slík skilyrði.

3. Tilhögun og framsetning spurningar sem borin er upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga um orðalag og framsetningu þeirrar spurningar sem leggja skal fyrir kjósendur. Miðar tillagan að því að framsetningin verði skýr og afdráttarlaus og með þeim hætti að hlutlægni verði ekki dregin í efa. Er framsetning spurningarinnar í samræmi við þá tillögu sem gerð var í skýrslu starfshóps sem forsætisráðherra skipaði árið 2004 til að fjalla um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum svokölluðu staðfestingar.

4. Hverjir eru atkvæðisbærir.
    Eins og áður hefur verið lýst er gengið út frá því að reglur um atkvæðisrétt í þjóðaratkvæðagreiðslu séu þær sömu og eiga við í forsetakosningum og þar með í alþingiskosningum. Í dönskum, norskum og sænskum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur er einnig miðað við að sömu reglur gildi um atkvæðisrétt í þjóðaratkvæðagreiðslu og í almennum þingkosningum. Í ljósi þess að kosið er um lög sem Alþingi hefur samþykkt þykir eðlilegt að miða kosningarrétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni við þann rétt sem gildir í alþingiskosningum.
    Reglan um kosningarrétt við kosningar til Alþingis kemur fram í 33. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um að slíkan rétt hafi allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Þá skulu þeir einnig hafa lögheimili hér á landi, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis. Í 2. mgr. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, er nánar tilgreint að íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri og átt lögheimili hér á landi, hafi einnig kosningarrétt, annars vegar í átta ár frá því að hann flutti lögheimili af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag, og einnig eftir þann tíma, enda hafi hann sótt um það samkvæmt nánari reglum sem lýst er í 2. gr. laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að svo fljótt sem verða má og eigi síðar en fyrsta laugardag í mars 2010 skuli fara fram, í samræmi við 26. gr. stjórnarskrárinnar, almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.
    Ráðherra tekur ákvörðun um dagsetningu atkvæðagreiðslunnar að höfðu samráði við landskjörstjórn.

Um 2. gr.


    Stefnt er að því með frumvarpinu að tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslunnar fari eftir sömu reglum og gilda um kjör forseta Íslands, lögum nr. 36/1945, með síðari breytingum. Þau lög gera síðan ráð fyrir að um kjörið gildi lög um þingkosningar að svo miklu leyti sem sérreglna er ekki þörf. Var þessi háttur hafður á þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fór síðast fram árið 1944, sbr. sérstök lög, nr. 17/1944, sem sett voru af því tilefni. Mælt er fyrir um að kjörskrár skuli liggja frammi hjá sveitarstjórnum í heila viku fyrir kjördag.
    Um kosningarrétt gilda einnig sömu skilyrði og eiga við í alþingiskosningum, sbr. einnig 33. gr. stjórnarskrárinnar. Slíkan rétt hafa því allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Þá skulu þeir einnig hafa lögheimili hér á landi, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/ 2000, en nánari reglur um það er að finna í 2. mgr. 1. gr. þeirra laga. Ljóst er að skilyrði kosningarréttar eru nokkuð þrengri en í kosningum til sveitarstjórna, nr. 5/1998, en skv. 3. mgr. 2. gr. þeirra laga eiga enn fremur kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag.
    Í ljósi þess að kosið er um lög sem Alþingi hefur samþykkt þykir eðlilegt að miða kosningarrétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni við þann rétt sem gildir í alþingiskosningum.
    Um rétt til þátttöku í atkvæðagreiðslunni gilda jafnframt sömu reglur og við kosningar til Alþingis varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðslur erlendis, sbr. 59. gr. laga um kosningar til Alþingis.
    Loks er í 2. mgr. greinarinnar mælt fyrir um þá reglu að meiri hluti greiddra atkvæða ráði niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Um 3. gr.


    Hér er gerð tillaga um framsetningu og orðalag þeirrar spurningar sem borin skal upp á kjörseðli og er hún svohljóðandi:
    „Eiga lög nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti en forseti synjaði staðfestingar, að halda gildi?
               Já, þau eiga að halda gildi.
               Nei, þau eiga að falla úr gildi.“
    Miðar tillagan að því að framsetning spurningarinnar á atkvæðaseðlinum verði skýr og afdráttarlaus og með þeim hætti að hlutlægni verði ekki dregin í efa. Er framsetning spurningarinnar í samræmi við tillögu sem gerð var í skýrslu starfshóps sem forsætisráðherra skipaði árið 2004 til að fjalla um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum svokölluðu staðfestingar.

Um 4. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að dómsmálaráðuneytið láti gera kjörseðla til afnota við atkvæðagreiðsluna og að kjörseðlar sem nota skal við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skuli gerðir í öðrum lit til auðkenningar. Í þessu felst að nota skal prentaða kjörseðla við utankjörfundaratkvæðagreiðslu, sbr. einnig 7. gr., en ekki auða seðla eins og tíðkast í öðrum kosningum hér á landi. Með þessu er leitast við að tryggja að kostir kjósenda við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar séu eins skýrir og unnt er.

Um 5. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að dómsmálaráðuneytið skuli auglýsa kjördag skv. 1. gr. eigi síðar en þremur vikum fyrir atkvæðagreiðsluna. Þá skal einnig viku fyrir kjördag birta spurninguna skv. 3. gr., sem lögð verður fyrir kjósendur, með auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum. Þar skal jafnframt vakin athygli á því að lög nr. 1/2010, frumvarp til laganna og öll skjöl varðandi meðferð málsins á Alþingi séu aðgengileg á áberandi stað á vefsíðu Alþingis.

Um 6. gr.


    Hér er annars vegar lagt til í 1. mgr. að undirkjörstjórnir, yfirkjörstjórnir og landskjörstjórn séu hinar sömu og við alþingiskosningar og hins vegar í 2. mgr. að mörk kjördæma, kjörstaðir og kjördeildir skuli vera hin sömu og í síðastliðnum alþingiskosningum.
    Greinin sækir beina fyrirmynd til 1. mgr. 1. gr. og 2. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, en eins og áður hefur komið fram er stefnt að því að hafa sama hátt á í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og á við um forsetakosningar. Þegar vísað er til þess að mörk kjördæma verði hin sömu og í síðastliðnum alþingiskosningum er átt við að ákvörðun landskjörstjórnar um mörk Reykjavíkurkjördæmanna fyrir síðustu alþingiskosningar muni gilda um mörk Reykjavíkurkjördæma í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Um 7. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skuli hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að kjörseðlar hafa verið fullgerðir. Í þessu felst að nota skal prentaða kjörseðla við utankjörfundaratkvæðagreiðslu en ekki auða seðla eins og tíðkast í öðrum kosningum hér á landi. Með þessu er leitast við að tryggja að kostir kjósenda við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar séu eins skýrir og unnt er. Verða kjörseðlar sem notaðir eru utan kjörfundar prentaðir í öðrum lit og auðkenndir með þeim hætti. Um framkvæmdina fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um kosningar til Alþingis.

Um 8. gr.


    Greinin er að mestu leyti samhljóða 1. og 2. málsl. 5. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 9. gr.


    Greinin er að mestu leyti samhljóða 9. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands. Eins og í flestum öðrum atriðum er gengið út frá því að fylgt sé reglum sem gilda í alþingiskosningum varðandi talningu atkvæða, en það þýðir að yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi hefur yfirumsjón með atkvæðatalningu. Er hér hafður sami háttur á og þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um lýðveldisstjórnarskrána og sambandsslitin við Danmörku, sbr. lög nr. 17/1944, sem sett voru af því tilefni. Við meðferð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 17/1944 var m.a. tekin sérstök afstaða til þess að talning atkvæða skyldi eiga sér stað í hverju kjördæmi eins og í þingkosningum, þannig að atkvæðum yrði safnað saman í hverju einstöku kjördæmi og talin þar en ekki á öllu landinu í heild (Alþt. 1944, B deild, dálkur 912). Er í frumvarpinu lagt til að sama skipan verði viðhöfð hér.
    Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis verður kjörseðill ekki að ágreiningsseðli nema umboðsmaður framboðslista dragi í efa úrskurð yfirkjörstjórnar um gildi atkvæðisins. Þar sem slíkum umboðsmönnum verður ekki til að dreifa við þjóðaratkvæðagreiðsluna er í frumvarpinu mælt fyrir um að landskjörstjórn skipi umboðsmenn sem hafi það hlutverk að gæta sjónarmiða andstæðra fylkinga og úrlausn ágreiningsmála með sama hætti og umboðsmenn framboðslista samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.

Um 10. gr.


    Í greininni er fjallað um aðgerðir yfirkjörstjórna að lokinni talningu atkvæða. Er hér um sambærilegt ferli að ræða eins og á við í forsetakosningum, sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, að því frátöldu að landskjörstjórn hefur hér með höndum þau störf sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum.
    Þá er í 2. mgr. greinarinnar mælt fyrir um skyldu dómsmálaráðuneytisins til þess að auglýsa úrslit atkvæðagreiðslunnar í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi.
    Í 3. mgr. kemur fram sérregla um birtingu niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar skv. 26. gr. í A-deild Stjórnartíðinda verði lögin felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ljóst er að lagafrumvarp sem forseti neitar að undirrita skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar öðlast þó allt að einu gildi sem lög og glatar því ekki nema það sé fellt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ætla verður að um birtingu laga sem öðlast gildi við þessar aðstæður verði að fylgja þeim reglum sem fram koma í 27. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæðum laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005. Verði frumvarpið, eða í raun réttri lögin, því um þetta er orðalag 26. gr. stjórnarskrárinnar óskýrt, samþykkt í atkvæðagreiðslunni þarf sú niðurstaða ekki frekari auglýsingar við en þeirrar sem getið er í 2. mgr. varðandi birtingu í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi. Verði lögin á hinn bóginn felld í atkvæðagreiðslunni falla þau úr gildi. Hér er því lagt til að ráðuneytið birti sérstaka auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda strax næsta dag eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir þar sem tilkynnt er að lögin séu fallin úr gildi, verði niðurstaðan sú.

Um 11. gr.


    Í greininni er að finna almennar tilvísanir til laga um kosningar til Alþingis varðandi framkvæmd og tilhögun atkvæðagreiðslunnar að svo miklu leyti sem við getur átt, sbr. einnig 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 12. gr.


    Í greininni er fjallað um hugsanlegar kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar og meðferð þeirra og mælt fyrir um að þær skuli sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 9. gr. Er hér um sambærilegt fyrirkomulag að ræða og á við í forsetakosningum, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, að því frátöldu að landskjörstjórn hefur hér með höndum þau störf sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum. Dómstólar eiga svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reynir.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjaast lán Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðargildi laga um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. sem Alþingi samþykkti 30. desember 2009 en forseti Íslands synjaði staðfestingar á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar þann 5. janúar 2010. Þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar hefur ekki áður farið fram og almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekki verið sett.
    Frumvarpið byggist í meginatriðum á sömu skipan og kemur fram í lögum um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, sem gera aftur ráð fyrir að um kjörið gildi lög um þingkosningar, að svo miklu leyti sem sérreglna er ekki þörf. Í frumvarpinu er því vísað almennum orðum til ákvæða laga um kosningar til Alþingis sem skulu þá gilda um kjörskrár, kjörstjórnir, kosningaathöfnina sjálfa, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað og talningu atkvæða. Á nýafstöðnu haustþingi var endurflutt frá síðastliðnu sumarþingi frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur og var kostnaður ríkissjóðs í umsögn með því frumvarpi áætlaður um 160 m.kr. Við nánari skoðun hefur komið í ljós að sú áætlun var þó ekki byggð á nægjanlega nákvæmum upplýsingum. Samkvæmt bókhaldi ríkissjóðs var kostnaður við alþingiskosningarnar vorið 2009 um 230 m.kr. Ætla má að kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðsluna samkvæmt þessu frumvarpi gæti orðið ámóta og við þær þær alþingiskosningar.