Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 352. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 630  —  352. mál.
Nefndarálitvið frv. til l. um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Hjalta Zóphóníasson og Ásu Ólafsdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti, Ástráð Haraldsson og Ásmund Helgason frá landskjörstjórn, Eirík Tómasson frá Háskóla Íslands, Magnús Árna Magnússon frá félagsvísindastofnun, Þóru Ásgeirsdóttur og Þorlák Karlsson sérfræðinga í félagsvísindum.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti en forseti Íslands synjaði staðfestingar á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar 5. janúar sl.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um orðalag spurningarinnar en í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tillagan miði að því að framsetningin verði skýr og afdráttarlaus. Á fund nefndarinnar komu m.a. sérfræðingar í félagsvísindum sem bentu sérstaklega á að orðalagið gæti verið of flókið og til þess fallið að valda misskilningi. Nefndin telur að það sé afar mikilvægt að orðalagið sé skýrt. Nefndin leggur því til að spurningin í 3. gr. verði efnislega óbreytt en umorðist þannig: „Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?“
    Jafnframt er lagt til að á kjörseðli verði gefnir tveir möguleikar á svari, þ.e. „Já, þau eiga að halda gildi“ og „Nei, þau eiga að falla úr gildi“.
    Nefndin telur rétt að taka fram að spurningin þannig fram sett er í samræmi við 26. gr. stjórnarskrárinnar og lögskýringargögn, eins og fram kom í máli Eiríks Tómassonar lagaprófessors fyrir nefndinni.
    Þrátt fyrir 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins telur nefndin rétt að taka fram að rétt er að flýta þjóðaratkvæðagreiðslunni eins og kostur er.
    Nefndin ræddi einnig nokkuð um mörk kjördæma og talningu atkvæða á einum stað í stað þess fyrirkomulags sem tíðkast við Alþingiskosningar. Nefndin taldi í ljósi þess skamma fyrirvara sem hún hefur haft til umfjöllunar um málið og hversu skammt er til þjóðaratkvæðagreiðslunnar að ekki sé rétt að hreyfa við þessu fyrirkomulagi. Einnig var rætt um málskot til Hæstaréttar eins og mælt er fyrir um í lögum um forsetakosningar en nefndin taldi ekki rétt að gera breytingar á því og minnir á að allsherjarnefnd hefur til meðferðar frumvörp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem þetta verður skoðað.
    Á fundi nefndarinnar var einnig rætt um mikilvægi hlutlausrar kynningar á þjóðaratkvæðagreiðslunni og var upplýst af hálfu dómsmálaráðuneytisins að nú þegar hafa verið tekin frá tvö lén sem unnt væri að nota í því skyni.
    Nefndin telur rétt að leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Sú fyrsta varðar 2. gr. þar sem lagt er til að tekinn verði af allur vafi um að meiri hluti greiddra atkvæða á landinu öllu ræður niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Með öðrum orðum þýðir það að öll atkvæði eru jafngild, þ.e. einn maður, eitt atkvæði.
    Nefndin fjallaði einnig um ákvæði 7. gr. um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar en þar kemur fram að atkvæðagreiðsla skuli hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að kjörseðlar hafa verið fullgerðir. Nefndin telur ekki rétt að atkvæðagreiðsla sem þessi geti hafist á mismunandi tímum eftir landsvæðum og leggur því til að hún hefjist á sama tíma um land allt að undangenginni auglýsingu.
    Nefndin telur að í 9. gr. þar sem talað er um umboðsmenn andstæðra fylkinga sé réttara að tala um umboðsmenn tveggja ólíkra sjónarmiða. Þá leggur nefndin til orðalagsbreytingu í lok 9. gr. varðandi ógildingu atkvæða en orðalag frumvarpsins kann að vera villandi. Loks leggur nefndin til að verði lögin felld úr gildi samkvæmt 10. gr. skuli dómsmálaráðuneytið birta sérstaka auglýsingu þess efnis um leið og úrslit liggja fyrir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Valgerður Bjarnadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Birgitta Jónsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk álitinu.


Alþingi, 8. jan. 2010.Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Atli Gíslason.Valgerður Bjarnadóttir,


með fyrirvara.


Vigdís Hauksdóttir.


Ásmundur Einar Daðason.Ólöf Nordal.


Róbert Marshall.


Þráinn Bertelsson.