Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 174. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 645  —  174. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Það frumvarp sem hér er fjallað um hefur þann yfirlýsta tilgang að draga úr sveigjanleika og þar með hagkvæmni í sjávarútvegi. Þetta kann að vekja furðu en kom þó fram í ræðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er hann fylgdi málinu úr hlaði 13. nóvember sl. Þar vék ráðherra að því sem hann taldi ágalla í fiskveiðistjórnarkerfinu og sagði: „Hluta af ósætti þjóðarinnar má beint rekja til þeirrar stöðugu kröfu útgerða að skapað verði sem mest svigrúm og sveigjanleiki í fiskveiðistjórnarkefinu.“ Síðar í ræðunni sagði ráðherrann: „En engu að síður er það mín skoðun að of langt hafi verið gengið í ýmsum þessum efnum og næg tilefni séu til að taka skref til baka.“
    Með þessu frumvarpi má ótvírætt segja að verið sé að stíga skref afturábak, draga úr hagkvæmni, hverfa frá ýmsum úrræðum sem gerðu fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að bregðast við sveiflum í heildarafla, feta slóðina inn á fyrningarleið þótt í smáu sé og gera breytingar á vel heppnaðri línuívilnun sem kemur til með að raska stöðu beitningavélabáta og enn fremur felur frumvarpið í sér breytingar á framsali sem munu setja ýmsar einyrkjaútgerðir í uppnám.
    En síðast en ekki síst er þetta frumvarp rof á þeim griðum sem ríkisstjórnin lofaði að ríkja mundu um sjávarútveginn á meðan tóm gæfist til að fara ofan í helstu álitamálin í sjávarútvegsstefnunni. Þeirri vinnu var fundinn vettvangur í sérstakri nefnd er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði og í eiga sæti fulltrúar þingflokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þetta frumvarp hefur truflað mjög starf nefndarinnar sem hafði hafist handa við vinnu sína. Minni hlutinn telur það furðum sæta að stjórnvarfrumvarp sem lagt er fram af þeim sama ráðherra og nefndina skipaði sé þannig úr garði gert að það leggi stein götu þeirrar nefndarvinnu sem unnin er að frumkvæði ráðherrans. Ekki skal fullyrt að slíkt tiltæki sé einsdæmi, en fádæmi eru það mikil. Sérstaklega í ljósi þess að ráðherrann óskaði sjálfur sérstaklega eftir því hálfum mánuði áður en hann mælti fyrir frumvarpinu að nefndin fengi starfsfrið. Það gerði hann á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna er hann sagði: „Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessari sömu stefnu í heiðri.“
    Minni hlutinn vekur athygli á að með frumvarpinu er, gagnstætt tilgreindum orðum, komið í veg fyrir að vinnuhópurinn fái frið til verka sinna án íhlutunar ráðherrans. Allir aðrir fóru að tilmælum hans. Griðin voru bara rofin af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda hafa nánast allir umsagnaraðilar úr sjávarútvegi, þar með talin öll sjómannsamtökin, óskað eftir því að frumvarpið verði dregið til baka til þess að skapa starfsfrið í vinnuhópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ótrúlegt er að ekki skuli brugðist við þessum tilmælum með jákvæðum hætti.

Mótsagnakennd ákvæði.
    Að öðru leyti er frumvarpið afar mótsagnakennt. Þar rekur sig hvað á annars horn. Í öðru orðinu er sagt að brýnt sé að draga úr framsali aflaheimilda og gengur hluti frumvarpsins út á það. Í hinu orðinu er kveðið á um mikilvægi þess að stuðla að auknum leigukvóta og ganga breytingar frumvarpsins í þá átt.
    Ákvæði um línuívilnun hafa verið umdeild í fiskveiðistjórnarlögunum. Minni hlutinn telur óumdeilt að þau hafi skapað aukinn veiðirétt í mörgum byggðarlögum og orðið þar til að efla útgerð. Yfirlýstur tilgangur þessa fyrirkomulags hefur verið byggðalegur ávinningur, jafnframt því að stuðla að aukinni línuútgerð og atvinnusköpun í sjávarbyggðunum. Að mati þeirra sem gera út á línu hefur línuílvilnun upp á 16% verið þannig að hún hefur verið hvetjandi til línuútgerðar, en þó ekki komið í veg fyrir að menn nýttu sér beitningavélatækni hafi þeir talið það skynsamlegt. Mat þessara sömu manna er hins vegar það að hækkun prósentunnar muni stuðla að því að útgerðarmenn grípi til þess ráðs að taka vélarnar úr bátum sínum og þar með er í raun steinn lagður í götu framþróunar í sjávarútvegi. Er það væntanlega gert með hliðsjón af þeim ásetningi ráðherra að draga úr sveigjanleika og hagkvæmni í útgerð.
    Minni hlutinn vekur athygli á að frumvarpið felur ekki í sér stækkun á línuívilnunarpottinum í þorski, sem er lögbundinn. Einvörðungu er verið að opna fleirum leið að línuívilnuninni. Það sem þá verður til skiptanna verður minna fyrir hvern og einn.

Forræðishyggja.
    Þá birtist í frumvarpinu mikil forræðishyggja þar sem leitað er heimildar til handa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að stýra vinnslu á uppsjávarfiski. Hingað til hefur ekki verið talin ástæða til þess að stjórn á vinnsluþáttum einstakra fisktegunda fari fram í ráðuneytinu, heldur séu þær ákvarðanir í höndum útgerða og fiskvinnslu. Hér er vísað til d-liðar 2. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um ráðstöfun uppsjávarafla.
    Með góðu skipulagi veiðanna og miklum tækniframförum hefur tekist að stórauka manneldisvinnslu á uppsjávarfiski án þess að um það gildi einhverjar sérstakar vinnslureglur sem skrifaðar eru við ráðuneytisborð. Þannig hefur verðmætaaukningin orðið mikil á þessum sviðum, ef litið er til þess hráefnismagns sem til ráðstöfunar er. Eðlilegast er vitaskuld að ákvarðanir um vinnslu á einstökum tegundum sé í höndum þeirra sem standa fyrir rekstri í sjávarútvegi en ekki stjórnsýslunnar. Reynslan sýnir að fólki í sjávarútvegi er treystandi til þess verks. Með því að taka upp fiskveiðistjórn við makrílveiðar, líka þeim sem tíðkast við aðrar uppsjávarveiðar, er enginn vafi á því að verðmætaaukning yrði gríðarleg og hafa verið nefndar tölur allt að 6 til 8 milljarða í því sambandi. Sú veiðistjórn sem nú ríkir felur því í sér mikla sóun, sem mikilvægt er að hverfa frá. Tilskipanaverk úr ráðuneyti og stofnunum er ekki líklegt til að stuðla að slíku. Skynsamlegast er að nýta þann ramma fiskveiðistjórnarlaganna sem vel hefur gefist við uppsjávarveiðarnar og stuðlað að stóraukinni manneldisvinnslu og þar með verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu.

Ákvæði um skötusel.
    Það atriði frumvarpsins sem hvað mesta athygli vekur er ákvæðið um skötuselinn. Þetta ákvæði gerir ráð fyrir að aflaheimildir í skötusel verði auknar um 80% umfram ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunarinnar. Er þetta að sjálfsögðu gert þvert á ráðleggingar vísindamanna og þeirra sem hafa reynt að vinna okkur sess á alþjóðavettvangi sem ábyrgri auðlindanýtingarþjóð. Í ákvæðinu er einnig með beinum hætti verið að feta leið inn á braut fyrningar. Það er að vísu gert undir öðrum formerkjum, en þarna sjá áhugamenn um fyrningarleið, fordæmið sem vísa má til, eins og fram hefur komið í umræðunni.
    Þau rök sem beitt er hljóta að teljast afar hæpin svo ekki sé meira sagt. Fyrir liggur í fyrsta lagi að veiðin verði langt umfram þau mörk sem talið er ráðlegt. Ljóst er að þótt slíka tilraunastarfsemi megi viðhafa um sinn gengur það ekki til lengdar. Fyrr eða síðar verður að sveigja aflann að ráðlögðu aflamarki. Í annan stað er vísað til þess að útbreiðslusvæði skötusels hafi aukist. Það er rétt en það á einnig við um aðrar tegundir. Er það ætlunin að beita þessari aðferð gagnvart öðrum fiskstofnum þegar fram líður? Alþekkt er að útbreiðslusvæði ýsunnar hefur aukist. Síldin veiðist nú að mestu við vestanvert landið en ekki um landið austanvert. Verða þessir tveir fiskstofnar þá teknir sömu tökunum og hafin á þeim fyrning?
    Vel má koma til móts við vanda þeirra sem nú veiða skötusel, en höfðu ekki veiðireynslu er tegundin var kvótasett, með því að setja inn sérstakt meðaflaákvæði og leggur minni hlutinn það til.

Veiðiskylda – veiðiréttur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir mikilli aukningu á veiðiskyldu. Þetta er sannarlega umdeilt mál. Margir hafa talið að mikið framsal veiðiheimilda sé ein helsta meinsemd aflamarkskerfisins. Hafa samtök sjómanna og útvegsmanna farið fram á að veiðiskyldan verði aukin til þess að draga úr leiguviðskiptum með kvóta. Aðrir, þar á meðal margir smábátasjómenn, hafa varað við því að það verði gert, að minnsta kosti ekki án einhvers aðlögunartíma. Bent hefur verið á að aukin veiðiskylda og þar með talið minna framsal, dragi úr nýliðun og aðgengi minni útgerða.
    Sú leið sem minni hlutinn leggur til styðst við þær tillögur sem fram komu á sínum tíma hjá samtökum sjómanna og Landssambandi íslenskra útvegsmanna í bréfi til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þó er farið nokkuð gætilega í sakirnar og gert ráð fyrir aðlögunartíma til þess að valda ekki óbærilegri röskun hjá minni útgerðum sem hafa tiltölulega litla aflahlutdeild.
    Sérstök ástæða er til þess að vara alvarlega við áformum sem fram koma í frumvarpinu um að draga úr geymslurétti á fiskveiðiheimildum á milli fiskveiðiára. Þetta ákvæði er gríðarlega þýðingarmikið til þess að stuðla að skynsamlegri sókn, það dregur úr sóknartengdum kostnaði, gefur markaðslegan sveigjanleika og jafnar sveiflur á afla. Geymsluréttur hefur verið við lýði í kvótakerfinu frá upphafi og jafnan verið ágreiningslaus. Aukinn geymsluréttur síðustu missirin hefur hins vegar verið gagnrýndur og talið að hann dragi úr leiguframboði á kvóta. Það er þó alröng fullyrðing. En kostulegt hlýtur að teljast að í frumvarpi sem ætlað er að stemma stigu við leiguframsali á aflaheimildum sé sérstakt ákvæði um skerðingu geymsluréttar sem beinlínis er ætlað að auka leiguframsal á kvóta. Hér er augljóst að vinstri hönd stjórnarmeirihlutans veit ekki hvað sú hægri gjörir. Einu ákvæðinu í frumvarpinu er augljóslega stefnt gegn öðru.

Úthlutun á aflaheimildum í karfa.
    Þá eru bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu sem varða skiptingu úthlutunar karfaaflaheimilda í gullkarfa og djúpkarfa. Þetta er sjálfsagt mál og er niðurstaða nefndar sem vann að þessum málum. Þó er ljóst að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu mun hafa margs konar óhagræði í för með sér. Ekki er reynt að átta sig á hver sé raunveruleg veiðireynsla einstakra skipa í hvorri tegund fyrir sig. Vitað er að einkanlega minni togskipin hafa ekki neina raunverulega veiðireynslu í djúpkarfa, einfaldlega vegna þess að toggeta þeirra hefur ekki gert þeim kleyft að veiða þá tegund. Verði þetta ákvæði frumvarpsins að lögum munu þessi skip hins vegar fá úthlutun í djúpkarfa án þess að geta nýtt sér hana.
    Eðlilegt hefði því verið að freista þess að kalla fram upplýsingar um veiðireynslu skipanna í hvorri tegundinni fyrir sig og úthluta veiðiréttinum á grundvelli þessara upplýsinga. Til þess að svo megi verða þarf að vinna þetta mál betur og ítarlegar. Eðlilegt er því að fresta afgreiðslu þessa tiltekna ákvæðis og leggja í nauðsynlega vinnu til þess að varpa betra ljósi á málið.

Tillaga til frávísunar.
    Þetta frumvarp ógnar stöðugleikanum, gerir rekstrarskilyrði sjávarútvegsins verri, fetar sig inn á óútfærða fyrningarbraut, er ávísun á óábyrgar veiðar og stórskaðar markaðsstarf okkar. Á þessu þarf þjóðfélag okkar ekki að halda.
    Því leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:    Frumvarp þetta er gjörsamlega vanbúið, stefnir í ranga átt auk þess að vera illa úr garði gert og er mikill skaði þegar sjávarútvegurinn þarf mjög á stöðugleika og vissu um framtíðina að halda. Frumvarpið gerir rekstrarskilyrði sjávarútvegsins verri auk þess að vera ávísun á óábyrgar veiðar og stórskaðar það markaðsstarf sem unnið hefur verið. Samkvæmt framansögðu samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 1. febr. 2010.Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.