Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Nr. 3/138.

Þskj. 654  —  200. mál.


Þingsályktun

um náttúruverndaráætlun 2009–2013.


    Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu ellefu svæða til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Tilgangurinn er að koma upp neti verndarsvæða, byggðu á faglegum forsendum, til þess að tryggja verndun landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni, þess sem sérstætt er í náttúru landsins, fágætt eða í hættu og að friða náttúruleg landsvæði til náttúruverndar, vísindarannsókna, vöktunar og útivistar.
    Náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum.
    Eftirtalin svæði og tegundir lífvera verði á náttúruverndaráætlun 2009–2013:

I. Plöntusvæði.
     a.      Snæfjallaströnd – Kaldalón.
     b.      Eyjólfsstaðaskógur.
     c.      Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar.
     d.      Gerpissvæðið.
     e.      Steinadalur í Suðursveit (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

II. Dýrasvæði.
     a.      Undirhlíðar í Nesjum.
     b.      Tjarnir á Innri-Hálsum í Berufirði.

III. Vistgerðir á hálendinu.
    Tvær vistgerðir á hálendinu verði friðaðar, rústamýravist og breiskjuhraunavist. Verndun þeirra verði m.a. tryggð með því að friðlýsa eftirtalin svæði:
     a.      Orravatnsrústir,
     b.      stærra friðland í Þjórsárverum,
     c.      svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti (sem verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

IV. Jarðfræðisvæði.
         Langisjór og nágrenni (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

V. Tegundir plantna og dýra.
    Friðlýstar verði:
     a.      24 tegundir háplantna,
     b.      45 tegundir mosa,
     c.      90 tegundir fléttna,
     d.      þrjár tegundir hryggleysingja: tröllasmiður, tjarnarklukka og brekkubobbi.

Svæði sem eru á fyrstu náttúruverndaráætlun og unnið verður með áfram.
    Áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á fyrri náttúruverndaráætlun. Staða í undirbúningi friðlýsingar þessara svæða er mjög misjöfn, en reynt verður að friðlýsa sem flest á tímabilinu.

Samþykkt á Alþingi 2. febrúar 2010.