Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 370. máls.


Þskj. 667  —  370. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (strandveiðar).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, sem orðast svo:
    Á hverju fiskveiðiári hefur ráðherra til ráðstöfunar 6.000 lestir af óslægðum botnfiski sem nýttar skulu til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Í lögum þessum eru slíkar veiðar nefndar strandveiðar og leyfin til þeirra veiða strandveiðileyfi. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda.
    Þeim heimildum sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt þessari grein skal skipt á fjögur landsvæði. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skiptingu landsvæða og aflaheimilda á mánuði og landsvæði. Þá skal ráðherra með reglugerð stöðva strandveiðar frá hverju landsvæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers mánaðar verði náð.
    Strandveiðar eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. og einungis er heimilt að veita hverri útgerð, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Frá og með árinu 2011 er óheimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips.
    Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Strandveiðileyfi eru bundin við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfn innan þess landsvæðis. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili.
    Leyfi til strandveiða samkvæmt þessari grein eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga og laugardaga. Ráðherra er heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum.
     2.      Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess tíma er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
     3.      Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
     4.      Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
     5.      Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.
     6.      Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar.
    Þá skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Gjald skal lagt á afla í samræmi við hlutfallslega skiptingu afla eftir tegundum. Skal gjaldið nema því meðalverði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á fiskmörkuðum á þeim stað og því tímabili þegar hann barst að landi.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd strandveiða.

2. gr.

    Við 3. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Aflaheimildir skv. 6. gr. a.

3. gr.

    Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 22. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Gjald vegna strandveiða miðast við landaðan afla í strandveiðum.

4. gr.

    Við 1. mgr. 23. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjalddagi veiðigjalds vegna afla sem veiddur er við strandveiðar er 1. október.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Vorið 2009 voru fyrstu hugmyndir um svokallaðar strandveiðar kynntar. Yfirlýst markmið með heimild til strandveiða var nýting sjávarauðlindarinnar á nýjum grunni þar sem mönnum væri gert mögulegt að stunda veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Með strandveiðunum var þannig opnað fyrir takmarkaðar veiðar meðal annars þeirra aðila sem hafa yfir að ráða aflamarki eða krókaaflamarki. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið vann að nánari útfærslu og fyrirkomulagi veiðanna og var frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða lagt fram á vorþingi 2009.
    Strandveiðar hófust í lok júní 2009 eftir að Alþingi hafði samþykkt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 66/2009, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Bráðabirgðaákvæði þetta gilti aðeins til loka fiskveiðiársins 2008/2009 en boðað var að á grunni þeirrar reynslu og lærdóms sem draga mætti af strandveiðum það ár yrði reynslan af þeim metin. Var Háskólasetur Vestfjarða fengið til þess að gera úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna. Úttektin liggur nú fyrir og sýna niðurstöður hennar að nokkuð almenn ánægja hafi verið um fyrirkomulag veiða meðal þeirra sem úttektin náði til.
    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að heimild til strandveiða verði lögfest og fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum það sama og það fyrirkomulag sem komið var á með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 66/2009. Gert er ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna eða allt að 6.000 tonnum af óslægðum botnfiski. Er landinu skipti í fjögur landsvæði og gert ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um skiptingu landsvæða og þær aflaheimildir sem heimilt er að veiða á hverju landsvæði í hverjum mánuði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að heimilt verði, á tímabilinu 1. maí til 31. ágúst á hverju fiskveiðiári, heimilt að veiða allt að 6.000 lestir af óslægðum botnfiski sem ekki falli undir aflamarkskerfið eða krókaaflamarkskerfið.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að landinu skuli skipt í fjögur landsvæði. Þá er kveðið á um að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um afmörkun landsvæða og hvernig aflaheimildum er ráðstafa til þeirra. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra skipti þessum aflaheimildum á einstaka mánuði og að veiðar verði síðan stöðvaðar með reglugerð þegar tilgreindu magni er náð.
    Samkvæmt 3. mgr. er lagt til að veiðarnar verði háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Hér eftir eru þær nefndar strandveiðar og leyfin strandveiðileyfi. Strandveiðileyfin eru háð sömu skilyrðum og hin almennu leyfi til veiða í atvinnuskyni sem tilgreind eru í 5. gr. laganna. Lúta þau skilyrði að því að fiskiskip hafi haffærisskírteini, sé skráð hjá Siglingastofnun Íslands og að eigendur þess og útgerð fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Útgerð í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila, er einungis heimilt að fá leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Takmörkun þessi er sett með tilvísun til þess markmiðs að sem flestum verði gert mögulegt að stunda frjálsar veiðar með ströndinni á sjálfbæran hátt. Af þessu leiðir að ekki er gert ráð fyrir að strandveiðar séu stundaðar af aðilum sem eiga yfir mörgum skipum að ráða.
    Í frumvarpinu er lagt til að frá og með fiskveiðiárinu 2010/2011 verði skipum sem flutt hafa frá sér aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til skips, á yfirstandandi fiskveiðiári, ekki heimilt að stunda strandveiðar. Enn fremur er gert ráð fyrir að skip sem fengið hefur leyfi til strandveiða geti ekki flutt frá sér aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til skips. Í þeim tilvikum er ráð fyrir því gert að Fiskistofa stöðvi flutning aflamarks frá viðkomandi skipi. Þegar útgerð velur að flytja frá sér aflamark umfram það aflamark sem flutt er til skips þykir ekki tilefni til að veita skipi hennar rétt til strandveiða.
    Samkvæmt 4. mgr. er gert ráð fyrir að útgáfa á leyfi til strandveiða leiði til þess að önnur leyfi sem viðkomandi fiskiskip kann að hafa til veiða falli, tímabundið, niður út fiskveiðiárið. Fiskiskip getur þannig ekki stundað frjálsar handfæraveiðar á sama tíma og aðrar leyfisskyldar veiðar eru stundaðar. Þá segir í þessari málsgrein að útgefið strandveiðileyfi miðist við það landsvæði þar sem heimilisfesti útgerðar er og að skipi sé jafnframt skylt að landa öllum afla sínum innan sama landsvæðis sem leyfi þess er bundið við. Þá verði hverju skipi aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á veiðitímabilinu.
    Í 5. mgr. eru tilgreind þau skilyrði sem strandveiðileyfin eru háð. Skilyrðin miða að því að hið leyfilega veiðimagn dreifist sem mest bæði í tíma og með tilliti til landsvæða og að dregið verði úr því að of mikið kapp verði í veiðunum og meðferð afla sé sem best. Tilefni er til að árétta að ráðherra er veitt sérstök heimild til að banna strandveiðar, auk föstudaga og laugardaga, á almennum frídögum, svo sem frídegi verslunarmanna. Þá er afli hverrar veiðiferðar takmarkaður við 650 kg af kvótabundnum tegundum, í þorskígildum talið. Er þetta breyting frá fyrra ári þegar heimilt var að veiða 800 kg af kvótabundnum tegundum. Er um sambærilegt magn að ræða þar sem þorskígildi eru látin ráða. Með þessu móti er dregið úr hvata til brottkasts á öðrum tegundum en þorski.
    Í 6. mgr. er tekið fram að gjald, samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, er lagt á afla sem veiddur er umfram það hámark sem leyfilegt er að veiða í veiðiferð. Gert er ráð fyrir að afli umfram leyfilegan daglegan hámarksafla skiptist í sömu hlutföllum milli tegunda og heildarafli báts í viðkomandi veiðiferð. Skal gjaldið nema því meðalverði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á fiskmörkuðum á þeim stað og því tímabili sem hann barst að landi. Með þessu er álagning gjaldsins gerð einfaldari og hægt að framkvæma hana með skjótari hætti en annars. Loks er ákvæði sem heimilar ráðherra að setja nánari reglur um framkvæmd strandveiða.

Um 2. gr.

    Í greininni segir að aflaheimildir sem ætlaðar eru til strandveiða skulu dregnar frá leyfilegum heildarafla áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar. Fyrirkomulag þetta er nauðsynlegt til þess að tryggt sé að þær veiðiheimildir sem ráðstafað er til strandveiðanna séu dregnar frá þeim heildarafla sem ákveðinn er fyrir þær tegundir sem um ræðir á hverju fiskveiðiári.

Um 3. gr.

    Í greininni er sett sérstök regla um strandveiðar þar sem tímabil veiðanna er lögbundið fjóra mánuði á ári. Þannig er gjaldinu einungis ætlað að taka til þess afla sem veiddur er á strandveiðum.

Um 4. gr.

    Þar sem strandveiðar standa yfir einungis hluta ársins er, samkvæmt þessari grein, gert ráð fyrir að einungis verði um að ræða einn gjalddaga við innheimtu veiðigjalds í stað þriggja eins og almennt á við.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.