Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.

Þskj. 668  —  371. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Við útgáfu leyfis til strandveiða skal, auk greiðslu fyrir leyfi skv. 1. mgr., greiða 50.000 kr. í strandveiðigjald. Fiskistofa innheimtir gjaldið. Tekjum af strandveiðigjaldi skal ráðstafa til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn er við strandveiðar, hefur verið landað. Eftir lok veiðitímabils skal Fiskistofa á grundvelli aflaupplýsingakerfis Fiskistofu greiða hverri höfn sinn hlut í hlutfalli viðkomandi hafnar í heildarafla sem fenginn er við strandveiðar á því tímabili, reiknað í þorskígildum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur nú fram frumvarp til breytinga á lögum um veiðieftirlitsgjald þar sem fyrirhuguð er sérstök gjaldtaka vegna strandveiða. Þegar hefur verið lagt fram frumvarp til breytinga á lögum 116/2006, um stjórn fiskveiða, þar sem gert er ráð fyrir að heimild til svokallaðra strandveiða verði lögfest. Þar er gert ráð fyrir að fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum það sama og það fyrirkomulag sem komið var á með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 66/2009, þar sem fiskiskipum sem leyfi hafa til strandveiða er heimilað á tímabilinu 1. maí – 31. ágúst að veiða 650 kg af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, að undanskildum föstudögum og laugardögum. Afli þessi reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks fiskiskipa. Strandveiðar takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna eða allt að 6.000 tonnum af óslægðum botnfiski sem ráðherra skiptir á fjögur veiðisvæði umhverfis landið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að auk gjalds vegna almenns leyfis til strandveiða greiði útgerðir fiskiskipa, sem leyfi fá til strandveiða, sérstakt gjald að fjárhæð 50.000 kr. Verði fjöldi leyfa til strandveiða á yfirstandandi fiskveiðiári svipaður og á því síðasta, eða á bilinu 400–600 leyfi, má gera ráð fyrir að tekjur af strandveiðigjaldinu nemi um 20–30 millj. kr. Gert er ráð fyrir að tekjum þessum verði ráðstafað til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn er við strandveiðar, hefur verið landað. Fiskistofa innheimtir gjaldið og skal hún á grundvelli aflaupplýsinga greiða höfnum þeirra hlut. Hlutfall hverrar hafnar skal vera það sama og hlutfall hafnarinnar er í heildarafla sem fenginn var við strandveiðar og landað var hjá viðkomandi höfn á tímabilinu og skal aflinn reiknaður í þorskígildum. Samkvæmt skráningu Fiskistofu voru 595 leyfi til strandveiða gefin út á síðasta fiskveiðiári. Afla sem fenginn var við strandveiðar var landað á 55 höfnum. Á þeim tíma sem strandveiðar eru stundaðar þurfa starfsmenn hafnanna, sérstaklega smærri hafna, að vera viðbúnir þeirri auknu umsýslu sem fylgir strandveiðum og þykir því rétt að koma til móts við hafnir hvað þetta varðar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.