Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 374. máls.

Þskj. 674  —  374. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 78/1997, um stöðu,
stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2010 vera þannig að framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar munu lækka um 160 millj. kr. Með sama hætti skal framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs skerðast um 9 millj. kr. á árinu 2010.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Til þess að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í aðgerðaáætlun hennar í ríkisfjármálum 2009–2013 er annars vegar stefnt að aukningu tekna og hins vegar að því að draga verulega úr útgjöldum. Í því sambandi var ákveðið að hagræðingarkrafa á hendur þjóðkirkjunni skyldi vera 10% á árinu 2010. Framlag til þjóðkirkjunnar af fjárlögum byggist einkum á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, sem byggjast á samkomulagi frá 10. janúar 1997 milli dómsmálaráðherra, fjármálaráðherra og biskups Íslands um kirkjujarðir og kirkjueignir og laun til ákveðins fjölda presta og starfsmanna hjá þjóðkirkjunni, þar sem nánar er kveðið á um fjármálaleg samskipti ríkis og kirkju.
    Ljóst er að framlagi ríkisins til þjóðkirkjunnar verður ekki breytt nema með breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Einnig var talið nauðsynlegt að ríkið og þjóðkirkjan gerðu viðaukasamning við fyrrgreint samkomulag frá 10. janúar 1997 um skerðinguna á fjárframlagi ríkisins samkvæmt samkomulaginu. Var gengið frá samningi hinn 10. nóvember 2009 um tímabundna skerðingu á fjárframlögum ríkisins samkvæmt samkomulaginu frá 10. janúar 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Viðaukasamningurinn var lagður fyrir kirkjuþing sem samþykkti hann fyrir sitt leyti. Í samningnum felst að að frátöldum launa- og verðlagshækkunum, sem nema 37 millj. kr., er um 160 millj. kr. hagræðingarkröfu til þjóðkirkjunnar að ræða á árinu 2010. Þá er einnig gerð hagræðingarkrafa gagnvart Kristnisjóði um 9 millj. kr. umfram þá lækkun sem lágmarkslaun 15 prestsembætta hafa tekið. Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 60. gr. laganna, þar sem kveðið er á um launagreiðslur starfsmanna þjóðkirkjunnar, skuli skuldbinding ríkisins lækka um 160 millj. kr. á árinu 2010 og með sama hætti skuli framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs skerðast um 9 millj. kr. árinu.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/1997,
um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að framlag ríkissjóðs til þjóðkirkjunnar verði lækkað um 160 m.kr. á árinu 2010 frá því sem orðið hefði að óbreyttum lögum og jafnframt að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs verði lækkað samsvarandi um 9 m.kr.
    Framlag til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs á fjárlögum hvers árs byggist á sérstöku reiknilíkani með forsendum fyrir fjölda presta og prófasta og rekstri Biskupsstofu, ásamt spá um þróun launa og verðlags á hverjum tíma. Skilgreiningin á líkaninu byggist á samkomulagi á milli kirkjunnar og ríkisins frá 10. janúar 1997 sem staðfest hefur verið í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Vegna þeirra erfiðleika sem upp hafa komið í framhaldi af hruni bankakerfisins hefur ríkissjóður orðið að draga úr kostnaði á öllum sviðum til að mæta eins og kostur er lækkuðum tekjum og aukinni skuldsetningu þjóðarbúsins. Við gerð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2010 var sett markmið um hagræðingu í rekstri þjóðkirkjunnar eins og gagnvart öðrum aðilum sem fá fé úr ríkissjóði til sinnar starfsemi. Vegna þeirrar sérstöðu sem þjóðkirkjan býr við að um forsendur framlagsins gilda sérstök lög er nauðsynlegt að gera þessa breytingu á lögunum samhliða lækkun á fjárveitingu til hennar í fjárlögum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu framlög til þjóðkirkjunnar annars vegar og Kristnisjóðs hins vegar verða í samræmi við fjárlög ársins 2010.