Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.

Þskj. 686  —  382. mál.



Frumvarp til laga

um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um atvinnurekendur, og starfsmenn þeirra, sem reka starfsemi á innlendum vinnumarkaði, hvort sem hún er ótímabundin eða tímabundin, eða senda starfsmenn hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu innan tiltekinna atvinnugreina, sbr. 2. mgr.
    Samtök aðila vinnumarkaðarins skulu semja nánar um það í kjarasamningum sín á milli til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lög þessi taka til á hverjum tíma. Skulu þeir kjarasamningar sem og aðrir samningar sem gerðir eru milli aðila um nánari framkvæmd laga þessara gilda um alla atvinnurekendur sem starfa innan þeirra atvinnugreina á innlendum vinnumarkaði sem tilgreindar eru í samningum aðila.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið skal birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda með lista yfir þær atvinnugreinar sem lögin skulu taka til á hverjum tíma samkvæmt kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. 2. mgr.
    Með atvinnurekanda er átt við lögaðila og sjálfstætt starfandi einstaklinga.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að því að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum.

3. gr.
Vinnustaðaskírteini.

    Atvinnurekandi skal sjá til þess að hann sjálfur og starfsmenn hans, hvort sem starfsmennirnir eru ráðnir beint til atvinnurekanda á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu, fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf.
    Atvinnurekanda og starfsmönnum hans ber að hafa vinnustaðaskírteinin á sér við störf sín.
    Í vinnustaðaskírteini skal koma fram nafn og kennitala atvinnurekanda eða annað auðkenni hans og nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd af starfsmanni.
    Samtökum aðila vinnumarkaðarins er heimilt að semja um nánari útfærslu vinnustaðaskírteina í samningum sín á milli.

4. gr.
Eftirlit á vinnustöðum.

    Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kjarasamninga. Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi.
    Í eftirlitsheimsóknum skulu eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu sýna vinnustaðaskírteini skv. 3. gr. sé óskað eftir því.
    Eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skulu senda upplýsingar þær sem fram koma á vinnustaðaskírteini til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, lögreglustjóra og, þegar við á, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár þannig að unnt sé að kanna hvort atvinnurekandi eða starfsmaður starfi í samræmi við hlutaðeigandi lög sem hverri stofnun er ætlað að annast framkvæmd á.
    Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla annarra upplýsinga um starfsemina en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlitsins. Enn fremur er þeim óheimilt að veita öðrum upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila ef þeir hafa fengið upplýsingarnar vegna eftirlits síns og ástæða er til að ætla að þeim skuli haldið leyndum.
    Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins sem sinna eftirliti ber að sýna skírteini við störf sín sem samtökin gefa sameiginlega út.
    Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt þykir nauðsynlegt.
    Samtökum aðila vinnumarkaðarins er heimilt að semja nánar í samningum sín á milli um framkvæmd eftirlitsins, svo sem hvaða gögnum fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins sem sinna eftirliti skulu hafa aðgang að eða eftir atvikum fá afhent og hverjar trúnaðarskyldur eftirlitsfulltrúa þeirra skuli vera.

5. gr.
Eftirfylgni eftirlits.

    Hafi opinber stofnun sem hefur fengið upplýsingar sendar frá eftirlitsfulltrúum skv. 4. gr. rökstuddan grun um að lög þau sem stofnunin annast framkvæmd á hafi verið brotin metur hún hvort ástæða sé til að kanna málið frekar á grundvelli þeirra heimilda sem hún hefur samkvæmt þeim lögum.
    Skal hlutaðeigandi stofnun, sbr. 1. mgr., jafnframt upplýsa eftirlitsfulltrúa skv. 4. gr. um fyrirhugaða rannsókn án nánari tilgreiningar á því í hverju brotin kunni að felast enda fari slík upplýsingagjöf ekki gegn þeim lögum er stofnunin starfar eftir. Eftirlitsfulltrúum er óheimilt að láta öðrum í té þær upplýsingar þegar ástæða er til að ætla að þeim skuli haldið leyndum.
    Samtökum aðila vinnumarkaðarins er heimilt að semja nánar í samningum sín á milli um málsmeðferð í málum þar sem grunur leikur á að brotið hafi verið gegn ákvæðum hlutaðeigandi kjarasamninga aðila, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

6. gr.
Dagsektir.

    Ef eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er neitað um aðgengi að vinnustöðum atvinnurekanda skv. 1. mgr. 4. gr. eða ef atvinnurekandi eða starfsmenn hans bera ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda skv. 2. mgr. 3. gr. geta eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun getur krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Sé um ítrekað brot atvinnurekanda að ræða getur Vinnumálastofnun krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkum innan sólarhrings.
    Ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið allt að 100.000 krónum hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna atvinnurekanda og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.
    Dagsektir skulu renna í ríkissjóð.

7. gr.
Kæruheimild.

    Heimilt er að kæra til félags- og tryggingamálaráðuneytis ákvarðanir Vinnumálastofnunar skv. 6. gr. innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra telst nægilega snemma fram komin ef bréf sem hana hefur að geyma hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn.
    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar skv. 6. gr.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

8. gr.
Reglugerðarheimild.

    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara að fenginni umsögn aðila vinnumarkaðarins.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 25. júní 2009. Þar kemur meðal annars fram að „[a]ðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld taki upp virkt samstarf um eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini í samræmi við bókun ASÍ og SA frá 17. febrúar 2008. Markmiðið með slíku samstarfi er m.a. að tryggja að starfsmenn njóti umsaminna réttinda og vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum um almennt eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini.“ Í tilvitnaðri bókun frá 17. febrúar 2008 kemur meðal annars fram að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins ákveði „að vinna áfram að innleiðingu og notkun vinnustaðaskilríkja þar sem það á við og beina fyrst sjónum einkum að byggingariðnaði“. Enn fremur segir að „[f]yrirtæki get[i] tekið upp vinnustaðaskilríki á eigin forsendum þar sem nafn þeirra og auðkenni koma fram. Kröfurnar sem vinnustaðaskilríki þurfa að uppfylla er að á þau komi fram nafn, mynd og kennitala viðkomandi starfsmanna eða sjálfvirkur möguleiki á tengingu frá starfsmannanúmeri til kennitölu ef hún er ekki skráð á skilríkið.“
    Í samræmi við efni stöðugleikasáttmálans og framangreindrar bókunar er lagt til í frumvarpi þessu að tekin verði upp vinnustaðaskírteini á innlendum vinnumarkaði innan þeirra atvinnugreina sem samtök aðila vinnumarkaðarins semja um á hverjum tíma. Þannig verði styrkari stoðum rennt undir eftirlit fulltrúa samtaka aðila vinnumarkaðarins á vinnustöðum enda er markmið frumvarpsins að stuðla að því að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Það fyrirkomulag sem lagt er til með frumvarpinu byggist á þeirri viðteknu venju að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði í kjarasamningsviðræðum sín á milli. Hafa þeir samningar gilt sem lágmarkskjör hér á landi fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgreinum á svæðum þeim er samningarnir taka til, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Þannig hafa atvinnurekendur þurft að taka mið af kjarasamningum aðilanna við ákvörðun launa og annarra starfskjara þeirra sem kjósa að standa utan félaga en í fyrrnefndum lögum er sérstaklega tekið fram að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skuli ógildir. Með hliðsjón af þeirri meginreglu á íslenskum vinnumarkaði hefur enn fremur verið litið svo á að eftirlit með að kjarasamningar skuli haldnir sé einnig á ábyrgð aðilanna sjálfra. Þar af leiðandi hefur hvorki tíðkast að opinberir aðilar hafi viðhaft sérstakt eftirlit með því að atvinnurekendur haldi gerða kjarasamninga né hvort efni þeirra brjóti hugsanlega í bága við innlenda löggjöf. Verður það því að teljast eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins semji jafnframt um það í frjálsum samningaviðræðum hvernig eftirliti með launum og öðrum starfskjörum launafólks skuli háttað telji þeir sérstaka þörf á því. Er því gert ráð fyrir að frumvarp þetta feli í sér ákveðinn ramma sem ætlað er að gilda um gerð vinnustaðaskírteina og fyrrnefnt eftirlit aðila vinnumarkaðarins sem slíkt en jafnframt feli frumvarpið í sér ríkar heimildir til handa samtökum aðila vinnumarkaðarins til að semja nánar um inntak eftirlitsins, þar á meðal til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lögunum er ætlað að taka til hverju sinni. Með samtökum aðila vinnumarkaðarins er átt við heildarsamtök á vinnumarkaði en á almennum vinnumarkaði teljast Alþýðusamband Íslands sem heildarsamtök launafólks og Samtök atvinnulífsins sem heildarsamtök atvinnurekenda. Á opinberum vinnumarkaði teljast Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna sem heildarsamtök launafólks. Viðsemjendur þeirra eru fjármálaráðuneytið og launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í bókun Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 17. febrúar 2008 kemur fram að aðilarnir hafi hug á að beina sjónum fyrst að byggingariðnaði. Má jafnframt gera ráð fyrir að einnig verði samið um að ákvæði frumvarpsins eigi við um rekstur gististaða og veitingarekstur. Miðað er við að kjarasamningar þeir sem samtök aðila vinnumarkaðarins gera á grundvelli frumvarps þessa hafi sama almenna gildi og kjarasamningar almennt hafa skv. 1. og 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.
    Í frumvarpinu er lagt til að atvinnurekandi skuli sjá til þess að hann sjálfur sem og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini og er við það miðað að starfsmennirnir fái slík skírteini um leið og þeir hefja störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda hvort sem þeir eru ráðnir beint til viðkomandi atvinnurekanda á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigna. Jafnframt er mælt fyrir um að atvinnurekandi sjálfur sem og starfsmenn hans skuli bera vinnustaðaskírteinin á sér við störf á vegum atvinnurekanda. Þykir þetta mikilvægt svo unnt verði að koma á skilvirku eftirliti á vinnustöðum, meðal annars í því skyni að ganga úr skugga um með tiltölulega einföldum hætti hvort atvinnurekandi og starfsmenn hans fari að þeim lögum og kjarasamningum sem þeim ber. Enn fremur er tekið fram hvaða upplýsingar gert er ráð fyrir að komi fram í vinnustaðaskírteinunum.
    Í samræmi við markmið frumvarpsins er lagt til að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins verði veittur aðgangur að vinnustöðum atvinnurekanda í sérstökum eftirlitsheimsóknum en gert er ráð fyrir að eftirlitsfulltrúarnir sendi til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, hlutaðeigandi lögreglustjóra og, þegar við á, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár þær upplýsingar sem fram koma á vinnustaðaskírteini sem þeir meta hvort ástæða sé til að kanna frekar í eftirlitsheimsóknum sínum. Er þetta lagt til þannig að hver stofnun fyrir sig geti nýtt upplýsingarnar í því skyni að meta hvort ástæða er til að kanna frekar hvort hlutaðeigandi atvinnurekandi eða starfsmaður starfi í samræmi við þá löggjöf sem hverri stofnun er ætlað að annast framkvæmd á sem og eftirlit lögum samkvæmt. Í kjölfar þeirra upplýsinga sem gert er ráð fyrir að eftirlitsfulltrúarnir sendi fyrrnefndum stofnunum er gert ráð fyrir að viðkomandi stofnun meti hvort ástæða sé til að kanna málið frekar á grundvelli þeirra heimilda sem hún hefur samkvæmt hlutaðeigandi lögum hafi stofnunin rökstuddan grun um að lög þau sem stofnunin annast framkvæmd á hafi verið brotin.
    Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að verði eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins neitað um aðgengi að vinnustöðum atvinnurekanda í tengslum við eftirlitið eða atvinnurekandi eða starfsmenn hans bera ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda geti eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Jafnframt er gert ráð fyrir að stofnunin geti í kjölfarið krafist þess skriflega með sannanlegum hætti að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum sem gert er ráð fyrir að renni í ríkissjóð. Þá er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að kæra til félags- og tryggingamálaráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar um dagsektir innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að gildissvið laganna taki til atvinnurekenda, og starfsmanna þeirra, sem reka starfsemi á innlendum vinnumarkaði, hvort sem sú starfsemi er ótímabundin eða tímabundin. Engu síður er gert ráð fyrir að gildissvið laganna verði nánar afmarkað með kjarasamningum milli samtaka aðila vinnumarkaðarins sem skuli semja nánar um það sín á milli til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lögin taka á hverjum tíma, sbr. 2. mgr. ákvæðis þessa. Er gert ráð fyrir að í samningum milli aðila komi fram tilvísun í ÍSAT2008 að því er varðar þær atvinnugreinar sem lögunum og samningum aðila er ætlað að taka til á hverjum tíma eftir því sem tilefni er til sem og einnig til deilda og starfaflokka ÍSTARF95. Á sama hátt er lagt til að gildissvið laganna taki jafnframt til atvinnurekenda sem senda starfsmenn hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu innan þessara sömu tilteknu atvinnugreina. Af hálfu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins er í upphafi gert ráð fyrir að kjarasamningar þessara aðila á almennum vinnumarkaði takmarki gildissvið laganna við atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem vinna við byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, rekstur gististaða eða veitingarekstur samkvæmt nánari skilgreiningum byggðum á ÍSAT2008 og ÍSTARF95. Er gert ráð fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins geti samið um að samningar þeirra taki til annarra atvinnugreina verði talin þörf á því og þar með falli þær greinar innan gildissviðs laganna. Þá er lagt til að félags- og tryggingamálaráðuneytið birti auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda með lista yfir þær atvinnugreinar sem lögin taka til á hverjum tíma með vísun til gildandi kjarasamninga samtaka aðila vinnumarkaðarins um sama efni.
    Með atvinnurekanda er í frumvarpinu átt við lögaðila og sjálfstætt starfandi einstaklinga en í því sambandi er átt við hlutafélög, sameignarfélög, einkahlutafélög og hvers konar önnur félagaform sem og þá sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.

Um 2. gr.


    Markmið frumvarps þessa er að stuðla að því að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta er með þessu undirstrikað mikilvægi þess að aðilar vinnumarkaðarins annist það eftirlit með að lögum og kjarasamningum sé framfylgt á innlendum vinnumarkaði sem þeir telja nauðsynlegt að sé viðhaft hverju sinni. Með því að samþætta að ákveðnu marki eftirlit aðila vinnumarkaðarins við lögboðið eftirlit stjórnvalda með atvinnustarfsemi er því með frumvarpi þessu verið að renna styrkari stoðum undir það fyrirkomulag sem hefur tíðkast hér á landi hvað varðar fyrrnefnt eftirlit aðila vinnumarkaðarins með því að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum og reglugerðum sem og kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Á það ekki síst við í ljósi þess að reynslan hefur meðal annars sýnt að upp geta komið tilvik þar sem eftirlitsaðilar samtaka aðila vinnumarkaðarins þurfa að leita atbeina opinberra aðila til að framfylgja eftirliti sínu. Er því í frumvarpinu gert ráð fyrir að eftirlitsfulltrúar geti tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar hafi þeim verið neitað um aðgengi að vinnustöðum atvinnurekanda eða atvinnurekandi eða starfsmenn hans bera ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda. Getur Vinnumálastofnun þá krafist þess að atvinnurekandi bæti úr þeim annmörkum innan hæfilegs frests, sbr. 6. gr. frumvarps þessa. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að atvinnurekandi skuli sjá til þess að hann sjálfur sem og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini og er við það miðað að starfsmennirnir fái slík skírteini um leið og þeir hefja störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda. Gert er ráð fyrir að þetta eigi við hvort sem starfsmennirnir eru ráðnir beint til viðkomandi atvinnurekanda á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu. Jafnframt er mælt fyrir um að atvinnurekandi sjálfur sem og starfsmenn hans skuli bera vinnustaðaskírteinin á sér við störf á vegum atvinnurekanda. Þykir þetta mikilvægt svo unnt verði að koma á skilvirku eftirliti á vinnustöðum, meðal annars í því skyni að ganga úr skugga um með tiltölulega einföldum hætti hvort atvinnurekandi og starfsmenn hans fari að þeim lögum og kjarasamningum sem þeim ber.
    Enn fremur er tekið fram hvaða upplýsingar gert er ráð fyrir að komi fram í vinnustaðaskírteinunum. Er lagt til að þar komi fram nafn og kennitala atvinnurekanda eða annað auðkenni hans og nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd af starfsmanni. Með öðru auðkenni er átt við virðisaukaskattsnúmer fyrirtækis eða aðra sambærilega heimild um starfsemi fyrirtækisins. Á það sérstaklega við í þeim tilvikum þegar um er að ræða erlent fyrirtæki sem sendir starfsmenn tímabundið hingað til lands í því skyni að veita hér þjónustu tengda starfsemi fyrirtækisins en þá er gert ráð fyrir að auðkenni fyrirtækisins sé þess eðlis að það sýni fram á að fyrirtækið starfi löglega í heimaríki í viðkomandi starfsgrein samkvæmt lögum þess ríkis, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Er talið nægilegt að þessar upplýsingar komi fram á vinnustaðaskírteinum en þegar um er að ræða erlend fyrirtæki sem lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra eiga við um er gengið út frá því að eftirlitsmenn aðila vinnumarkaðarins geti þegar ástæða þykir til fengið upplýsingar hjá Vinnumálastofnun um hver sé fulltrúi fyrirtækisins hér á landi skv. 10. gr. sömu laga. Þá er lagt til að samtökum aðila vinnumarkaðarins verði gert heimilt að semja um nánari útfærslu vinnustaðaskírteina í samningum sín á milli. Er þar meðal annars vísað til þess að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins eru að þróa sérstakt skráningarkerfi þar sem tilgangurinn er að skrá vettvangsheimsóknir á vinnustaði í því skyni að skrá og sannreyna upplýsingar varðandi þá sem sæta eftirliti. Það kann því að verða nægilegt síðar meir að starfsmannanúmer komi fram í vinnustaðaskírteini sem hefur sjálfvirkan möguleika á tengingu við kennitölu starfsmanna sem og aðrar nauðsynlegar upplýsingar varðandi starfsemina.

Um 4. gr.


    Ákvæði þessu er ætlað að styrkja framkvæmd eftirlits samtaka aðila vinnumarkaðarins með því að atvinnurekendur og starfsmenn á innlendum vinnumarkaði fari að þeim lögum, reglugerðum og kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem þeim ber. Í því skyni er lagt til að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins verði veittur aðgangur að vinnustöðum atvinnurekanda í sérstökum eftirlitsheimsóknum. Gert er ráð fyrir að í eftirlitsheimsóknunum hafi eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans sem og að atvinnurekandi og starfsmenn hans sýni vinnustaðaskírteini skv. 3. gr. frumvarps þessa óski eftirlitsfulltrúarnir eftir því. Jafnframt er gert ráð fyrir að eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins sem sinna fyrrnefndu eftirliti sýni skírteini við störf sín sem samtökin gefa sameiginlega út. Þá er lagt til að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins verði heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt þykir nauðsynlegt.
    Enn fremur er lagt til að eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skuli senda upplýsingar þær sem fram koma á vinnustaðaskírteini sem þeir kanna í eftirlitsheimsóknum sínum til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, hlutaðeigandi lögreglustjóra og, þegar við á, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár. Er þetta lagt til þannig að hver stofnun fyrir sig geti nýtt upplýsingarnar í því skyni að kanna hvort hlutaðeigandi atvinnurekandi eða starfsmaður starfi í samræmi við þá löggjöf sem hverri stofnun er ætlað að annast framkvæmd á sem og eftirlit lögum samkvæmt. Er með þessu stefnt að ákveðinni samþættingu á eftirliti samtaka aðila vinnumarkaðarins við eftirlit opinberra aðila til að auka árangur eftirlitsins sem og að stuðla að ákveðinni hagræðingu.
    Gert er ráð fyrir að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins verði óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga um starfsemi hlutaðeigandi atvinnurekanda en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlitsins. Enn fremur er gert ráð fyrir að þeim sé óheimilt að veita öðrum upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila sem þeir hafa fengið vitneskju um vegna eftirlits síns sé ástæða til þess að ætla að þeim upplýsingum skuli haldið leyndum.
    Þá er lagt til að samtökum aðila vinnumarkaðarins verði heimilt að semja nánar í samningum sín á milli um framkvæmd eftirlitsins, svo sem hvaða gögnum eftirlitsfulltrúarnir skuli hafa aðgang að eða eftir atvikum fá afhent og hverjar trúnaðarskyldur eftirlitsfulltrúanna skuli vera. Þessi heimild byggist á þeirri venju að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði í frjálsum kjarasamningum. Hefur því jafnframt verið litið svo á að eftirlit með að kjarasamningar séu haldnir sé einnig á ábyrgð aðilanna sjálfra og þeir semji þá sín á milli um það með hvaða hætti eftirlit með að slíkir samningar séu virtir skuli fara fram eftir atvikum innan þess ramma er lög kunna að setja. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um 5. gr.


    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að hafi opinber stofnun sem fengið hefur upplýsingar sendar frá eftirlitsfulltrúum skv. 4. gr. frumvarps þessa rökstuddan grun um að lög þau sem stofnunin annast framkvæmd á lögum samkvæmt hafi verið brotin meti stofnunin hvort ástæða sé að kanna málið frekar á grundvelli þeirra heimilda sem hún hefur samkvæmt þeim lögum. Jafnframt er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi stofnun upplýsi eftirlitsfulltrúa skv. 4. gr. frumvarps þessa um fyrirhugaða rannsókn skv. 1. mgr. ákvæðisins án nánari tilgreiningar á því í hverju brotin kunni að felast enda fari slík upplýsingagjöf ekki í bága við þau lög sem stofnunin starfar eftir. Er hér meðal annars vísað til þeirrar ríku þagnarskyldu sem lögð er á starfsmenn skattyfirvalda á grundvelli skattalaga. Í þeim tilvikum er gert ráð fyrir að eftirlitsfulltrúunum verði óheimilt að láta öðrum í té þær upplýsingar þegar ástæða er til að ætla að þeim skuli haldið leyndum.
    Þá er í ákvæðinu lagt til að samtökum aðila vinnumarkaðarins verði heimilt að semja nánar í samningum sín á milli um málsmeðferð í málum þar sem grunur leikur á að brotið hafi verið gegn ákvæðum hlutaðeigandi kjarasamninga aðila, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við frumvarp þetta sem og athugasemda við 4. gr. frumvarps þessa.

Um 6. gr.


    Lagt er til að verði eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins neitað um aðgengi að vinnustöðum atvinnurekanda skv. 1. mgr. 4. gr. frumvarps þessa eða atvinnurekandi eða starfsmenn hans bera ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda skv. 2. mgr. 3. gr. frumvarps þessa geti eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Í því skyni að gera eftirlit samtaka aðila vinnumarkaðarins skilvirkara en ella og tryggja þar með að einstakir atvinnurekendur geti ekki komist hjá eftirlitinu með því einu að synja eftirlitsfulltrúunum um aðgengi að vinnustöðum sínum er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti í kjölfarið krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum sem gert er ráð fyrir að renni í ríkissjóð. Eðli málsins samkvæmt þarf í slíkum tilvikum að koma til kasta opinberra aðila og er lagt til að Vinnumálastofnun verði þannig fengið það hlutverk að fylgja því eftir við atvinnurekendur að þeir fari að ákvæðum frumvarps þessa gerist þess þörf.
    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun tilkynni skriflega á sannanlegan hátt um ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. ákvæðisins þeim aðila sem ákvörðunin beinist að. Er þar gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun tilkynni hlutaðeigandi aðila um ákvörðunina með ábyrgðarbréfi eða öðrum sambærilegum hætti. Lengd þess frests sem Vinnumálastofnun gefur atvinnurekanda til að bæta úr annmörkum fer eftir því í hverju hið ætlaða brot felst en hæfilegur frestur verður að jafnaði talinn fimm virkir dagar þegar útbúa þarf vinnustaðaskilríki en skemmri tími ef eftirlitsmönnum hefur til dæmis eingöngu verið synjað um aðgang að vinnustað. Þegar um ítrekað brot er að ræða kann hæfilegur frestur að vera eftir atvikum einn sólarhringur. Miðað er við að dagsektir geti numið allt að 100.000 krónum fyrir hvern dag en við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til fjölda starfsmanna hlutaðeigandi atvinnurekanda og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.

Um 7. gr.


    Lagt er til að heimilt verði að kæra til félags- og tryggingamálaráðuneytis ákvarðanir Vinnumálastofnunar skv. 6. gr. frumvarps þessa innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Gert er ráð fyrir að kæra teljist nægilega snemma fram komin ef bréf sem hana hefur að geyma hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn. Jafnframt er lagt til að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar skv. 6. gr. frumvarps þessa. Þá er lagt til að ráðuneytið skuli leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar en að öðru leyti fari um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um 8. og 9. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.


    Með frumvarpinu er lagt til að leidd verði í lög áform sem fram komu í stöðugleikasáttmálanum sem undirritaður var 25. júní 2009. Þar segir m.a. að stjórnvöld muni í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins taka upp virkt samstarf um eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini í samræmi við bókun með kjarasamningi ASÍ og SA frá 17. febrúar 2008 og einnig að ríkistjórnin muni beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum um almennt eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini.
    Megintilgangurinn með slíkri lagasetningu er að tryggja að launafólk njóti umsaminna réttinda og að þannig verði stuðlað að aukinni skilvirkni gildandi laga og reglugerða um kjarasamninga. Enn fremur er lögunum ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta.
    Samkvæmt frumvarpinu eiga samtök aðila vinnumarkaðarins, þ.e. ASÍ sem heildarsamtök launafólks á almennum vinnumarkaði og SA sem heildarsamtök atvinnurekenda, að semja um það sín á milli til hvaða atvinnugreina lögin taka. Einnig eiga þessir aðilar að sjá um alla framkvæmd útgáfu vinnustaðaskírteina og eftirlit á vinnustöðum. Atvinnurekendur eiga að sjá um að starfsmenn þeirra fái vinnustaðaskírteini.
    Kostnaðurinn sem fylgir útgáfu skírteinanna og eftirlitinu á vinnustöðum mun að öllu leyti falla á framkvæmdaraðila og tekur ríkið því ekki þátt í þeim kostnaði. Hins vegar kann eftirfylgni vegna gruns um brot á lögum að leiða til einhverrar aukningar í umsvifum hjá þeim opinberu stofnunum sem málin varða. Öll slík vinna fellur innan lögbundinna verkefna viðkomandi stofnana og er ekki gert ráð fyrir að sá eftirlitskostnaður aukist að ráði í tengslum við þetta fyrirkomulag.
    Gera má ráð fyrir að aukin skilvirkni eftirlits á vinnustöðum sem frumvarpið miðar að geti leitt til sparnaðar fyrir ríkissjóð í formi lægri útgjalda vegna atvinnuleysisbóta og hærri skatttekna vegna minni svartrar atvinnustarfssemi. Ekki liggja fyrir neinar áætlanir þar um en ekki er þó talið að um verulegar fjárhæðir verði að ræða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.