Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 301. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 687  —  301. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs.

     1.      Hverjar eru lögbundnar tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs og hvernig hefur þeim verið breytt frá og með árinu 2001?
    Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður með svokölluðu atvinnutryggingagjaldi sem er hluti tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, með síðari breytingum. Atvinnutryggingagjaldið er 3,81% af gjaldstofni tryggingagjaldsins skv. 1. mgr. 2. gr. laga um tryggingagjald, með síðari breytingum.
    Árið 2001 var atvinnutryggingagjaldið 0,8% af gjaldstofni tryggingagjaldsins. Atvinnutryggingagjaldinu var breytt með lögum nr. 90/2004, um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, þannig að hlutfall þess af gjaldstofni tryggingagjaldsins var lækkað úr 0,8% í 0,65%. Lögin tóku gildi 1. janúar 2005. Hlutfall það sem atvinnutryggingagjaldið nam af gjaldstofni tryggingagjaldsins var hækkað með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, í 2,21% en lögin tóku gildi 1. júlí 2009. Atvinnutryggingagjaldið var síðan hækkað í 3,81% af gjaldstofni tryggingagjaldsins með lögum nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, en þau lög tóku gildi 1. janúar 2010.

     2.      Hverjar hafa árlegar tekjur og útgjöld sjóðsins verið frá og með árinu 2001?
     3.      Hver hefur staða sjóðsins verið um hver áramót frá árinu 2001?
    Umbeðnar upplýsingar koma fram í eftirfarandi töflum.

Tafla 1. Tekjur og útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs 2001–2009 í millj. kr.


Ár 2001 2002 2003 2004 2005* 2006 2007 2008 2009**
Tekjur 3.443 3.689 3.692 3.978 3.524 4.370 4.796 5.670 10.500
Gjöld 1.988 3.387 4.655 4.936 3.737 2.996 3.054 5.299 26.200
Tekjuafgangur fyrir fjármunatekjur 1.455 302 -963 -958 -213 1.374 1.742 371 -15.700
Fjármunatekjur 580 538 344 379 541 864 1.317 1.831 500
Tekjuafgangur/halli ársins 2.035 840 -619 -579 328 2.238 3.059 2.202 -15.200
*Leiðrétting á höfuðstól um 100 millj.kr. til lækkunar á lokafjárlögum 2005.
** Áætlaðar tekjur í fjárlögum 2009.
Heimild: Vinnumálastofnun.

               Tafla 2. Eiginfjárstaða Atvinnuleysistryggingasjóðs í lok hvers árs 2001–2009.
Ár 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009*
Eiginfjárstaða í lok árs 8.281 9.122 8.503 7.924 8.152 10.390 13.475 15.649 449
*Áætlun í árslok 2009.
Heimild: Vinnumálastofnun.