Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.

Þskj. 694  —  386. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum (kyrrsetning eigna).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Við 113. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Með sama hætti er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum skv. 116. gr.
    Tollstjóri annast rekstur mála skv. 6. mgr. Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal tilkynna tollstjóra um mál þar sem hann telur að rannsókn hans muni leiða til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að verði gerð fésekt. Tollstjóra er heimill aðgangur að hvers konar upplýsingum og gögnum sem skattyfirvöld, fjármálastofnanir og aðrir aðilar búa yfir, sbr. 94. gr., og snerta ráðstafanir samkvæmt þessari grein. Um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fer sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu og gjöld skal ekki greiða fyrir ráðstafanirnar.
    Kyrrsetning fellur niður ef rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að verði gerð fésekt. Sá er kyrrsetning beinist að á þá heimtingu á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til tryggingar kyrrsetningunni. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef inntar eru af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og taka ákvæði þeirra jafnt til mála sem rannsókn er þegar hafin á og þeirra sem síðar eru tekin til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem ætlað er að auka við eftirlits- og fullnustuheimildir stjórnvalda, meðal annars til kyrrsetningar, var lagt fram á 137. löggjafarþingi á þingskjali 320, 166. máli. Því var vísað til 2. umræðu og efnahags- og skattanefndar þar sem það var rætt nokkuð ítarlega en var ekki afgreitt. Það er nú lagt fram að nýju með breyttu sniði þar sem tekið er mið af athugasemdum sem gerðar voru við fyrra frumvarpið við meðferð þess á þinginu.
    Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri hættu sem getur skapast, vegna þess hversu hversu langan tíma málsmeðferð mögulegra skattalagabrota tekur, að eignum sé komið undan áður en mál er fullrannsakað. Af þessum sökum er talið nauðsynlegt að veita stjórnvöldum auknar heimildir til varnar því að þeir aðilar sem málið varðar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda og mögulegra fésekta vegna skattalagabrota með því að færa eignir sínar í hendur öðrum eða með öðrum hætti koma þeim undan. Í frumvarpi þessu er að finna tillögur þess efnis, þ.e. um kyrrsetningu eigna vegna rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Jafnframt er lagt til að tollstjóri sem innheimtumaður ríkissjóðs annist rekstur þessara mála.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að heimilt verði að kyrrsetja eignir aðila sem eru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Mál er sæta rannsókn vegna gruns um brot gegn skattalögum eru oft afar vandmeðfarin og taka auk þess eðli máls samkvæmt mun lengri tíma en venjulegar skattákvarðanir. Vegna langs rannsóknartíma getur verið hætta á að eignum sé komið undan enda er skattaðilum oftast ljóst þegar við upphaf rannsóknar að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma og að lögbundnum fésektum verði beitt. Það er því mikilvægt að tryggt sé að þeir aðilar sem eru til rannsóknar geti ekki með skipulegum hætti komið eignum undan og er ákvæðinu ætlað að koma í veg fyrir það. Með ákvæðinu er greiðsla í ríkissjóð vegna yfirvofandi skattkrafna ríkisins og fésektarkrafna mun betur tryggð. Gert er ráð fyrir að heimilt sé að beita kyrrsetningu gagnvart skattaðilanum sjálfum og öðrum þeim er bera ábyrgð á skattgreiðslum hans skv. 116. gr., sem og öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi beinist að og kann þar af leiðandi að verða gert að greiða fésekt vegna refsiverðra brota.
    Ákvæðið tekur mið af 88. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem lögreglu er fengin heimild til kyrrsetningar eigna. Skv. 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fer skattrannsóknarstjóri ríkisins við rannsókn mála eftir lögum um meðferð sakamála, með takmörkunum þó. Er því nærtækt að heimild til kyrrsetningar verði fengin vegna rannsóknar mála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og kyrrsetningu beitt strax á stigi rannsóknar hjá því embætti, enda liggi fyrir mat embættisins á væntanlegri enduráætlun og sektarfjárhæð.
    Lagt er til að tollstjóri annist rekstur mála vegna kyrrsetningarkröfu að undangenginni sérstakri tilkynningu skattrannsóknarstjóra ríkisins til tollstjóra. Lagt er til að almennar reglur um kyrrsetningu fjármuna gildi um kyrrsetningu samkvæmt greininni eftir því sem við á, en þar er einkum vísað til laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þó er gert ráð fyrir að reglur um tryggingu fyrir kyrrsetningu, málshöfðun og lögboðin gjöld vegna ráðstafananna taki ekki til kyrrsetningar tollstjóra. Er það í samræmi við áðurgreint ákvæði 88. gr. laga um meðferð sakamála.
    Þá er lagt til að ráðstafanir samkvæmt greininni falli niður um leið og ljóst er að rannsókn skattrannsóknarstjóra muni ekki leiða til hækkunar á sköttum eða fésekt. Að sama skapi getur skattaðili fengið kyrrsetningarráðstafanir felldar brott með því að inna af hendi greiðslur sem kyrrsetningu er ætlað að tryggja. Er þar með sama hætti tekið mið af ákvæði 88. gr. laga um meðferð sakamála.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að heimildum frumvarpsins verði beitt vegna mála sem rannsókn er þegar hafin á til jafns við þau sem síðar verða rannsökuð hjá skattrannsóknarstjóra.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði í lög um tekjuskatt ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að skattaðilar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda með því að flytja eða færa eignir úr sinni vörslu í hendur annarra. Þannig verður skattaðila, eftir að skattrannsóknarstjóri tilkynnir um rannsókn, óheimilt að ráðstafa eignum sínum með sölu þeirra, veðsetningu eða öðrum löggerningum, til tryggingar skaðlausum efndum væntanlegrar skattkröfu.
    Tollstjóra, sem innheimtumanni ríkissjóðs, verður heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila eða öðrum þeim sem kunna að bera fésektarábyrgð til að tryggja væntanlegar skattkröfur ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni í verði. Sömu reglur gilda um kyrrsetningar samkvæmt þessu frumvarpi eins og um kyrrsetningar fjármuna almennt, með þeim undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar og ekki verða greidd gjöld fyrir ráðstafanirnar. Kyrrsetningin fellur niður ef rannsóknin leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum sem refsiábyrgð kunna að bera verði gerð fésekt.
    Óvissa er um í hvaða mæli grípa þarf til þessara úrræða á næstunni. Skattyfirvöld kunna að þurfa að taka til rannsóknar ýmis mál þar sem á þau kynni að reyna í kjölfar efnahagshrunsins. Ef um nokkurn fjölda mála af þessum toga yrði að ræða gæti þurft að fjölga starfsmönnum við innheimtuaðgerðir tollstjóra tímabundið um einn til tvo. Um er að ræða tiltölulega lítinn kostnaðarauka fyrir málaflokkinn sem gert er ráð fyrir að rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins.