Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 389. máls.

Þskj. 697  —  389. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991,
með síðari breytingum (frestur).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Nú er leitað nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um er að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda og ber þá sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta í allt að þrjá mánuði töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður að fullnægðum sömu skilyrðum verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum í allt að þrjá mánuði.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. ágúst 2010.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 23/2009 var ákveðið að fresta skyldi að ósk gerðarþola nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Með lögum nr. 108/2009, sem tóku gildi 6. nóvember 2009, var fallið frá frekari almennri frestun á nauðungarsölu fasteigna. Þess í stað var kveðið á um í ákvæði til bráðabirgða að sýslumanni bæri að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 28. febrúar 2010 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað væri nauðungarsölu skv. 6. gr. laga nr. 90/1991. Þetta var þó bundið við þá fasteign þar sem gerðarþoli héldi heimili og hefði skráð lögheimili. Þá þurfti og að vera um að ræða húsnæði sem ætlað væri til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Í þeim tilvikum þar sem ráðstöfun fasteignar, sem uppfyllti framangreind skilyrði, hafði þegar verið ákveðin við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign var mælt fyrir um að sýslumaður skyldi verða við ósk gerðarþola um frestun þeirra aðgerða fram yfir framangreint tímamark.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerðarþolar geti í þeim tilvikum þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði samkvæmt framansögðu óskað eftir því við sýslumann að töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði verði frestað í allt að þrjá mánuði. Tekur heimild þessi gildi þegar við gildistöku laganna og er miðað við að umrædda beiðni megi leggja fram allt til 31. ágúst 2010. Ber sýslumanni að verða við beiðni þar að lútandi samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Frestur á nauðungarsölu að beiðni gerðarþola hefur verið talinn nauðsynlegur svo að skuldurum væri gefinn kostur á að nýta þennan tímafrest til að leita tiltækra úrræða til að ná tökum á greiðsluvanda sínum en á síðustu missirum hafa verið sett í lög ýmis ákvæði til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum. Þar sem hin nýju úrræði hafa verið í boði í tiltölulega stuttan tíma er lagt til að þessi frestur verði enn og aftur framlengdur svo að skuldarar fái möguleika á að nýta sér þau úrræði.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum (frestur).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lögin verði bætt ákvæði til bráðabirgða um að gerðarþoli geti óskað eftir frestun á nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði í allt að þrjá mánuði frá gildistöku laganna til 31. ágúst 2010 að uppfylltum öllum sömu skilyrðum og gilt hafa um slíka fresti til þessa. Um sé að ræða fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Sama gildir um ráðstöfun slíkrar fasteignar sem þegar hefur verið ákveðin við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.