Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 401. máls.

Þskj. 714  —  401. mál.Skýrsla

Árna Páls Árnasonar félags- og tryggingamálaráðherra
um velferðarvaktina.

(Lögð fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
Inngangur

    Félags- og tryggingaráðherra skipaði í febrúar 2009 stýrihóp um velferðarvakt í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. febrúar sama ár. Stýrihópnum er ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum efnahagsástandsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu með markvissum hætti og leggja til aðgerðir í þágu heimilanna. Í upphafi voru sextán manns skipaðir í stýrihópinn en honum barst öflugur liðsauki bæði þegar heilbrigðisráðherra óskaði eftir því að landlæknir tæki sæti í hópnum og þegar formaður Jafnréttisráðs og forstjóri Vinnumálastofnunar voru einnig skipaðir í hópinn á síðastliðnu hausti. Í stýrihópnum sitja því nítján manns, þar á meðal fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, hagsmunasamtaka, sveitarfélaga, stofnana og ráðuneyta auk tveggja starfsmanna eða alls 21 einstaklingur. Fylgiskjal I hefur að geyma nöfn þeirra sem eiga sæti í stýrihópnum.
    Eitt helsta einkenni stýrihópsins hefur verið öflugt starf vinnuhópa sem fjallað hafa um eftirtalin viðfangsefni: Börn og ungmenni, ungt fólk 15–25 ára, fjármál heimilanna, þá sem standa höllum fæti og stóðu höllum fæti fyrir efnahagshrunið, heilsufar og kreppu, fólk án atvinnu, félagsvísa og grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga. Á fylgiskjali II má sjá skipurit velferðarvaktarinnar.
    Stýrihópurinn hefur sent frá sér tvær áfangaskýrslur sem finna má á vefsvæði vaktarinnar. 1 Þar er einnig að finna skýrslur vinnuhópanna, fundargerðir stýrihópsins auk margs konar fróðleiks og gagnlegra upplýsinga sem meðal annars tengjast afleiðingum kreppunnar.
    Í þessari skýrslu eru birtar tillögur stýrihópsins sem hann setti fram í mars, ágúst og nóvember 2009 og tillögur grunnþjónustuhópsins frá desember 2009. Enn fremur er í stuttu máli greint frá starfi vinnuhópanna og helstu verkefnum sem stýrihópurinn hefur ýtt úr vör. Að lokum er fjallað um starfið framundan hjá velferðarvaktinni, meðal annars við að halda til haga upplýsingum um afleiðingar efnahagsástandsins og koma þeim til skila til stjórnvalda og hagsmunaaðila.
    Þegar skýrsla þessi er lögð fram er atvinnuleysi 8% miðað við tölur Vinnumálastofnunar 2 fyrir nóvember 2009 eða rúmlega 15.000 manns. Atvinnuleysið er 8,5% hjá körlum á móti 7,3% meðal kvenna. Atvinnuleysi fór hæst í 9,1% í apríl 2009, fór niður í 7,2% í september sama ár en hefur farið vaxandi síðan, en atvinnuleysi hér á landi var innan við 2% árum saman allt til nóvember 2008. Fjöldi þeirra sem hafa verið án vinnu lengur en sex mánuði er nú um 50% allra á atvinnuleysisskrá. Enn fremur hefur þeim fjölgað verulega sem hafa verið á atvinnuleysisskrá í eitt ár eða lengur og eru nú alls 2.538. Rétt er að benda á að 18% allra atvinnulausra eru á aldrinum 16–24 ára og alls voru tæp 10.000 börn á heimilum þar sem foreldri var atvinnulaust og af þeim voru um 350 börn á heimilum þar sem báðir foreldrar voru án atvinnu í október síðastliðnum (fylgiskjal III). Velferðarvaktin hefur lagt ríka áherslu á að gæta velferðar barna og barnafjölskyldna í hvívetna og er mikilvægt að huga sérstaklega að velferð þessara barna.
    Hátt atvinnustig er forsenda þess að vel takist til við úrvinnslu erfiðleikanna sem nú blasa við og mikilvægt að stjórnvöld íhugi fjölbreyttar leiðir til að styðja við atvinnusköpun og atvinnufyrirtæki í rekstri til að vernda störf. Enn fremur er mikilvægt að allra úrræða sé beitt til að tryggja virkni ungs fólks án atvinnu með viðeigandi námstilboðum og fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum. Samhliða verður að standa vörð um grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga, gæta jafnræðis og meðalhófs við hagræðingu og koma í veg fyrir að hún leiði til aukinna útgjalda á sviðum hins opinbera. Snemma í starfi sínu ákvað velferðarvaktin að hafa eftirfarandi kjörorð:

Hreyfing, næring, svefn og félagsskapur


I. Tillögur velferðarvaktarinnar á árinu 2009


    Velferðarvaktin lagði fram tillögur til stjórnvalda í áfangaskýrslum sínum í mars og ágúst 2009. Enn fremur lagði grunnþjónustuhópur vaktarinnar fram tillögur um aðferðir við hagræðingu í skýrslu frá desember síðastliðnum og tillögur í bréfi sínu til félags- og tryggingamálaráðherra dagsettu 1. desember sama ár. Hér á eftir eru þessar tillögur birtar á ný, en margar þeirra hafa þegar komið til framkvæmda og er nánar greint frá framkvæmd þeirra tillagna sem komu í hlut velferðarvaktarinnar í II. kafla þessarar skýrslu.

I.I Tillögur stýrihóps velferðarvaktarinnar sem lagðar voru fram í mars 2009. 3
     1.      Stofnaður verði mótvægissjóður velferðarvaktarinnar og fé varið til:
             a)    nauðsynlegra velferðarrannsókna,
             b)    samræmingar verkefna á vegum þriðja geirans og samstarfsaðila,
             c)    að styðja starfsfólk sem vinnur með þeim sem verst hafa orðið úti í kreppunni,
             d)    átaksverkefna fyrir tiltekna hópa sem efnahagsástandið hefur bitnað verst á og
             e)    annarra nauðsynlegra verka.
     2.      Sérfræðingar verði fengnir til að útbúa félagsvísa/félagsbókhald þar sem fylgst verður með ástandinu með reglubundum hætti.
     3.      Tryggt verði að öll börn fái hádegisverð í skólum landsins.
     4.      Aðstæður ungra barnafjölskyldna verði kannaðar sérstaklega.
     5.      Að aðgangur barna og barnafjölskyldna að fagfólki sé tryggður og áhersla lögð á fjölskylduvinnu hjá heilsugæslu og félagsþjónustu.
     6.      Horft verði heildstætt á úrlausnir gagnvart fjárhagsvanda heimilanna og til verði eins konar úrræðakeðja sem miðar að því að:
             a)    hjálpa þeim sem eru í mestum vanda,
             b)    aðstoða þá sem eru í áhættu og eru líklegir til að lenda í vanda og
             c)    styðja við þá sem enn geta spjarað sig og gætu með einföldum aðgerðum stjórnvalda og lánveitenda minnkað greiðslubyrði sína og þannig komist í gegnum þrengingar næstu missera.
     7.      Komið verði á fót einfaldara kerfi fyrir einstaklinga í varanlegum greiðsluvanda til að semja um skuldir sínar.
     8.      Tryggt verði að versnandi fjárhagur fólks hindri ekki aðgengi þess að heilbrigðisþjónustu, að heilsugæslan hafi frumkvæði að því að ná til þjónustuþega í áhættuhópum, að þjónustustig heilsugæslunnar verði ekki skorið niður og að fylgst verði grannt með breytingum á aðsókn að heilbrigðisþjónustu.
     9.      Ungu fólki (18–25 ára) í sérstökum aðstæðum verði gert fjárhagslega kleift að stunda nám í framhaldsskóla, að framhaldsskólar taki við öllum nemendum sem sækja um skólavist og tryggt að verknámsnemar geti lokið námi.
     10.      Tryggð verði áframhaldandi námskeið ásamt náms- og starfsráðgjöf fyrir atvinnulausa með styttri menntun sem fram fer hjá fræðsluaðilum í símenntun og fullorðinsfræðslu.
     11.      Farið verði af stað með sérstök úrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk sem er að stíga fyrstu skrefin á vinnumarkaði. Höfðað verði til samfélagslegrar ábyrgðar atvinnulífsins, sérstaklega ríkis og sveitarfélaga, gagnvart því að ráða ungt fólk af atvinnuleysisskrá í afleysingar og sumarstörf.
     12.      Hugað verði að samræmdum aðgerðum sveitarfélaga, ríkis og aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að koma í veg fyrir að atvinnulaust fólk festist í bótakerfinu.
     13.      Áætlun um endurskoðun almannatrygginga verði hraðað þar sem örorkumatskerfið og fyrirkomulag örorkulífeyris verði skoðað sérstaklega. Einnig verði vinnu við endurskoðun á reglum um hámarkskostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu lokið sem fyrst.
     14.      Gott samstarf Starfsendurhæfingarsjóðs, Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins verði byggt upp.
     15.      Störf þriðja geirans verði samræmd og félagsauður nýttur með markvissum aðgerðum.
    Velferðarvaktinni var falið að fylgja eftir fjölda aðgerða sem settar voru fram í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð sem samþykkt var í mars 2009, en aðgerðirnar voru að miklu leyti byggðar á tillögum stýrihóps velferðarvaktarinnar.

I.II Tillögur stýrihóps velferðarvaktarinnar sem lagðar voru fram í ágúst 2009. 4
     1.      Stýrihópur velferðarvaktarinnar beiti sér fyrir auknu samstarfi við fjölmiðla.
     2.      Farið verði með skipulegum hætti yfir alla upplýsingamiðlun stjórnvalda í samstarfi við þriðja geirann og leiðir fundnar sem tryggja skilvirka miðlun upplýsinga um úrræði og tilboð til þeirra sem á þurfa að halda, bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur, svo og fyrir ráðgjafa jafnt innan sem utan stjórnsýslunnar. Það er mikilvægt að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir um eigin velferð, ekki síst fjármálin, og greinargóðar upplýsingar eru forsenda þess.
     3.      Þjónustustofnanir ríkis og sveitarfélaga skilgreini hvað heyri undir grunnþjónustu, forgangsraði verkefnum í samræmi við það og tryggi að sú þjónusta verði ekki skert, þar með talið í skólum, hjá heilsugæslu og félagsþjónustu.
     4.      Grunnfélagsvísar verði birtir mánaðarlega og stjórnvöld geri enn fremur samstarfssamning um gagnasöfnun við valin sveitarfélög sem endurspegla margbreytileika íslensks samfélags þar sem nánari upplýsingum verður haldið til haga.
     5.      Samstarf Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaganna verði aukið, ekki síst gagnvart ungu fólki, langtímaatvinnulausum og þeim sem eru í atvinnuleit án bótaréttar.
     6.      Kannað verði í samvinnu við Vinnumálastofnun og félagsþjónustur sveitarfélaganna hvort og með hvaða hætti megi aðstoða barnafjölskyldur þar sem báðir foreldrar eru í atvinnuleit.
     7.      Háskólafólki og þeim sem lokið hafa starfsréttindanámi verði boðin starfsþjálfunarpláss í atvinnulífinu án þess að fólkið missi bætur.
     8.      Úrræði stjórnvalda vegna greiðsluvanda heimilanna verði metin og greind með reglubundnum hætti með sérstakri áherslu á þá sem veikast standa. Úrræðin verði endurskoðuð ef þörf krefur.
     9.      Ýtt verði úr vör aðgerðum fyrir þá sem enn geta spjarað sig en hætta er á að lendi í greiðsluvanda svo koma megi í veg fyrir hópurinn sem er í greiðsluvanda stækki.
     10.      Stjórnvöld gefi út með skýrum hætti hvort frekar verði komið til móts við fólk í greiðsluvanda vegna gengistryggðra íbúðalána.
     11.      Stjórnvöld setji af stað úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda vegna bílalána í erlendri mynt.
     12.      Huga þarf sérstaklega að stöðu jaðarhópa í samfélaginu, þ.e. fatlaðra, langveikra, innflytjenda og öryrkja.

I.III Tillögur stýrihóps velferðarvaktarinnar til félags- og tryggingamálaráðherra frá 1. desember 2009, unnar upp úr niðurstöðum málstofu sem hópurinn efndi til í Virkjun í Reykjanesbæ 12. nóvember 2009 um úrræði og aðgerðir fyrir ungt fólk í atvinnuleit.
     1.      Velferðarvaktin beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, að láta ekki ungt fólk í atvinnuleit afskiptalaust og komið verði í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að það einangrist í aðgerðaleysi. Samfélaginu ber skylda til að tryggja þeim ungmennum sem eru í dag utan vinnumarkaðar og skóla tækifæri og aðhald til að þau megi öðlast þá færni sem nauðsynleg er til að vera virkur þátttakandi á vinnumarkaðnum.
     2.      Mörg ungmenni hafa ekki afmarkað áhugasvið, því verða úrræðin að vera fjölbreytt og skapa sem flestum áhugaverð tækifæri og mikilvægt er að nálgast þau út frá þeirra eigin forsendum. Jákvæð hvatning til virkni með fjölbreyttum tækifærum og sveigjanlegri nálgun gagnvart ungmennum er því mikilvæg.
     3.      Varast ber að fjalla um ungt fólk í atvinnuleit sem einn hóp. Það hefur ólíkan bakgrunn, þarfir og fjölbreytt áhugasvið. Ungt fólk á það sameiginlegt að hafa afar takmarkaða reynslu af vinnumarkaðnum. Þetta reynsluleysi er meðal þess sem greinir unga fólkið frá öðrum sem eru í atvinnuleit.
     4.      Það þarf að beita einstaklingsmiðaðri nálgun greina styrkleika þeirra, félagslega stöðu og menntun. Huga verður sérstaklega að þeim sem hafa einungis grunnskólapróf, sníða sérstök úrræði þeim til handa og fjölga menntunartækifærum, meðal annars í verklegu námi og listsköpun.
     5.      Öllum atvinnulausum ungmennum verður að standa til boða einstaklingsmiðuð ráðgjöf, í daglegu tali kallað „maður á mann“. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að samnýta alla krafta, þar með talda ráðgjafa Vinnumálastofnunar, félagsþjónustu sveitarfélaganna og þriðja geirans.
     6.      Fjölga verður ráðgjöfum Vinnumálastofnunar og styrkja þá í starfi. Enn fremur ætti foreldrum og fjölskyldum ungmenna sem eru í atvinnuleit að standa til boða sérstök fjölskylduráðgjöf, til dæmis símaráðgjöf.
     7.      Virkja verður unga fólkið sjálft á öllum stigum til samstarfs við að byggja upp og útfæra úrræðin í anda jafningjafræðslu og við að kynna þau, en öll úrræði og tækifæri sem standa ungmennum í atvinnuleit til boða verður að kynna rækilega með öllum tiltækum ráðum.
     8.      Greina verður þau úrræði sem hafa tekist vel, svo sem Fjölsmiðjuna og Nýttu kraftinn, og nota þau sem fyrirmyndir við útfærslu á tilboðum fyrir ungmenni í atvinnuleit og fjölga náms- og starfsþjálfunarsamningum Vinnumálastofnunar.
     9.      Efla þarf og styrkja samstarf ríkis, sveitarfélaga og þriðja geirans á þessum vettvangi.

I.IV Tillögur grunnþjónustuhóps velferðarvaktarinnar lagðar fram í desember 2009 5 um aðferðir við hagræðingu:
    Þegar stjórnvöld taka ákvörðun um að draga úr tiltekinni þjónustu vegna efnahagsástandsins verður að gæta að eftirfarandi:
     1.      Standa verður vörð um grunnþjónustuna og má ekki draga úr henni gagnvart viðkvæmustu hópunum.
     2.      Fullnægjandi upplýsingar verða að vera fyrir hendi um áhrif og afleiðingar ákvörðunar á notendur. Í því felst að ákvörðunina er best að taka í anda opins lýðræðis í fullu samráði við þá sem hún snertir, þar með talda notendur og þeirra samtök ef við á og eftir atvikum aðstandendur og sérfræðinga á viðkomandi sviði. Enn fremur ber að leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins þegar ákvörðunin snertir þá.
     3.      Flötum niðurskurði verður ekki beitt sem leggst af fullum þunga á notendur heldur er ákvörðun tekin um hagræðingu á afmörkuðu sviði og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum sem mildar afleiðingar niðurskurðarins.
     4.      Gæta verður jafnræðis, samræmis og meðalhófs í hvívetna og að tilteknir hópar notenda finni ekki meira en aðrir fyrir hagræðingaraðgerðum.
     5.      Hagræðing og sparnaður á einum stað má ekki leiða til aukinna útgjalda og álags á öðrum sviðum hins opinbera. Sérstaklega þarf að gæta að því að útgjaldaliðir séu ekki færðir milli ríkis og sveitarfélaga án þess að gerðar séu um leið breytingar á tekjustofnum.
     6.      Þegar ákvörðun um hagræðingu er birt skal tekið fram hvort um sé að ræða tímabundna ráðstöfun og þá til hve langs tíma eða varanlega ákvörðun. Allar neyðaraðgerðir sem gripið er til á erfiðum tímum þurfa að vera þess eðlis að unnt sé að leiðrétta þær aftur þegar betur árar, án þess að skaði hafi orðið af.
     7.      Við hagræðingu í skólastarfi verði lögð áhersla á að fá nærsamfélagið til samstarfs, ekki síst foreldra og þriðja geirann.

II. Helstu verkefni velferðarvaktarinnar


    Velferðarvaktinni var falið að fylgja eftir fjölda aðgerða sem settar voru fram í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð sem samþykkt var í mars 2009, en aðgerðirnar voru að miklu leyti byggðar á tillögum stýrihóps velferðarvaktarinnar. Hér á eftir verður gerð grein fyrir þessum aðgerðum auk ýmissa annarra aðgerða sem velferðarvaktin hefur staðið að á undanförnum misserum.

Mótvægissjóður velferðarvaktarinnar
    Mótvægissjóður velferðarvaktarinnar var stofnaður og reglur um settar um hann síðastliðið sumar. Reglurnar er að finna á vefsvæði velferðarvaktarinnar. 6 Auglýst verður eftir umsóknum í sjóðinn innan skamms, en hluta sjóðsins er varið til sérstakra verkefna á vegum velferðarvaktarinnar, svo sem a) vegna samræmingar verkefna á vegum þriðja geirans, b) til greiðslu sérfræðivinnu við gerð félagsvísa og c) til greiðslu starfsmanns við þróunarverkefni við úrræði fyrir ungt fólk án atvinnu.

Ríkisstofnanir og sveitarfélög hvött til að nýta sér vinnumarkaðsaðgerðir Vinnumálastofnunar
    Velferðarvaktin sendi öllum ríkisstofnunum og sveitarfélögum bréf á síðastliðnu vori með hvatningu um að þau nýti sér þær fjölmörgu vinnumarkaðsaðgerðir sem starfræktar eru á vegum Vinnumálastofnunar, meðal annars gerð starfsþjálfunarsamninga.

Könnun á félagsþjónustu og barnavernd sveitarfélaganna í mars 2009
    Velferðarvaktin kannaði í mars síðastliðnum hvort og með hvaða hætti félagsþjónustur sveitarfélaganna hefðu orðið varar við afleiðingar efnahagskreppunnar. 7 Svör bárust frá 25 félagsmálastjórum sem starfa fyrir 42 sveitarfélög en í þeim búa 92% landsmanna. Nánast allar félagsþjónusturnar höfðu fundið beint fyrir kreppunni í starfsemi sinni og var fjölgun umsókna um fjárhagsaðstoð og beiðna um félagslega ráðgjöf oftast nefnd, aukið álag í barnavernd var einnig áberandi. Margir félagsmálastjórar nefndu nýjan hóp notenda í miklum kröggum sem á ekki rétt á fjárhagsaðstoð, málin séu þyngri en áður og þeir sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu standi enn verr í kreppunni. Að mati félagsmálastjóranna eru viðkvæmustu fjölskyldurnar ungar barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og lágtekjufólk, þar með taldir lífeyrisþegar og langtímaatvinnulausir. Sveitarfélögin hafa brugðist við með fjölbreyttum hætti, meðal annars með auknu samstarfi milli sviða innan sveitarfélaga, milli sveitarfélags og ríkisstofnana og með eflingu samvinnu við þriðja geirann.

Gerð félagsvísa
    Unnið er að gerð félagsvísa í sérstökum sérfræðingahópi á vegum velferðarvaktarinnar. Starfsmaður hefur verið ráðinn í fullt starf í sex mánuði til að vinna með félagsvísahópnum. Félagsvísar eiga að greina þróun velferðar að teknu tilliti til félagslegra aðstæðna og heilsufars íbúa í landinu í ljósi þjóðfélagsaðstæðna og fyrirkomulags þjónustu og gera samanburð mögulegan, milli landa, tímabila og sveitarfélaga. Félagsvísar eiga að styðja við stefnumótun stjórnvalda og þróun þjónustu til framtíðar. Ekki síst eru þeir tæki sem greina hópa í vanda þar sem samfélagslegar aðgerðir og þjónusta skila ekki tilætluðum árangri. Í stöðuskýrslu félagsvísahópsins frá síðastliðnu sumri er að finna nánari útfærslu á þessu verkefni. 8

Öll börn fái hádegisverð í skólum
    Velferðarvaktin sendi öllum sveitarstjórnum og skólanefndum áskorun í upphafi vetrar 2009 um að tryggt verði með öllum tiltækum ráðum og fylgst með að börn í skólum á þeirra vegum fái hádegisverð alla skóladaga. Bréfið var sent í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga til að tryggja þetta (fylgiskjal IV).

Skuldastaða heimilanna
    Vinnuhópur um fjármál heimilanna fór sérstaklega yfir úrræði vegna skuldastöðu heimilanna og er gerð grein fyrir þeim í stöðuskýrslu hópsins frá ágúst 2009. 9 Vinnuhópurinn stóð enn fremur fyrir opnum morgunverðarfundi 11. nóvember síðastliðinn þar sem fjallað var un aðgerðir stjórnvalda við skuldavanda heimilanna, um greiðslujöfnun verðtryggðra og gengistryggðra lána og um samræmdar verklagsreglur Íbúðalánasjóðs. Hagsmunasamtök heimilanna kynntu einnig sjónarmið sín á málþinginu. Gögn frá fundinum er að finna á vefslóð vaktarinnar. 10

Rannsókn á fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda
    Velferðarvaktin gerði samning við Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd um rannsókn á fjölgun barnaverndartilkynninga milli áranna 2008 og 2009 miðað við fyrri hluta árs og skýringum á fjölguninni. Rannsóknin tók í reynd yfir lengra tímabil út frá tölulegum upplýsingum í gögnum Barnaverndarstofu og tók mið af fyrstu sex mánuðum áranna 2005–2009. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem birtar voru í nóvember 2009, er að finna á vefslóð velferðarvaktarinnar. 11 Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru eftirfarandi:
     *      Á landinu öllu hefur tilkynningum til barnaverndar á árunum 2005–2009 fjölgað um 20–32% á fyrstu sex mánuðum hvers árs, nema árið 2008 en þá fækkaði þeim.
     *      Sú fjölgun sem varð á tilkynningum til barnaverndarnefnda fyrri hluta árs 2009 er því sambærileg við fjölgun á undanförnum árum, að frátöldu árinu 2008.
     *      Ekkert í gögnum bendir til að fjölgun tilkynninga fyrri hluta árs 2009 sé afleiðing efnahagsþrenginga eða aukins atvinnuleysis í kjölfar efnahagskreppunnar. Svo virðist sem ástæður hennar séu þær sömu og aukningar undanfarinna ára.
     *      Samkvæmt sískráningu er ekki að sjá meginbreytingar milli ára á eðli þess vanda sem tilkynntur er eða hverjir það eru sem tilkynna til barnaverndar á fyrstu sex mánuðum áranna 2005–2009.
    Bent er á að með þessu sé tilgátunni um að afleiðingar efnahagsástandsins hafi eða muni hafa áhrif á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda ekki hafnað. Þær afleiðingar geta komið fram síðar og er vísað til reynslu Finna sem bendir til að áhrif efnahagsþrenginganna komi ekki fram fyrr er að fimm til sjö árum liðnum og birtist í fjölgun barna sem þurfa á aðstoð barnaverndar að halda.

Grunnþjónusta ríkis og sveitarfélaga
    Velferðarvaktinni var falið í tengslum framfylgd stöðugleikasáttmálans frá 25. júní 2009 „að leita leiða í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins til að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélaga“. Var þessi ákvörðun tekin á fundi aðila 8. júlí 2009. Stýrihópur velferðarvaktarinnar myndaði sérstakan grunnþjónustuhóp til að taka að sér þetta verkefni og félags- og tryggingamálaráðherra studdi það sjónarmið stýrihópsins að grunnþjónustuhópurinn fjallaði einnig um grunnþjónustu ríkisins. Í hópnum sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, hagsmunasamtaka, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyta.
    Í greinargerð grunnþjónustuhópsins frá desember 2009 12 er meðal annars lögð áhersla á að stjórnvöld nýti sem best aðstæðurnar sem skapast hafa vegna efnahagsástandsins og hagræði á sem flestum sviðum innan stjórnsýslunnar en standi samhliða vörð um velferðarkerfið. Velferðarvaktin hefur í öllu sínu starfi brýnt fyrir stjórnvöldum að þjónustu við börn og barnafjölskyldur verði hlíft við niðurskurði og minnir hópurinn á að glötuð tækifæri í æsku verða ekki bætt síðar á lífsleiðinni.
     Grunnþjónusta er nýtt hugtak í stjórnsýslunni sem mikið hefur verið vitnað til í umræðu um hagræðingu og niðurskurð á undanförnum misserum. Einhugur er almennt um að leitast við að vernda grunnþjónustuna en flóknara er að komast að niðurstöðu um hvað felist í hugtakinu, en nauðsynlegt er að greina milli grunnþjónustu og annarrar þjónustu. Hópurinn komst að eftirfarandi niðurstöðu varðandi skilgreiningu á grunnþjónustu:
     Grunnþjónusta er í fyrsta lagi lögbundin þjónusta, í öðru lagi tiltekið þjónustustig lögbundinnar þjónustu, sem hefð hefur skapast um að einstaklingum og fjölskyldum standi til boða þrátt fyrir að þjónustustigið sé ekki lögbundið, en telja verður nauðsynlega þjónustu, og í þriðja lagi ólögbundin þjónusta sem einstaklingar með sérþarfir vegna fötlunar eða heilsubrests þurfa á að halda við athafnir daglegs lífs og til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.
    Í II. kafla hér að framan er að finna tillögur grunnþjónustuhópsins um aðferðir við hagræðingu innan stjórnsýslunnar vegna efnahagsástandsins.

Tilraunaverkefni um samnýtingu krafta í þágu atvinnulausra ungmenna
    Velferðarvaktin hefur ýtt úr vör tilraunaverkefni með það að markmiði að nýta betur en nú er gert alla tiltæka krafta, hvort sem um er að ræða þekkingu, mannafla eða aðstöðu til að sporna við félagslega neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis á ungt fólk í Reykjavík. Samráðshópur hefur verið stofnaður með fulltrúum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar og stýrihóps velferðarvaktarinnar. Er þetta samstarf meðal annars í samræmi við áherslu velferðarvaktarinnar á aukið samstarf milli félagsþjónustu sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Starfsmaður hefur verið ráðinn í hálft starf í sex mánuði til að vinna að þessu verki með samráðshópnum.

Úrræði fyrir ungt fólk í atvinnuleit og ályktun til félagsog tryggingamálaráðherra
    Velferðarvaktin hélt málstofu um úrræði fyrir ungt fólk án atvinnu í Virkjun í Reykjanesbæ 12. nóvember 2009. Voru nýjustu atvinnuleysistölurnar kynntar, fjallað var um niðurstöður rýnihópa um ungt fólk án atvinnu og um virkni atvinnuleitenda, einkum ungs fólks. Í framhaldi var hópastarf þar sem fjallað var um skilyrðingu bóta, hverjar séu óskir ungra atvinnuleitenda, hvaða úrræði virka, hvernig best megi koma upplýsingum til unga fólksins og hvort ungt fólk án atvinnu þurfi önnur úrræði en eldra fólk. Unnar voru niðurstöður úr hópavinnunni og félags- og tryggingamálaráðherra afhent ályktun um úrræði og aðgerðir fyrir ungt fólk án atvinnu. 13 Vinnuhóparnir um ungt fólk 15–25 ára og fólk án atvinnu höfðu umsjón með málstofunni í samvinnu við félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Tveir fulltrúar velferðarvaktarinnar tóku þátt í starfi vinnuhóps á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis um aðgerðir til að virkja atvinnulausa, um nám sem þeim stendur til boða og úrbætur þeim til handa. Hópurinn sendi frá sér skýrslu undir heitinu Ungt fólk án atvinnu – virkni þess og menntun. 14
    Geta má þess að ýtt hefur verið úr vör átaki í uppbyggingu fjölbreyttra tækifæra fyrir ungt fólk án atvinnu. Vinnumálastofnun mun stýra átakinu sem hefur það markmið að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því einstaklingur verður atvinnulaus þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verkefnum. Fyrst mun sjónum beint að þeim sem eru yngri en 25 ára. 15

Fylgst með breytingum á aðsókn að heilbrigðisþjónustu og eftirlit með þjónustunni
    Velferðarvaktin fylgist reglulega með því hvort breytingar verða á aðsókn að heilbrigðisþjónustu í gegnum landlækni sem er í stýrihópi vaktarinnar. Landlæknisembættið, fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins, fylgist með lykiltölum í notkun á heilbrigðisþjónustu, svo sem aðsókn að ýmsum þáttum þjónustunnar, dánartölum og þá sérstaklega um sjálfsvíg og lyfjanotkun, einkum notkun geðlyfja og lyfja sem sjúklingur þarf að greiða sjálfur. Enn sem komið er hafa engar breytingar orðið sem tengjast kreppunni. Landlæknir og heilbrigðisráðuneytið hafa fundað með sérfræðiteymi um félagsvísa, sem fjallað er um framar í þessari skýrslu, og munu teymið og landlæknir hafa samráð um gagnaöflun hvað þetta varðar. Í greinargerð landlæknis um eftirlit með heilbrigðisþjónustu má sjá áherslur embættisins vegna efnahagsþrenginganna. 16 Landlæknir kom á fund grunnþjónustuhóps velferðarvaktarinnar 9. nóvember 2009 og greindi frá hagræðingaraðgerðum heilbrigðisstofnana. Helstu aðgerðirnar eru eftirfarandi:
     Leitast hefur verið við að draga úr kostnaði vegna samninga við starfsfólk. Ýmsar fastar greiðslur er varða yfirvinnu, akstur og viðlíka samninga hafa verið lagðar af eða skertar. Vaktafyrirkomulag hefur verið endurskoðað. Einkum með því að skera niður vaktir sem talið er að bitni ekki á öryggi þjónustunnar. Einnig er verið að lengja vaktir sem krefjast færri starfsmanna eins og næturvaktir. Ekki er ráðið í afleysingar nema brýn nauðsyn krefji. Starfsfólki hefur verið sagt upp eða starfshlutfall minnkað. Dregið hefur verið úr kostnaði við tækjabúnað, lyf, hjúkrunarvörur og annan rekstrarkostnað. Lögð hafa verið drög að sameiningu stofnana eða deilda/sviða innan stofnana. Tilhögun þjónustu eins og sjúkraflutninga hefur verið breytt. Stofnanir hafa dregið úr stoðog sérfræðiþjónustu. (Úr bréfi landlæknis til heilbrigðisráðherra, dags. 25. september 2009.)
    Landlæknisembættið leggur áherslu á að gætt sé að öryggisviðmiðum varðandi umönnun. Einnig er áhersla lögð á að horfa á heilbrigðisþjónustuna heildrænt þegar ákvarðanir eru teknar um niðurskurð þannig að aðgerðir einnar stofnunar leiði ekki til aukins álags á aðrar stofnanir eða þjónustu. Þá leggur embættið áherslu á skipulega forgangsröðun svo nauðsynleg þjónusta verði ekki skert með ófyrirséðum kostnaði þegar efnahagsástandið batnar.
    Stýrihópur velferðarvaktarinnar fékk Engilbert Sigurðsson, formann nefndar um sálfélagsleg viðbrögð við efnahagskreppunni og yfirlækni á Landspítala, á fund sinn til að kynna niðurstöður nefndarinnar sem birtar voru í skýrslu sumarið 2009. Þar er meðal annars bent að hinn mikli niðurskurður í finnska félags- og heilbrigðiskerfinu hafi bitnað illa á börnum og ungu fólki og leitt til fjölgunar öryrkja meðal ungs fólks. 17

Yfirlit um þróun húsaleigubóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna 2008 og 2009
    Velferðarvaktin kannaði greiðslur vegna fjárhagsaðstoðar hjá fjölmennustu sveitarfélögunum á árunum 2008 og 2009. Enn fremur var gerð töluleg úttekt á almennum húsaleigubótum sveitarfélaganna. Niðurstöður sýna að greiðslur bæði vegna fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta hafa vaxið verulega milli ára og notendum fjölgað.
    Heildarfjárhæð almennra húsaleigubóta hefur haldist nokkuð stöðug árin 2005–2007, en milli áranna 2007 og 2008 hækkaði heildargreiðslan um 37% og aftur um 47% milli 2008 og 2009 sé mið tekið af fyrstu þremur ársfjórðungunum samkvæmt tölum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga (fylgiskjal VI). Samtals nam heildarfjárhæð almennra húsaleigubóta á fyrstu níu mánuðunum 1.539.253 þúsund krónum árið 2008 og 2.262.817 þúsund krónum árið 2009. Notendum fjölgaði um 30% á sama tímabili, en meðaltal þeirra var 6.490 árið 2008 en þeir voru orðnir 8.445 árið 2009. Grunnfjárhæð húsaleigubóta hækkaði 1. apríl 2008 sem einnig hefur áhrif á hækkun heildarfjárhæðarinnar.
    Heildarfjárhæð fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna hækkaði umtalsvert milli áranna 2008 og 2009 eða um 65% á fyrstu átta mánuðum áranna hjá fjölmennustu sveitarfélögunum og notendum fjölgaði um 35% á sama tímabili meðan íbúum fjölgaði óverulega (fylgiskjal V). Grunnfjárhæðin sem miðað er við hækkaði 1. janúar 2009 sem skýrir hækkunina að hluta. Fjárhagsaðstoð er greidd einstaklingum sem hafa tekjur eða bætur sem nema lægri fjárhæð en grunnfjárhæð til framfærslu samkvæmt viðmiði viðkomandi sveitarfélags. Nam grunnfjárhæðin til einstaklinga á síðastliðnu ári um 116.000 kr. á mánuði og 185.000 kr. til hjóna eða sambýlisfólks sem er tekjulaust. Í reglum flestra sveitarfélaga eru einnig möguleikar á að greiða sérstakar heimildargreiðslur. Grunnfjárhæðin mun hækka í 126.000 kr. fyrir einstakling og 201.000 kr. til hjóna eða sambýlisfólks í janúar 2010, sbr. leiðbeiningar félags- og tryggingamálaráðuneytis. 18
    Velferðarsvið Reykjavíkurborgar er að undirbúa átak til að virkja fólk sem fær fjárhagsaðstoð, enn betur en nú er gert, í samræmi við tillögur sem samþykktar voru í velferðarráði borgarinnar í desember 2009. Gert er ráð fyrir að fimm nýir starfsmenn/virkniráðgjafar verði ráðnir sem munu starfa á þjónustumiðstöðvum borgarinnar

Fylgst með skólastarfi
    Fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis í stýrihópi velferðarvaktarinnar hefur miðlað upplýsingum um stöðu skólanna í ljósi efnahagsástandsins. Ráðuneytið hefur gripið til ýmissa aðgerða frá því í október 2008 vegna ástandsins. Send hafa verið út tilmæli og leiðbeiningar til skóla, stofnana og samtaka og kerfisbundin upplýsingaöflun velferðavísa stendur yfir. Einnig hefur reglum verið breytt og leitað eftir tillögum og hugmyndum um frekari aðgerðir. Innan ráðuneytisins starfar sérstakur velferðarhópur sem hefur það hlutverk að fylgjast með áhrifum efnahagsástandsins á starfsemi stofnana ráðuneytisins, fyrst og fremst líðan nemenda og starfsmanna.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur, í samráði við Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og íþróttafélög, fylgst með skólastarfi, þar á meðal þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi sem og brottfalli nemenda úr leikskólum og framhaldsskólum. Sérstakir spurningalistar um virkni og líðan nemenda og þátttakenda hafa verið sendir til framhaldsskóla og íþrótta- og æskulýðssamtaka og niðurstöður kynntar velferðarvaktinni.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur frá upphafi tekið þátt í samráðshópi með Fræðslumiðstöð atvinnulífsins auk fulltrúa Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka iðnaðarins, Iðunnar og Vinnumálastofnunar. Hópurinn vaktar breytingar á vinnumarkaði og metur möguleikana til að bregðast við þróuninni, athugar jafnframt hvar og hvernig megi beita þeim úrræðum sem þegar eru tiltæk, gerir tillögur um úrræði fyrir einstaka hópa og breytingar á forgangsröðun verkefna sem leitt geta til góðs. Menntamálaráðuneytið og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins komust í tengslum við vinnu hópsins að samkomulagi um endurskilgreiningu á forgangsröðun verkefna samkvæmt samningi ráðuneytisins og miðstöðvarinnar þar sem sérstök áhersla var lögð á ráðgjöf og námsframboð fyrir fólk sem misst hefur vinnuna. Samtals var 65 m.kr. ráðstafað árið 2009 til þessa verkefnis. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur aflað upplýsinga frá símenntunarmiðstöðvum um allt land og fylgst er með þróun mála vegna vinnu hópsins og brugðist meðal annars við með endurskilgreiningu á forgangsröðun verkefna eftir því sem ástæða þykir til.
    Úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna var breytt í byrjun september 2009 til að hækka grunnframfærslu sjóðsins um 20%, samhliða ýmsum aðgerðum til að tryggja sparnað í námslánakerfinu og atvinnuleysistryggingakerfinu sem þessari hækkun svarar.
    Hjá Reykjavíkurborg hafa þeir sem vinna með börnum og unglingum tekið höndum saman undir yfirskriftinni Börnin í borginni og stofnað teymi sem hefur fengið það hlutverk að:
    a)    fylgjast með líðan barna og starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi á vegum Reykjavíkurborgar,
    b)    leita leiða til að minnka og hafa áhrif á vanlíðan vegna álags og streitu,
    c)    fylgjast með tölulegum upplýsingum sem gefa vísbendingar um breytta fjárhagsstöðu heimilanna og
    d)    stuðla að samvinnu þeirra aðila sem koma að málefnum barna og unglinga í borginni.
    Í teyminu sitja fulltrúar Menntasviðs, Leikskólasviðs, Velferðarsviðs, Íþrótta- og tómstundasviðs, Mannréttindaskrifstofu og Menningar- og ferðamálasviðs. Auk þeirra eru fulltrúar skólastjóra, kennara og foreldra í teyminu. 19
    Í greinargerð grunnþjónustuhóps velferðarvaktarinnar má sjá upplýsingar um hagræðingu sveitarfélaganna í skólamálum. 20

Staða þeirra sem veikast standa
    Velferðarvaktin hefur lagt áherslu á að standa vörð um réttindi þeirra sem veikast standa. Meðal þeirra eru viðkvæmar barnafjölskyldur, fatlaðir, langveikir, öryrkjar, fátækt aldrað fólk, fólk án átvinnu og þeir sem nota fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna til framfærslu. Flest þeirra sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu standa enn verr í dag. Tekjur þeirra sem hafa úr minnstu að spila eftir skatt liggja á bilinu 115–155.000 kr. á mánuði fyrir einstakling (fylgiskjal VII). Langvarandi efnahagslægð og takmörkuð tækifæri til að auka tekjur leiða til varanlegs vanda hjá þessum fjölskyldum sem birtist í varanlegri fátækt, félagslegri einangrun og litlu sjálfstrausti.
    Tengsl eru milli heilsufars og efnahags og getur fátækt leitt til varanlegs heilsubrests og þunglyndis sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar, jafnt fyrir þann sem veikist, aðstandendur og samfélagið í heild. Í því samhengi er mikilvægt að vinna af krafti að eflingu félags- og efnahagslegra þátta sem hafa áhrif á heilsu barna og ungs fólks til að forðast ójöfnuð í heilsu. Á sömu forsendum er mikilvægt að huga áfram að markvissri heilsueflingu og forvarnaraðgerðum meðal barna og ungs fólks. Sjá má nánari upplýsingar um sálfélagsleg viðbrögð við efnahagskreppunni í skýrslu nefndar á vegum heilbrigðisráðuneytis. 21

Staða sveitarfélaganna
    Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í stýrihópi velferðarvaktarinnar upplýsir vaktina reglulega um hagræðingaraðgerðir í sveitarfélögunum. Nánari upplýsingar um þessar aðgerðir má finna á heimasíðu sambandsins. 22 Aðgerðir sveitarfélaganna hafa meðal annars beinst að auknu samstarfi við þriðja geirann og meira samráði og samstarfi milli sveitarfélaganna innbyrðis. Í greinargerð grunnþjónustuhópsins sem vitnað er til hér að framan má einnig sjá nánari umfjöllun um hagræðingaraðgerðir sveitarfélaganna.

III. Starfsemi vinnuhópanna


    Fyrstu sex vinnuhóparnir tóku til starfa í marsmánuði 2009, skömmu eftir að stýrihópurinn var skipaður og hafa ríflega 100 manns tekið þátt í starfi þeirra eða lagt þeim lið með einum eða öðrum hætti. 23 Þessir hópar eru: Barnahópur, hópur ungt fólk 15–25 ára, hópur um fjármál heimilanna, hópur um fólk án atvinnu, hópur um heilsugæslu og hópur um fjármál heimilanna. Formenn hópanna koma allir úr röðum stýrihóps velferðarvaktarinnar og aðrir fulltrúar í hópunum hafa sérþekkingu á viðkomandi sviði og koma víða að úr samfélaginu. Fyrstu hóparnir störfuðu ötullega fyrstu tvö misserin og skiluðu efnismiklum skýrslum til stýrihóps velferðarvaktarinnar sem voru grunnur að tillögum velferðarvaktarinnar til stjórnvalda og birtar voru skýrslum hennar í mars og ágúst 2009. 24 Þrír nýir hópar hafa síðan verið stofnaðir: Ráðgjafahópur um rannsóknir, félagsvísahópur og hópur um grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga. Segja má ráðgjafahópurinn hafi runnið inn í félagsvísahópinn en í þeim hópi eru margir fræðimenn.
    Tillögur velferðarvaktarinnar sem birtar eru í I. kafla skýrslu þessarar eru að miklu leyti byggðar á tillögum frá vinnuhópunum og í II. kafla er greint frá ýmsum verkefnum sem hóparnir hafa komið að með einum eða öðrum hætti. Í þessum kafla er leitast við að lýsa megináherslum þeirra á undanförnum misserum.

Barnahópur
    Barnahópur vaktarinnar hefur aflað upplýsinga víða að um stöðu barna í samfélaginu og áhrifum efnahagsástandsins á þau. Hópurinn hefur lagt áherslu á að fyrirliggjandi þekking um áhrif kreppu á aðstæður barna séu notaðar bæði við uppbyggingu á þjónustu og við stefnumótun. Hópurinn hefur bent á að þeir sem fóru verst út úr finnsku kreppunni hafi verið skjólstæðingar barnaverndar og barnafólk á atvinnuleysisbótum. Enn fremur leggur hópurinn áherslu á að aðgerðaáætlun til fjögurra ára (2007–2011) til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem samþykkt var á Alþingi í júní 2007 komist til framkvæmda. 25

Hópur um ungmenni og ungt fólk 15–25 ára
    Hópurinn um ungmenni og ungt fólk 15–25 ára hefur undirstrikað mikilvægi þess að ungu atvinnulausu fólki standi til boða fjölbreytt úrræði í námi, starfi eða starfsþjálfun, meðal annars að framhaldsskólarnir geti tekið við öllum umsóknum. Veruleg hætta er á að þessi hópur komist ekki aftur inn á vinnumarkaðinn, einkum þau ungmenni sem eru að stíga sín allra fyrstu skref á vinnumarkaði og er þörf er á sérstökum úrræðum svo koma megi í veg fyrir að þetta unga fólk festist varanlega utan vinnumarkaðarins. Hópurinn skipulagði í samvinnu við hópinn um fólk án atvinnu málstofu í Virkjun sem haldin var í nóvember 2009 um virkni ungs fólks í atvinnuleit. Tillögur frá þeim fundi er að finna II. kafla þessarar skýrslu.

Hópur um þá sem standa höllum fæti og stóðu höllum fæti fyrir kreppu.
    Stýrihópur velferðarvaktarinnar hefur frá upphafi haft stöðu þeirra sem veikast standa í samfélaginu í forgrunni og var stofnaður vinnuhópur um þá sem standa höllum fæti og stóðu höllum fæti fyrir kreppu. Það er mat hópsins að þeir sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu standa enn verr og niðurskurður í velferðarkerfinu bitni iðulega fyrst á þessum hópi. Hópurinn hefur meðal annar beint sjónum sínum að atvinnulausum, einkum þeim sem eru 60 og eldri og svo ungu fólki sem er að stíga fyrstu skrefin á vinnumarkaði. Hópurinn hefur dregið fram aðstæður þeirra sem standa utan vinnumarkaðar og telur að flokka megi þann hóp í þrennt: Þeir sem eru í atvinnuleit án bótaréttar, þeir sem eiga sér ekki langa atvinnusögu sökum veikinda, nýlegra námsloka að annarra ástæðna og eiga ekki rétt á annarri aðstoð en félagsþjónustu sveitarfélags og svo hinn ört vaxandi hópur þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en þrjá mánuði. Enn fremur er bent á að bætur almannatrygginga hafi verið skertar og lyfja- og lækniskostnaður sé mörgum þungbær.

Fjármál heimilanna
    Fjármál heimilanna hafa verið til umfjöllunar í sérstökum hópi sem hefur fylgst með þeim úrræðum sem sett hafa verið af stað til að aðstoða heimili í greiðsluvanda og reynt að meta hvernig þau úrræði nýtast heimilunum til að endurskipuleggja fjármál sín. Einnig hefur hópurinn leitast við að meta hvar mesti vandi heimilanna liggur í dag og benti í fyrri skýrslu sinni á þann vanda sem hann taldi þá brýnast að takast á við með frekari úrræðum eða aðgerðum stjórnvalda og/eða fjármálafyrirtæki. Þegar í mars 2009 lagði hópurinn meðal annars ríka áherslu á að stutt yrði við þá sem gátu spjarað sig og gætu með einföldum aðgerðum stjórnvalda og lánveitenda minnkað greiðslubyrði og þannig komist í gegnum þrengingar næstu missera. Hópurinn skipulagði morgunverðarfund um skuldastöðu heimilanna sem var haldinn í nóvember síðastliðinn eins og áður er fram komið.

Fólk án atvinnu
    Hópurinn um fólk án atvinnu hefur meðal annars vaktað tölulegar upplýsingar atvinnuleysið í landinu og dregið fram mikilvæg atriði, svo sem að yfir 50% þeirra sem eru á atvinnuleysiskrá hafa einungis lokið grunnskólaprófi. Þá hefur hópurinn bent á að þörf sé á mun ítarlegri greiningu á upplýsingum Vinnumálastofnunar og að gagnlegt væri að fá upplýsingar um fjölskylduaðstæður, áhrif atvinnuleysis á líðan, heilsufar og virkni, um stuðningi og aðstoð og viðhorf atvinnulausra til þeirrar aðstoðar sem í boði er. Þá er talið brýnt að efla bæði samvinnu Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaganna og ekki síður að fara vel yfir samspil Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnumálastofnunar varðandi sameiginlega notendur. Hópurinn skipulagði í samvinnu við hópinn um ungt fólk málstofuna í Virkjun sem haldin var í nóvember síðastliðnum um virkni ungs fólks í atvinnuleit.

Heilsufar og heilsugæsla
    Vinnuhópurinn um heilsufar og heilsugæslu hefur bent á að úrvinnsla áfalls verði flóknari þegar um er að ræða erfiðleika af mannavöldum, ekki síst ef enginn tekur á sig ábyrgð, sjálfsmynd og félagsstaða versnar og áhrifaleysi á lausnir ríkir. Viðvarandi streita auki mjög hættu á sjúkdómum og mikilvægt sé að minna á margfeldisáhrif í samspili viðvarandi streitu og sjúkdóma á félagslega hæfni eins og vinnugetu. Börn og unglingar eru í sérstakri hættu í þessu ástandi þar sem þyngsli og spenna geta orðið ráðandi á heimili, börnin verði þolendur og með því eykst hætta á vanrækslu og ofbeldi gegn þeim. Um þetta má nánar lesa í skýrslu hópsins frá mars 2009. 26 Þá verði tryggja að versnandi fjárhagur hindri ekki aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, að heilsugæslan hafi frumkvæði að því að ná til þjónustuþega í áhættuhópum, að þjónustustig heilsugæslunnar verði ekki skorið niður, að þar til bærir aðilar fylgist grannt með breytingum á aðsókn að heilbrigðisþjónustu og að fylgst verði með tíðni veikindafjarvista frá vinnu.

Hópur um félagsvísa
    Félagsvísahópurinn vinnur nú að gerð fyrstu félagsvísa á Íslandi sem eiga að koma að svipuðum notum og hagsvísar sem þegar eru í notkun hér á landi. Eins og áður er fram komið eiga félagsvísar að greina þróun velferðar með tilliti til félagslegra aðstæðna og heilsufars íbúa í landinu í ljósi þjóðfélagsaðstæðna og fyrirkomulags þjónustu. Þeir eiga að styðja við stefnumótun stjórnvalda og þróun þjónustu til framtíðar með hliðsjón af upplýsingum sem þeir veita og draga þar með upp heildarmynd af ástandi þegar best lætur þar sem velferð, heilbrigði, vellíðan og þarfir íbúanna eru í brennidepli. Félagsvísar eru fyrst og fremst tæki sem á að greina breytingar á lífsgæðum og hópa í vanda og þar sem samfélagslegar aðgerðir og þjónusta skila ekki tilætluðum árangri. Nánari upplýsingar um fyrstu skrefin við þetta verk er að finna á heimasíðu velferðarvaktarinnar, en starfsmaður vinnur að þessu verki í tímabundu starfi á vegum velferðarvaktarinnar. 27

Grunnþjónustuhópur
    Í framhaldi af stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009 var velferðarvaktinni falið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins að leita leiða til að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélaga. Stýrihópur velferðarvaktarinnar myndaði sérstakan grunnþjónustuhóp um þetta verkefni og horfði einnig til þjónustu á vegum ríkisins. Tillögur hópsins má sjá í I. kafla þessarar skýrslu og nánar er fjallað um verkefnið í II. kafla. Grunnþjónustuhópurinn leggur meðal annars áherslu á að stjórnvöld hagræði á sem flestum sviðum innan stjórnsýslunnar en samhliða verði vörður staðinn um velferðarkerfið. 28

IV. Starf velferðarvaktarinnar framundan


    Velferðarvaktin hóf vetrarstarfið með starfsdegi 18. september 2009 þar sem horft var yfir farinn veg og fram á við varðandi stöðu og verkefni vaktarinnar. Ein af niðurstöðum starfsdagsins var að vinnuhóparnir myndu framvegis sinna afmörkuðum verkefnum og nýir hópar stofnaðir í kringum þau ef þörf krefur í samræmi við ákvörðun stýrihópsins hverju sinni. Hóparnir hafa eftir sem áður svigrúm til að vinna að öðrum verkefnum sem þeir vilja leggja áherslu á. Vinnuhóparnir um grunnþjónustu, félagsvísa og þá sem standa höllum fæti eru allir virkir og með næg verkefni. Aðrir hópar standa vaktina og eru til reiðu ef á þarf að halda, meðal annars sáu hóparnir um ungt fólk og um fólk í atvinnuleit um málstofuna í Virkjun sem haldin var í nóvember 2009 um virkni ungs fólks í atvinnuleit og hópurinn um fjármál heimilanna um málþing sem einnig var haldið í nóvember sama ár.
    Velferðarvaktin mun leggja aukna áherslu á stöðu þeirra sem veikast standa og beina sjónum sínum sérstaklega að stöðu innflytjenda og barna þeirra og aðstæðum einstæðra foreldra, einkum mæðra. Hópurinn um þá sem veikast standa mun leiða þetta starf.
    Það er mat stýrihópsins að bæði vinnulag og samstarf í stýrihópnum hafi reynst vel og er einhugur um að vaktin vinni áfram að þeim verkefnum sem hún hefur þegar lagt grunn að og fylgi þeim eftir ásamt nýjum verkefnum. Stýrihópurinn telur þrátt fyrir það nauðsynlegt að skerpa á hlutverki vaktarinnar, einkum hvað varðar úrvinnslu og eftirfylgni tillagna. Í því sambandi hefur stýrihópurinn óskað eftir nýju umboði frá félags- og tryggingamálaráðherra.
    Stýrihópurinn vill fara nánar yfir með hvaða hætti velferðarvaktin geti orðið sýnilegri og komið niðurstöðum sínum frá sér með skipulögðum og skýrum hætti. Í því sambandi verði unnið markvisst að því að tilteknar ákvarðanir og niðurstöður vaktarinnar verði settar í fréttabúning. Þá er nauðsynlegt að fara skipulega yfir vefsvæði vaktarinnar og bæta úr ef þörf er á.
    Velferðarvaktin hefur fullan hug á að fylgja eftir tillögum grunnþjónustuhópsins um aðferðir við hagræðingu sem birtar eru í skýrslu hópsins og kynna sem víðast skilgreiningu sína á því hvað felist í hugtakinu grunnþjónusta.
    Afleiðingar efnahagskreppunnar á stöðu kynjanna hafa ekki verið til sérstakrar umfjöllunar hjá stýrihópnum. Formaður Jafnréttisráðs var skipaður í stýrihópinn í desember 2009 í þeim tilgangi að styrkja starf velferðarvaktarinnar á vettvangi jafnréttis kynjanna. Mun velferðarvaktin vakta sérstaklega áhrif kreppunnar á stöðu kynjanna og mun meðal annars hafa skýrslu jafnréttisvaktarinnar frá síðastliðnu vori 29 til hliðsjónar við starfið.
    Mörg verkefni eru þegar í gangi sem vaktin mun áfram vinna að. Má þar nefna vinnu við félagsvísa, tilraunaverkefni um úrræði og samnýtingu krafta í þágu ungs fólks án atvinnu í Reykjavík, öflun tölulegra upplýsinga um fjárhagslegar aðstæður þeirra sem veikast standa og eftirfylgni barnaverndarkönnunarinnar sem gerð var á liðnu hausti.

Fylgiskjal I: Skipan velferðarvaktarinnar


    Eftirfarandi eru fulltrúar í stýrihópi velferðarvaktarinnar og starfsmenn í desember 2009:
          Lára Björnsdóttir formaður, skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra,
          Gissur Pétursson, án tilnefningar,
          Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar,
          Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af Alþýðusambandi Íslands,
          Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af Bandalagi háskólamanna,
          Garðar Hilmarsson, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja,
          Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu,
          Ása Ólafsdóttir, tiln. af dómsmálaráðuneyti,
          Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti,
          Guðrún Sigurjónsdóttir, tiln. af heilbrigðisráðuneyti,*
          Matthías Halldórsson , tiln. af heilbrigðisráðuneyti,
          Eiríkur Jónsson, tiln. af Kennarasambandi Íslands,
          Stefán Stefánsson, tiln. af menntamálaráðuneyti,
          Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands,
          Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg,
          Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
          Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins,
          Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti,
          Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp.
    Með stýrihópnum starfa Ingibjörg Broddadóttir og Þorbjörn Guðmundsson.
    Á starfstímanum hafa orðið þær breytingar að Björn Ragnar Björnsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, og Páll Ólafsson, tiln. af Bandalagi háskólamanna, hættu störfum í hópnum og nýir fulltrúar tóku við.
     * Héðinn Unnsteinsson sérfræðingur í heilbrigðisráðuneyti hefur einnig starfað með stýrihópnum frá upphafi.

Fylgiskjal II: Skipurit velferðarvaktarinnarHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III: Börn atvinnulausra 2009


Samantekt um börn atvinnulausra júní júlí ágú sept okt nóv


Allir
Heildarfjöldi atvinnulausra 15.548 15.217 14.371 13.748 14.369 15.017
Heimili þar sem báðar fyrirv. eru atvinnulausar 431 423 399 350 382 394
Heimili þar sem einn er atvinnulaus 14.686 14.371 13.573 13.048 13.605 14.229
Samtals heimili þar sem er atvinnuleysi 15.117 14.794 13.972 13.398 13.987 14.623


Barnlausir
Barnlaust fólk atvinnulaust 8.776 8.482 8.000 7.792 8.220 8.670
Barnlaus heimili, báðar fyrirvinnur atv.lausar 119 109 116 103 116 112
Barnlaus heimili þar sem einn er atv.laus 8.538 8.264 7.768 7.586 7.988 8.446
Barnlaus heimili þar sem er atvinnuleysi 8.657 8.373 7.884 7.689 8.104 8.558


Barnafólk
Fjöldi atvinnulausra sem eiga börn 6.772 6.735 6.371 5.956 6.149 6.347
Heimili með börn, báðar fyrirvinnur atv.lausar 312 314 283 247 266 282
Heimili með börn þar sem einn er atv.laus 6.148 6.107 5.805 5.462 5.617 5.783
Heimili með börn þar sem er atvinnuleysi 6.460 6.421 6.088 5.709 5.883 6.065


Börn
Heildarfj. barna sem eiga atvl. foreldra 10.923 10.875 10.290 9.681 9.978 10.309
Börn með báða for. atvlausa 416 429 389 327 350 364
Börn með annað for. atv.laust 10.507 10.446 9.901 9.354 9.628 9.945
Meðalfjöldi barna á heimilum þar sem eru börn 1,69 1,69 1,69 1,70 1,70 1,70

Ath. Þegar talað er um báða foreldra er miðað við fjölskyldunúmer, þ.e. einstaklingar sem búa saman og það eru börn á heimilinu. Ekki eru til upplýsingar um það hvort báðir foreldrar eru atvinnulausir ef þeir búa ekki sama, þ.e. ef þeir tengjast ekki með fjölskyldunúmeri.

Hjúskaparstaða skv. Hagstofuupplýsingum okt-09 nóv-09
Ógiftur og barnlaus 5.081 5.404 36% margir trúlega í sambúð, en óskráð hjá Hagstofu þar af ríflega 200 sem búa saman
Gift(ur)/sambúð, barnlaus 2.002 2.107 14%
Óviss hjúskaparstaða, barnlaus 1.137 1.159 8%
Einstæðir foreldrar 3.486 3.635 24% margir trúlega í sambúð, en óskráð hjá Hagstofu þar af ríflega 500 sem búa saman
Giftir/í sambúð með börn 2.577 2.627 17%
Óviss hjúskaparstaða, með börn 86 85 1%
Samtals 14.369 15.017 100%

Heimild: Vinnumálastofnun, desember 2009.

Fylgiskjal IV: Hvatning til sveitarfélaga um skólamáltíðirHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Velferðarvaktin
Félags- og tryggingamálaráðuneyti
16. september 2009


Til sveitarstjórna og skólanefnda sveitarfélaganna.

Tryggt verði að öll börn fái hádegisverð í skólum landsins

Velferðarvaktin var skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra í febrúar síðastliðnum í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá febrúar 2009. Vaktinni er ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum efnahagsástandsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu og leggja til aðgerðir í þágu heimilanna. Í fyrstu áfangaskýrslu sinni til félags- og tryggingamálaráðherra í mars lagði stýrihópur velferðarvaktarinnar það til að tryggt yrði að öll börn fái hádegisverði í skólum landsins. Þessi tillaga vaktarinnar var tekin upp í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá mars 2009 þar sem lagt var til að leitað yrði leiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga til að tryggja að öll börn fái hádegisverð í skólum landsins. Rétt er í þessu sambandi að greina frá því að Finnar telja að sú staðreynd að öll börn í finnskum grunnskólum hafi fengið hádegisverð í skólum landsins hafi átt ríkan þátt í að draga úr alvarlegum afleiðingum efnahagskreppunnar á börn þar í landi í upphafi 10. áratugar síðustu aldar.

Í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga beinir velferðarvaktin því til sveitarstjórna og skólanefnda að tryggt verði með öllum tiltækum ráðum og fylgst með að börn í skólum á þeirra vegum fái alla skóladaga hádegisverð. Í þessu sambandi er athygli vakin á 23. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, en þar segir meðal annars: „Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið.“

Nánari upplýsingar um velferðarvaktina er að finna á heimasíðu vaktarinnar
http://www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/

Með góðum kveðjum,

Lára Björnsdóttir

formaður velferðarvaktarinnar

Fylgiskjal V: Fjárhagsaðstoð 16 fjölmennustu sveitarfélaganna


Fjárhagsaðstoð janúar–ágúst 2009


Sveitarfélag Ár Íbúafjöldi* Fjöldi notenda Fjárhagsaðstoð
Reykjavíkurborg 2008 119.900 2.066 619.148
2009 119.021 2.778 1.040.629
Breyting -0,7% 34,5% 68,1%
Kópavogsbær 2008 29.795 244 79.897
2009 30.395 302 108.415
Breyting 2,0% 23,8% 35,7%
Seltjarnarneskaupstaður 2008 4.445 26 5.177
2009 4.393 39 8.014
Breyting -1,2% 50,0% 54,8%
Garðabær 2008 10.272 28 6.723
2009 10.503 50 14.743
Breyting 2,2% 78,6% 119,3%
Hafnarfjarðarkaupstaður 2008 25.434 205 58.231
2009 26.109 334 121.734
Breyting 2,7% 62,9% 109,1%
Mosfellsbær 2008 8.479 22 5.077
2009 8.463 39 10.590
Breyting -0,2% 77,3% 108,6%
Reykjanesbær 2008 14.029 205 32.627
2009 14.109 306 56.496
Breyting 0,6% 49,3% 73,2%
Akraneskaupstaður 2008 6.549 74 18.256
2009 6.586 106 27.974
Breyting 0,6% 43,2% 53,2%
Borgarbyggð 2008 3.715 16 3.720
2009 3.608 14 4.813
Breyting -2,9% -12,5% 29,4%
Ísafjarðarbær 2008 3.941 40 3.364
2009 3.965 40 5.298
Breyting 0,6% 0,0% 57,5%
Sveitarfélagið Skagafjörður 2008 4.062 26 3.703
2009 4.119 38 6.108
Breyting 1,4% 46,2% 64,9%
Akureyrarkaupstaður 2008 17.390 265 45.547
2009 17.527 280 47.553
Breyting 0,8% 5,7% 4,4%
Fjarðabyggð 2008 5.033 15 3.098
2009 4.652 21 6.130
Breyting -7,6% 40,0% 97,9%
Fljótsdalshérað 2008 4.040 20 3.598
2009 3.612 16 2.592
Breyting -10,6% -20,0% -28,0%
Vestmannaeyjabær 2008 4.039 27 4.743
2009 4.137 34 7.108
Breyting 2,4% 25,9% 49,9%
Sveitarfélagið Árborg 2008 7.817 44 7.371
2009 7.933 106 19.188
Breyting 1,5% 140,9% 160,3%

Íbúafjöldi* Fjöldi notenda Fjárhagsaðstoð
Samtals 2008 268.940 3.323 900.280
Samtals 2009 269.132 4.503 1.487.385
Mismunur 192 1.180 587.105
Hlutfallsl. br. 0,1% 35,5% 65,2%

Samtals íbúar í 16 sveitarfélögunum 269.132
Íbúafjöldi á landinu árið 2009 319.355
Hlutfall íbúa í sveitarfélögum sem skila upplýsingum 84,3%

* Miðársmannfjöldi eftir kyni, aldri og sveitarfélögum

Unnið af velferðarvaktinni, nóvember 2009.

Fylgiskjal VI: Húsaleigubætur janúar–september 200_–2009 í þúsundum króna


Sveitarfélag Janúar–september
2005 2006 2007 2008 2009
Reykjavíkurborg 573.329 557.954 536.917 748.523 1.054.469
Kópavogsbær 63.453 62.429 65.712 82.308 135.213
Seltjarnarneskaupstaður 6.242 6.443 7.183 9.494 14.097
Garðabær 11.634 11.705 10.564 14.925 25.809
Hafnarfjarðarkaupstaður 64.455 65.090 69.575 86.048 160.959
Mosfellsbær 13.075 13.282 13.138 18.858 32.641
Reykjanesbær 48.352 49.295 53.957 111.156 187.536
Akraneskaupstaður 16.963 16.355 16.713 24.338 42.701
Borgarbyggð 16.734 18.206 19.633 27.113 34.168
Ísafjarðarbær 20.102 19.430 19.595 27.085 30.280
Sveitarfélagið Skagafjörður 15.009 14.332 13.349 17.716 22.474
Akureyrarkaupstaður 76.311 78.276 79.790 106.994 143.945
Fjarðabyggð 11.059 12.353 10.008 10.771 23.766
Fljótsdalshérað 11.223 11.052 10.346 13.473 19.743
Vestmannaeyjabær 13.221 13.200 12.969 15.097 22.162
Sveitarfélagið Árborg 20.077 21.027 23.050 31.336 47.973
Samtals stærstu sveitarfélögin 981.239 970.429 962.500 1.345.235 1.997.935
Önnur sveitarfélög 152.440 147.360 148.384 194.018 264.882
Samtals öll sveitarfélög 1.133.679 1.117.789 1.110.884 1.539.253 2.262.817Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Unnið af velferðarvaktinni úr gögnum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, nóvember 2009.

Fylgiskjal VII: Tekjur einstaklinga eftir fjölskyldugerð og tekjulind – nóvember 2009


Samanburður á tekjum einstaklinga eftir fjölskyldugerð og tekjulind – nóvember 2009

Örorka Atvinnuleysisbætur Lágmarkslaun Fjárhagsaðstoð
Barnlausir einstaklingar
Tekjur fyrir skatt (grunnupphæð) 180.000 152.000 157.000 116.000
Tekjur eftir skatt 155.000 133.000 136.000 115.000
Einstæðir foreldrar með tvö börn á leikskólaaldri
Tekjur eftir skatt* 152.000 145.000 139.000 115.000
Tekjur eftir skatt að viðbættum greiðslum vegna barna ** 280.000 240.000 235.000 211.000
Allar tölur eru í krónum og námundaðar að næsta heila þúsundi.

*    Innifalið í tekjum eftir skatt eru mæðra- og feðralaun og greiðslur með börnum þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum, sem hvort tveggja er skattskylt.
**    Greiðslur vegna barna eru barnabætur og meðlög sem eru ekki skattskyldar tekjur.

Forsendur:
     *      Allar upplýsingar taka mið af stöðu í nóvember 2009.
     *      Taflan lýsir tekjum einstaklings og einstæðra foreldra með tvö börn á leikskólaaldri án tillits til annarra tilfærslna tekna.
     *      Skattstofn er grunnfjárhæð á mánuði, mæðra- og feðralaun og greiðslur vegna barna atvinnulausra, að frádregnum greiðslum í lífeyrissparnað og stéttarfélagsgjald. Allt er þetta eftir því sem við á í hverju tilviki.
     *      Upplýsingar um námslán eru fengnar frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, um lágmarkslaun frá Eflingu, um örorku frá Tryggingastofnun ríkisins, um atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun og um framfærslustyrk frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
     *      Tekjuútreikningur fyrir atvinnuleysisbætur, lágmarkslaun og fjárhagsaðstoð er byggður á útreikningi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.
     *      Námslán taka mið af námslánakerfinu eftir breytingar í september 2009. Lán námsmanns (einstaklings) fer að skerðast við 750.000 kr. tekjur. Fyrir þá sem eru að koma úr fullri vinnu í sex mánuði eða lengur er frítekjumark 3.750.000 kr.
     *      Örorkubætur eru hér miðaðar við 75% örorku og engar tekjur af atvinnu, engar greiðslur úr lífeyrissjóðum eða aðrar tekjur, svo sem fjármagnstekjur.

(Velferðarsvið félags- og tryggingamálaráðuneytis, nóvember 2009.)
Neðanmálsgrein: 1
    1 www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/
Neðanmálsgrein: 2
    2 vinnumalastofnun.is/files/nov09_1754053980.pdf
Neðanmálsgrein: 3
    3 www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/FyrstaAfangaskyrslaStyrihops.pdf
Neðanmálsgrein: 4
    4 www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/27082009_Lokaskjal2_stoduskyrsla.pdf
Neðanmálsgrein: 5
    5 www.felagsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/nr/4747
Neðanmálsgrein: 6
    6 www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/Reglur_um_motvaegissjod.pdf
Neðanmálsgrein: 7
    7 www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/11082009KonnunVelferdarvaktar.pdf
Neðanmálsgrein: 8
    8 www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/27082009_Felagsvisar_stoduskyrsla.pdf
Neðanmálsgrein: 9
    9      www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/27082009_Fjarmal_heimilannastoduskyrs la.pdf
Neðanmálsgrein: 10
    10 www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/4596
Neðanmálsgrein: 11
    11      www.felagsmalaraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Fjolgun_barnaverndartilkynn- inga_2005-2009081209.pdf
Neðanmálsgrein: 12
    12 www.felagsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/nr/4747
Neðanmálsgrein: 13
    13 www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/4588
Neðanmálsgrein: 14
    14 www.felagsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/nr/4587
Neðanmálsgrein: 15
    15 www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/4720
Neðanmálsgrein: 16
    16 www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/4709
Neðanmálsgrein: 17
    17 www.heilbrigdisraduneyti.is/media/Skyrslur/Lokaskyrsla_sal-efn_nefndar.pdf
Neðanmálsgrein: 18
    18 www.felagsmalaraduneyti.is/malaflokkar/fel-sveitarf/reglur/
Neðanmálsgrein: 19
    19 www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-1488/2281_read-12722/
Neðanmálsgrein: 20
    20 www.felagsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/nr/4747
Neðanmálsgrein: 21
    21 www.heilbrigdisraduneyti.is/media/Skyrslur/Lokaskyrsla_sal-efn_nefndar.pdf
Neðanmálsgrein: 22
    22 www.samband.is/frettir/
Neðanmálsgrein: 23
    23 www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/um//nr/4293
Neðanmálsgrein: 24
    24 www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/skyrslur/
Neðanmálsgrein: 25
    25 www.felagsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/nr/3366
Neðanmálsgrein: 26
    26 www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/HeilsufarOgKreppaLoka.pdf
Neðanmálsgrein: 27
    27 www.felagsmalaraduneyti.is/media/velferdarvakt09/27082009_Felagsvisar_stoduskyrsla.pdf
Neðanmálsgrein: 28
    28 www.felagsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/nr/4747
Neðanmálsgrein: 29
    29 www.felagsmalaraduneyti.is/media/09FrettatengtFEL09/Afangaskyrsla_jafnrettisvaktarinnar.pdf