Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.

Þskj. 719  —  403. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (leiðrétting vegna laga um tekjuöflun ríkisins).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    2. mgr. 65. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisskattstjóri getur veitt ívilnanir samkvæmt þessari grein án umsóknar. Berist umsókn eftir að kærufresti skv. 99. gr. lýkur er ríkisskattstjóra heimilt að taka hana til afgreiðslu enda séu skilyrði 2. mgr. 101. gr. uppfyllt.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 101. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Beiðni skal byggjast á nýjum gögnum og upplýsingum sem ekki var unnt að koma að innan tímamarka 99. gr. Þá skulu skilyrði 96. gr. uppfyllt ef um hækkun er að ræða. Víkja má frá þessum tímamörkum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Heimilt er skattaðila að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 41. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, koma ákvæði 17. og 37. gr. þeirra laga til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2011 hjá þeim lögaðilum sem hafa almanaksárið sem reikningsár og hjá þeim sem hafa upphaf reikningsárs 1. febrúar 2010 eða síðar á því ári.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. 1. og 2. gr. koma til framkvæmda á árinu 2010. 3. gr. kemur til framkvæmda við álagningu 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á síðastliðnu haustþingi voru lögð fram tvö frumvörp um breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fyrra frumvarpið fól fyrst og fremst í sér breytta skipan á skattstjórnsýslunni með sameiningu embætta skattstjóra og ríkisskattstjóra. Með síðara frumvarpinu voru settar fram efnisbreytingar á ákvæðum laganna og var framsetning breytingartillagnanna miðuð við að frumvarpið um sameininguna yrði að lögum á undan hinu. Birting laganna, þ.e. annars vegar laga nr. 128/2009 (efnisákvæði) og hins vegar laga nr. 136/2009 (skattumdæmi), varð hins vegar öndverð við það sem lagt hafði verið upp með, sem varð þess valdandi að breytingar samkvæmt tveimur greinum laga nr. 128/2009 urðu marklausar. Breytingum þeim sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er ætlað að rétta af framangreindar misfellur. Ákvæði 1. og 2. gr. frumvarpsins varða formreglur, þ.e. afgreiðslu ívilnunarbeiðna og erinda skv. 65. gr. og 101. gr. tekjuskattslaga, en eðli máls samkvæmt verður að vera samfella í málsmeðferðarheimildum skattstjóra og ríkisskattstjóra við sameininguna. Því er lagt til að umrædd ákvæði komi til framkvæmda vegna afgreiðslu ívilnunarbeiðna og erinda ársins 2010.
    Þá var með lögum nr. 128/2009 gerð sú breyting að tekjuskattur lögaðila var hækkaður úr 15% í 18%. Breyting þessi skyldi koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2011. Lagt er til að áréttað verði að hækkun skatthlutfalls félaga með annað reikningsár en almanaksárið taki ekki til þeirra félaga sem ljúka því reikningsári sem hófst árið 2009 á árinu 2010. Hækkun á tekjuskattshlutfalli félaga sem svo háttar til um kemur þannig fyrst til þegar álagning fer fram á árinu 2011 eða síðar vegna þess reikningsárs sem hefst á árinu 2010. Frumvarpið felur ekki í sér neinar efnisbreytingar að öðru leyti.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003,


um tekjuskatt, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að lagfærðar verði misfellur sem orsökuðust af gildistökuákvæðum tvennra laga sem samþykkt voru á liðnu haustþingi um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fyrra frumvarpið fól fyrst og fremst í sér breytta skipan á skattstjórnsýslunni með sameiningu embætta skattstjóra og ríkisskattstjóra. Með síðara frumvarpinu voru gerðar tillögur um efnisbreytingar á ákvæðum laganna og var framsetning breytingartillagnanna miðuð við að frumvarpið um sameininguna yrði fyrr að lögum. Birting laganna, þ.e. annars vegar laga nr. 128/2009 (efnisákvæði) og hins vegar laga nr. 136/2009 (skattumdæmi), varð hins vegar öndverð við það sem lagt hafði verið upp með sem varð þess valdandi að breytingar samkvæmt tveimur greinum laga nr. 128/2009 urðu marklausar vegna andstæðrar gildistöku þessara laga. Breytingum þeim sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er ætlað að rétta af framangreindar misfellur sem orsökuðust af gildistökuákvæðum og framkvæmd birtingar þessara laga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni koma til með að hafa í för með sé aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.