Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 410. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 726  —  410. mál.
Flutningsmenn.




Beiðni um skýrslu



frá félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu barna og ungmenna.

Frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Þuríði Backman, Guðbjarti Hannessyni, Sigurgeir Sindra Sigurgeirssyni, Lilju Mósesdóttur, Örnu Láru Jónsdóttur, Pétri H. Blöndal og Magnúsi Orra Schram.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og tryggingamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu barna og ungmenna. Meðal þess sem óskað er eftir að fram komi í skýrslunni er eftirfarandi:
     1.      Framkvæmd aðgerðaáætlunar til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem samþykkt var sem ályktun Alþingis 13. júní 2007, m.a.:
                  a.      hvernig hafi til tekist að framfylgja áætluninni,
                  b.      hverju hafi þegar verið hrundið í framkvæmd og hver kostnaður þeirra aðgerða hafi verið,
                  c.      hvaða aðgerðir eru áætlaðar á þessu ári og hver er áætlaður kostnaður við þær,
                  d.      þau atriði í áætluninni sem stendur til að fresta eða hætta við,
                  e.      upplýsingar um fundi samráðshóps sem settur var saman í kjölfar samþykktar ályktunarinnar, þar á meðal fjölda funda og upplýsingar um niðurstöður og ákvarðanatökur funda.
     2.      Aðgerðir sem gripið hefur verið til eða eru áætlaðar til að styrkja stöðu ungmenna á vinnumarkaði og auka virkni ungra atvinnulausra.
     3.      Upplýsingar um stöðu barna og ungmenna í kjölfar efnahagshrunsins og hvort gripið hafi verið til aðgerða til að styrkja stöðu þeirra.
     4.      Tölulegar upplýsingar um fjölda mála og tilkynningar til barnaverndaryfirvalda:
                  a.      flokkað eftir sveitarfélögum,
                  b.      flokkað eftir því hvort tilkynningar leiða til barnaverndarmála,
                  c.      flokkað eftir alvarleika mála.
     5.      Upplýsingar um framkvæmd og vinnuferli við barnaverndarmál sem og úrræði sem barnaverndaryfirvöld geta gripið til og hvort breytingar á ferlinu og úrræðum séu fyrirhugaðar.
     6.      Samspil barnalaga og barnaverndarlaga, sýslumanna og barnaverndaryfirvalda og aðgerðir til að tryggja að kerfin vinni betur saman.
     7.      Aðgerðir til að sporna við ofbeldi gegn börnum sem gripið hefur verið til eða eru áætlaðar.
     8.      Leiðir til að styrkja barnaverndaryfirvöld til að ráða við aukinn málafjölda eða fleiri tilkynningar.

Greinargerð.


    Árið 2007 var á sumarþingi samþykkt metnaðarfull aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna (þingsályktun nr. 2/134). Í áætluninni er tiltekinn fjöldi aðgerða og verkefna sem lagt var upp með að yrði ráðist í á árunum 2007–2011. Nú þegar sígur á seinni hluta þess tímabils telur félags- og tryggingamálanefnd rétt að gerð verði úttekt á framkvæmd áætlunarinnar. Þá er augljóst að vegna efnahagshrunsins þarf að fylgjast náið með stöðu barna og ungmenna og grípa til aðgerða sé þeirra þörf.
    Félags- og tryggingamálanefnd hefur á yfirstandandi þingi haldið nokkra fundi um málefni barna og ungmenna og kallað til sín gesti jafnt frá stofnunum sem og félagasamtökum. Meðal þeirra atriða sem nefndin hefur lagt áherslu á að kynna sér er staða barna og ungmenna í kjölfar efnahagshrunsins og aukins atvinnuleysis. Þá hefur nefndin til að mynda leitað upplýsinga um stöðu barnaverndar, hvaða úrræði séu til og hvar aðilar telji mega gera betur í málefnum barna. Í kjölfar fjölmiðlaumræðu um ofbeldi gegn börnum á síðari hluta ársins 2009 kynnti nefndin sér þau mál sérstaklega. Við umfjöllun frumvarps til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar í lok síðasta árs ræddi nefndin jafnframt ítarlega málefni atvinnulausra, m.a. með tilliti til mikils fjölda ungra atvinnulausra og nauðsynjar þess að grípa til sérstakra aðgerða í þágu þess hóps og virkja hann. Þá ræddi nefndin málefni barna þar sem foreldri eða foreldrar hafa misst vinnu sína.
    Í kjölfar funda um málefnið telur félags- og tryggingamálanefnd fulla þörf á því að gerð verði úttekt á fyrrnefndri aðgerðaáætlun og barnavernd. Nefndin óskar því eftir að félags- og tryggingamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðgerðir til að styrkja stöðu barna og ungmenna þar sem m.a. verði farið yfir stöðu aðgerðaáætlunarinnar, hverju hafi þegar verið hrundið í framkvæmd, hvað sé á döfinni og hvort líkur séu á að fresta þurfi einhverjum verkefnum. Þá telur nefndin mikilvægt í ljósi reynslu annarra landa að í skýrslunni verði farið yfir hvort og þá til hvaða aðgerða hafi verið gripið til að styrkja og tryggja stöðu barna og ungmenna vegna efnahagshrunsins. Nefndin telur einnig nauðsynlegt að í skýrslunni komi fram aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til eða eru áætlaðar til að styrkja stöðu ungmenna á vinnumarkaði. Vert er þó að athuga þegar áhrif kreppunnar á stöðu barna og ungmenna eru metin að atvinnuleysi getur bitnað jafnt á ungmennum sem missa vinnu sína sem og á börnum þar sem foreldri eða foreldrar eru atvinnulausir en samkvæmt upplýsingum eiga um 11.000 börn atvinnulaust foreldri.
    Óskað er eftir því að í skýrslunni verði barnaverndarmál og tilkynningar til barnaverndaryfirvalda flokkaðar eftir sveitarfélögum, alvarleika mála og hversu margar tilkynningar leiða til barnaverndarmála. Að auki verði greint frá því hvernig framkvæmd og vinnuferli vegna barnaverndarmála sé háttað og hvort fyrirhugaðar séu breytingar þar á. Á fundum nefndarinnar var talsvert rætt um stöðu barna þegar kæmi að umgengnismálum og barnaverndarmálum. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að styrkja þyrfti samspil barnalaga og barnaverndarlaga sem og samvinnu sýslumanna og barnaverndaryfirvalda m.a. svo að skýrt væri hver færi með mál hverju sinni. Því telur nefndin nauðsynlegt að í skýrslunni verði farið yfir það hvernig lögin og kerfin fara saman og hvort nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að tryggja samþættingu kerfanna.
     Auk framangreindra atriða er m.a. óskað eftir því að í skýrslunni verði greint frá því hvort barnaverndarmálum og tilkynningum hafi fjölgað en nefndinni hafa verið kynntar upplýsingar um að vanrækslutilkynningar hafi aukist um þriðjung. Þá sé mikilvægt að greina hvað veldur þessu, hvort tilkynningar og mál séu alvarlegri en áður og hversu margar tilkynningar leiði til barnaverndarmáls. Óskað er eftir að fram komi hvaða aðgerðum er beitt og er hægt að beita til að sporna við ofbeldi gegn börnum og hvaða vinnuferli sé notað við tilkynningar og mál af þessu tagi sem og hvort einhverjar breytingar hafi orðið þar á. Einnig er óskað eftir að skýrslan greini leiðir til að styrkja barnaverndaryfirvöld til að ráða við aukinn málafjölda og/eða fleiri tilkynningar.