Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 436. máls.

Þskj. 757  —  436. mál.Frumvarp til laga

um brottfall laga nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum
aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Lög nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í febrúar 2007 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, nefnd til að kanna hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylltu kröfur sem lagðar eru á ríki sem fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var undirritaður af hálfu Íslands 30. mars 2007. Nefndin vakti athygli á því að lög nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, væru enn í gildi hvað varðar afkynjanir og lagði til að þau yrðu felld úr gildi.
    Í 2. mgr. 33. gr. laga nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, segir orðrétt:
    „Við gildistöku þessara laga falla niður lög nr. 38/1935, um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar, og lög nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma eiga í veg fyrir að það auki kyn sitt. Ákvæði l. nr. 16/1938 um afkynjanir halda þó gildi sínu.“
    Lög nr. 16/1938 eru birt í heild í lagasafni með eftirfarandi athugasemd: „L. 16/1938 eru úr gildi fallin, sbr. 33. gr. laga 25/1975, nema að því er varðar afkynjanir.“
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 16/1938 voru heimilar „aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt“ með leyfi landlæknis og nefndar skv. 5. gr. laganna. Þær aðgerðir sem heimilar voru samkvæmt lögunum voru afkynjanir, vananir (ófrjósemisaðgerðir) og fóstureyðingar. Lögin voru eins og fyrr greinir afnumin með lögum nr. 25/1975, nema ákvæði um afkynjanir.
    Skilgreining á afkynjun í 2. gr. laganna frá 1938 er eftirfarandi:
    „Er kynkirtlar karla eða kvenna eru numdir í burtu eða þeim eytt þannig, að starfsemi þeirra ljúki að fullu.“
    Síðan segir í 5. gr. laganna:
    „Afkynjun skal því aðeins leyfa, að gild rök liggi til þess, að óeðlilegar kynhvatir viðkomanda séu líklegar til að leiða til kynferðisglæpa eða annarra hættulegra óbótaverka, enda verði ekki úr bætt á annan hátt. Leyfi til afkynjunar veitist aðeins eftir umsókn viðkomanda sjálfs eða lögreglustjóra, og þó því aðeins, að dómsúrskurður sé á undan genginn.“
    Frá 1975 giltu því ákvæði laga nr. 25/1975 um ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar, en ákvæði laganna frá 1938 giltu áfram um afkynjanir. Allar ófrjósemisaðgerðir sem gerðar hafa verið eftir mitt ár 1975 hafa því verið gerðar á grundvelli laga nr. 25/1975.
    Samkvæmt skýrslu heilbrigðisráðherra um ófrjósemisaðgerðir sem gerðar voru árin 1938– 1975 og lögð var fram á 127. löggjafarþingi (þskj. 1055, 388. mál) voru gerðar fjórar afkynjunaraðgerðir á körlum á þessu tímabili, sú síðasta árið 1971. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að nefnd sú sem fjallaði um leyfi til aðgerða samkvæmt lögum nr. 16/1938 hafi starfað þar til um miðjan júní 1975 þegar lög nr. 25/1975 tóku gildi. Nefndin hefur ekki verið endurskipuð og engar afkynjunaraðgerðir munu hafa verið gerðar hér á landi frá árinu 1971.
    Það er því löngu tímabært að fella að fullu brott lög nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt.

    Með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, falli úr gildi.
    Með lögum nr. 16/1938 voru, með leyfi landlæknis og nefndar skv. 5. gr. laganna, heimilaðar aðgerðir á fólki til að koma í veg fyrir að það auki kyn sitt. Þær aðgerðir sem heimilaðar voru samkvæmt lögunum voru afkynjanir, vananir (ófrjósemisaðgerðir) og fóstureyðingar. Með lögum nr. 25/1975 voru lög nr. 16/1938 afnumin nema ákvæði um afkynjanir. Aðgerðir á fólki til að koma í veg fyrir að það auki kyn sitt hafa ekki verið framkvæmdar sl. 40 ár. Með frumvarpinu er því lagt til að ákvæðin um afkynjanir verði felld brott.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.