Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 445. máls.

Þskj. 766  —  445. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
1. gr.

    Við 2. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skilafé og álagi skv. 28. gr. skal við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum skipað í skuldaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
2. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Virðisaukaskatti og álagi ásamt endurheimtu of hárrar endurgreiðslu, sbr. 26. og 27. gr., skal við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum skipað í skuldaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að kröfur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda verði betur tryggðar við gjaldþrotaskipti. Með vísan til þeirra breytinga sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi síðustu misseri hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir aðgerðum til að koma til móts við aðila til að standa skil á skuldum við ríkissjóð. Meðal annars hafa heimildir innheimtumanna verið rýmkaðar til að veita meira svigrúm við innheimtu og með fram þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Þykir því eðlilegt að gera ráðstafanir um leið til að tryggja betur kröfur ríkissjóðs við gjaldþrotaskipti. Með frumvarpi þessu er lagt til að lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatt verði breytt á þann veg að kröfur samkvæmt þeim njóti forgangs við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum og verði skipað í skuldaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Um er að ræða vörsluskatta þannig að í raun er um að ræða verðmæti sem eru í eigu ríkissjóðs og því eðlilegt að kröfur vegna þeirra njóti ríkari verndar. Sambærileg ákvæði og nú eru lögð til voru í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt en voru felld úr gildi með lögum nr. 78/1989.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatt verði breytt þannig að kröfur samkvæmt þeim njóti forgangs við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum. Þannig er lagt til að kröfunum verði skipað í skuldaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.