Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 174. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.

Þskj. 770  —  174. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umræðu. Hefur nefndin fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóra, Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmann ráðherra, Hrefnu Gísladóttur lögfræðing og Kristján Frey Helgason, sérfræðing frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og Guðmund Smára Guðmundsson útgerðarmann.
    Meiri hlutinn vill taka fram að leitað hefur verið sátta varðandi ákvæði til bráðabirgða I (skötuselsákvæðið) við Landssamband íslenskra útvegsmanna og bent á leiðir í því sambandi. Beinir meiri hlutinn því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að halda þeim sáttaleiðum opnum.
    Breytingar sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á gildistöku laganna í 4. gr. sem verður 5. gr.
     2.      Lagt er til að horfið verði frá því að hafa veiðar á skötusel, á grundvelli þeirra aflaheimilda sem tilgreindar eru í frumvarpi þessu, óheimilar á nánar tilgreindu svæði. Það er mat meiri hlutans að ekki séu fullnægjandi rök fyrir þessari takmörkun og því eðlilegt að fella hana brott.
     3.      Meiri hlutinn leggur til nýja leið til útfærslu á skiptingu heildarafla karfa sem er sett fram í þeim tilgangi að koma til móts við sjónarmið og gagnrýnisraddir sem hafa bent á að sú skipting sem lögð er til í frumvarpinu geti komið þeim illa sem mest hafa gert út á aðra tegundina fram til þessa. Aflaheimildum í karfa er skipt í gullkarfa og djúpkarfa sem fyrir liggur að er brýnt, einkum af markaðsástæðum. Meiri hlutinn leggur til að öllum skipum sem áttu aflahlutdeild í karfa 1. febrúar 2010 sé gefinn kostur á því að fá allt að 12,5 lestum af gullkarfa og láta af hendi í stað þess sama magn af djúpkarfa. Í kjölfarið verður aflahlutdeild hvers skips í gullkarfa og djúpkarfa reiknuð að nýju og úthlutun á fiskveiðiárinu 2010/2011 fer fram á þeim grundvelli. Á þennan hátt er komið til móts við útgerðir sem nú stunda veiðar á gullkarfa en eiga þess tæplega kost að stunda veiðar á djúpkarfa. Skiptingin sem lögð er til grundvallar á milli gullkarfa og djúpkarfa er í sömu hlutföllum og koma fram í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir fiskveiðiárið 2009/2010. Ráðherra er jafnframt veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á reiknigrunni samkvæmt ákvæði þessu og úthlutun aflahlutdeildar á grundvelli hans.
     4.      Lagt er til að frestur aðila til að ráðstafa krókaaflahlutdeild, þannig að hún rúmist innan settra marka, verði enn lengdur um eitt ár eða til 1. september 2011. Þetta ákvæði er nú ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 116/2006. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú að vegna sérstakra aðstæðna í íslensku efnahagslífi er mjög erfitt að fjármagna viðskipti með krókaaflahlutdeildir og því lítill markaður fyrir þær. Þeir aðilar sem enn eru yfir tilsettum mörkum eiga þannig takmarkaða möguleika á að komast undir tilskilin mörk. Með því að fresta enn gildistöku umrædds bráðabirgðaákvæðis er aðilum veittur frekari aðlögunartími. Vænta má að sá frestur geri þeim kleift að komast undir tilsett mörk eftir að markaður fyrir krókaaflahlutdeildir hefur opnast að nýju. Forsaga þessa er sú að með 2. gr. laga nr. 42/2006, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, voru settar takmarkanir á krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila. Þessi ákvæði eru nú í 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Má samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 4% af þorski, 5% af ýsu og 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar. Í ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 42/2006 segir að ef krókaaflahlutdeild einstakra aðila reynist hærri en fyrr greinir skuli hlutaðeigandi aðili fyrir 1. september 2009 gera ráðstafanir þannig að krókaaflahlutdeildin verði innan settra marka. Var sú breyting gerð með lögum nr. 11/2009 að fresturinn var framlengdur um eitt ár eða til 1. september.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2010.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Helgi Hjörvar.


Arna Lára Jónsdóttir.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Þuríður Backman.


Róbert Marshall.