Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 449. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 775  —  449. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007.

Flm.: Lilja Mósesdóttir, Ögmundur Jónasson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
Ásmundur Einar Daðason, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir.


1. gr.

Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.


    Við 2. mgr. 165. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæðinu skal vera fjögur ár og er ekki unnt að slíta fyrningu að nýju enda hafi krafa ekki orðið til vegna ólögmætra athafna þrotamanns.

2. gr.

Breyting á lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007.


    Við lögin bætist ný grein er verði 9. gr. a., svohljóðandi:
    Kröfur á einstakling sem orðið hefur gjaldþrota fyrnast að hámarki á fjórum árum frá þeim degi þegar skiptum lauk, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, enda hafi krafa ekki orðið til vegna ólögmætra athafna þrotamanns.
    Ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við lok skipta er fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi þegar skiptunum er lokið, ef krafan var viðurkennd, en ella á þeim degi þegar kröfunni var lýst.
    Ekki er unnt að slíta fyrningu að nýju þegar fyrningarfrestur skv. 1. og 2. mgr. er hafinn og á IV. kafli laganna því ekki við.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti og lögum um fyrningu kröfuréttinda. Breytingunum er ætlað að tryggja að eftir gjaldþrot sé ekki hægt að halda kröfum lifandi að eilífu og að tryggja að einstaklingur sem gengur í gegnum gjaldþrot geti unnið sig út úr því. Lok gjaldþrotaskipta hjá lögaðila, félagi eða stofnun leiða til þess að aðilinn verður endanlega afmáður eftir gjaldþrotið. Samkvæmt gildandi lögum leiðir gjaldþrot einstaklings aftur á móti til þess að fyrningu krafna er slitið og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi er slitum er lokið. Eftir það er mögulegt að slíta fyrningu að nýju samkvæmt ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda. Augljóst er að með gildandi reglum hallar á einstaklinga í greiðsluvandræðum og gjaldþrot er ekki sú núllstilling sem nauðsynlegt er að það sé.
    Við þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu má leiða að því líkur að stór hópur einstaklinga sem tók bæði gengistryggð og verðtryggð lán verði gjaldþrota á næstu mánuðum og missirum og telja flutningsmenn því nauðsynlegt að breyta regluverkinu. Því er lagt til að kröfur fyrnist að hámarki að fjórum árum liðnum frá lokum gjaldþrotaskipta. Þannig verði fyrningarfrestur krafna eftir gjaldþrot fjögur ár frá þeim degi þegar skiptum lauk hafi krafan verið viðurkennd en annars frá þeim degi þegar kröfunni var lýst. Eftir að þessi fyrningarfrestur er hafinn verði ekki hægt að slíta fyrningu. Sá fyrirvari er þó gerður að hafi krafa orðið til vegna ólögmætra athafna þrotamannsins skulu almennar reglur um fyrningu gilda. Mikilvægt er að tryggja virkni þessa úrræðis án þess þó að gefa færi á því að það sé misnotað til að komast undan ábyrgð á kröfum sem stofnað er til með ólögmætum hætti.
    Með því að kveða á um að fyrningu verði ekki slitið að nýju er kröfuhöfum gefinn tími og kostur á því að innheimta skuldir sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrot en þess jafnframt gætt að skuldarar standi ekki uppi með skuldir sínar í fjölda ára eftir gjaldþrot. Ábyrgð hlutafélaga eða einkahlutafélaga á skuldum sínum fellur niður við gjaldþrot enda eru þau þá ekki lengur til. Það má því segja að hér sé verið að tryggja nokkurt jafnræði með skuldurum án þess þó að ganga of nærri réttindum kröfuhafans.
    Þá ber að hafa í huga að með efnahagshruninu varð algjör forsendubrestur og virðist lántakendum einum ætlað að bera hallann og kostnaðinn af honum þar sem réttur kröfuhafa er samkvæmt gildandi rétti að fullu tryggður. Skuldbindingar stórs hóps eru óyfirstíganlegar eftir gengishrap krónunnar, óvænt verðbólguskot og verulega eignarýrnun auk þess sem kaupmáttur rýrnaði umtalsvert í kjölfar bankahrunsins. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum voru um 21% heimila með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði árið 2009. Bent er á að hætta sé á að vanskil og afskriftaþörf haldi áfram að aukast næstu missirin. Einsýnt er að mörg heimili muni ekki aðeins missa eigur sínar við gjaldþrot heldur jafnframt sitja uppi með kröfur sem lítil von er til að hægt verði að greiða upp. Hvatinn til að hverfa af landi brott er mikill fyrir mörg heimili og hætta er á að ástandið verði mörgum svo erfitt að þeir leiðist til þess að stunda svarta atvinnustarfsemi sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir skattstofn ríkisins á næstu árum. Það eru því augljósir almannahagsmunir að búa svo um hnútana að ábyrgð einstaklings á skuldum sínum falli niður á einhverjum tímapunkti eftir að hann hefur gengið í gegnum gjaldþrot. Með því að kveða á um að einstaklingur beri ábyrgð á skuldum sínum í hámark fjögur ár eftir gjaldþrot ætti jafnframt að vera tryggt að fólk sem gengur í gegnum þá erfiðu raun sem gjaldþrot er taki áfram virkan þátt í samfélaginu.