Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 450. máls.

Þskj. 776  —  450. mál.Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, V, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 122. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar, á árinu 2010 vera sem hér segir:
     1.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     2.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga vörugjalds, hjá aðilum sem skráðir eru skv. 2. mgr. 4. gr., vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar, á árinu 2010 vera sem hér segir:
     1.      Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     2.      Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar, á árinu 2010, sbr. 1. mgr. 24. gr., heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða V í tollalögum, nr. 88/2005.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1.     Almennt.
    
Frumvarpi þessu er ætlað að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna þess samdráttar sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Um er að ræða nokkurs konar greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið þar sem fyrirtækjum verður gert kleift að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalds.
    Með frumvarpinu er lagt til að vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar verði á árinu 2010 hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda, sbr. ákvæði laga þar um, dreift á tvo gjalddaga í stað eins. Þetta tímabundna fyrirkomulag kallar á breytingar, í formi ákvæða til bráðabirgða, á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt.
    Greiðsluaðlögun af sama tagi var lögfest á síðasta vorþingi, sbr. lög nr. 17/2009, um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt. Í þeim lögum var heimildin til greiðsluaðlögunar tímabundin og gilti einungis fyrir árið 2009. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að þessi heimild verði framlengd tímabundið, en lagt er til að greiðslufrestur verði styttri en í lögum nr. 17/2009. Það er talið nauðsynlegt til að koma skilum á aðflutningsgjöldum og vörugjaldi í upprunalegt horf.
    Frumvarp þetta er einnig tengt frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi og varðar greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri (mál 446, þskj. 767). Þar er gert ráð fyrir verulegri ívilnun að því er varðar innheimtu á gjöldum sem voru í vanskilum 1. janúar 2010.

2. Nánar um efnisatriði frumvarpsins.
    Í fyrsta kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við tollalög, nr. 88/2005, þess efnis að hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, þ.e. aðilum sem eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, verði fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2010 sem hér segir: Í stað þess að gjalddaginn sé 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils verði veittur gjaldfrestur á þann hátt að helmingur aðflutningsgjalda fyrir viðkomandi uppgjörstímabil komi til greiðslu á hefðbundnum gjalddaga 15. dag næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabilsins og helmingur komi til greiðslu mánuði síðar eða 15. dag annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
    Í öðrum kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög nr. 97/1987, um vörugjald, sem kveður á um að hjá aðilum sem skráðir eru skv. 2. mgr. 4. gr., þ.e. öðrum en þeim sem flytja vörur til landsins til eigin nota, verði fyrirkomulag gjalddaga vörugjalds vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2010 sem hér segir: Í stað þess að gjalddaginn sé 28. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils verði veittur gjaldfrestur á þann hátt að helmingur vörugjalds fyrir viðkomandi uppgjörstímabil komi til greiðslu 28. dag annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabilsins og hinn helmingurinn komi til greiðslu mánuði síðar eða 28. dag þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
    Þriðji kafli frumvarpsins er lagður til með vísan til fyrsta kafla frumvarpsins. Í kaflanum er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt sem kveður á um að þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. þeirra laga verði á gjalddaga virðisaukaskatts vegna hinna reglubundnu uppgjörstímabila janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2010 heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað. Er ákvæðið sem áður segir lagt til með vísan til I. kafla frumvarpsins um greiðslufrest vegna aðflutningsgjalda. Með ákvæðinu er brugðist við þeim vanda sem, að óbreyttum lögum, kemur upp í kjölfar I. kafla frumvarpsins (verði frumvarpið að lögum) og er þess eðlis að aðila væri ekki heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu, sem skilað er ásamt virðisaukaskatti á gjalddaga, allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils heldur einungis hluta. Með ákvæðinu er verið að tryggja að aðili sem stendur skil á virðisaukaskatti á gjalddaga geti að fullu notið innskattsréttar vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þrátt fyrir framangreindar breytingar á fyrirkomulagi gjalddaga á aðflutningsgjöldum. Líta má því á þetta ákvæði sem beina afleiðingu af I. kafla frumvarpsins.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að brugðist verði tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna mikils samdráttar í íslensku efnahagslífi. Fyrirtækjum verður þannig gert kleift að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2010. Með aðflutningsgjöldum er átt við tolla og aðra skatta og gjöld sem lögð eru á við innflutning, þar með talinn virðisaukaskatt. Vörugjöld eru þau sem talin eru upp í almennum lögum um vörugjöld, en þar eru ekki vörugjöld samkvæmt sérlögum eins og til dæmis af eldsneyti og ökutækjum. Greiðsludreifing vegna aðflutningsgjalda og vörugjalda verður þannig að helmingur gjaldanna er greiddur á hefðbundnum gjalddaga, en hinn helmingurinn frestast um einn mánuð. Í frumvarpinu er auk þess gert ráð fyrir því að á gjalddaga uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2010 vegna virðisaukaskatts verði heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað.
    Álögð aðflutningsgjöld og vörugjöld á þessu ári skerðast ekki vegna þessarar aðlögunar frá því sem gert var ráð fyrir enda einungis um að ræða tilfærslu í innheimtu innan ársins. Skil ættu jafnvel að verða betri vegna þessa úrræðis og annarra tillagna sem liggja fyrir varðandi innheimtu opinberra gjalda á þessu ári.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.