Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 459. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 789  —  459. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2009.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2009 má segja að þrjú meginefni hafi helst verið í brennidepli en þau hafa öll verið tíðrædd á vettvangi þingmannanefndarinnar undanfarin ár.
    Fyrst ber að nefna umhverfismál og sérstaklega umræðu um loftslagsbreytingar sem var að venju mjög áberandi. Áhersla var lögð á aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingunum. Sérfræðingar á sviði loftslagsbreytinga kynntu nefndarmönnum rannsóknir um þróun mála, áhrif á lífríki norðurskautsins og nýjar leiðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Norðurslóðir einkennast af sérlega viðkvæmum vistkerfum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem verður annars staðar í heiminum.
    Í öðru lagi var umræða um ágreining um lögsögutilkall á norðurskautinu áberandi og mikilvægi þess að lágmarka spennu og togstreitu varðandi sameiginleg hagsmunamál á svæðinu. Í því sambandi var m.a. rætt var um ályktun Evrópuþingsins sem samþykkt var 1. október 2008 þar sem kallað er eftir gerð alþjóðlegs sáttmála um norðurskautið sem nái einkum til umhverfisverndar með fyrirmynd í svonefndum Madrídarsáttmála frá árinu 1993 um suðurskautið. Flestir fulltrúar þingmannanefndarinnar lögðu þó áherslu á að til staðar væri fullnægjandi löggjöf um norðurskautið eins og hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna og reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Það sem þurfi að beina sjónum að sé framfylgni við gildandi alþjóðalög og stefnumótun á grundvelli þeirra. Í því sambandi var haldin málstofa um hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna í tengslum við fund þingmannanefndarinnar í nóvember 2009.
    Í þriðja lagi var áhersla á umræðu um siglingar- og björgunarmál og samstarf ríkjanna varðandi öryggismál í ljósi minnkandi hafíss á norðurskautssvæðinu. Fulltrúar Íslandsdeildar héldu mikilvægi málaflokksins á lofti á fundum nefndarinnar með áherslu á mengunarvarnir samhliða opnun nýrra siglingaleiða og áhrifa þeirra á svæðið með aukinni kröfu um sífellt stærri flutningaskip. Þá var rætt um þau tækifæri sem í þróuninni felast auk áhættu, m.a. vegna meiri hættu á umhverfisslysum.
    Enn fremur var umræða á fundum nefndarinnar um Alþjóðaár heimskautasvæðanna sem lauk í mars 2009 og hvernig best yrði unnið úr þeim mikilvægu rannsóknum sem framkvæmdar voru á árinu. Alþjóðaárið gekk í garð í mars 2007 og var það í þriðja sinn sem það var haldið. Vísindamenn frá yfir 60 löndum tóku þátt í rannsóknum alþjóðaársins með það að markmiði að gert yrði stórátak í rannsóknum og athugunum á heimskautasvæðum jarðar. Þá var rætt um heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg vandamál frumbyggja á norðurskautssvæðinu auk nýtingar orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.



2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmáls sem haldin er annað hvert ár og fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Einnig hefur orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem viðkomu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Allar spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið án íss og klaka að sumarlagi. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færist æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig sé að jafnaði að hækka á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Á fundi Íslandsdeildar hinn 18. maí var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kosin formaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir varaformaður deildarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.

4. Fundir þingmannanefndar 2009.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir því sem fram fór á fundunum þingmannanefndarinnar á árinu.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Brussel, 25. febrúar 2009.
    Karl V. Matthíasson sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar, í fjarveru formanns, auk Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara. Hill-Marta Solberg, formaður nefndarinnar, stýrði fundinum.
    Formennska í Norðurskautsráðinu hefur verið í höndum Noregs sl. tvö ár. Í erindi sem Elisabeth Walaas, háttsettur stjórnmálaráðgjafi í utanríkisráðuneyti Noregs, hélt kom fram að Noregur hefði unnið náið með Danmörku og Svíþjóð um mótun stefnu í þeim málaflokkum sem ráðið vinnur að um þessar mundir. Málaflokkarnir eru viðbrögð við bráðnun íss, mótun reglna um olíu- og gasvinnslu á norðurskautinu, viðbúnaður vegna aukinna farm- og farþegaflutninga í Norðurhöfum á sviði mengunarviðbragða og -varna, auk leitar og björgunar, og söfnun upplýsinga um leiðir sem þykja til eftirbreytni á sviði stjórnsýslu sjávar. Hún greindi frá undirbúningi fyrir ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem fyrirhugaður var í Tromsø dagana 28.–29. apríl 2009. Walaas sagði að ráðherrafundinum væri ætlað að móta skýra stefnu um sambandið á milli loftslagsbreytinga og hafíssvæða fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Kaupmannahöfn 7..18. desember 2009. Heiðursgestur og fyrirlesari á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins var af því tilefni Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
    Því næst vék Walaas að ágreiningi um lögsögutilkall á norðurskautinu. Að mati norskra stjórnvalda er til staðar fullnægjandi löggjöf um norðurskautið eins og hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna og reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Það sem vanti upp á sé framfylgni við gildandi alþjóðalög og reglur og stefnumótun á grundvelli þessara laga og reglugerða. Það hafi verið meginniðurstaða fundar sem Kanada, Rússland, Bandaríkin, Danmörk og Noregur héldu 28. maí 2008 í Ilulissat á Grænlandi. Hún sagði að Norðurskautsráðið og aðrar stofnanir eins og hin norðlæga vídd ESB, Barentsráðið, Norðurlandaráð og Eystrasaltsráðið væru allar að sinna brýnum málum í þessu sambandi. Hún undirstrikaði hins vegar að mikilvægt væri að Norðurskautsráðið væri sú fjölþjóðastofnun sem hefði mest um norðurskautsmál að segja. Noregur kysi að Norðurskautsráðið yrði mikilvægari gerandi á vettvangi pólitískrar stefnumótunar um norðurskautið á grundvelli gildandi alþjóðalaga, reglna og samninga sem og þeirrar vísindalegu þekkingar sem er að finna innan Norðurskautsráðsins. Slík stefnumótun væri nauðsynleg til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri á norðurskautinu og til að hafa áhrif innan annarra stofnana eins og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Með hliðsjón af þessu hafi verið ákveðið að setja á laggirnar skrifstofu Norðurskautsráðsins í Tromsø sem yrði formlega opnuð á ráðherrafundinum í apríl 2009. Í sambandi við áhuga ríkja, sem eiga ekki land að Norður-Íshafi, á norðurslóðamálum sagði Walaas að það væri ekki á stefnuskránni að fjölga aðildarríkjum Norðurskautsráðsins. Hins vegar væri mikill fengur að þeim ríkjum, sem hefðu áheyrnaraðild, og áhugi á því að skapa meira svigrúm fyrir virkari þátttöku þeirra en nú er, t.d. innan vinnuhópa Norðurskautsráðsins og við einstök verkefni. Þetta mál var meðal þeirra mála sem rætt var á ráðherrafundinum í apríl auk þess sem ákvörðun um áheyrnaraðild ESB að ráðinu var rædd.
    Þau Bilyana Raeva, formaður SIN/EEA-sendinefndar Evrópuþingsins og Janos Herman frá framkvæmdastjórn ESB kynntu mótun stefnu um norðurskautsmál. Raeva sagði að alls hefði Evrópuþingið samþykkt sjö ályktanir sem lúta að norðurskautsmálum síðan árið 2001 enda norðurskautið lykilsvæði fyrir ríki ESB. Í máli Raeva kom fram að norðurskautið yrði sífellt mikilvægara landfræðipólitískt fyrir norðurskautsríkin sem og ríki utan svæðisins sem rekja má m.a. til aukins aðgangs að náttúruauðlindum á svæðinu og opnun siglingaleiða. Það sé því mikilvægt að tryggja öryggi á norðurskautinu og lágmarka spennu og togstreitu varðandi sameiginleg hagsmunamál á sviði sjávarútvegs, öryggis sjóflutninga og náttúru- og umhverfisverndar. Það væri hvatinn á bak við ályktun Evrópuþingsins sem var samþykkt 1. október 2008 þar sem kallað er eftir gerð alþjóðlegs sáttmála um norðurskautið (e. Arctic Governance) sem nái einkum til umhverfisverndar með fyrirmynd í svonefndum Madrídarsáttmála frá árinu 1993 um suðurskautið. Einnig hefur Evrópuþingið hvatt framkvæmdastjórn ESB til að setja upp sérstaka norðurskautsskrifstofu til að sinna m.a. fyrirhugaðri áheyrnaraðild ESB að Norðurskautsráðinu.
    Janos Herman kynnti stefnuskjal (e. communication) framkvæmdastjórnar ESB frá 20. nóvember 2008 sem fyrsta skrefið í stefnumótun sambandsins um norðurskautið. Næstu skref yrði hins vegar að stíga í samstarfi við norðurskautsríki, sér í lagi strandríki norðurskautssvæðisins. Útgangspunkturinn í skjali framkvæmdastjórnarinnar er þýðing norðurskautsins fyrir ESB og öfugt í ljósi þeirra öru breytinga sem eru að verða á svæðinu varðandi aðgang að náttúruauðlindum og opnun siglingaleiða. Í sambandi við náttúruauðlindanýtingu þá væri það á ábyrgð viðkomandi ríkis innan 200 mílna lögsögu. Spurningin væri hins vegar hvað ESB gæti lagt af mörkum í formi tækni, leiðbeinandi reglna og fleira í þá veru. Stefnumótun framkvæmdastjórnarinnar hefur þrennt að leiðarljósi. Í fyrsta lagi umhverfisvernd og samstarf við íbúa norðurskautsins. Í öðru lagi sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Í þriðja lagi framlag ESB til fjölþjóðlegrar stefnumótunar og stjórnunar um málefni norðurskautsins. Hann sagði að framkvæmdastjórnin væri ekki á sama máli og Evrópuþingið um að gerður yrði sérstakur alþjóðasáttmáli um norðurskautið heldur frekar að núverandi alþjóðasáttmálum og reglum væri betur framfylgt eða útfærð frekar í formi stefnu eins og Elisabeth Walaas hefði talað um.
Raeva var sammála því að betri eftirfylgni við gildandi lög og reglur væri þörf en það kallaði á skilvirkt eftirlit sem kallaði á eftirlitsstofnun sem kæmi jafnt til móts við þau ríki sem eiga beinna og óbeinna hagsmuna að gæta. Markmið tilmæla Evrópuþingsins væru þau að benda á nauðsyn sameiginlegra laga og reglna fyrir norðurskautið og eftirlits með því að þeim væri framfylgt sem aftur á móti væri forsenda þess að hægt væri að bregðast sameiginlega við aðkallandi úrlausnarefnum.
    Í máli þeirra beggja var lögð áhersla á mikilvægi hinnar norðlægu víddar ESB (sem Ísland, Noregur og Rússland eiga einnig aðild að) og norðurskautsglugga hennar hvað varðaði stefnumótun um norðurslóðamál. Janos Herman sagði að norðlæga víddin og norðurskautsglugginn væru til viðbótar við Evrópsku nágrannastefnuna sem hefur verið verkfæri ESB til að ná til ríkja utan ESB og byggist á því að styrkja innviði landanna í kringum ESB, aðstoða þau við að styrkja lýðræði og efnahagsbreytingar og færa þau nær sambandinu. Að lokum talaði hann um beiðni ESB um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu sem hefur að markmiði að auka samstarf ríkja ESB og norðurskautslanda um bæði einstök verkefni og stefnumótun. Hann benti á að ESB væri stærsti styrkveitandi rannsóknarverkefna um norðurskautið. Þakkaði hann að lokum sérstaklega stuðning Íslands og Noregs við beiðni ESB um áheyrnaraðild.
    Dagskrá fyrstu þingmannaráðstefnu Norðlægu víddarinnar var því næst kynnt en hún fór fram dagana 25..26. febrúar 2009. Kári P. Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, kynnti efni þemaráðstefnu ráðsins, í Grænlandi í júní 2009, um námsmöguleika ófaglærðs starfsfólks á Vestur-Norðurlöndum. Að lokum sagði Karl V. Matthíasson frá hluta formennskuáætlunar Íslands í norrænu ráðherranefndinni um gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið og aukið samstarf milli norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurskautsráðsins. Hann greindi jafnframt frá stjórnarskiptunum á Íslandi sem áttu sér stað í febrúar 2009 í kjölfar fjármálakreppunnar.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ilulissat, 29. maí 2009.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning ráðstefnu þingmannanefndarinnar í Brussel 2010, menntamál frumbyggja á norðurskautssvæðinu, með áherslu á Grænland, og breytingar á starfsreglum nefndarinnar.
    Hill-Marta Solberg, formaður nefndarinnar, sagði fundargestum frá ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Tromsø í apríl 2009. Solberg hélt ræðu á fundinum þar sem hún lagði áherslu á aukna pólitíska þátttöku Norðurskautsráðsins og tíðari ráðherrafundi. Þá upplýsti hún nefndarmenn um efni ráðstefnu um loftslagsbreytingar sem haldin var í tengslum við fundinn í Tromsø. Næsta mál á dagskrá var kynning Inuuteq Holm Olsen, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis Grænlands, á formennskuáætlun Dana (Danmörk, Grænland og Færeyjar) í Norðurskautsráðinu. Hann sagði málefni íbúa svæðisins vera sett í forgang í formennskunni með áherslu á umhverfisvernd, heilbrigðismál og sjálfbæra nýting auðlinda, auk þróunar í félags-, menningar- og efnahagsmálum. Þá verður áhersla lögð á loftslagsbreytingar og áframhaldandi umræðu um stöðu áheyrnarfulltrúa innan ráðsins. Niels Sindal, fulltrúi Norðurlandaráðs, tilkynnti nefndarmönnum að utanríkisráðherra Danmerkur vildi gjarnan hitta nefndina og ræða málefni norðurskautsins.
    Juliane Henningsen frá Grænlandi bauð fundargesti velkomna til Ilulissat og kynnti nýtt samkomulag Danmerkur og Grænlands um sjálfsstjórn Grænlands. Sameiginleg nefnd landanna um sjálfsstjórn Grænlands komst að samkomulagi árið 2008 og var það samkomulag samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 25. nóvember 2008. Samkomulagið tók gildi 21. júní 2009, en 75,5% Grænlendinga greiddu atkvæði með því að hverfa frá heimastjórn og taka upp sjálfsstjórn. Þá sagði Henningsen stuttlega frá fyrirhuguðum kosningum í Grænlandi 2. júní en flokki hennar, Inuit Ataqatigiit, er spáð mikilli velgengni. Hún sagði jafnframt að fullt sjálfstæði frá Danmörku væri langtímamarkmið Inuit Ataqatigiit.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður Íslandsdeildar, óskaði Grænlendingum og Dönum til hamingju með samkomulagið og spurði hvernig rannsóknum og skiptingu náttúruauðlinda væri háttað. Henningsen sagði að náðst hefði samkomulag um skiptingu tekna sem koma frá náttúruauðlindum í Grænlandi. Þá hafa um 70 rannsóknarleyfi verið veitt og ráðgert að opna 3–5 nýjar námur á næstunni, en hægt hefur á framkvæmdum vegna fjármálakreppunnar. Enn fremur vinnur Alcoa að samningum við grænlensk stjórnvöld um opnun álvers fyrir norðan Nuuk og gefin hafa verið út leyfi fyrir olíuborunum sem hefjast sumarið 2010 fyrir utan Discoflóa. Þá á sér stað umræða um nýtingu úrans í Grænlandi.
    Tine Pars, skólastjóri Háskóla Grænlands, kynnti starfsemi og framtíðaráform skólans. Um 400 nemendur stunda nám í skólanum en ekkert formlegt samstarf er við aðra háskóla utan Danmerkur. Nefndarmenn veittu því athygli að skólinn er ekki aðili að Háskóla norðursins og nýtir sér upplýsingatækni að mjög litlu leyti. Enn sem komið er hefur háskólinn ekki leitað eftir fjárstuðningi eða samstarfi við fyrirtæki í einkaeigu þar sem áhersla hefur verið lögð á óháðan og sjálfstæðan rekstur.
    Þá fór framkvæmdastjóri þingmannanefndarinnar, Bjørn Willy Robstad, yfir skipulagningu ráðstefnu nefndarinnar 2010. Tillögur að umræðuefnum fyrir ráðstefnuna voru ræddar og tekin ákvörðun um að ekki yrðu fleiri en þrjú meginefni á dagskrá. Nefndarmenn voru sammála um að málefni og lífshættir íbúa norðurskautssvæðisins yrðu meðal aðalumræðuefna á ráðstefnunni auk þess sem Guðfríður Lilja lagði áherslu á umræðu um siglingar og björgunarmál og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Bjørn Willy var falið að gera drög að dagskrá ráðstefnunnar út frá umræðum fundarins fyrir næsta fund nefndarinnar. Einnig fór fram umræða um tímasetningu ráðstefnunnar sem samkvæmt venju hefur verið haldin í ágústmánuði í tengslum við ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem hafa verið haldnir að hausti en hafa nú verið færðir til vors. Guðfríður Lilja benti á mikilvægi þess að halda ráðstefnuna í tengslum við ráðherrafundina þar sem vægi nefndarinnar og möguleikar á að koma áherslum hennar á ráðherrafundina gæti minnkað ef svo væri ekki. Nefndarmenn voru sammála þeim rökum en töldu þó ekki rétt að breyta tímasetningu ráðstefnunnar þar sem m.a. veðurfar á norðurslóðum væri óhentugt til ferðalaga á síðustu og fyrstu mánuðum ársins og oft miklar annir við þingstörf heima fyrir. Farið var yfir fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum nefndarinnar og samþykkt að skipa varaformann nefndarinnar á næstu ráðstefnu nefndarinnar. Þá var ákveðið að bjóða áheyrnaraðilum til sérstaks fundar fyrir ráðstefnur nefndarinnar 2010. Jafnframt var Juliane Henningsen frá Grænlandi skipuð höfundur skýrslu um loftslagsbreytingar.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Kári Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, sagði nefndarmönnum frá ráðstefnu ráðsins um framboð á menntun fyrir ófaglærða. Højgaard gagnrýndi einnig Evrópuþingið harðlega fyrir að samþykkja ályktun um að banna sölu á selskinnsvörum í Evrópusambandinu. Guðfríður Lilja, formaður Íslandsdeildar, tók til máls og sagði m.a. frá kosningunum á Íslandi í lok apríl og myndun vinstri stjórnar. Þá hefði þátttaka kvenna vænkast á Alþingi og væru þær nú 43% þingmanna. Hún sagði málefni norðurskautsins hafa fengið aukið vægi í umræðum á Alþingi með áherslu á björgunarmál og mengunarvarnir samhliða opnun nýrra siglingaleiða. Þá tók hún undir orð Højgaard og lýsti yfir vonbrigðum með ályktun Evrópuþingsins. Jafnframt kom hún á framfæri þakklæti til Færeyinga fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt Íslendingum á erfiðum tímum fjármálakreppunnar. Enn fremur sagði Peter Goldring frá Kanada nefndarmönnum frá fyrirhugaðri opnun alþjóðlegrar miðstöðvar fyrir norðurskautssvæðið í Ósló.
    Hill-Marta Solberg, formaður nefndarinnar, tilkynnti að hún mundi ekki sækjast eftir endurkjöri í þingkosningunum 14. september 2009 í Noregi. Var það einróma ákvörðun nefndarmanna að Hannes Manninen frá Finnlandi tæki við sem formaður þingmannanefndarinnar til næstu ráðstefnu nefndarinnar í september 2010. Þá verði formlega valinn nýr formaður og varaformaður þingmannanefndarinnar. Næsti fundur nefndarinnar var haldinn í Helsinki 19. nóvember 2009 og í tengslum við hann, 18. nóvember, málþing um hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Alþingi, 12. mars 2010.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


varaform.


Kristján Þór Júlíusson.