Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 460. máls.

Þskj. 790  —  460. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum (bílaleigur).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Skattskyldum aðilum sem við gildistöku ákvæðis þessa hafa leyfi til að reka bílaleigu samkvæmt lögum nr. 64/2000, um bílaleigur, er heimilt við kaup á notuðum fólksbifreiðum að reikna innskatt af kaupverði bifreiða sem verða til útleigu, þó svo að virðisaukaskattur hafi ekki verið lagður á við sölu á viðkomandi bifreiðum til bílaleigunnar. Innskatturinn skal nema 20,32% af kaupverði bifreiðar.
    Fjöldi keyptra bifreiða samkvæmt heimild 1. mgr. má ekki vera meiri en 15% af heildarfjölda fólksbifreiða sem eru í eigu bílaleigunnar við gildistöku ákvæðis þessa.
    Endursala bifreiða sem um ræðir í 1. mgr. telst til skattskyldrar veltu skv. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sundurliða skal í bókhaldi upplýsingar um kaup og sölu bifreiðanna í samræmi við 9. gr. a reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
    Heimild skv. 1. og 2. mgr. gildir til 31. desember 2010.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lögð til tímabundin breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem heimilar skattskyldum aðilum sem hafa leyfi til að reka bílaleigu að reikna innskatt af kaupverði notaðra fólksbifreiða sem eru til útleigu þó svo að virðisaukaskattur hafi ekki verið lagður á við sölu viðkomandi bifreiða til bílaleigunnar.
    Í því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu hafa verið miklir rekstrarerfiðleikar hjá bílaleigum og hefur bílafloti þeirra minnkað töluvert á milli ára. Þannig voru 6.700 bílaleigubílar skráðir árið 2008 en 6.200 í ágúst 2009 og áætluð þörf samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar er um það bil 8.700 bifreiðar fyrir árið 2010. Fjármögnun nýrra bifreiða reynist kostnaðarsöm og erfið fyrir bílaleigurnar vegna veikrar stöðu íslensku krónunnar, auk þess sem mikið framboð er af notuðum bifreiðum um þessar mundir. Fyrirsjáanleg er fjölgun ferðamanna til landsins á þessu ári og því stefnir í að bílaleigur muni vanta bifreiðar til útleigu. Til að bregðast við þessu ástandi er lagt til í frumvarpi þessu að bílaleigur sem hafa rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 64/2000, um bílaleigur, og kaupa notaðar fólksbifreiðar til útleigu geti reiknað innskatt af kaupverði bifreiðanna í þeim tilvikum þar sem virðisaukaskattur hefur ekki verið lagður á við söluna til þeirra. Þar sem virðisaukaskattur er ekki tilgreindur á reikningi við kaup þessara bifreiða er lagt til að reiknaður innskattur nemi 20,32% af kaupverði notaðrar bifreiðar.
    Þar sem um undantekningarákvæði er að ræða er talið rétt að takmarka fjölda þeirra bifreiða sem hljóta skulu þessa meðferð. Hér er lagt til að hlutur þessara bifreiða í heildarflota hverrar bílaleigu verði ekki hærri en 15% miðað við gildistöku laganna.
    Þegar bifreið sem nýtur heimildar skv. 1. mgr. er svo seld aftur skal salan teljast til skattskyldrar veltu skv. 11. gr. virðisaukaskattslaganna. Lagt er til að upplýsingar um kaup og sölu notaðra bifreiða samkvæmt þessu ákvæði, þ.e. um reiknaðan innskatt og útskatt, séu sundurliðaðar og aðgreindar sérstaklega í bókhaldi bílaleignanna í samræmi við 9. gr. a reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, til að auðvelda aðgengi skattyfirvalda að þeim.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimild til að reikna innskattinn á framangreindan hátt muni gilda til 31. desember 2010.
    Erfitt er að áætla með einhverri nákvæmni hversu hár innskattsdráttur bílaleignanna sem munu nýta sér framangreinda heimild verður verði frumvarp þetta að lögum. Sé miðað við þær forsendur að bílafloti þeirra aukist um 15% í formi notaðra bifreiða, eða um nálægt 1.000 bifreiðar, sem allar njóti innskatts og innkaupsverð þeirra sé að jafnaði 1,5–2 millj. kr. nemur innskattsfrádrátturinn samtals um 300 millj. kr. Til lengri tíma litið má þó gera ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs vegna þessarar aðgerðar verði mun minna, bæði vegna aukinna umsvifa bílaleignanna og endursölu bifreiðanna síðar með virðisaukaskatti.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem heimili bílaleigum að reikna innskatt af kaupverði notaðra fólksbifreiða. Almennt er virðisaukaskattur ekki tilgreindur sérstaklega við sölu á notuðum bifreiðum en með frumvarpi þessu er lagt til að bílaleigur geti reiknað innskatt sem nemi 20,32% af kaupverði bifreiða sem ætlaðar eru til útleigu. Þetta er gert til að mæta erfiðu rekstrarumhverfi bílaleiga vegna mikils kostnaðar við fjármögnun á nýjum bifreiðum á sama tíma og mikið framboð er af notuðum bifreiðum. Heimild þessi verði tímabundin og gildi til 31. desember 2010. Fjöldi bifreiða samkvæmt þessari heimild má þó ekki vera umfram 15% af bifreiðaflota hverrar bílaleigu.
    Ef gert er ráð fyrir að meðalbifreiðaeign bílaleiga sé um 7000 bílar og að allt að 15% þeirra verði keyptir sem notaðir í samræmi við heimild í þessu frumvarpi má gera ráð fyrir að eftirgjöf ríkissjóðs í formi virðisaukaskatts geti verið á bilinu 300-400 m.kr. Er þá gert ráð fyrir að meðalverð bifreiðanna sé 1,5–2 m.kr. Við endursölu frá bílaleigunni telst sala bifreiðanna til skattskyldrar veltu og bifreiðin þá útsköttuð. Hvað endursalan hefur í för með sér miklar virðisaukaskattsgreiðslur er erfitt að meta en gæti orðið á bilinu 150–250 m.kr. að því gefnu að eignarhald bifreiðanna hjá bílaleigunum verði tiltölulega stutt.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður hins vegar ekki séð að álag á innheimtu eða umsýslu með uppgjöri á virðisaukaskatti aukist í þeim mæli að það muni hafa í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð.