Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 309. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 799  —  309. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Frá menntamálanefnd.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Þórhall Vilhjálmsson skrifstofustjóra lögfræðisviðs mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Útlendingastofnun og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarp þetta er rammalöggjöf um mat á því hvort einstaklingur, sem hefur hug á að starfa hér á landi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, uppfyllir skilyrði til að starfa í starfsgrein sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu stjórnvalds, á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi, sbr. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, en þau eru almenn löggjöf um viðurkenningu starfsréttinda og hæfis. Frumvarpið er að miklu leyti byggt upp með tilliti til ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem sameinar fyrri tilskipanir um sama efni en felur ekki í sér grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Í tilskipuninni er kveðið á um viðurkenningu á menntun til að gegna starfi sem er lögverndað og að menn skuli hafa aflað sér faglegrar menntunar og hæfis áður en þeim er heimilt að hefja störf á viðkomandi sviði. Jafnframt felur frumvarpið í sér rétt til handa þeim sem falla undir tilskipunina til að veita þjónustu hér á landi tímabundið eða með hléum. Frumvarpið kveður á um að aðili skuli leita til mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að fá viðurkenningu starfsréttinda sinna hafi öðru stjórnvaldi ekki verið falin úrlausn málsins. Þá getur ráðuneytið eða viðeigandi stjórnvöld krafið umsækjanda um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka afstöðu til umsóknar. Enn fremur er kveðið á um samstarf stjórnvalda og hafa þau heimild til vinnslu persónuupplýsinga og annarra upplýsinga sem nauðsynlegar teljast vegna framkvæmdar tilskipunarinnar. Þeim er heimilt að halda sérstaka skrá til miðlunar upplýsinga um viðurlög eða refsiaðgerðir eða aðrar alvarlegar eða sérstakar aðstæður sem eru líklegar til þess að hafa áhrif á rétt umsækjanda til þess að stunda þau störf sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar.
    Nefndin fjallaði ítarlega um málið og áréttar að þar sem frumvarpinu er ætlað tvíþætt hlutverk, þ.e. að vera rammalöggjöf og innleiða ákvæði fyrrgreindrar tilskipunar, er mikilvægt að gera greinarmun á þeim sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar, þeim sem falla undir samninga skv. b- og c-lið 2. gr. frumvarpsins og þeim sem koma frá öðrum ríkjum. Þannig eiga ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og þeir sem falla undir samninga skv. b- og c-lið 2. gr. að fá sjálfkrafa rétt til að starfa hér á landi með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara, uppfylli þeir skilyrði tilskipunarinnar eða viðkomandi samnings. Aftur á móti verður að gera kröfu um að það sem felst í viðkomandi starfsréttindum sé sambærilegt. Ef í ljós kemur, eftir yfirferð á þeim gögnum sem viðkomandi einstaklingur framvísar, að verulegur munur er á því námi sem liggur til grundvallar viðkomandi starfsréttindum er þess vegna heimilt að láta viðkomandi til að mynda gangast undir hæfnispróf, sbr. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Ef um er að ræða ríkisborgara í ríki sem hvorki fellur undir gildissvið tilskipunarinnar né tilgreinda samninga í 2. gr. er ekki um sjálfkrafa rétt að ræða og verður að meta formlega menntun og hæfi í hvert sinn.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins gilda ákvæði þess jafnframt um tilkynningarskyldu vegna þjónustu sem veitt er hér á landi tímabundið eða með hléum og er háð leyfi, löggildingu eða annarri jafngildri viðurkenningu stjórnvalds. Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um rétt þess sem fellur undir skilyrði tilskipunarinnar til að veita þjónustu hér á landi tímabundið eða með hléum að uppfylltum skilyrðum a- og b-liðar 1. mgr. greinarinnar. Enn fremur er í 5. gr. kveðið á um skyldu þess sem óskar í fyrsta sinn eftir að veita hér þjónustu, sbr. 4. gr., til að gefa skriflega yfirlýsingu til hlutaðeigandi stjórnvalds. Í greininni eru tilgreind þau gögn sem stjórnvald getur gert kröfu um að fylgja skuli yfirlýsingunni. Nefndin áréttar að réttur til að veita þjónustu samkvæmt fyrrnefndum greinum nær einungis til aðila sem falla undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins en ekki þeirra sem falla undir samninga, sbr. b- og c-lið 2. gr., né þeirra sem koma frá öðrum löndum.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um 8. gr. frumvarpsins. Þar er að finna almenna reglugerðarheimild til hlutaðeigandi ráðherra. Samkvæmt 1. mgr. getur ráðherra veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum er varða ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga á grundvelli tilskipunarinnar og þeirra samninga sem um getur í b- og c-lið 2. gr. Það er álit nefndarinnar að mikilvægt sé að reglugerðarheimild sem þessi sé til staðar. Nefndin áréttar að um er að ræða sambærilega heimild og í 1. mgr. 4. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. 8. gr. er einnig að finna heimild fyrir hlutaðeigandi ráðherra til að setja reglur um hæfnispróf eða viðbótarmenntun eftir því sem við á. Í 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins er jafnframt að finna heimild til handa mennta- og menningarmálaráðherra um að fela þar til bærum aðila að sjá um hæfnispróf og veita viðbótarmenntun skv. 2. mgr. 8. gr.
    Í 6. gr. frumvarpsins er mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem og hlutaðeigandi stjórnvöldum veitt heimild til að krefja umsækjanda sem óskar eftir að starfa hér á landi eða veita þjónustu um frekari upplýsingar svo hægt sé að taka afstöðu til umsóknar viðkomandi. Það er álit nefndarinnar að til að mat og afgreiðsla á umsókn þeirra sem óska eftir að starfa hér á landi, sem og þeirra sem falla undir tilskipunina og óska eftir að veita þjónustu hér á landi tímabundið eða með hléum, verði sem skilvirkust sé æskilegt að umsækjendur skili viðauka við prófskírteini (diploma supplement) sé hann fyrir hendi með umsóknum, sbr. 3. gr., og yfirlýsingum, sbr. 5. gr. Það er orðið nokkuð almennt að slíkur viðauki fylgi prófskírteinum en í honum kemur fram nánari lýsing á viðkomandi námi. Með því að nefna slíkan viðauka sérstaklega í lagatexta telur nefndin að venja skapist um að hann fylgi umsókn um að starfa hér á landi eða yfirlýsingu um að veita þjónustu tímabundið eða með hléum. Nefndin telur að með þessu verði flæði milli markaða aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins skilvirkara. Leggur nefndin því til breytingar á greininni.
    Nefndin leggur jafnframt til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins af lagatæknilegri ástæðu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 6. gr. Við 1. málsl. bætist: til að mynda viðauka við prófskírteini sé hann fyrir hendi.
     2.      Við 11. gr. Fyrri málsliður orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2010.

    Unnur Brá Konráðsdóttir og Eygló Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. mars 2010.



Oddný Harðardóttir,


form., frsm.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Ásmundur Einar Daðason.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Skúli Helgason.


Margrét Tryggvadóttir.