Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 58. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 827  —  58. mál.
Nefndarálitum frv. til landflutningalaga.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svanhvíti Axelsdóttir og Karl Alvarsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Ólaf Jónsson frá Skeljungi hf., og Lilju Jónsdóttir hrl. og Nótt Thorberg frá Landflutningum Samskip.
    Umsagnir bárust frá ríkislögreglustjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samskipum hf., Vegagerðinni, Skeljungi hf., Byggðastofnun, Neytendastofu, SVÞ – samtökum verslunar og þjónustu, flutningasviði og Umferðarstofu.
    Markmið frumvarpsins eru að laga reglur um landflutninga að því rekstrarumhverfi sem greinin býr við núna og þeim breytingum sem orðið hafa á því sviði. Gildandi lög á þessu sviði eru lög nr. 24/1982, um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi. Núgildandi lög grundvallast á tillögum frá Landvara, félagi íslenskra vöruflytjenda, sem aftur eru byggðar á reglum um flutningssamninga og flutningaábyrgð annars staðar á Norðurlöndunum. Talið var tímabært að fara yfir regluverkið á þessu sviði með heildarendurskoðun í huga. Í því skyni skipaði þáverandi samgönguráðherra í október 2006 starfshóp til að endurskoða lög nr. 24/1982, um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi. Starfshópurinn var auk fulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins skipaður fulltrúum flytjenda og kaupenda þjónustu og er frumvarp það sem hér er til umfjöllunar afrakstur af vinnu þessa starfshóps.
    Með frumvarpinu eru kynntar fjölmargar breytingar og nýmæli frá núgildandi lögum sem fjallað er ítarlega um í frumvarpinu. Breytingarnar lúta m.a. að gildissviði laganna, en lagt er til að lögin gildi um allan vöruflutning með ökutæki á landi og gildi því bæði um vörusendingar sem fluttar eru milli bæjarfélaga og innan sama bæjafélags, auk þess sem gert er ráð fyrir að lögin gildi um flutninginn hvort sem greitt er fyrir hann eður ei. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum er varða flutningasamninginn og fylgibréf. Reglur frumvarpsins um fjárhæð bóta miða að því að gera reglurnar ítarlegri svo auðveldara sé að ákvarða bætur þegar vara skemmist eða glatast. Þá er lagt til að bótafjárhæð verði takmörkuð og fjárhæðin miðuð við 12,5 SDR þótt heimilt verði að semja um hærri bætur. Ein meginbreytingin sem lögð er til með frumvarpinu snýr að ábyrgðarreglum. Hvað ábyrgð flytjanda varðar er horfið frá hlutlægri ábyrgð með nánar tilgreindum undantekningum eins og núverandi lög gera ráð fyrir og þess í stað lagt til að tekin verði upp sakarlíkindaregla þannig að sönnunarbyrðin hvíli á flytjanda um að hann eigi ekki sök á tjóninu. Slík leið er að einhverju leyti mildari en ábyrgðarreglan sem nú er stuðst við. Sem dæmi má nefna að samkvæmt gildandi lögum getur flytjandi borið ábyrgð á tjóni sem rakið verður til sakar óviðkomandi þriðja aðila, t.d ökumanna annarra ökutækja eða þjófa, og tjóni sem hlýst af tilviljun eins og bruna og umferðarslysi, einnig ef tjónið má rekja til bilunar eða galla í ökutækinu sem notað er til að flytja vöruna. Þá er í frumvarpinu kveðið skýrar á um reglur er varða ábyrgð sendanda.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að tímbært hafi verið að taka reglur á þessu sviði til heildarendurskoðunar og telur frumvarp þetta vera bóta og til þess fallið að skýra það regluverk sem stuðst er við í flutningi vöru innan lands. Meiri hlutinn telur að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu þess eðlis að stuðla að skilvirkari og sanngjarnari starfsumhverfi fyrir aðila sem koma að landflutningum.
    Fram komu þær athugasemdir við frumvarpið að skilgreining nokkurra hugtaka samræmdist ekki skilgreiningu sömu hugtaka í umferðarlögum. Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að samræmis sé gætt við skilgreiningu helstu hugtaka á þessu sviði og vekur í því sambandi athygli á að á næstu dögum verður lagt fram á Alþingi frumvarp þar sem umferðarlög eru tekin til heildarendurskoðunar og er hugtakanotkun frumvarpsins í samræmi við það.
    Einnig ræddi nefndin sjónarmið er snúa að knöppum tímafresti til handa móttakanda vöru, sbr. 27. gr. Það er mat meiri hlutans að þrír dagar verði að teljast mjög hæfilegur tími og vekur í því samhengi athygli á því að framangreint ákvæði er byggt á mati starfshópsins og var einn í hópnum fulltrúi notenda þjónustunnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Þór Saari sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 17. mars 2010.Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Björgvin G. Sigurðsson.Róbert Marshall.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.