Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 244. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 829  —  244. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um lögskráningu sjómanna.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson, skrifstofustjóra í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofu, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Óskari Karli Guðmundssyni útgerðarmanni og Sjómannasambandi Íslands.
    Lögskráning sjómanna eins og hún þekkist í dag hefur tíðkast hér á landi frá árinu 1930 og er einsdæmi. Henni er ætlað að tryggja sönnun fyrir því hverjir hafi verið um borð í skipi ef það ferst. Þá er lögskráningin liður í eftirliti með því að skipverjar hafi lögboðin starfsréttindi, staðfesting á að lögboðin slysatrygging sé í gildi og jafnframt að fyrir liggi gögn um haffæri skips. Einnig felst í henni skráning á siglingatíma skipverja. Tilgangur þessa frumvarps er einkum að taka upp rafræna lögskráningu meðal skipverja sjálfra sem einfaldar umsýslu og framkvæmd skráningarinnar. Lagt er til að skipstjórar og/eða útgerðarmenn beri ábyrgð á lögskráningunni sjálfir í gegnum lögskráningarferlið og að þeir annist framkvæmd hennar. Fyrir þá skipstjóra eða útgerðarmenn sem ekki vilja nýta sér þennan möguleika verður áfram hægt að lögskrá með eldra fyrirkomulaginu. Með notkun rafrænna skilríkja verður hægt að tryggja að upplýsingar stafi frá réttum aðila hverju sinni. Einnig er lögð til sú meginbreyting frá gildandi lögum að lögskráning tekur nú til allra skipverja sem starfa um borð í skipum sem eru skráningarskyld hér á landi. Í gildandi lögum nær skráningin til allra skipverja sem ráðnir eru til starfa á skipum sem eru skráð hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri. Ekki eru taldar forsendur fyrir því að gera greinarmun á eftirliti með kröfum um tilskilin réttindi og tryggingar eftir stærð skipa.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um áhrif þeirra breytinga sem hér eru lagðar til en þær helstu eru eins og ofan er rakið að lögskráningarskyldan á að ná til allra skipa óháð stærð og að framkvæmd lögskráningar verði rafræn. Fjallað var um mikilvægi þess að lögskráningarskyldan nái til allra skipa óháð stærð. Samkvæmt núgildandi lögum eru skip minni en 20 brúttótonn ekki lögskráningarskyld. Telur nefndin eðlilega ráðstöfun að lögskráningarskyldan nái til allra skipa óháð stærð. Það er öryggissjónarmið að fyrir liggi sönnun þess hverjir eru skráðir á skip hverju sinni auk þess sem breytingin einfaldar framkvæmd og kostnað við skráningar.
    Meiri hlutinn telur þá breytingu að lögskráning verði rafræn jákvæða og bæði til þess fallna að einfalda framkvæmd og draga úr kostnaði, bæði fyrir skráningarskylda aðila og stjórnvöld. Engu síður verður sá möguleiki að vera fyrir hendi að lögskrá með svipuðum hætti og áður fyrir þá sem þess óska. Meiri hlutinn leggur áherslu á að tilgangur og markmið lögskráningar séu þau sömu og áður og að ekki sé verið að hrófla við þeim með breytingunum sem hér eru lagðar til.
    Varðandi þau sjónarmið sem fram hafa komið hvort nauðsynlegt sé að afskrá skipverja eftir hverja veiðiferð bendir meiri hlutinn á almennu regluna samkvæmt gildandi lögum um að afskrá skuli skipverja þegar veru hans lýkur um borð, hvort sem er vegna ráðningarslita eða fjarveru um stundarsakir vegna orlofs, slyss, veikinda eða að skip sé ekki í förum tímabundið vegna bilana, viðgerða, endurbóta eða ef skipi er ekki haldið úti af öðrum ástæðum. Meiri hlutinn telur í ljósi ofangreinds að ekki þurfi að afskrá skipverja eftir hverja veiðiferð nema áðurnefnd atriði eigi við og fram kom á fundum nefndarinnar að það hafi ekki verið ætlunin með framlögðu frumvarpi að gera breytingar þessu.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að felld verði brott málsgrein í 4. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að skylt sé að framkvæma lögskráningu innan sólarhrings frá því að skip yfirgefur höfn ef frávik verður frá meginreglunni um að ganga skuli frá lögskráningu áður en skip yfirgefur höfn. Er það mat meiri hluta nefndarinnar að nægilegt sé að gera undantekningu í neyðartilvikum eins og gert er ráð fyrir í 4. gr. frumvarpsins. Þá leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 8. gr. sem er ætlað að skýra málsgreinina. Loks leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þar sem nokkurn tíma þarf til útfærslu á tölvukerfum. Meiri hlutinn leggur til að gildistaka verði 1. nóvember.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 4. gr. 3. málsl. 2. mgr. falli brott.
     2.      Við 8. gr. 1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að fara um borð í íslensk skip, á hafi sem í höfn, og kanna lögmæti lögskráningar og skilríki um réttindi yfirmanna.
     3.      Við 10. gr. í stað „1. janúar 2010“ komi: 1. nóvember 2010.

    Þór Saari sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 17. mars 2010.Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Björgvin G. Sigurðsson.Róbert Marshall.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.