Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 482. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 830  —  482. mál.
Leiðréttur texti.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2009.

1. Inngangur.
    Það sem bar hæst í starfi Vestnorræna ráðsins á árinu var einkum fernt. Í fyrsta lagi fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins (SIN/EEA-nefndin) sem haldinn var í Brussel 24. febrúar. Um var að ræða annan formlegan fund nefndanna síðan samkomulag um reglulega fundi var undirritað 2008 á milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins. Á fundinum var rætt um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda hafsins, fyrirhugað bann við sölu selafurða frá Grænlandi á innri markað ESB, framtíðarhorfur tvíhliða samnings Evrópusambandsins og Grænlands, sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins og mikilvægi sjávarútvegs fyrir Vestur-Norðurlöndin. Að lokum var rætt um sjósamgöngur og öryggismál í Norður-Atlantshafi og áhrif loftlagsbreytinga á norðurslóðum.
    Í öðru lagi var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um námsmöguleika fyrir ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum haldin á Grænlandi 4.–7. ágúst. Á ráðstefnunni var staða framhaldsskólamenntunar á Vestur-Norðurlöndunum kortlögð auk þess sem brottfall var sérstaklega skoðað og gerð grein fyrir námsframboði fyrir ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum. Niðurstaða ráðstefnunnar var að það kerfi fræðslumiðstöðva, sem innleitt var á Íslandi árið 2003 með samstilltu átaki samtaka verkalýðsfélaga og atvinnurekenda auk menntamálaráðuneytis, hefði gefið góða raun í samanburði við önnur úrræði. Í ljósi þess gæti það kerfi þjónað sem fyrirmynd fyrir hin Vestur-Norðurlöndin. Á sama tíma væri enn sem áður mikilvægt að leita lausna á vandamálum tengdum skólasókn og brottfalli og leita í smiðju annarra þjóða eins og Svíþjóðar þar sem brottfall úr framhaldsskólum er með því minnsta sem gerist á Norðurlöndum.
    Í þriðja lagi var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn í Færeyjum. Ársfundurinn samþykkti alls þrjár ályktanir, eina frá hverju Vestur-Norðurlandanna, sem allar byggðust á þemaráðstefnunni og mæltu fyrir um aukna samvinnu á sviði menntamála. Tillaga Íslands mælti fyrir um nemenda- og kennaraskipti milli verkmenntaskóla og þátttöku fræðslumiðstöðva með áherslu á nám fyrir ófaglærða, tillaga Grænlands um samvinnu milli vestnorrænna háskóla um fjarnám og tillaga Færeyja um skiptinemaáætlun fyrir framhaldsskólanema. Hugmyndin að baki öllum tillögunum var að nýta það skólastyrkjakerfi sem fyrir er í löndunum til að stuðla að aukinni samvinnu en að annar kostnaður eins og ferða- og uppihaldskostnaður yrði greiddur úr norrænum styrktarsjóðum. Að lokum samþykkti ársfundur að fela undirbúningsnefnd að leggja fram tillögur um skóla sem gætu tekið þátt í þeirri samvinnu sem tillögurnar mæla fyrir um.
    Í fjórða lagi tók formaður Vestnorræna ráðsins auk formanna hinna landsdeildanna virkan þátt í umræðum á Norðurlandaráðsþingi þar sem þau vöktu m.a. athygli á framlagi Vestur- Norðurlandanna til endurskoðunar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2010 sem mun fjalla um kosti og galla fiskveiðistjórnarkerfa Vestur-Norðurlandanna. Formenn landsdeilda Vestnorræna ráðsins tóku einnig til máls í umræðu um brottkast á fiski, banni Evrópusambandsins á sölu selafurða, brottfall úr námi á Vestur-Norðurlöndunum og áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi og lífskjör íbúa á Vestur-Norðurlöndum.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í höfuðstað Grænlands, Nuuk, 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur reglulega saman tvisvar sinnum árlega, til ársfundar og þemaráðstefnu. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formanni landsdeildar hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur síðan árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir. Auk þess getur ráðið skipað vinnunefndir um tiltekin mál.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleið Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál, og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum ráðsins með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna sem samþykktar eru á aðalfundi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, menningarmál, og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt. Jafnframt vinnur Vestnorræna ráðið að framgöngu sinna markmiða með virkri þátttöku í norrænu, evrópsku og norðurskauts samstarfi. Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á að formgera slíkt samstarf. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs sem veitir Vestnorræna ráðinu aukinn tillögu- og málflutningsrétt á Norðurlandaráðsþingi, og árið 2008 var undirritaður samningur við sendinefnd Evrópuþingsins (SIN/EEA-nefndina) um reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi árs 2009 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn sem aðalmenn: Karl V. Matthíasson formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Johnsen varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Herdís Þórðardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks, Jón Magnússon, þingflokki Frjálslynda flokksins, Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Breytingar urðu á skipan aðal- og varamanna Íslandsdeildar eftir kosningar til Alþingis 25. apríl og kosningu Alþingis í nefndir 15. maí. Aðalmenn voru kosnir: Atli Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þráinn Bertelsson, þingflokki Borgarahreyfingarinnar og síðar óháður. Varamenn voru kosnir: Ásbjörn Óttarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Björn Valur Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Á fundi Íslandsdeildar 18. maí var Ólína Þorvarðardóttir kosin formaður og Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður deildarinnar. Magnea Marinósdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Bar hæst undirbúningur fyrir þemaráðstefnu á Grænlandi um námsmöguleika fyrir ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum og ársfund í Færeyjum þar sem Íslandsdeildin lagði fram ályktunartillögu. Jafnframt lagði Íslandsdeildin fram tillögu á ársfundi um að fiskveiðistjórnarkerfi Vestur-Norðurlandanna yrði þema fyrir næstu þemaráðstefnu og var sú tillaga samþykkt var einróma.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2009.
    Vestnorræna ráðið hélt að venju þemaráðstefnu og ársfund en báðir fundir voru haldnir í ágúst í stað júní og ágúst. Ástæðan var kosningar til Alþingis 25. apríl og kosningar til landsþings Grænlands 2. júní. Þess má einnig geta að vegna sparnaðaraðgerða sótti helmingur þeirra þingmanna sem eiga sæti í Íslandsdeild hvorn fund, þ.e. þemaráðstefnu og ársfund. Þá voru haldnir tveir forsætisnefndarfundir á árinu til hliðar við ársfund og þemaráðstefnu auk þess sem forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti fund með sendinefnd Evrópuþingsins og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Einnig átti Íslandsdeildin óformlegan hádegisverðarfund hérlendis með utanríkismálanefnd færeyska lögþingsins 20. október.

Forsætisnefndarfundur 24. febrúar í Brussel.
    Karl V. Matthíasson, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, sótti fund forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 24. febrúar ásamt Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara. Fundurinn var haldinn í húsakynnum sendiskrifstofu Færeyja í Brussel. Eftir kynningu á starfsemi sendiráðsins var fyrirhuguð þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins 9.–12. júní á Grænlandi, tekin á dagskrá. Ruth Heilmann, þáverandi formaður grænlensku landsdeildarinnar, greindi frá því að ráðstefnan yrði haldin í Grænadal og þemað yrði námsmöguleikar fyrir ófaglærða.
    Formaður Vestnorræna ráðsins, Kári Højgaard, greindi frá fyrirhuguðum fundi sínum og framkvæmdastjóra ráðsins með fulltrúum menntamálasviðs norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 27. febrúar. Tilefni fundarins voru tilmæli Vestnorræna ráðsins til norrænu ráðherranefndarinnar um stofnun vinnuhóps sem hefði það hlutverk að kanna forsendur þess að setja á laggirnar norrænan lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndum. Kári kynnti næst hugmynd sína um að stofnað verði Vestnorrænt ráð unga fólksins sem svipar til hugmyndarinnar um Norðurlandaráðsþing æskunnar. Hugmyndin gengur út á að samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins verði haldnir fundir um vestnorrænt samstarf á Vestur-Norðurlöndunum þremur með þátttöku ungliða úr öllum stjórnmálaflokkum. Fundirnir þrír yrðu síðan sameinaðir í einn að lokum fyrir tilstilli fjarfundabúnaðar til að stuðla að umræðu milli vestnorrænna ungliða. Karl V. Matthíasson tók vel í hugmyndina enda í samræmi við markmið ráðsins um að styrkja böndin á milli landanna. Ruth var ekki andsnúin hugmyndinni en taldi í ljósi fjármálakreppunnar að ráðið ætti að einbeita sér að þeim verkefnum sem búið væri að samþykkja að vinna að eins og stofnun Vestnorræna dagsins í stað þess að stofna til nýrra útgjaldafrekra verkefna. Það væri líka hægt að gera ráð fyrir þátttöku ungs fólks úr stjórnmálum, menningar- og íþróttalífinu á Vestnorræna deginum. Fundarmenn tóku undir orð hennar en jafnframt var ákveðið að taka hugmynd Kára til frekari umræðu innan hverrar landsdeildar. Ruth spurði því næst hvort stæði til að halda vestnorræna þingkvennaráðstefnu á Íslandi 2009 eins og um hafi verið rætt en árið 2004 og 2006 voru slíkar ráðstefnur haldnar í Færeyjum og Grænlandi í samræmi við ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 1999. Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins upplýsti að ráðstefnurnar hefðu ekki verið haldnar af Vestnorræna ráðinu heldur í boði þjóðþinganna. Boð á ráðstefnuna væri því í höndum forseta Alþingis.
    Gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið, sem er í samræmi við tilmæli Vestnorræna ráðsins til Norðurlandaráðs árið 2008 og hluti af formennskuáætlun Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni 2009, var næst tekin til umræðu. Fögnuðu formennirnir því að málið væri komið á dagskrá og framkvæmdastjórinn benti jafnframt á að formennskuáætlun Svíþjóðar í Norðurlandaráði um samfélagsöryggi í víðum skilningi væri einnig í takt við áherslur Vestnorræna ráðsins síðustu ár. Að lokum var greint frá ráðstefnu Norðurlandaráðs um norðurslóðamál sem haldin var í þjóðþingum Svíþjóðar og Danmerkur 2009.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins 24. febrúar í Brussel.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti sinn annan formlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins (SIN/EEA-nefndinni) í Brussel 24. febrúar. Aloyzas Sakalas, varaformaður sendinefndar Evrópuþingsins frá Litháen, setti fundinn í fjarveru formanns nefndarinnar, þingkonunnar Bilyana Raeva frá Búlgaríu. Eftir formlega kynningu á formönnum landsdeilda Vestnorræna ráðsins og sendinefnd Evrópuþingsins var fundur settur. Á dagskrá fundarins voru eftirfarandi mál: sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins, þ.m.t sel- og hvalveiðar, sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins í samhengi við mikilvægi sjávarútvegs fyrir Vestur-Norðurlönd, framtíðarhorfur tvíhliða samnings Evrópusambandsins og Grænlands með áherslu á náttúruauðlindir sem Grænland býr yfir eins og málma og olíu, loftlagsbreytingar og umhverfisáhrif þeirra, aðstæður í Norður-Atlantshafi, sjósamgöngur, öryggis- og björgunarmál og norðurskautsgluggi norðlægrar víddar ESB.

Sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins.
    Kári Højgaard, formaður landsdeildar Færeyja, hélt framsögu um hvalveiðar á Vestur- Norðurlöndunum. Hann lagði áherslu á að hvalveiðar á Vestur-Norðurlöndum væru sjálfbærar og hluti af menningu landanna. Ruth Heilmann, formaður landsdeildar Grænlands, vék að mikilvægi selveiða fyrir menningu og hagkerfi Grænlands. Hún andmælti fyrirhuguðu banni við sölu selafurða á innri markaði ESB og benti á að með banninu væri verið að grafa undan afkomumöguleikum fólks sem hefði lífsviðurværi sitt af hefðbundnum veiðum og vinnslu margs konar afurða úr selskinni. Þar væri um að ræða bæði fatnað og annars konar handverk sem jafnfram væri hluti af handverkshefð og menningararfleið landsins.

Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB.
    Karl V. Matthíasson, formaður Vestnorræna ráðsins, fjallaði um fiskveiðistjórnarkerfi Íslands með hliðsjón af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Í máli hans kom fram að allt frá landgrunnslögunum, sem sett voru hérlendis árið 1948, hafi áhersla verið lögð á sjálfbærar veiðar enda lífsafkoma Íslands og hagvöxtur háð sjávarútvegi. Það sama ætti við um hinar Vestur-Norðurlandaþjóðirnar. Hann benti á að markmið fiskveiðistjórnarkerfis Vestur-Norðurlandanna og ESB væri eitt og hið sama, þ.e. að koma í veg fyrir ofveiði. Árangurinn væri hins vegar ekki sá sami þar sem ofveiði væri enn vandamál innan ESB á meðan það gagnstæða gilti um Vestur-Norðurlöndin. Ástæðan lægi hugsanlega í því að ekki væri til staðar nógu skýrt samband á milli markmiðanna um sjálfbærar veiðar annars vegar og hagkvæms rekstrar hins vegar. Í því sambandi vísaði hann til niðurgreiðslna frá hinu opinbera til sjávarútvegs innan Evrópusambandsins. Karl lauk máli sínu með því að benda á að í ljósi ofveiðivandans innan ESB og mikilvægis sjávarútvegs í þjóðarframleiðslu og útflutningstekjum Íslands í samanburði við öll ríki ESB samanlagt þá gjaldi margir á Íslandi varhug við því að færa ákvarðanir um íslenskan sjávarútveg undir ráðherraráð ESB í umræðum um hugsanlega aðild Íslands að ESB.
    Að loknum framsögum sagði Sakalas að innan ESB væri skilningur á mikilvægi sjávarútvegs og veiða fyrir efnahag Vestur-Norðurlandanna.

Framtíðarhorfur samstarfssamnings ESB og Grænlands.
    Ruth Heilmanns sagði mikinn áhuga vera á Grænlandi á útvíkkun samstarfsins við ESB. Hún nefndi sérstaklega í því sambandi samvinnu á sviði ferðamennsku, rannsókna og menningar. Sendinefnd Evrópuþingsins tók í sama streng um leið og bent var á möguleikana sem náttúruauðlindir landsins gætu haft að segja fyrir framtíð Grænlands og samband við umheiminn en Grænland er ríkt af málmum og nú stendur olíuleit yfir. Evrópuþingmennirnir spurðu einnig hvort Grænland mundi hugsanlega sækja aftur um aðild að ESB en það sagði sig úr ESB árið 1985. Ruth svaraði því til að umræða væri um þau mál á Grænlandi en ekkert benti til ESB-aðildar Grænlands í nánustu framtíð þótt enginn gæti vitað hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Loftlagsbreytingar og áhrif þeirra á umhverfið.
    Kári fjallaði um hvað áhrif loftlagsbreytinganna kæmu sterkt fram á Vestur-Norðurlöndum, m.a. í atferli dýra- og fiskstofna, sem hefðu bein áhrif á lífshætti og afkomu íbúa Vestur- Norðurlanda. Mikilvægt væri í ljósi þessa að styrkja rannsóknarsamstarf um áhrif loftslagsbreytinga á umhverfið, ekki síst hafrannsóknir. Í máli sendinefndar Evrópuþingsins var einkum vikið að tækifærum sem væru til staðar á sviði orkusparneytni og endurnýtanlegra orkugjafa. Tekið var dæmi um að 40% af allri orkuframleiðslu færi í upphitun húsnæðis og þar væru miklir möguleikar á að leita nýrra leiða.

Öryggismál á hafi.
    Kári vék að þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var sumarið 2008 í Færeyjum um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi með hliðsjón af auknum farm- og farþegaflutningum. Hann undirstrikaði að öryggismálum á Norður-Atlantshafi væri ábótavant, ekki síst þegar kæmi að samstarfi og samhæfingu við leit og björgun. Karl benti á þá auknu hættu á mengunarslysum og mannskaða sem fylgir auknum siglingum skipa með olíu og gas frá Rússlandi og ferðum stórra skemmtiferðaskipa frá sunnanverðri Evrópu sem þekkja illa til aðstæðna á norðurhöfum. Karl vakti jafnframt athygli á tilmælum Vestnorræna ráðsins til norrænu ráðherranefndarinnar um stofnun vinnuhópa sem hefðu það hlutverk að kortleggja stöðu siglingaöryggis í Norður-Atlantshafi og koma með tillögur á grundvelli þeirrar greiningar að viðbragðs- og samstarfsáætlun um öryggis- og björgunarmál. Í því sambandi benti Karl einnig á formennskuáætlun Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni um gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshaf. Sendinefnd Evrópuþingsins gerði grein fyrir stefnumótun ESB um siglingar fram til ársins 2018 og stefnumótun sambandsins í loftslagsmálum fram til ársins 2020. Starfsemi sérfræðingastofnunar ESB um öryggismál á hafi var kynnt en sú stofnun veitir tæknilega og vísindalega ráðgjöf til framkvæmdastjórnar ESB sem setur lög og reglur um þau mál.

Norðurskautsgluggi norðlægu víddarinnar.
    Ruth Heilmann kom á framfæri ósk frá Vestnorræna ráðinu um að ESB sinnti norðurslóðamálum í meiri mæli. Í máli Karls kom fram að áhugi manna hefði í auknum mæli beinst að norðurslóðum vegna aukinna möguleika á nýtingu náttúruauðlinda og nýrra siglingaleiða í kjölfar hlýnunar. Það væri mikilvægt í þeim efnum að huga einnig að hagsmunum og lífsgæðum fólksins á svæðinu þar sem margir ættu við félagsleg vandamál að stríða í kjölfar breyttra aðstæðna og lífshátta. Í þessu sambandi vakti hann athygli á gerð sérstakra félagslegra viðmiða fyrir norðurslóðir (e. arctic social indicators) til viðbótar við þróunarviðmið Sameinuðu þjóðanna (e. human development indicators) sem unnið er að innan Norðurskautsráðsins og eiga að endurspegla betur sérstakar aðstæður íbúa norðurskautssvæðisins.
    Að lokum var ákveðið að halda næsta fund forsætisnefndar og sendinefndar Evrópuþingsins annaðhvort í Færeyjum eða Grænlandi. Þingmenn forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins sóttu einnig fyrstu þingmannaráðstefnuna um norðlægu víddina sem haldin var 25.–26. febrúar.

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins 4.–7. ágúst á Grænlandi.
    Dagana 4.–7. ágúst fór fram þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins. Ráðstefnuna sóttu af hálfu Íslandsdeildar Ólína Þorvarðardóttir formaður, Árni Johnsen og Sigurður Ingi Jóhannsson ásamt Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara. Ráðstefnan var haldin um borð í skipi danska sjóhersins og í Grænadal á Grænlandi þar sem sjóherinn hefur aðstöðu. Boð danska sjóhersins um fundaraðstöðu kom í kjölfar þátttöku hersins í björgunar- og leitaræfingu sem haldin var í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum árið áður.
    Ráðstefnan, sem var tileinkuð námsmöguleikum ófaglærðra á Vestur-Norðurlöndum, var sett af Kára P. Højgaard, formanni Vestnorræna ráðsins, og Josef Motzfeldt, formanni landsdeildar Grænlands. Eftir setningarávörp þeirra tóku fyrirlesarar frá Vestur-Norðurlöndunum til máls. Fyrirlesarar frá Íslandi voru Jón Torfi Jónasson, prófessor og forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, forstöðukona fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem rekin er af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins (SA), Anna Kristín Gunnarsdóttir, fyrrum þingkona og menntunarfræðingur, og Stefán Stefánsson, deildarstjóri á skrifstofu menntamála í menntamálaráðuneytinu. Fyrirlesarar frá Grænlandi voru Tapaarnaq Rosing Olsen, fréttakona og rithöfundur, Poul Møller í stað John Skonberg, ráðgjafa í iðnaðar- og atvinnumálaráðuneyti Grænlands, og Kunuunnguag Fleischer, yfirumsjónarmaður endurbóta á menntakerfi Grænlands. Fyrirlesarar frá Færeyjum voru Kristianna Winther Poulsen, fyrrum sviðsstjóri á atvinnuleysisskrifstofu Færeyja, Jan á Argjaboða, umsjónarmaður endurmenntunar fyrir starfsfólk sjúkrahússins í Þórshöfn, Eyðun Gaard frá menntamálaráðuneytinu og Bergtóra Høgnadóttir þingkona.
    Á ráðstefnunni kom fram að um 95% ungmenna, sem lokið hafa grunnskólanámi á Íslandi, og 70% þeirra sem lokið hafa grunnskólanámi í Færeyjum, skrá sig í framhaldsnám. Á Íslandi væri brottfall, eða hlutfall þeirra sem ljúka ekki námi, hins vegar um 33%. Jón Torfi og Anna Kristín fjölluðu nánar um orsakir brottfalls. Jón Torfi benti á að menningarbundin viðhorf í garð menntunar hefðu mikið að segja um brottfall. Hann benti jafnframt á að mikilvægt væri að átta sig á hver forgangsröðunin í sambandi við menntun væri, þ.e. hvort menntun væri fyrst og fremst talin þjóna hagsmunum samfélagsins, atvinnulífsins eða einstaklingsins, og hver skörunin væri þarna á milli.
    Anna Kristín tók undir orð Jón Torfa og benti jafnframt á að einkunnir nemenda á lokaprófi úr grunnskóla, búseta og atvinnustig væru veigamiklar skýringabreytur um brottfall. Hátt atvinnustig á Íslandi hafi almennt gert það að verkum, ekki síst á landsbyggðinni, að margir hefðu ekki séð ávinning í því að afla sér framhaldsmenntunar þar sem atvinnumöguleikar á Íslandi hefðu ekki beint verið háðir menntun. Launamunur milli menntaðra og ófaglærðra hafi auk þess ekki verið verulega mikill. Margir hafi því valið launavinnu frekar en framhaldsnám. Það endurspeglaði einnig hvernig atvinnulífið hafi verið í samkeppni við skólakerfið. Fyrirlesarar frá Færeyjum og Grænlandi tóku í sama streng.
    Kristianna Winther Poulsen frá Færeyjum benti á að lágt hlutfall þeirra sem skrá sig í framhaldsnám eftir grunnskóla væri að hluta til hægt að skýra með vísan í það menningarbundna viðhorf að forsenda ríkidæmis væri vinna við sjávarútveg en ekki menntun. Tapaarnaq frá Grænlandi gerði grein fyrir þróuninni í menntamálum á Grænlandi frá tímum heimastjórnar árið 1979 og því markmiði að 2/ 3Grænlendinga á vinnualdri yrðu með samkeppnishæfa menntun árið 2020 í stað 1/ 3eins og staðan væri í dag. Til að ná því markmiði væri nauðsynlegt að ryðja burt hindrunum í vegi menntunar á Grænlandi sem væru í fyrsta lagi menningarbundin viðhorf svipað því sem Jón Torfi ræddi um. Í öðru lagi sú staðreynd að Grænlendingar hefðu sögulega ekki verið þátttakendur í uppbyggingu síns samfélags heldur menntaðir Danir. Í þriðja lagi búsetumunstur á Grænlandi þar sem byggðir eru mjög dreifðar og afskekktar eins og Anna Kristín nefndi. Í fjórða lagi tungumálið þar sem danska hefur verið forsenda framhaldsnáms og starfsframa. Í fimmta lagi félagsleg vandamál sem hún líkti við of þungar birgðir í bakpokanum sem gerðu það að verkum að maður gæti ekki gengið. Í sjötta lagi atvinnulífið, eins og bæði Jón Torfi og Anna Kristín bentu á, sem kallaði ekki eftir menntuðu vinnuafli. Nefndi hún sjávarútveg og veiðar sem atvinnugreinar í þessu sambandi og í seinni tíð ætti þetta við um ál- og námavinnslu og ferðamannaiðnaðinn.
    Jón Torfi bætti við að hluti af skýringunni á brottfalli á Íslandi væri hversu sveigjanlegt framhaldsskólakerfið væri. Það gerði það að verkum að ákvörðun fólks um að hætta námi væri ekki endanleg heldur gæti fólk hafið nám að nýju síðar óháð aldri. Anna Kristín benti jafnframt við að samkvæmt rannsókn um brottfall sem gerð var árið 2002–2003 hafi komið fram að af þeim rúmlega 19%, sem hættu námi það árið, hafi um 45% byrjað aftur í námi síðar. Af þeim sem hófu nám að nýju lauk 21% námi.
    Ráðstefnugestir voru sammála um gildi þess að hafa menntakerfið opið og sveigjanlegt en hið gagnstæða gilti um brottfall ungs fólks úr námi. Til að koma í veg fyrir brottfall ungs fólk úr námi yrði að breyta menningarbundnum viðhorfum samfélagsins og atvinnulífsins um gildi menntunar, auka stuðning við nemendur í formi námsráðgjafar, tryggja fjölbreytni í námsmati, og kynna hagnýtt nám á síðari stigum grunnskóla. Þetta væri ekki síst mikilvægt eftir að kreppan skall á þar sem t.d. atvinnuleysi á Íslandi rauk upp og af þeim sem eru atvinnulausir hafa um 50% eingöngu lokið grunnskólaprófi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Næst var fjallað um hvað stæði ófaglærðum einstaklingum með takmarkaða menntun til boða á Vestur-Norðurlöndunum. Ingibjörg E. Guðmundsdóttir og Stefán Stefánsson gerðu grein fyrir þróun framhaldsskólakerfisins á Íslandi, stofnun kvöldskóla árið 1972 og tilkomu fullorðinsfræðslu með lögum frá 1992 og síðar fjarnáms og stofnun frumgreinadeilda í háskólum landsins. Stefán greindi sérstaklega frá námsframboði fyrir fiskvinnslufólk sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið og Ingibjörg frá stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og samvinnu við menntamálaráðuneytið. Flestar, ef ekki allar fræðslu- eða símenntunarmiðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins, voru stofnaðar á árunum 1997–2003 að frumkvæði heimamanna á hverjum stað (framhaldsskólum, fyrirtækjum, stéttarfélögum og sveitarfélögum) og oft á grunni farskóla (eins og á Austurlandi og Norðurlandi Vestra) og/eða kvöldskóla (t.d. á Suðurnesjum). Fræðslumiðstöðvarnar eru sjálfseiganstofnanir og lúta sjálfstæðum stjórnum. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var stofnuð af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins (SA) í desember 2002. Í erindi Ingibjargar kom fram að hlutfall

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


þeirra sem væru 40 ára og eldri og hefðu nýtt sér aukið framboð á sviði grunnnáms og endurmenntunar hefði aukist úr 3% árið 1997 í 7% árið 2009. Aukninguna væri hægt að skýra annars vegar með auknu framboði almennt og hins vegar með auknu framboði á námi sem hentaði sérstaklega þörfum ófaglærðra. Í því sambandi gerði hún sérstaka grein fyrir samningi Fræðslumiðstöðvar Atvinnulífsins við menntamálaráðuneytið árið 2003 um ýmiss konar þjónustu á sviði fullorðinsfræðslu, m.a. við fræðslumiðstöðvarnar um land allt, og síðar um milligöngu um fé til fræðslumiðstöðvanna frá hinu opinbera. Fræðslumiðstöðvarnar, sem eru alls níu talsins, bjóða einstaklingum með takmarkaða menntun m.a. upp á að fá atvinnureynslu sína metna til eininga í framhaldsskóla og þar með til styttingar námstíma um allt að eitt ár eða meira. Fræðslumiðstöðvarnar bjóða einnig upp á margs konar námskeið. Af þessum námskeiðum voru um 100 námskeið metin til eininga í framhaldsskóla árið 2008 í samanburði við þrjú árið 2003. Nemendafjöldi jókst á sama tíma úr 55 nemendum í 1.221. Fræðslumiðstöðvarnar bjóða einnig upp á einstaklingsviðtöl og ráðgjöf á vinnustöðum. Ingibjörg sagði að eftir kynningu á vinnustað væri vanalega um þriðjungur sem óskaði eftir viðtali og ráðgjöf og um 80% þeirra sem óskuðu eftir slíku væru á aldrinum 25–55 ára, 56% konur og 44% karlmenn.
    Poul Møller frá Grænlandi gerði nánari grein fyrir markmiðum landsstjórnar Grænlands um að ná því markmiði árið 2020 að 2/ 3fólks á vinnualdri sé með samkeppnishæfa menntun en með því hugtaki er átt við formlega menntun og aðra færni sem einstaklingar hafa öðlast á vinnumarkaði og í félagsstarfi. Til að ná þessu markmiði hafi átaksverkefni verið ýtt úr vör árið 2007 á landsvísu þar sem boðið er upp á margvísleg námskeið fyrir ófaglærða. Árið 2008 var í boði fjöldi eins til tíu vikna námskeiða fyrir ófaglærða í sex af tíu fag- og iðnskólum á Grænlandi og í 14 bæjarfélögum af alls 16. Endurmenntunarnámskeið hafi verið í boði í öllum fag- og iðnskólum landsins. Til viðbótar við bæjarfélögin eru 60 smærri byggðir í landinu en verkefnið nær ekki til þeirra. Landsstjórn Grænlands greiðir allan kostnað af ferðum, uppihaldi, námskeiðum og prófum. Atvinnulífið hafi jafnframt verið með námskeið í boði síðan árið 2006 á einum 17 stöðum á landinu.
    Í máli Kristiönnu frá Færeyjum kom fram að í upphafi árs 2009 hefðu um 40% vinnuafls í Færeyjum verið ófaglært eða um 10 þúsund af alls 25.086 manns. Til samanburðar væri hlutfallið í Danmörku 35%. Ófaglærðir voru aftur á móti 80% þeirra sem voru atvinnulausir í apríl 2009 í Færeyjum. Hin opinbera afstaða stjórnmálamanna væri að efla menntun og þekkingu ófaglærðra. Staðreyndin væri hins vegar sú að atvinnulífið fjárfesti frekar í fólki sem væri menntað á meðan framboð fyrir ófaglærða væri takmarkað og handahófskennt. Jan á Argjaboða tók undir orð Kristiönnu og tók reynslu sína frá sjúkrahúsinu þar sem hann starfar sem dæmi. Fyrir utan takmarkað framboð væri illa skilgreint hver bæri ábyrgð á námsframboði fyrir ófaglærða og kostnaði af námskeiðahaldi. Eyðun Gaard bætti því við að aðilar vinnumarkaðarins í Færeyjum hefðu eingöngu þrisvar sinnum boðið upp á námskeið fyrir fólk á vinnumarkaði, sem hefðu það að markmiði að auka færni þess og samkeppnishæfni, eftir að lög um námskeiðahald á vegum aðila vinnumarkaðarins voru sett árið 2004. Í ljósi þessa hafi árið 2008 verið skipuð nefnd sem í eiga sæti fulltrúar frá atvinnulífinu, iðnskólum og menntamálaráðuneytinu. Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða lögin og gera tillögur að leiðum til úrbóta fyrir lok árs 2009. Í þessu samhengi velti Eyðun fyrir sér hvort ástæðan fyrir því að atvinnulífið nýtti lögin ekki betur en raun bæri vitni gæti átt sér þá skýringu að þau væru að danskri fyrirmynd og hentuðu því hugsanlega ekki raunveruleika færeysks samfélags. Í þessu sambandi ræddi hann að lokum að hversu miklu leyti „íslenska módelið“ sem Ingibjörg gerði grein fyrir gæti verið fyrirmynd fyrir aðila vinnumarkaðarins og hið opinbera í Færeyjum. Að lokum gerði Bergtóra nánari grein fyrir gildi símenntunar en meginniðurstaða ráðstefnunnar var sú að eftirspurn eftir námi væri ekki eingöngu háð framboði heldur viðhorfi gagnvart námi og gildi menntunar almennt í samfélaginu og einnig því hvort framboðið mætti raunverulega þörfum. Í þessu samhengi var mikið vísað til „íslenska módelsins“ þar sem samtök verkalýðsfélaga og atvinnurekenda eiga með sér samvinnu með stuðningi hins opinbera sem fyrirmynd fyrir hin Vestur-Norðurlöndin.

Ársfundur Vestnorræna ráðsins 25.–27. ágúst 2009 í Færeyjum.
    Ársfundur Vestnorræna ráðsins fór fram dagana 25.–27. ágúst 2009 í Rúnavík og Þórshöfn í Færeyjum. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar Ólína Þorvarðardóttir formaður, Árni Johnsen og Atli Gíslason ásamt Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara. Gestir fundarins voru Inge Lønning, forseti norska Lögþingsins, Kent Olsson, varaforseti Norræna ráðsins, Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, og Lars Thostrup, framkvæmdastjóri Norræna Atlantssamstarfsins (NORA).
    Fráfarandi formaður Vestnorræna ráðsins, Kári P. Højgaard, setti fundinn og fór yfir starfsemi ráðsins. Næst var ákveðið hvaða ályktanir ráðsins ætti að afskrifa en alls voru fjórar ályktanir afskrifaðar, nr. 3/2007, 5/2007, 1/2008 og 3/2008. Að því loknu var upplýst um samþykki forsætisnefndar Alþingis fyrir stofnun þingmannanefndar sem yrði til ráðgjafar um framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja frá árinu 2006 og að málið væri til umræðu í Færeyjum. Greint var frá stofnun sérfræðinganefndar sem mun meta hversu mikinn mannskap og búnað þurfi til að koma á fót björgunarsveitum á Grænlandi. Nefndin, sem er sett á laggirnar á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins með stuðningi NORA, er skipuð sérfræðingum tilnefndum af slysavarnafélaginu Landsbjörgu, björgunarsveitum í Noregi, samgöngumálaráðuneyti Grænlands, NORA og Vestnorræna ráðinu. Einnig var greint frá því að norræna ráðherranefndin hefur tekið tilmæli Vestnorræna ráðsins um stofnun vestnorræns lýðháskóla til afgreiðslu og ákveðið að veita 200 þúsund danskra króna í rannsókn á umfangi og orsökum atgervisflótta frá Vestur-Norðurlöndunum. Þar sem styrkveitingin var ekki í samræmi við upprunalegu tillögu Vestnorræna ráðsins hafi forsætisnefnd ráðsins unnið í því að fá ákvörðuninni breytt til samræmis við upprunalegu beiðnina. Kom fram stuðningur við þau áform á ársfundinum. Að lokum kom fram í máli fráfarandi formanns að Vestnorræna ráðið hefði á starfsárinu átt fundi með Evrópuþinginu, Norðurlandaráði og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, og tekið þátt í fyrstu þingmannaráðstefnunni sem haldin var undir merkjum hinnar norðlægu víddar ESB 25.–26. febrúar í Brussel.
    Í ræðu Josefs Motzfeldts, sem tók við formennsku í Vestnorræna ráðinu af Kára, var greint frá þemaráðstefnunni sem fór fram á Grænlandi í byrjun ágústmánaðar. Samþykkt var á ársfundinum að skipa nefnd sem mundi fylgja eftir niðurstöðum og tillögum ráðstefnunnar en þema hennar var námsmöguleikar fyrir ófaglærða. Ársfundurinn samþykkti auk þess þrjár ályktanir, eina frá hverju Vestur-Norðurlandanna, sem allar lutu að aukinni vestnorræni samvinnu um menntamál. Ályktanirnar mæla fyrir um fjarnám, skiptinemaáætlun fyrir framhaldsskólanema og nemenda- og kennaraskipti milli verkmenntaskóla og fræðslumiðstöðva með áherslu á nám fyrir ófaglærða. Hugmyndin er að samvinna milli skóla eigi sér stað innan núverandi kerfis þar sem nemendum er gert kleift að nýta skólastyrki í skiptinám en að annar kostnaður verði greiddur úr norrænum styrktarsjóðum. Nokkur umræða varð um tungumálahindranir og nauðsyn þess að bjóða upp á tungumálanámskeið þar sem kennsla fer ekki fram á dönsku. Samþykkti fundurinn að fyrirhuguð nefnd mundi leggja fram tillögur um skóla sem gætu tekið þátt í samstarfinu sem ályktanirnar mæla fyrir um en Menntaskólinn á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða höfðu fyrir ársfundinn lýst yfir áhuga á þátttöku.
    Formenn landsdeildanna greindu síðan frá starfi síðastliðins árs. Ólína Þorvarðardóttir sagði frá breytingum sem áttu sér stað á Alþingi í kjölfar þingkosninganna 25. apríl. Hún gerði grein fyrir starfi Íslandsdeildar og undirbúningi fyrir þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2010 á Sauðárkróki sem að tillögu Ólínu mun fjalla um fiskveiðistjórnarkerfi Vestur- Norðurlandanna. Tillagan hlaut einróma samþykki ársfundar. Ruth Heilman, sem talaði fyrir hönd grænlensku landsdeildarinnar, greindi frá kosningunum þar í landi og aukinni sjálfsstjórn Grænlands frá 21. júní, þjóðhátíðardegi Grænlands. Hún sagði að aukin sjálfsstjórn mundi hafa í för með sér aukna ábyrgð og breytingu á þátttöku Grænlands í alþjóðastarfi, m.a. hvað lýtur að gerð samninga við önnur ríki. Bergtóra Høgnadóttir Joensen greindi frá myndun nýrrar landsstjórnar í Færeyjum 25. september 2008 og skipan nýrrar landsdeildar Færeyja.
    Í kjölfar umræðu um úrslit þingkosninga í löndunum þremur skapaðist mikil umræða um jafnréttismál. Atli Gíslason gerði grein fyrir auknum hlut kvenna á þingi sem fór úr 31% í 43% og kynjahlutföllum innan ríkisstjórnarinar. Hann sagði að lokum að jafnréttismál væru forgangsmál ríkisstjórnarinnar og vék sérstaklega að vinnu sem lýtur að því að stemma stigu við kynferðisofbeldi. Doris Jakobsen frá Grænlandi sagði að hlutur kvenna á þingi í Grænlandi væri um 42%. Það sem stæði einkum í vegi stjórnmálaþátttöku kvenna væru barneignir en í þessu samhengi má geta þess að Doris kom með eins árs dóttur sína bæði á þemaráðstefnu og ársfund ráðsins. Bergtóra ræddi um breytingarnar sem áttu sér stað við þingkosningar í Færeyjum í janúar 2008 þar sem fjöldi kvenna fór úr þremur í sjö af 33 þingmönnum. Hún sagði að í kjölfar vestorrænnar kvennaráðstefnu árið 2006 hefði sérstöku átaki verið ýtt úr vör í Færeyjum þar sem konur voru bæði hvattar til að bjóða sig fram og til að kjósa konur.
    Inge Lønning, forseti norska Lögþingsins sem þá var, gerði öryggis- og björgunarmál í Norður-Atlantshafi að sérstöku umtalsefni á ársfundinum. Hann greindi frá umræðu í norska þinginu um öryggismál og björgunarviðbúnað kringum Svalbarða í ljósi aukinnar skipaumferðar og vék að samstarfi um öryggismál á hafi. Hann tók dæmi frá 5. júní þar sem dönskum manni nyrst á Grænlandsjökli var komið til bjargar frá Svalbarða þar sem hvorki grænlensk stjórnvöld né bandaríski herinn í Thule gátu sinnt björgunaraðgerðum. Í þessu samhengi benti hann á skýrslu Thorvalds Stoltenbergs. Hann sagði margt í skýrslunni varða Vestur-Norðurlöndin beint eins og eftirlit á norðurhöfum. Hann vék sérstaklega að ákvörðun síðasta leiðtogafundar Norðurskautsráðsins í Noregi þar sem ákveðið var að stofna vinnuhóp sem hefði það hlutverk að koma með tillögur um alþjóðlega samvinnu um leit og björgun á norðurslóðum fyrir næsta leiðtogafund ráðsins árið 2011. Hann talaði síðan um að Norðmenn fylgdust með þróun mála á Íslandi, ekki síst hvað varðaði aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Að lokum vék hann að sameiginlegum hagsmunum Noregs og Vestur-Norðurlandanna og tók sem dæmi að Norðmenn hefðu andmælt banni ESB á sölu selafurða, ekki vegna þess að Noregur ætti beinna hagsmuna að gæta heldur óbeinna sem sneru að meginreglunni um virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða til að nýta náttúruauðlindir sínar á sjálfbæran hátt.
    Að lokum samþykkti ársfundur auk fyrrnefndra ályktana um menntamál tvær ályktanir til viðbótar. Sú fyrri fjallaði um aukna samvinnu og upplýsingaflæði um umönnun eldri borgara og hin síðari um að sjávarútvegsráðherrar landanna gerðu skýrslu um samvinnu þeirra á sviði hafrannsókna og fiskveiða. Auk þess voru samþykkt tilmæli til Norðurlandaráðs um að nota ekki lengur hugtökin „sjálfsstjórnarsvæði“ um Færeyjar og Grænland heldur „lönd“. Ársfundur ákvað einnig að gefnu samþykki grænlensku heimastjórnarinnar að halda leiðtogafund samhliða næsta ársfundi ráðsins á Grænlandi þar sem framtíð vestnorræns samstarfs verður tekið til umfjöllunar.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 25. október í Stokkhólmi.
    Ólína Þorvarðardóttir, formaður Íslandsdeildar, sótti þing Norðurlandaráðs dagana 26.–29. október í Stokkhólmi ásamt Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara. Á fundinum voru auk þeirra Josef Motzfeldt, formaður Vestnorræna ráðsins og formaður landsdeildar Grænlands, og Kári P. Højgaard, formaður landsdeildar Færeyja, ásamt embættismönnum.
    Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins var haldinn daginn fyrir Norðurlandaráðsþing. Fyrsta mál á dagskrá var ársfundur Vestnorræna ráðsins 2010 í Grænlandi og leiðtogafundur um framtíð vestnorræns samstarfs sem að öllum líkindum verður haldinn í beinu framhaldi af ársfundi 2010. Ákveðið var að bjóða til leiðtogafundarins forsætis- og utanríkisráðherrum Vestur-Norðurlanda, fulltrúum Evrópuþingsins, Noregs og hugsanlega Danmerkur. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnarkerfi Vestur-Norðurlanda var næsta mál á dagskrá. Meðal annars var ákveðið að bjóða til ráðstefnunnar Elinor Ostrom, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sem sérstaklega hefur rannsakað ákvörðunartöku á sviði náttúruauðlindanýtingar, og Joe Borg, framkvæmdastjóra ESB í sjávarútvegsmálum, en eins og er stendur yfir endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB. Staða mála í Færeyjum um stofnun þingmannanefndar um fríverslunarsamninginn milli Íslands og Færeyja var næst til umræðu. Samningurinn var innleiddur með lögum í Færeyjum og kallar því stofnun þingmannanefndar á breytingar á lögunum sem unnið er að. Greint var frá því að hafin væri að frumkvæði Vestnorræna ráðsins þarfagreining varðandi þróun björgunarsveita á Grænlandi en verkefnið er fjármagnað af norrænu Atlantsnefndinni (NORA) með þátttöku allra Vestur-Norðurlanda og Noregs. Kári gerði því næst grein fyrir því sem kom fram á ráðstefnu sem NORA hélt í Alta í Noregi um fólksflutninga. Sama mynstrið virðist vera til staðar á öllum Vestur-Norðurlöndunum, þ.e. fólk flytur frá strjálbýlisstöðum til að mennta sig eða vinna og snýr sjaldnast til baka enda oft að litlu að hverfa. Í því sambandi var rætt um ályktun Vestnorræna ráðsins sem fjallar um fjarkennslu sem tæki til að auka lífsgæði fólks á dreifbýlum svæðum og stemma stigu við fólksflutningum. Að lokum var dagskrá forsætisnefndar á Norðurlandaráðsþingi rædd.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með fulltrúa þings Álandseyja 26. október.
    Tilefni fundarins voru tilmæli Vestnorræna ráðsins til Norðurlandaráðs þar sem mælt er með því að vísað verði til Færeyja og Grænlands sem „landa“ í stað „sjálfsstjórnarsvæða“ innan Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Hugtakið „sjálfsstjórnarsvæði“ á sér ekki stoð í Helsinki-sáttmálanum um samstarf Norðurlandanna en þessi hugtakanotkun hefur þó náð að festa sig í sessi í norrænu samstarfi. Í máli þingmannsins frá Álandseyjum kom fram að flestir væru hlynntir tillögunni. Það væri hins vegar ekki búið að taka endanlega afstöðu til málsins enda samband Álandseyja og Finnlands samkvæmt stjórnarskrá hugsanlega viðkvæmara en samband Færeyja og Grænlands við Danmörku sem undanfarin ár hafa hlotið aukna sjálfsstjórn. Skoðun á málinu væri hins vegar í gangi og þingmenn hefðu áhuga á að vita um viðbrögð Norðurlandaráðs við tillögunni. Þingmaðurinn frá Álandseyjum spurði að lokum hver afstaða Færeyja, Grænlands og Íslands væri til þeirrar hugmyndar sem viðruð hefði verið að halda ekki fundi Norðurlandsráðs lengur í höfuðstöðvum sjálfsstjórnarlandanna heldur eingöngu Norðurlandanna fimm á grundvelli fjárhagslegra sjónarmiða. Enginn í forsætisnefnd hafði heyrt af hugmyndunum og ákveðið var að kanna það frekar hvort þetta ætti við rök að styðjast.

Fundur forsætisnefnda Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs 26. október.
    Kent Olsson, varaforseti Norðurlandaráðs og áheyrnarfulltrúi á fundum Vestnorræna ráðsins, setti fundinn en auk hans voru þrír þingmenn frá Noregi á fundinum, tveir frá Danmörku og Bjarni Benediktsson og Helgi Hjörvar frá Íslandi. Fyrst var rætt um dagskrá Norðurlandaráðsþingsins þar sem mörg mál lutu að norðurslóðamálum og hagsmunum Vestur-Norðurlandanna. Helgi Hjörvar benti á að í formennskuáætlun Norðurlandaráðs hefðu verið vestnorrænar áherslur og nefndi haf- og loftrýmiseftirlit sem dæmi. Formaður Vestnorræna ráðsins kynnti því næst hugmyndina um leiðtogafund um framtíð vestnorræns samstarfs samhliða ársfundi ráðsins á Grænlandi 2010 og hverjum stæði til að bjóða. Hugmyndinni var vel tekið af forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins 2008 og hugmyndir um aukna samvinnu á sviði fjarkennslu voru því næst ræddar. Í því sambandi var einnig rætt um reynslu Íslendinga og Norðmanna af fjarlækningum og gildi bæði fjarkennslu og fjarlækninga fyrir afskekkt byggðarlög. Formaður Vestnorræna ráðsins vék því næst að styrk sem norræna ráðherranefndin hafði gefið vilyrði fyrir til rannsóknar á atgervisflótta á Vestur-Norðurlöndum en sá styrkur átti að koma í stað fjármuna til að kanna forsendur fyrir stofnun vestnorrænna lýðháskóla. Formaðurinn lagði áherslu á að rannsóknin tæki einnig til upprunalegu beiðninnar. Ólína gerði því næst grein fyrir þemaráðstefnu ráðsins á Íslandi 2010 um fiskveiðistjórnarkerfin á Vestur-Norðurlöndum. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs lýsti yfir miklum áhuga á ráðstefnunni. Formaður Vestnorræna ráðsins vék því næst að mikilvægi sel- og hvalveiða fyrir löndin og gagnrýndi bann ESB á selskinnsvörum. Að lokum var rætt um tilmæli Vestnorræna ráðsins um að skipta út orðinu „sjálfsstjórnarsvæði“ fyrir „lönd“ þar sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs vildi láta kanna hvort lagalegar hindranir væru í vegi þess að fara eftir tilmælunum. Í því samhengi benti Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, á að málið væri frekar pólitískt en lagalegt í eðli sínu. Það væri ekki verið að fara fram á að breyta öllum textum sem til væru heldur horfa til framtíðar og nota framvegis orðið „lönd“ í stað „sjálfstjórnarsvæða“ þegar vísað væri til Færeyja og Grænlands í ræðu og riti. Forsætisnefnd Norðurlandsráðs tók undir sjónarmið framkvæmdastjórans.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með vestnorrænum ráðherrum 27.–28. október.

    Forsætisnefndin átti fundi með ráðherrum sjávarútvegsmála og mennta- og menningarmála, samstarfsráðherrum og utanríkisráðherrum dagana 27.–28. október. Á fundunum voru ályktanir Vestnorræna ráðsins kynntar ráðherrunum, einkum á sviði menntamála þar sem lögð var áhersla á auka samvinnu milli landanna, gerð grein fyrir þemaráðstefnum ráðsins 2009 og 2010, samvinnu ráðsins við NORA um þarfagreiningu fyrir Grænland um uppbyggingu björgunarsveita, tilmælum til Norðurlandaráðs um stofnun vinnuhópa til að kortleggja öryggismál á Norður-Atlantshafi og stuðla að auknu samstarfi um öryggis- og björgunarmál, stöðu mála hvað varðar stofnun þingmannanefndar um fríverslunarsamning Íslands og Færeyja og tillögu Ólínu Þorvarðardóttur um að stuðla að bættum samgöngum á milli landanna og þar með meiri viðskiptum en sú hugmynd var fyrst sett fram á óformlegum fundi Íslandsdeildar með utanríkismálanefnd Færeyja á Íslandi 20. október. Að lokum var hugmyndin um leiðtogafund um framtíð vestnorræns samstarfs kynnt við góðar undirtektir.

Norðurlandaráðsþing 26.–29. október.
    Dagskrá Norðurlandaráðsþings var að miklu leyti tileinkuð málum sem lúta að hagsmunum Vestur-Norðurlandanna. Ólína Þorvarðardóttir tók til máls um endurskoðun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB þar sem hún greindi frá fyrirhugaðri þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2010 um fiskveiðistjórnarkerfi Vestur-Norðurlandanna. Hún benti á að Vestur-Norðurlöndin hefðu miklu að miðla vegna þeirrar miklu þekkingar og reynslu sem þau hafa af sjálfbærri auðlindanýtingu. Hún fagnaði einnig tillögu Norðurlandaráðs um að halda alþjóðlega ráðstefnu um norðurslóðamál og greindi frá því hvernig Vestnorræna ráðið hefur undanfarin ár sett öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafssvæðinu á dagskrá. Að lokum flutti Ólína ræðu í umræðu um brottfall og jaðarhópa í menntakerfum Norðurlandanna þar sem hún greindi frá helstu orsökum brottfalls á Vestur-Norðurlöndum og byggði á niðurstöðum þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um námsframboð fyrir ungt fólk og ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum. Auk Ólínu fluttu Josef Motzfeldt og Kári P. Højgaard ræður á þinginu fyrir hönd Vestnorræna ráðsins.

6. Eftirfarandi ályktanir Vestnorræna ráðsins beint til ríkisstjórna landanna voru samþykktar á ársfundi í Færeyjum 25.–27. ágúst 2009.
          Ályktun um samvinnu um nám og starfsþjálfun fyrir ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum.
          Ályktun um vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi.
          Ályktun um vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi.
          Ályktun um málefni aldraðra á Vestur-Norðurlöndum.
          Ályktun um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs.

Alþingi, 12. mars 2010.



Ólína Þorvarðardóttir,


form.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,


varaform.

Atli Gíslason.



Árni Johnsen.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Þráinn Bertelsson.