Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 58. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 852  —  58. mál.




Nefndarálit



um frv. til landflutningalaga.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hlutinn fagnar því að löggjöf um landflutninga sé löguð að því rekstrarumhverfi sem greinin býr við og breytingum sem orðið hafa á þessu sviði og gerir því ekki athugasemdir við megininntak frumvarpsins. Minni hlutinn vekur athygli á atriðum sem komu fram í umsögnum hagsmunaaðila um málið og taka hefði mátt til endurskoðunar við vinnslu frumvarpsins í nefndinni. Í ljósi athugasemda þeirra leggur minni hlutinn til að breytingar verði gerðar á frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar.
    Í fyrsta lagi telur minni hlutinn rétt að vekja athygli á nauðsyn þess að orðið „vara“ sé skilgreint þannig að forðast megi misskilning. Mat minni hlutans er að óljóst sé hvað telst til vöru í skilningi frumvarpsins sem getur valdið óþarfa óvissu.
    Í öðru lagi telur minni hlutinn að ákvæði 27. gr. frumvarpsins sem kveður á um þann frest sem móttakandi hefur til að veita vöru viðtöku sé ósanngjarnt þar sem tímamörk eru allt of þröng og gefa móttakandanum ekki nægjanlegt svigrúm. Lagt er til að í stað þriggja daga verði mörkin rýmkuð og miðist við sjö daga.
    Loks er lagt er til að 3. og 4. mgr. 27. gr. verði felldar brott. Fram komu þau sjónarmið hjá umsagnaraðilum að verði þessi ákvæði að lögum geti það valdið miklum erfiðleikum í flutningum og starfsemi flytjenda. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og vekur athygli á því að verði umrædd ákvæði að lögum felur það í sér að skráður móttakandi geti móttekið vörur á þess að hann sé skuldbundinn til þess að greiða flutningsgjald eða annan áfallinn kostnað hjá flytjanda. Um er að ræða verulega íþyngjandi ákvæði og minni hlutinn telur auk þess fráleitt að flytjandi sem er ekki aðili að samningi sendanda og móttakanda líði fyrir samskipti þeirra og hugsanlegar deilur.
    Leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     a.      Í stað orðanna „þremur dögum“ í 1. mgr. 27. gr. komi: sjö dögum.
     b.      3. og 4. mgr. 27. gr. falli brott.

Alþingi, 23. mars 2010.



Ásbjörn Óttarsson,


frsm.


Árni Johnsen.