Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.

Þskj. 861  —  495. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)



1. gr.

    Í stað 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé frjósemi beggja maka eða einhleyprar konu skert, er heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Þá er ætíð heimilt að nota gjafasæði sé um að ræða einhleypa konu eða konu í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eða eiginkonu eða sambýliskonu karlmannsins sem lagði til sæðisfrumur“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða fékk þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun.
     b.      Í stað orðanna „sem leggja kynfrumurnar til“ í 2. mgr. kemur: sem lögðu kynfrumurnar til eða fengu þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun.
     c.      Við 3. mgr. bætist: eða fengu þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í heilbrigðisráðuneytinu.
    Hér er lagt til að einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi verði heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Sama gildi um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör, þar sem frjósemi beggja maka er skert.
    Við setningu laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, var eitt af skilyrðum tæknifrjóvgunar að kona sem gengist undir tæknifrjóvgun væri í hjúskap eða sambúð með karli og að notaðar væru kynfrumur parsins. Notkun gjafaeggs eða gjafasæðis var þó heimil í undantekningartilfellum, einkum vegna skertrar frjósemi. Með lögum nr. 65/2006 var gerð sú breyting að konu sem var í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu var gert kleift að gangast undir tæknifrjóvgun og með lögum nr. 54/2008 var einhleypum konum heimilað að gangast undir tæknifrjóvgun. Jafnframt var gerð sú breyting að í fyrrgreindum tilvikum væri ætíð heimilt að nota gjafasæði. Ákvæði 3. mgr. 5. gr. laganna um að gjöf fósturvísa sé bönnuð er hins vegar óbreytt. Um það ákvæði segir m.a. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996: „það þýðir að nota verður kynfrumur frá karlinum eða konunni.“ Að óbreyttum lögum er því eingöngu heimilt að nota gjafaeggfrumu við glasafrjóvgun ef sæði kemur frá verðandi föður. Ekki er því heimilt að nota gjafaegg við glasafrjóvgun einhleyprar konu, konu í sambúð með annarri konu eða konu þar sem ekki er unnt að nota sæði frá eiginmanni eða sambýlismanni.
    Gert er ráð fyrir að þær konur sem þurfa á bæði gjafaeggi og gjafasæði að halda við glasafrjóvgun séu einkum einhleypar konur á seinni hluta frjósemisskeiðsins og einhleypar konur sem búa við skerta frjósemi, svo sem vegna krabbameinsmeðferðar.
    Hér er lagt til að heimilt verði að nota gjafaegg og gjafasæði sé frjósemi einhleyprar konu eða beggja maka skert. Þá er lagt til að gerðar verði viðeigandi breytingar á ákvæðum 9. gr. laganna um geymslu fósturvísa, þannig að þau taki til geymslu fósturvísa, án tillits til þess hvort notaðar hafa verið kynfrumur parsins/konunnar eða gjafakynfrumur.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1996,
um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna
til stofnfrumurannsókna.

    Með frumvarpinu er lagt til að lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, verði breytt með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun, og að sama gildi um gagnkynhneigða og samkynhneigð pör, þar sem frjósemi beggja maka er skert. Í öðru lagi verði geymsla á fósturvísum heimiluð án þess að tillit sé tekið til þess hvort notaðar hafa verið kynfrumur parsins/konunnar eða gjafakynfrumur.
    Í gildi er samningur við Art Medica um greiðsluþátttöku ríkisins í tilteknum fjölda tæknifrjóvgana. Ekki er gert ráð fyrir að semja þurfi á ný við Art Medica um aukinn fjölda tæknifrjóvgana vegna breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu þar sem um örfá tilvik á ári er að ræða. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.