Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 460. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 866  —  460. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (bílaleigur)

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneytinu, Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Gunnar Val Sveinsson og Björn Ragnarsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Özur Lárusson frá Bílgreinasambandinu, Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu og Snorra Olsen frá tollstjóra.
    Í frumvarpinu er lagt til að skattskyldum aðilum sem leyfi hafa til reksturs bílaleigu verði heimilað að reikna innskatt vegna kaupa á notuðum fólksbifreiðum sem nemi 20,32% af kaupverði bifreiðar. Heimildin verði tímabundin auk þess sem keyptar bifreiðar megi ekki verða fleiri en 15% af heildarfjölda fólksbifreiða í eigu bílaleigunnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að í frumvarpinu fælist frávik frá þeirri meginreglu að óheimilt væri að reikna innskatt vegna kaupa á notuðum lausafjármunum. Rökin fyrir þessu væru að létta undir með rekstri bílaleiga sem væri erfiður þessa dagana vegna ríkjandi efnahagsástands á sama tíma og mikil ferðavertíð væri fram undan. Undirliggjandi væri einnig sá gjaldeyrissparnaður þjóðfélagsins sem af því hlytist að beina kaupunum á innlendan markað fremur en erlendan.
    Fram komu ábendingar um að verð á nýjum bílum væri hátt um þessar mundir vegna gengisfalls krónu og að talsverð eftirspurn væri eftir notuðum bifreiðum á markaðnum. Skiptar skoðanir komu fram um hvort eftirspurnaráhrif frumvarpsins væru til hagsbóta fyrir heimilin ef verð á bifreiðum hækkaði. Frumvarpið kynni að auðvelda heimilum í skuldavanda að losna undan óhagstæðum bílalánum.
    Þá komu fram efasemdir um mikilvægi þess að ríkið styddi við rekstur bílaleiga á tímum þegar ferðaiðnaðurinn gengi vel.
    Nefndin ræddi hættu á að heimildir frumvarpsins yrðu misnotaðar og var nefnt sem dæmi þegar sami aðili á bílaleigu og bílasölu, bílasalan kaupir bifreið á markaðsvirði, selur bílaleigunni á hærra verði sem síðan selur bifreiðina á lægra verði með tilheyrandi rekstrartapi og þegar áunnum rétti til að reikna innskatt.
    Undirstrikað var á fundum nefndarinnar að heimildin í frumvarpinu er tímabundin og að áskilnaður er um að takmarka nýtingu hennar við 15% af heildarfjölda fólksbifreiða. Jafnframt megi búast við að eftirlit skattyfirvalda beinist að því hvort raunveruleg viðskipti liggja nýtingu heimildarinnar til grundvallar. Yfirvöldin geta við athugun á viðskiptum nýtt sér gagnagrunn Bílgreinasambandsins sem starfræktur er með vitund Samkeppniseftirlitsins. Sjónarmið komu fram um að setja ætti lágmarkstíma á eignarhald bifreiða sem keyptar eru á grundvelli frumvarpsins til að koma í veg fyrir svindl.
    Í tilefni af athugasemdum Samtaka ferðaþjónustunnar, sem vöktu athygli á því að í rekstri bílaleiga væru bifreiðar jafnan keyptar fyrir upphaf ferðavertíðar að vori en seldar að vertíð lokinni að hausti, fellst nefndin á að miða viðmiðunardag um hámarksfjölda bifreiða í eigu bílaleigu við 1. júlí 2010 í stað gildistöku frumvarpsins eins og gert er í 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „við gildistöku ákvæðis þessa“ í 2. efnismgr. 1. gr. komi: 1. júlí 2010.

    Tryggvi Þór Herbertsson, Pétur H. Blöndal og Þór Saari gera fyrirvara við álit þetta.

Alþingi, 24. mars 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir.



Magnús Orri Schram.


Birkir Jón Jónsson.


Ögmundur Jónasson.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Þór Saari,


með fyrirvara.