Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 868  —  386. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (kyrrsetning eigna).

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur og Harald Steinþórsson frá fjármálaráðuneytinu, Stefán Skjaldarson frá skattrannsóknarstjóra, Snorra Olsen, Eddu Símonardóttur og Jóhönnu Láru Guðbrandsdóttur frá tollstjóra, Lárus Ögmundsson og Guðmund Björnsson frá Ríkisendurskoðun, Evu Bryndísi Helgadóttur frá Lögmannafélagi Íslands, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði og Sigurð Tómas Magnússon, sérfræðing við Háskólann í Reykjavík. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands, Persónuvernd, PriceWaterhouseCoopers, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóra, tollstjóra, ríkissaksóknara, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að skattrannsóknarstjóra verði veittar sams konar heimildir og lögregla hefur skv. 88. gr. laga um meðferð sakamála til að óska kyrrsetningar eigna við rannsókn skattsvika eða annarra refsiverðra skattalagabrota í þeim tilgangi að tryggja greiðslu skattkrafna og fésektarkrafna sem sennilegt er að rannsókn leiði í ljós. Meginskilyrði er að hætta sé á að eignum þess sem grunur beinist að eða þess sem ábyrgð ber á skattgreiðslum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Lagt er til að skattrannsóknarstjóri beri upp kyrrsetningarbeiðnina við tollstjóra sem síðan metur sjálfstætt hvort tilefni er til að fara með hana fyrir sýslumann.
    Frumvarp þetta er lagt fram vegna hættu á að aðilar sem eiga yfir höfði sér skattkröfur og fésektir vegna gruns um refsiverð skattalagabrot skjóti undan eignum sínum á meðan rannsókn mála þeirra stendur. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar frá júní 2009 kemur fram að skattrannsóknarstjóri telji æskilegt að embættið fái heimild til að kyrrsetja eignir strax við meðferð mála á rannsóknarstigi og að sérstaklega eigi það við um hin stærri og flóknari mál þar sem búast megi við að málsmeðferðartími sé langur. Þá kom fram á fundum nefndarinnar að frumvarpið mundi hafa þýðingu varðandi mál sem nú þegar sæta rannsókn skattrannsóknarstjóra.
    Innan nefndarinnar hafa að teknu tilliti til sjónarmiða um réttláta málsmeðferð sakborninga og friðhelgi eignarréttarins komið fram skiptar skoðanir um hversu víðtækar heimildir opinberir valdhafar eigi að hafa til að tryggja endurheimt verðmæta sem grunur leikur á að skattgreiðendur hafi tileinkað sér með ólögmætum hætti, sérstaklega gagnvart hinum smærri sem standa oft höllum fæti. Kyrrsetning eigna getur haft mjög alvarleg áhrif á rekstur þeirra. Viðmælendum nefndarinnar bar saman um að kyrrsetning eigna er íþyngjandi þvingunarúrræði sem beita ber af sérstakri varúð, ekki síst þegar hún beinist að aðila sem ber ábyrgð á skattgreiðslum en er sjálfur ekki til rannsóknar. Um heimildir gerðarþola til endurupptöku og rétt hans til skaðabóta vegna miska og fjártjóns fer eftir almennum reglum um kyrrsetningu. Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um kyrrsetningu, sbr. 2. gr. þeirra laga.
    Í athugasemdum frumvarpsins er vísað til 7. mgr. 103. gr. laga um tekjuskatt en þar segir að skattrannsóknarstjóri skuli við rannsóknaraðgerðir gæta ákvæða laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi. Þar er m.a. tekið fram að þeir sem rannsaka sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og hraða meðferð mála eftir því sem kostur er.
    Skattrannsókn getur almennt gefið tilefni til þess að máli sé vísað til ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda og í annan stað að hafin sé refsimeðferð sem getur falist í sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra, sektarmeðferð hjá yfirskattanefnd eða sakamálarannsókn hjá ríkislögreglustjóra. Í leiðbeiningum skattrannsóknarstjóra vegna ákvörðunar um refsimeðferð kemur fram að nær undantekningarlaust sæti öll mál sem koma til rannsóknar refsimeðferð. Við val á refsimeðferð er höfð hliðsjón af atriðum er greinir í 38. gr. reglugerðar nr. 373/2001, sbr. 1. mgr. 36. gr. reglugerðarinnar.
    Það er skilningur nefndarinnar að þegar máli er vísað til ríkislögreglustjóra eigi það ekki að hreyfa við kyrrsetningu sem úrskurðuð hefur verið samkvæmt frumvarpinu enda þótt skilyrðin séu ekki eins orðuð og í 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála. Telur nefndin að skilyrði frumvarpsins rúmist efnislega innan tilvitnaðs lagaákvæðis og að kyrrsetning á grundvelli frumvarpsins eigi að geta haldist, verði þess talin þörf, þar til endanlegur dómur um skattkröfuna fellur. Hnykkt er á þessum skilningi í c-lið breytingatillagna nefndarinnar.
    Athygli nefndarinnar var vakin á því að í frumvarpinu væri ekki skýrt kveðið á um rétt gerðarþola til að bera lögmæti kyrrsetningar undir dómstóla og leggur nefndin til að fenginni tillögu Lögmannafélags Íslands að úr því verði bætt, sbr. d-lið breytingartillögunnar. Nefndin leggur auk þess áherslu á að kyrrsetning standi ekki lengur yfir en brýna nauðsyn beri til og að henni verði ekki beitt í málum þar sem væntanlegar skattkröfur eru undir 5 millj. kr.
    Nefndin ræddi þá tilhögun frumvarpsins að fela tollstjóra rekstur mála um kyrrsetningu sem skattrannsóknarstjóri fer fram á. Fram kom að rökin fyrir henni væru þau að hún félli vel að verkefnum tollstjóra sem innheimtir meiri hluta tekna ríkissjóðs. Að fenginni beiðni skattrannsóknarstjóra eigi tollstjóri að leggja sjálfstætt mat á hvort krafa um kyrrsetningu verður borin undir sýslumann. Tollstjóra er þó ekki ætlað að meta réttmæti væntanlegrar skattkröfu heldur hvort krefjast eigi kyrrsetningar með hliðsjón af eignastöðu þess sem krafan beinist gegn og á hvaða eignum krefjast eigi kyrrsetningar. Endanleg ákvörðun um það hvort farið er fram á kyrrsetningu eigna er því í höndum tollstjóra en frumkvæðið kemur frá skattrannsóknarstjóra.
    Loks leggur nefndin til orðalagsbreytingar. Breytingin í a-lið á að undirstrika að krafa um kyrrsetningu skuli vera reist á rökstuddum grun. Breytingin í b-lið er reist á athugasemd frá Persónuvernd.
    Nefndin var upplýst um að 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, stæði almennt ekki í vegi fyrir því að réttarfarslögum væri breytt afturvirkt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU


    Eftirfarandi breytingar verði á 1. gr.:
     a.      Á undan orðinu „grunur“ í 1. og 2. efnismgr. komi: rökstuddur.
     b.      Í stað orðanna „hvers konar“ í 3. málsl. 2. efnismgr. komi: öllum nauðsynlegum.
     c.      1. málsl. 3. efnismgr. orðist svo: Kyrrsetning fellur niður ef rannsókn leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að verði gerð fésekt hvort sem er af skattyfirvöldum eða fyrir dómi.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Leggja má fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála.
    
    Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal gera fyrirvara við álitið.

Alþingi, 24. mars 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.

Lilja Mósesdóttir.



Magnús Orri Schram.


Birkir Jón Jónsson.


Ögmundur Jónasson.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Þór Saari.