Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 370. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 871  —  370. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (strandveiðar).

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Hið yfirlýsta markmið með svokölluðum strandveiðum er að opna aðgengi að fiskveiðum í atvinnuskyni. Er að því stefnt að aðrir, og þar með fleiri, en nú stundi útgerð og fiskveiðar. Markmiðið er því að nýta ekki þá fjárfestingu betur sem þegar er til staðar í útgerð, t.d. minni báta, heldur að sjá til þess að fleiri geti stundað þessar veiðar.
    Hvað sem um strandveiðar má segja að öðru leyti er að minnsta kosti ljóst að þetta fyrirkomulag eykur fastan kostnað í sjávarútvegi og er þess vegna ekki ýkja vel til hagræðingar fallið. Enda er það athyglisvert að ekki skuli beitt hagrænum rökum til þess að styðja við þá hugsun sem að baki þessum veiðum liggur. Í samræmi við það hefur ekki verið lagt hagrænt mat á veiðarnar eða reynsluna af þeim. Opinn aðgangur eins og strandveiðarnar ganga út á hafa það þess vegna í för með sér að verið er að veiða sama afla og áður með fleiri bátum.
    Ein helst réttlæting veiðanna hefur líka verið að með þeim verði til aukin umsvif í minni sjávarplássum, af því að þær leiði til fjárfestingar og þar með umsvifa sem ekki yrðu ef þessi afli yrði dreginn að landi með fiskiskipaflotanum sem nú þarf mjög á auknum aflaheimildum að halda.

Byggðakvóti og strandveiðar.
    Þegar þessi hugmynd var fyrst kynnt var út frá því gengið að strandveiðar kæmu í stað byggðakvóta. Því var mótmælt harðlega. Niðurstaða stjórnvalda var þá að stíga það skref einvörðungu að hálfu. Byggðakvótinn var skorinn niður um helming, sem olli miklum vanda í ýmsum sjávarplássum sem höfðu reitt sig á óbreytta úthlutun hans. Á þetta benti minni hlutinn og lagði á það áherslu í umræðu um málið (34. mál á 137. löggjafarþingi). Því miður sátu stjórnvöld við sinn keip og neituðu að hlusta á viðvörunarorðin.
    Nú, einu ári síðar, hafa stjórnvöld hins vegar snúið við blaðinu og þar með viðurkennt að það fyrirkomulag sem gilti í fyrra hafi verið rangt og ósanngjarnt. Horfið er frá því að skerða byggðakvótann til þess að halda áfram strandveiðum. Þess í stað er ætlunin að auka veiðiheimildir í þeim fisktegundum sem strandveiðiflotinn mun veiða um 6 þúsund tonn. Ætla má að um 5 þúsund tonn verði þorskur. Má því segja að með strandveiðilögunum verði þorskkvóti aukinn um rúmlega 3–4 % og verði sá aukni kvóti veiddur á handfæri að sumarlagi.
    Minni hlutinn gagnrýndi einnig þá svæðaskiptingu sem gilti um veiðarnar í fyrra. Á þá gagnrýni var ekki hlustað þá en nú viðurkenna stjórnvöld réttmæti hennar. Horfið hefur verið frá þeirri svæðaskiptingu sem þá gilti.

Ráðherraræði.
    Gallinn er hins vegar sá að enginn veit hvaða hugmyndir eru uppi af hálfu stjórnvalda um hvernig svæðaskiptingunni verður háttað. Frumvarpið felur í sér galopna heimild ráðherrans til þess að ákvarða svæðaskiptinguna. Ekki er stafkrók að finna um hvað eigi að liggja til grundvallar svæðaskiptingunni í framtíðinni. Ekki er vitað hversu mörg svæðin verða eða hvort yfirleitt verður um svæðaskiptingu að ræða. Engar hugmyndir hafa heldur verið kynntar um hvernig ráðstafa eigi þeim 6 þúsund tonnum eftir svæðum, né hvað þar eigi að leggja til grundvallar. Þar til annað verður ákvarðað hefur því ráðherra þessi mál algjörlega í hendi sér. Þetta er í sjálfu sér í samræmi við önnur þau frumvörp sem flutt hafa veið um sjávarútvegsmál af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar er reglan sú að galopna aðskiljanlegar heimildir til ráðherrans án þess að gert sé ráð fyrir neinum skorðum þar á. Má það teljast lítilþægni í meira lagi að meiri hluti Alþingis vilji ganga þannig frá málum að ráðherra verði falið lítt skilgreint vald til þess að stjórna fiskveiðum í landinu. Slíkt framsal í lagasetningu í þýðingarmiklum málaflokki er dæmi um vonda lagasetningu og þróun sem eindregið ber að vara við.

Framtíðarvandi – saga fortíðar.
    Sú aðferð við stjórn fiskveiða sem verið er að innleiða með strandveiðunum mun strax framkalla margs konar vanda. Það sem blasir auðvitað við er að smám saman mun þeim bátum fjölga sem vilja stunda þessar veiðar. Þarna er um að ræða opinn aðgang, sem allir sem þess eiga kost hljóta að nýta sér. Því má ætla að bátunum muni enn fjölga frá því sem var í fyrra. Alls fengu þá 595 bátar veiðileyfi til strandveiða og komu 554 þeirra með afla að landi.
    Nú stefnir í að fjölda báta verði lagt á næstunni vegna verkefnaskorts þar sem kvóti er víðast hvar á þrotum. Ganga má út frá því sem gefnu að þeir bátar sem á annað borð geta með hægu móti stundað handfæraveiðar fari því til strandveiða. Því má ætla að bátunum sem sækja í þær aflaheimildir sem sérmerktar eru strandveiðiflotanum fjölgi, hugsanlega að miklum mun. Því er alveg óvíst hvernig þessar aflaheimildir munu nýtast. Minna má á að í fyrra kláruðust veiðiheimildirnar á fáeinum dögum sem ætlaðar voru mánaðarlega til strandveiða á veiðisvæði A. Þar var um þriðjungur bátanna sem leyfi höfðu til strandveiða gerður út.
    Því miður er þetta frumvarp sama marki brennt og mörg önnur sem lögð hafa verið fyrir Alþingi. Ekki er búið að hugsa málin til enda, lítt er hugað að því að skoða málin í heild og stór og mikil álitamál afgreidd með því að veita ráðherra óskilgreint galopið vald til þess að fara með að vild. Þetta er auðvitað ekki boðleg aðferð og er síst til þess fallin að auka traust í mikilvægri atvinnugrein eða stuðla að framþróun í sjávarútveginum. Það er því óhjákvæmilegt að málið komi að nýju til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þar sem þess verði að minnsta kosti freistað að setja í fastara form þær reglur sem um þessar veiðar eiga að gilda og upplýsa um hvernig ætlunin er að standa að málum.

Alþingi, 25. mars 2010.Sigurður Ingi Jóhannsson.