Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 511. máls.

Þskj. 898  —  511. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara og
lögum um meðferð sakamála, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008,
með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Embætti sérstaks saksóknara skal rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja og þeirra sem átt hafa hluti í þeim fyrirtækjum eða farið með atkvæðisrétt í þeim, sömuleiðis grun um refsiverða háttsemi stjórnenda, ráðgjafa og starfsmanna fjármálafyrirtækja og þeirra annarra sem komið hafa að starfsemi fyrirtækjanna. Embættið skal eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.

2. gr.

    5. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Ef háttsemi felur í sér annað eða önnur brot en þau sem sérstakur saksóknari fer með skv. 1. gr. tekur ríkissaksóknari ákvörðun um hvort hann fari með málið. Ríkissaksóknari sker úr um valdsvið sérstaks saksóknara gagnvart öðrum ákærendum ef vafi rís um það. Ríkissaksóknari getur enn fremur falið sérstökum saksóknara að fara með önnur mál en þau sem falla undir 1. gr. eða falið öðrum ákæranda að fara með mál sem þar fellur undir, svo sem ef rannsókn er þegar hafin á því.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008,
með síðari breytingum.

3. gr.

    Orðið „opinbers“ í 1. mgr. 32. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Í stað orðanna „læknisrannsókn, þar með talin“ í 3. málsl. 1. mgr. 79. gr. laganna kemur: líkamsrannsókn, einnig.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 192. gr. laganna:
     a.      Við d-lið bætist: svo og skipun verjanda eða synjun um skipun hans.
     b.      Við e-lið bætist: svo og skipun réttargæslumanns eða synjun um skipun hans.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Meginmarkmiðið með þessu frumvarpi er að skilgreina með skýrari hætti en nú er gert hvert er verksvið embættis sérstaks saksóknara, sem sett var á stofn með lögum nr. 135/2008, gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds.
    Þegar frumvarp til þeirra laga var upphaflega lagt fram var gert ráð fyrir að verksviðið yrði takmarkað við rannsókn og eftir atvikum saksókn vegna gruns um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði er leiddu til setningar laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Í meðförum Alþingis var verksviðið rýmkað þannig að það tekur nú ekki aðeins til ætlaðrar refsiverðrar háttsemi í aðdraganda og tengslum við umrædda atburði, heldur slíkrar háttsemi í kjölfar atburðanna.
    Á þessum tíma var óvíst hvaða mál mundu falla undir verksvið hins sérstaka saksóknara, en frá því að hann tók til starfa hefur hann hafið rannsókn á fjölmörgum málum sem öll eiga það sammerkt að þau tengjast með einhverjum hætti þeim fjármálafyrirtækjum sem urðu greiðsluþrota haustið 2008. Sum þessara mála varða þá sem áttu stóra hluti í þessum fyrirtækjum án þess að þau viðfangsefni sem rannsóknin beinist að verði öll heimfærð undir það orðalag sem nú er að finna í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 135/2008. Þótt tiltekið svigrúm felist í 5. mgr. 2. gr. laganna, þar sem ríkissaksóknari, nánar tiltekið settur ríkissaksóknari, tekur ákvörðun um hvort sérstakur saksóknari fari með mál ef háttsemi felur í sér annað eða önnur brot en þau sem 1. gr. laganna nær til, þykir rétt til þess að taka af allan vafa í þessu efni að orðalagi 1. mgr. 1. gr. verði breytt frá því sem nú er og það miðað við starfsemi fjármálafyrirtækja, sem og eigendur og stjórnendur þeirra og aðra sem þeim tengjast. Er þessi afmörkun á verksviði hins sérstaka saksóknara óneitanlega skýrari en nú er.
    Jafnframt er lagt til að 5. mgr. 2. gr. verði breytt á þann veg að ríkissaksóknari í þeim málum, sem heyra undir sérstakan saksóknara, geti falið honum að fara með önnur mál en þau sem falla undir 1. gr. laganna, ef það þykir hagkvæmara. Einnig geti settur ríkissaksóknari falið öðrum ákæranda, t.d. ríkislögreglustjóra, að fara með mál sem þar fellur undir, t.d. í því tilviki að rannsókn sé þegar hafin á máli er kann að eiga rætur að rekja til þeirra atburða sem vísað er til í 1. gr., en tengist ekki falli fjármálafyrirtækjanna eða öðrum þeim atburðum sem fyrst og fremst leiddu til setningar laga nr. 125/2008. Þessi breyting er með öðrum orðum hugsuð til að auka á hagkvæmni við rannsókn mála, en henni er ekki ætlað að hafa áhrif á starfssvið sérstaks saksóknara eins og það var hugsað af hálfu löggjafans þegar embættið var sett á stofn.
    Að tillögu réttarfarsnefndar eru jafnframt gerðar tillögur til breytinga á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í fyrsta lagi til að leiðrétta tvær villur, sem slæddust á sínum tíma inn í lagatextann, og í annan stað til að taka af skarið um heimild til að kæra tiltekna úrskurði héraðsdómara til Hæstaréttar. Samsvarandi heimild var fyrir hendi í eldri lögum um meðferð þessara mála en hins vegar er óljóst eftir þær breytingar sem gerðar voru á viðeigandi ákvæði með núgildandi lögum, hvort hún sé enn til staðar og er því lagt til að tekið verði af skarið um það.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt því sem fram kemur í almennum athugasemdum er lagt til að tilvísun til atburða er leiddu til setningar laga nr. 125/2008 verði felld brott þegar verksvið embættis sérstaks saksóknara er skilgreint. Í stað þess verði verksviðið miðað við rannsókn og eftirfarandi ákvörðun um saksókn þegar fyrir hendi er grunur um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja, án tillits til þess hvort slík fyrirtæki tengist þeim atburðum er leiddu til setningar fyrrgreindra laga, enn fremur grunur um refsiverða háttsemi þeirra sem átt hafa hluti í þeim fyrirtækjum eða farið með atkvæðisrétt í þeim, svo sem hluthafa eða stofnfjáreigenda, sömuleiðis grunur um refsiverða háttsemi stjórnenda, ráðgjafa og starfsmanna fjármálafyrirtækja og þeirra annarra sem komið hafa að starfsemi þeirra fyrirtækja. Getur þetta t.d. tekið til lögmanna og endurskoðenda fyrirtækjanna.

Um 2. gr.


    Fyrstu málsliðirnir tveir eru efnislega eins og í gildandi lögum. Lokamálsliðurinn er hins vegar nýmæli og er hann skýrður í almennum athugasemdum hér að framan.

Um 3. og 4. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að kveðið verði skýrt á um það í 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 að úrskurðir héraðsdómara um að skipa sakborningi verjanda eða synja honum um að fá skipaðan verjanda í sakamáli verði kæranlegir til Hæstaréttar. Sama gildi um úrskurði héraðsdómara um að skipa brotaþola réttargæslumann eða synja honum um að fá skipaðan réttargæslumann í sakamáli.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara og lögum um meðferð sakamála, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til í fyrsta lagi að gerðar verði breytingar á tveimur greinum laganna um sérstakan saksóknara til að skilgreina með skýrari hætti en nú er gert hvert sé verksvið embættis sérstaks saksóknara gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds. Í öðru lagi er lagt til annars vegar að leiðréttar verði tvær villur sem fóru inn í lagatexta í lög um meðferð sakamála og hins vegar að taka af skarið um heimild í sömu lögum til að kæra tiltekna úrskurði héraðsdómara til Hæstaréttar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.