Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 512. máls.

Þskj. 899  —  512. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 38/2005, um happdrætti.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    B-liður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: af ásetningi eða stórfelldu gáleysi auglýsir, kynnir eða miðlar hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum þessum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna, óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af fastanefnd um happdrættismál sem starfar á vegum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Í nefndinni eiga sæti Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, formaður, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður, Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður, Pétur Bjarnason, framkvæmdastjóri Happdrættis SÍBS, og Fanney Óskarsdóttir, lögfræðingur í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á orðalagi refsiákvæðis b-liðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2005, um happdrætti, að ákvæðið nái til happdrættis, óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis. Felur breytingin í sér að lögin kveði skýrt á um að bann við því að auglýsa, kynna eða miðla upplýsingum um happdrætti, sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögum um happdrætti, taki einnig til starfsemi sem er rekin erlendis.
    Samkvæmt lögum um happdrætti, nr. 38/2005, gilda sérstakar reglur um happdrætti þar sem spilað er um peninga eða peningaígildi. Óheimilt er að reka slík happdrætti nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kom fram að enginn ágreiningur væri um að þetta næði einnig til happdrætta sem starfrækt væru á netinu að því gefnu að um væri að ræða happdrætti þar sem spilað væri um peninga eða peningaígildi (sjá Alþt. 2004–2005, A-deild, þskj. 1028, 675. mál). Á síðustu árum hefur þátttaka í fjárhættuspilum og veðmálum á netinu aukist. Einkum er um að ræða veðmálafyrirtæki sem staðsett eru erlendis og eru netsíður þeirra vistaðar erlendis. Í mörgum tilvikum er í raun um að ræða veðmálastarfsemi sem er sérstaklega beint að íslenskum ríkisborgurum, m.a. með auglýsingum sem birtar eru í íslenskum fjölmiðlum, þar á meðal á vefsíðum.
    Síðustu árin hefur dreifing á ólöglegri happdrættis- og veðmálastarfsemi hér á landi í gegnum netið aukist. Nauðsynlegt er að sporna við þessari þróun m.a. með því að framfylgja með skilvirkari hætti banni við auglýsingum á þess konar starfsemi.
    Dómstóll EB hefur nýlega í máli C-42/07 La Liga Portuguese áréttað rétt aðildarríkja til að banna og stöðva innan sinnar lögsögu dreifingu á happdrættis- og veðmálastarfsemi í gegnum netið þótt sú starfsemi sé lögleg í öðru aðildarríki.
    Í dóminum segir m.a. að 49. gr. Rómarsáttmálans útiloki ekki að aðildarríki setji löggjöf um happdrættis- og veðmálastarfsemi sem banni rekstraraðilum, sem njóta staðfesturéttar í öðru aðildarríki og veita svipaða þjónustu á lögmætan hátt, að bjóða happdrætti og veðmál í gegnum netið innan yfirráðasvæðis þess aðildarríkis.
    Með hliðsjón af dóminum er ekki skylt að viðurkenna hér á landi leyfi fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi sem gefin eru út utan íslenskrar lögsögu enda sé slík þjónusta óheimil á Íslandi.
    Íslensk happdrættislöggjöf byggist á þeirri meginreglu að happdrættis- og veðmálastarfsemi skuli vera á vegum rekstraraðila sem til þess hafa heimild lögum samkvæmt eða samkvæmt sérstöku leyfi stjórnvalda. Hér á landi eru starfandi sex fyrirtæki sem hafa lögboðinn einkarétt á að bjóða upp á happdrætti, skafmiða, talnagetraunir, kassa og íþróttagetraunir. Annars konar leyfi, sem veitt eru í hvert skipti fyrir sig, t.d. önnur happdrætti, bingó o.s.frv., má eingöngu veita vegna góðgerðar- og samfélagslegra málefna og ekki í hagnaðarskyni. Hefur reglan verið sú að óheimilt er að auglýsa hvers konar happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki er leyfi fyrir samkvæmt lögum um happdrætti, nr. 38/2005.
    Nauðsynlegt er að gera orðalagsbreytingar á b-lið 1. mgr. 11. gr. laganna þannig að greinin nái markmiði sínu. Lögð er til viðbót þess efnis að ekki skipti máli hvort um er að ræða auglýsingu, kynningu eða miðlun upplýsinga um happdrætti sem rekið er á Íslandi eða erlendis. Í dómi Hæstaréttar 11. júní 2009 í máli nr. 577/2008 var sakborningur sýknaður af ákæru um að hafa borið ábyrgð á birtingu auglýsinga vefsíðu sem bauð upp á þátttöku í veðmálum, pókerspili og öðru happdrætti sem ekki hafði verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum um happdrætti en háttsemin var talin í ákæru varða við b-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2005, um happdrætti, sbr. c-lið 26. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000. Í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, sagði að ekkert væri fram komið um að með umræddum auglýsingum væri verið að kynna happdrættis- eða veðmálastarfsemi sem rekin væri hérlendis og var ákærði þegar af þeirri ástæðu sýknaður.
    Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á b-lið 1. mgr. 11. gr. laga um happdrætti, nr. 38/2005, er stefnt að því að refsivert verði að auglýsa, kynna eða miðla hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum þessum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna, óháð því hvort starfsemi þess er rekin á Íslandi eða erlendis. Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um að ekki skiptir máli hvort starfsemi er rekin hér á landi eða erlendis.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2005, um happdrætti.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á orðalagi refsiákvæðis laganna þannig að ákvæðið nái til happdrættis, hvort sem starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis. Með breytingunni verði þannig kveðið skýrt á um að bann við því að auglýsa, kynna eða miðla upplýsingum um happdrætti, sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögum um happdrætti, taki einnig til starfsemi sem rekin er erlendis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.