Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.

Þskj. 900  —  513. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði,
nr. 92/1989, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef sýslumanni er veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum getur ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2015.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Til skoðunar hafa verið í ráðuneytinu tillögur um eflingu sýslumannsembættanna með því að sameina einstök embætti í stækkuðum stjórnsýsluumdæmum en sýslumannsembættin eru nú 24 að tölu. Miðar sameining sýslumannsembætta að því að efla embættin og gera þeim betur kleift að ná fram þeirri hagræðingu og sparnaði sem nauðsynlegur er. Þá miðar athugun ráðuneytisins á nýrri skipan sýslumannsembætta að því að þau geti betur mætt þeim kröfum sem gerðar eru til nútímastjórnsýsluhátta, svo sem með rafrænni stjórnsýslu. Unnið er að greiningu á sameiningarmöguleikum og framtíðarskipulagi sýslumannsembættanna í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og er stefnt að framlagningu lagafrumvarps þar sem kveðið verði á um breytt skipulag. Á meðan framangreind vinna er unnin er mikilvægt að þeim embættum sem losna sé ráðstafað með skynsamlegum og lögmætum hætti án þess að stofnað sé til óþarfa ríkisútgjalda.
    Að meginstefnu til skal auglýsa öll laus embætti hjá ríkinu. Hinar sérstöku aðstæður sem nú eru uppi í íslensku þjóðfélagi kalla á undantekningar hvað þetta varðar. Ekki er að finna heimild, hvorki í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, né í lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, til þess að setja mann tímabundið í embætti sem er laust í skilningi 7. gr. starfsmannalaga, né heldur að fela sýslumanni í einu embætti að fara einnig með stjórn annars embættis. Taka skal fram að 24. gr. starfsmannalaga á ekki við um það þegar embættið telst laust í skilningi starfsmannalaga, þar sem ákvæðið gerir einungis ráð fyrir að hægt sé að setja annan mann í stað embættismanns sem fellur frá, vegna fjarveru hans um lengri tíma eða vegna veikinda.
    Í frumvarpi þessu er byggt á því sjónarmiði að ekki sé réttlætanlegt miðað við hið ríka aðhald í ríkisfjármálum að auglýsa laust til umsóknar sýslumannsembætti sem svo verði mögulega breytt eða lagt niður, með tilheyrandi ómaki fyrir væntanlega umsækjendur sem hafa jafnvel flust búferlum til að gegna starfinu, með tilheyrandi raski fyrir fjölskyldu viðkomandi. Þá má gera ráð fyrir að margir hæfir umsækjendur séu lítt hrifnir af því að sækja um starf sem kann að verða lagt niður í nánustu framtíð. Þannig mun fækka góðum umsækjendum sem mundu vilja sækjast eftir starfinu, en eitt markmiða þess að auglýsa laus störf er að fá hæfasta umsækjandann til starfa hverju sinni.
    Sé litið til sparnaðarsjónarmiða er ekki fýsilegt að auglýsa þau embætti sem losna laus til umsóknar með skipun í huga til næstu fimm ára, í samræmi við núgildandi ákvæði starfsmannalaga. Verði embætti sem ráðstafað hefur verið með auglýsingu lagt niður skömmu síðar leiðir það til þess að réttindi til biðlauna verða virk. Hér er því um að ræða sparnað í þágu ríkissjóðs og jafnframt tekið tillit til væntinga þeirra sem falast eftir störfum hjá hinu opinbera.
    Þá skal tekið fram að með breytingunni er miðað við að starfandi sýslumenn verði settir til að gegna þeim embættum sem losna. Þannig er ekki verið að setja aðila sem ekki starfa nú þegar sem sýslumenn í embætti sýslumanns og ekki verið að veita neinum neitt forskot umfram aðra, verði embættið svo á endanum auglýst til umsóknar. Frumvarpið gengur því eins skammt og unnt er, með vísan til meðalhófs og jafnræðis mögulegra framtíðarumsækjenda.
    Breytingunni er ætlað að skapa svigrúm í þeirri vinnu sem nú fer fram í uppstokkun embætta og jafnframt spara ríkissjóði útgjöld og stuðla að því að ákvarðanir séu skýrar og skilmerkilegar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að í lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, komi ákvæði til bráðabirgða sem heimili ráðherra að setja tímabundið skipaðan sýslumann í embætti sýslumanns annars embættis sem losnar, þegar slíkt embætti losnar vegna þess að viðkomandi æskir lausnar eða vegna þess að hann er forfallaður af öðrum ástæðum. Miðað er við að setningin geti aldrei varað lengur en til eins árs í senn, m.a. með hliðsjón af 5 ára skipunartíma sýslumanna. Ef ekki er að ári liðnu búið að sameina embættið öðru embætti eða leggja það niður er heimilt að setja aftur í embættið annaðhvort sama sýslumann sem áður var settur eða annan skipaðan sýslumann í hans stað. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að sett sé í embætti til skemmri tíma en eins árs.
    Ekki er gert ráð fyrir að ákvæðið gildi lengur en til 1. janúar 2015, en þá er miðað við að fyrirhugaðar breytingar eigi að vera yfirstaðnar. Jafnframt þarf að kveða á um að ákvæðinu sé ætlaður ákveðinn gildistími þar sem því er ætlað að taka tímabundið úr sambandi þá meginreglu 7. gr. starfsmannalaga að laus embætti skuli auglýsa, en slíkt er lagt til vegna hinna sérstöku aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu.

Um 2. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en afar brýnt er að framangreint ákvæði komi til framkvæmda sem fyrst.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að verði sýslumanni veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallist af öðrum ástæðum þá geti ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn.
    Til skoðunar hefur verið að sameina einstök sýslumannsembætti og stækka stjórnsýsluumdæmi í þeim tilgangi að efla starfsemina. Við þessar aðstæður þykir ekki skynsamlegt að auglýsa og skipa í embætti sýslumanna sem jafnvel stendur til að leggja niður. Þar sem meginstefna er að allar stöður hjá ríkinu skuli auglýstar og ekki er að finna heimild, hvorki í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins né í lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, til þess að setja mann tímabundið í embætti sem er laust þykir í ljósi aðstæðna nauðsynlegt að gera þessa breytingu á lögunum til bráðabirgða. Gert er ráð fyrir að ákvæðið falli úr gildi 1. janúar 2015.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Gera má ráð fyrir að fjármunir muni sparast verði frumvarpið að lögum þó svo ekki sé hægt á þessu stigi að áætla hvað það gæti verið mikið. Ræðst það fyrst og fremst af fjölda þeirra embætta sem losna og réttindum þeirra sem skipaðir verða til bráðabirgða. Almennt er gengið út frá því, sbr. bréf kjaranefndar frá árinu 1996, að sýslumenn sem settir yrðu tímabundið til að gegna embætti nágrannaumdæmis fengju hálf byrjunarlaun vegna starfans.