Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.

Þskj. 904  —  517. mál.



Frumvarp til laga

um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og
skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Fjármálafyrirtæki er heimilt að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum og undirliggjandi veðréttindum sem tengjast þeim, í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum fjármálafyrirtækis á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 161/2002. Fjármálafyrirtækinu er enn fremur heimilt að bæta frekari eignum í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli, og skipta út einstökum eignum, samkvæmt samkomulagi við veðhafa.

2. gr.

    Að því marki sem veðréttur, sem stofnast á grundvelli 1. gr., varðar kröfuréttindi eða undirliggjandi veð sem tengjast slíkum kröfuréttindum öðlast veðrétturinn réttarvernd við þinglýsingu yfirlýsingar þess efnis að fjármálafyrirtæki hafi nýtt heimild sína skv. 1. gr. á blað fjármálafyrirtækis í lausafjárbók. Er þá ekki þörf á frekari ráðstöfunum til að veðrétturinn öðlist réttarvernd, hvort sem varðar veðsetningu kröfuréttinda eða undirliggjandi veðréttinda.
    Ákvæði 46. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, gilda ekki um veðsetningu almennrar fjárkröfu, sbr. 45. gr. laga um samningsveð, samkvæmt lögum þessum.
    Um veðsetningu viðskiptabréfa á grundvelli 1. gr. skal þó farið eftir ákvæðum 43. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997.

3. gr.

    Ráðstafanir fjármálafyrirtækis er tengjast afhendingu fjármuna í hið veðsetta eignasafn skulu ekki sæta riftun, sbr. 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

4. gr.

    Um annað en kveðið er á um í lögum þessum gilda ákvæði laga um samningsveð, nr. 75/ 1997, um veðsetningu eigna samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 6. október 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. (neyðarlögin). Í 5. gr. laganna var lagt til að bætt yrði við nýrri grein, 100. gr. a, í lög um fjármálafyrirtæki um sérstakar ráðstafanir. Þar var kveðið á um heimild Fjármálaeftirlitsins, við mjög knýjandi aðstæður, til að taka yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda fjármálafyrirtækis og taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta og skipa fjármálafyrirtæki skilanefnd. Í 2. málsl. 5. mgr. 5. gr. neyðarlaganna var kveðið á um það að Fjármálaeftirlitinu væri heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta ættu skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefði. Með lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/ 2002, voru þær heimildir Fjármálaeftirlitsins sem höfðu verið í 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki færðar í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum.
    Á grundvelli framangreindra ákvæða tók Fjármálaeftirlitið ákvarðanir um að skipa skilanefndir í stóru viðskiptabönkunum þremur í október 2008. Í kjölfar þess tók stofnunin ákvörðun um ráðstöfun eigna „gömlu bankanna“ til „nýju bankanna“.
    Um miðjan desember 2009 höfðu tekist samningar á milli gömlu bankanna, nýju bankanna og fjármálaráðuneytisins um uppgjör og greiðslur vegna þeirra eigna sem færðar voru frá gömlu bönkunum til nýju bankanna með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins.
    Í tveimur tilvikum er um að ræða uppgjör með skuldabréfi sem er með veðtryggingu. Auk þess hafði Fjármálaeftirlitið í tilvikum Straums – Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og SPRON hf. tekið ákvarðanir sem miðuðu við að umrædd fjármálafyrirtæki gæfu út skuldabréf með veði í eignum sínum sem endurgjald vegna þeirra innstæðuskuldbindinga sem fluttar voru til Íslandsbanka hf. annars vegar og Arions banka hf. hins vegar.
    Í framkvæmd hefur reynst erfitt að veita fullnægjandi veðtryggingu í samræmi við ákvæði samninganna á grundvelli gildandi laga. Byggjast þau vandkvæði annars vegar á ákvæðum 1. mgr. 3. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, þar sem segir að veðréttur verði ekki stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða kann að eignast. Hins vegar byggist ómöguleikinn á ákvæðum 46. gr. laga um samningsveð sem fjalla um það hvernig veðréttur í almennum kröfum öðlast réttarvernd. Skv. 46. gr. þarf annaðhvort veðsali eða veðhafi að tilkynna skuldara um veðsetninguna til að veðrétturinn öðlist réttarvernd. Í þeim tilvikum sem frumvarpinu er ætlað að ná til væru slíkar tilkynningar nær ómögulegar þar sem tilkynna þyrfti mörg hundruð viðskiptavinum viðkomandi fjármálafyrirtækis með sannanlegum hætti um veðtökuna. Raunhæfir hagsmunir fyrir slíkum tilkynningum eru vandséðir í þeim tilvikum sem hér um ræðir.
    Í frumvarpi þessu er því lagt til að sett verði í sérstök lög ákvæði sem heimila fjármálafyrirtækjum að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum og undirliggjandi veðréttindum sem tengjast þeim, í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum fjármálafyrirtækis á grundvelli neyðarlaganna og að bæta frekari eignum í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli, og skipta út einstökum eignum, samkvæmt samkomulagi við veðhafa. Er lagt til í frumvarpinu að um þessi tilvik verði gerðar ákveðnar undantekningar frá ákvæðum laga um samningsveð, en gert er ráð fyrir að um önnur atriði en þau sem sérstaklega er kveðið á um í frumvarpinu gildi lög um samningsveð. Mun breytingin, ef frumvarp þetta hlýtur afgreiðslu, gera viðkomandi fjármálafyrirtækjum það mögulegt að veita gagnaðilum sínum fullnægjandi veðtryggingu í samræmi við ákvæði samninganna á grundvelli gildandi laga.
    Hefur samþykkt frumvarpsins því ekki neinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði heimild fyrir fjármálafyrirtæki til að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum og undirliggjandi veðréttindum sem tengjast þeim, í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum fjármálafyrirtækis á grundvelli neyðarlaganna og ákvæða neyðarlaganna sem nú eru í ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki. Þá er lagt til að fjármálafyrirtæki verði líka heimilt að bæta frekari eignum í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli, og skipta út einstökum eignum, samkvæmt samkomulagi við veðhafa.
    Er þannig lögfest heimild til veðsetningar í framangreindum tilvikum þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, en þar segir að veðréttur verði ekki stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða kann að eignast.

Um 2. gr.


    Í 46. gr. laga um samningsveð segir að veðréttur í almennum kröfum öðlist réttarvernd við það að skuldari fái tilkynningu um veðsetninguna annaðhvort frá veðsala eða veðhafa. Veðsetning slíks veðréttar öðlast réttarvernd með sama hætti. Í 2. gr. er kveðið á um sérstakar reglur um hvernig veðréttur sem stofnast á grundvelli 1. gr. frumvarpsins, að því marki sem hann varðar kröfuréttindi eða undirliggjandi veð sem tengjast slíkum kröfuréttindum, öðlast réttarvernd. Er lagt til að það gerist með því að þinglýst sé á blað fjármálafyrirtækis í lausafjárbók yfirlýsingu um að fjármálafyrirtæki hafi nýtt sér heimild sína skv. 1. gr. Þarf þá ekki að grípa til frekari ráðstafana til að veðréttur öðlist réttarvernd og eiga því ákvæði 46. gr. ekki við í þessu tilviki og því óþarft að tilkynna skuldara um veðsetninguna til að veðrétturinn öðlist réttarvernd.
    Í lokamálsgrein 2. gr. er tekið fram að um veðsetningu viðskiptabréfa á grundvelli 1. gr. fari þó eftir ákvæðum 43. gr. laga um samningsveð, en þar er m.a. kveðið á um að til að sjálfsvörsluveðréttur í viðskiptabréfi öðlist réttarvernd verði að árita bréfið sjálft um veðsetninguna.

Um 3. gr.


    Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er lagt til að fjármálafyrirtækjum verði heimilt að leysa ákveðnar eignir úr veðböndum og setja nýjar eignir að veði svo fremi sem ákveðinni veðþekju er viðhaldið. Á grundvelli 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, það sama á við ef slíkum réttindum er ekki þinglýst eða þau eru ekki tryggð á annan hátt gegn fullnustugerðum án ástæðulauss dráttar eftir að skuldin varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Í ljósi þessa er kveðið á um það í 3. gr. frumvarpsins að ráðstafanir fjármálafyrirtækis sem tengjast afhendingu fjármuna í veðsetta eignasafnið skuli ekki sæta riftun á grundvelli 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Talið er að gerningar á grundvelli laganna geti ekki fallið undir önnur ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en 137. gr.

Um 4. gr.


    Mælt er fyrir um það í 4. gr. frumvarpsins að um annað en það sem kveðið er á um í frumvarpinu gildi reglur þær sem fram koma í lögum um samningsveð um veðsetningu eigna.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og
skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

    Um miðjan desember 2009 höfðu tekist samningar á milli gömlu bankanna, nýju bankanna og fjármálaráðuneytisins um uppgjör og greiðslur vegna þeirra eigna sem færðar voru frá gömlu bönkunum til nýju bankanna með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins. Með þessu frumvarpi er lagt til að ákveðnum fjármálafyrirtækjum verði heimilt að veita gagnaðilum sínum fullnægjandi veðtryggingu í samræmi við ákvæði samninganna á grundvelli gildandi laga. Um er að ræða fjármálafyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
    Þessi heimild sem frumvarpið gerir ráð fyrir þykir nauðsynleg í ljósi þess að erfitt hefur reynst að veita fullnægjandi veðheimild í tengslum við uppgjör og greiðslur vegna þeirra eigna sem færðar voru á milli nýju og gömlu bankanna. Vandkvæðin stafa annars vegar af því að samkvæmt lögum stofnast veðréttur ekki í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða kann að eignast og hins vegar af því að veðréttur öðlast ekki réttarvernd nema veðhafi eða veðsali tilkynni skuldurum um veðsetningu en slíkt væri nærri ómögulegt þar sem tilkynna þyrfti mörg hundruð viðskiptavinum með sannanlegum hætti um veðtökuna.
    Í frumvarpinu er því lagt til að viðkomandi fjármálafyrirtækjunum verði heimilt að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum og undirliggjandi veðréttindum sem tengjast þeim og að bæta frekari eignum í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli, og skipta út einstökum eignum, samkvæmt samkomulagi við veðhafa. Þá er lagt til að þegar veðréttur stofnast samkvæmt frumvarpinu þá öðlist veðréttur réttarvernd þegar þinglýst sé á blað fjármálafyrirtækis í lausafjárbók yfirlýsingu um að fjármálafyrirtækið hafi nýtt sér heimildina samkvæmt lögunum. Auk þessa er lagt til í frumvarpinu að ekki verði hægt að krefjast riftunar á þeim gerningum sem gerðir eru á grundvelli laganna.
    Frumvarpinu er ætlað að taka á vandamálum tengdum uppgjöri á eignum og skuldum gömlu bankanna og veðflutningum tengdum flutningi þeirra yfir í nýju bankanna. Verði frumvarpið lögfest verður ekki séð að það feli í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.