Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 527. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 916  —  527. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ferjusiglingar frá Bretlandseyjum til og frá Vestmannaeyjum.

Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir,


Guðmundur Steingrímsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



    Alþingi felur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hafa forgöngu um að kanna til hlítar möguleika á ferjusiglingum frá Bretlandseyjum til Vestmannaeyja

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi felur það í sér að unnin verði hagkvæmniathugun á ferjusiglingum milli Bretlandseyja og Vestmannaeyja. Jafnframt að skoðað verði hvort einhverjar reglugerðir eða lagasmíð þurfi til að slíkar siglingar séu gerlegar.
    Í kjölfar opnunar nýrrar Landeyjahafnar sem mun stytta vegalengdir og ferðatíma ásamt því að auka tíðni ferjusiglinga milli lands og Eyja opnast gríðarlegir möguleikar í flutningastarfsemi, m.a. með því að nýta höfnina í Heimaey sem millilandahöfn.
    Nú þegar hafa flutningaskip á vegum stóru skipafélaganna viðkomu í Vestmannaeyjum, einkum vegna útflutnings á sjávarafurðum. Með tilkomu Landeyjahafnar aukast möguleikar á út- og innflutningi um Vestmannaeyjahöfn, til hagsbóta fyrir inn- og útflytjendur á Suður- og Austurlandi sem og sunnanverðu Reykjanesi. Mikilvægt er að kanna til hins ítrasta þá möguleika sem aukin umsvif í Vestmannaeyjum bjóða upp á.
    Milli Vestmannaeyja og Skotlands eru aðeins um 600 sjómílur og á 20 sjómílna hraða, sem er siglingahraði Norrænu, tekur sigling þar á milli aðeins um 30 klst. Þá eru til úthafsferjur sem ná enn meiri hraða og er raunhæft að ætla að yfir sumartímann geti siglingatími ferju milli Vestmannaeyja og Skotlands verið allt niður í 20 klst. Ljóst er að ef útgerðir í Vestmannaeyjum, Reykjanesi og allt austur á Austfirði hafa aðgang að slíkum samgöngum aukast möguleikar á útflutningi sjávarafurða og ferskra matvæla á borð við landbúnaðarafurðir til mikilla muna.
    Ekki einasta eru miklir möguleikar fólgnir í vöruflutningum milli Evrópu og Íslands þessa leið. Fólksflutningar, ferðamenn á eigin bílum eða á eigin vegum mundu fá nýjan valkost á að ferðast til Íslands í bæði styttri og lengri ferðir.
    Markaðssvæðið er í raun öll Evrópa þar sem nægar tengingar eru um Bretland, þar á meðal ferjusiglingar til meginlands Evrópu. Þannig gæti opnast raunverulegur möguleiki á að fara á eigin bíl til og frá Íslandi til meginlands Evrópu með því að aka í gegnum Bretland. En auðvitað yrði nær markaðssvæðið Skotland með rúmlega 5 milljón íbúa.
    Vinna þarf verkefnið með heimamönnum í Vestmannaeyjum, sveitarstjórninni o.fl. Uppi eru áform um byggingu stórskipakants í Eyjum og gætu áform um ferjusiglingar milli Eyja og Skotlands styrkt slíkar framkvæmdir verulega. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þarf að láta gera hagkvæmniúttekt á slíkum siglingum samhliða því að tryggja að ekki séu hindranir hjá stjórnsýslunni. Þá þarf að gera markaðsgreiningu og kanna hvort skipafélög, innlend sem erlend, hafi áhuga á að koma inn á þennan markað. Þá þarf að vinna úr því með hvaða hætti eðlilegast sé að standa að slíkum siglingum til að tryggja öruggar siglingar, eðlilega samkeppni, nýsköpunarsjónarmið o.fl.
    Ferjusiglingar í meira mæli en við þekkjum nú gætu líka orðið að öryggismáli framtíðarinnar. Til dæmis hafa sumir spáð því að við Kötlugos gætu flugsamgöngur legið niðri í langan tíma (mánuði eða ár, í versta falli). Þá væru ferjusiglingar milli Vestmanneyja–Íslands og Bretlandseyja ákaflega mikilvægar í að koma nauðþurftum til Íslands og útflutningsvörum okkar (m.a. fiski) á markaði erlendis sem og að halda uppi einhverjum ferðamannastraumi.