Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 530. máls.

Þskj. 919  —  530. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, og lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt bráðabirgðaákvæði, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. laganna skal, þegar bílalán einstaklings er, á tímabilinu frá og með 1. apríl 2010 til og með 31. desember 2010, endurnýjað með nýju bílaláni sem kemur í stað þess eldra, ekki greiða stimpilgjald af þeim hluta nýja bílalánsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra bílalánsins ásamt vanskilum. Er ákvæði þetta óháð því hvort um nýjan kröfuhafa er að ræða samkvæmt hinu nýja bílaláni.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.
2. gr.

    Á milli fjárhæðarinnar „30.000.000 kr.“ og orðsins „vegna“ í b-lið 2. tölul. 1. mgr. og b- lið 3. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: og

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. laganna skal ekki greiða þinglýsingargjald af skjölum sem stimpilfrjáls eru samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða II–VI í lögum um stimpilgjald.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði við, til bráðabirgða, ákvæði í lög um stimpilgjald sem heimila undanþágu stimpilgjalds við endurfjármögnun bílalána. Fyrir eru sams konar heimildir til handa þeim sem endurfjármagna fasteignaveðskuldabréf og líka þegar skilmálum slíkra bréfi er breytt og vanskilum er bætt við höfuðstól. Í tilviki bílalána er hins vegar einungis heimild til undanþágu við skilmálabreytingar. Er því gerð hér tillaga um að samræma þær undanþágur sem þegar eru í lögum.
    Ákvæði þessi voru sett í ljósi þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum og tilmæla yfirvalda til banka og sparisjóða um að aðstoða fólk sem kynni að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna hækkunar fasteignalána sem rekja má til lækkunar krónu og verðbólguáhrifa. Slík áhrif ná einnig til bílalána einstaklinga.
    Á þeim tíma sem ákvæðin hafa verið í gildi hefur aukist til muna endurfjármögnun bílalána einstaklinga. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi á fjármálamörkuðum og í samræmi við stefnu stjórnvalda er lagt til að sams konar ákvæði gildi um endurfjármögnun bílalána og endurfjármögnun fasteignaveðskuldabréfa.
    Ásamt þessu er lagt til að breytt verði ákvæði til bráðabirgða í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þegar áðurgreind bráðabirgðaákvæði voru sett, var að auki heimiluð undanþága frá greiðslu þinglýsingargjalda í þeim tilvikum sem undanþágur laga um stimpilgjald eiga við. Í breytingunni felst að undaþágan á nú við um öll bráðabirgðaákvæði laga um stimpilgjald sem fjalla um skilmálabreytingar og endurfjármögnun fasteignaveðskuldabréfa og bílalána einstaklinga í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að endurfjármögnun bílalána einstaklinga verði undanþegin stimpilgjaldi. Undanþágan er háð sömu skilmálum og við endurfjármögnun fasteignaveðskuldabréfa.

Um 2. gr.


    Með greininni er lagt til að orðalagi 1. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs verði breytt lítillega. Fyrir mistök féll eitt orð út úr breytingartillögum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 130/2009 og er með greininni lagt til að úr því verði bætt. Vegna þess að orðið „og“ er ekki í núverandi lagatexta er óhjákvæmilegt að túlka 1. gr. laganna þannig að sérstakt gjald sé fyrir útgáfu stefnu í málum sem krafist er viðurkenningar á réttindum og/eða skyldu en að í öðrum málum gildi önnur gjaldskrá.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að breyta bráðabirgðaákvæðinu á þann veg að undanþága þinglýsingargjalda taki til allra bráðabirgðaákvæða laga um stimpilgjald vegna endurfjármögnunar og skilmálabreytinga fasteignaveðskuldabréfa og bílalána.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald,
og lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimila undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda við endurfjármögnun bílalána einstaklinga. Af nýju bílaláni sem kemur í stað eldra bílaláns skal ekki greiða stimpilgjald af þeim hluta bílalánsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra bílalánsins að viðbættum vanskilum. Ákvæði þetta er sett til bráðabirgða og er ætlað að gilda á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2010. Jafnframt er lagt til að ekki verði greitt þinglýsingargjald af þessum endurfjármögnuðu lánum.
    Að meðaltali má gera ráð fyrir að kostnaður vegna stimpilgjalds og þinglýsingargjalds af endurfjármögnun bílaláns sé rúmar 10 þús. kr. og að tekjulækkun ríkissjóðs verða því um 1 m.kr. fyrir hverja 100 lánasamninga sem þannig eru endurfjármagnaðir. Hins vegar er ómögulegt að áætla hversu margir muni nýta sér þessa heimild.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð