Þskj. 938 — 548. mál.
Frumvarp til laga
um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.
(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.
Fjármálaráðherra er heimilt í þessu skyni að leggja félaginu til hluta þeirra lóðarréttinda sem spítalinn hefur yfir að ráða við Hringbraut undir bygginguna.
Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.
2. gr.
Félaginu skal vera heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.
Stjórn félagsins skal eins og unnt er vinna að verkefnum skv. 1. mgr. í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefnisins.
3. gr.
Framkvæmdastjóri skal hafa haldgóða menntun eða reynslu af sambærilegum verkefnum.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrotaskipti o.fl.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.
4. gr.
5. gr.
6. gr.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Verkefni um nýtt háskólasjúkrahús (Landspítala) hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Í tengslum við stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í lok júní árið 2009 var stofnað til viðræðuvettvangs með lífeyrissjóðum um aðkomu þeirra að fjármögnun stórra framkvæmda. Verkefni um nýjan Landspítala hefur verið kynnt sjóðunum og á fundi ríkisstjórnar Íslands 25. september 2009 var ákveðið að setja undirbúning framkvæmdarinnar af stað með sex manna verkefnisstjórn til viðræðna við sjóðina um aðkomu þeirra að verkefninu og útboð á frumhönnun nýs Landspítala.
Þann 4. nóvember 2009 undirrituðu fulltrúar tuttugu lífeyrissjóða og heilbrigðis-, forsætis- og fjármálaráðherrar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar viljayfirlýsingu um að hefja samstarf um undirbúning að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingu Landspítala við Hringbraut. Yfirlýsingin sýnir fram á stuðning við verkefnið og skapar nauðsynlegan trúverðugleika þess. Viðkomandi lífeyrissjóðir eru með 83,22% af heildareignum lífeyrissjóða landsmanna.
Heilbrigðisráðherra tilkynnti í byrjun nóvember 2009 um skipan verkefnisstjórnar. Í henni sitja Gunnar Svavarsson, formaður, Ingólfur Þórisson, Ingjaldur Hannibalsson, Gyða Baldursdóttir, Egill Tryggvason og Vilborg Þ. Hauksdóttir. Hlutverk verkefnisstjórnar hefur fyrst og fremst verið að sjá um að skapa formfestu í verkefninu, sjá um undirbúning hönnunarsamkeppni, annast samskipti við þá sem hafa lýst yfir áhuga á fjármögnun verksins, annast samskipti við skipulagsyfirvöld og að hafa umsjón með samningum við hönnuði.
Þann 9. desember 2009 óskaði verkefnisstjórnin eftir ábendingum frá Ríkisendurskoðun um verkefnið í ljósi ákvæða laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, og heimildarákvæða fjárlaga. Að mati Ríkisendurskoðunar er talið nauðsynlegt að sett verði sérlög um byggingu nýs Landspítala, jafnvel þótt 30. gr fjárreiðulaga sé talin eiga við. Ekki sé eingöngu verið að skuldbinda ríkið til langs tíma, heldur jafnframt talið að verið sé að ráðstafa eignum og kveða á um fyrirkomulag framkvæmda. Það er með öðrum orðum að mati Ríkisendurskoðunar ekki fullnægjandi, í ljósi umfangs verkefnisins og þeirra skuldbindinga sem ríkið gengst undir, að afgreiða þetta einungis með heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga.
Þann 23. desember 2009 auglýstu Ríkiskaup, f.h. verkefnisstjórnar, eftir teymum sérfræðinga til að taka þátt í forvali vegna fyrirhugaðrar frumhönnunarsamkeppni um skipulag lóðar Landspítala og Háskóla Íslands við Hringbraut og frumhönnunar nýbyggingar Landspítala. Sérstök forvalsnefnd skipuð Ingólfi Þórissyni, formanni, Ingjaldi Hannibalssyni, Gyðu Baldursdóttur, Vilborgu Þ. Hauksdóttur og Bergljótu S. Einarsdóttur, mat umsóknir um þátttöku í forvali frumhönnunarsamkeppninnar.
Í byrjun febrúar 2010 bárust sjö umsóknir um þátttöku í forvali frumhönnunarsamkeppninnar og uppfylltu sex teymi tilskildar hæfniskröfur. Fimm stigahæstu teymunum var boðið að taka þátt í frumhönnunarsamkeppninni en ábyrgðaraðilar þeirra eru Mannvit hf., Almenna verkfræðistofan hf., TBL arkitektar ehf., Verkís hf. og Efla hf. Fjögur fyrstnefndu teymin hlutu fullt hús stiga í hæfismatinu, 180 stig, og fimmta teymið hlaut 160 stig en lágmarksstigafjöldi teymis til að teljast hæft var 135 stig. Keppnislýsing frumhönnunarsamkeppninnar var tilbúin 12. mars 2010 en skilafrestur er til 9. júní 2010 og úrslit eiga að liggja fyrir mánuði seinna, eða í byrjun júlímánaðar. Meginforsenda frumhönnunarsamkeppninnar er að ljúka sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu þannig að starfsemi Landspítala í Fossvogi flytji á Hringbraut. Samkeppnin er tvíþætt og tekur annars vegar til áfangaskipts skipulags lóðar Landspítala við Hringbraut í heild og hins vegar til útfærslu á fyrsta áfanga þess sem er spítalastarfsemi í 66.000 fermetra nýbyggingu.
Nýbyggingin skiptist í þrjá meginhluta. Þeir eru bráðakjarni með bráðamóttöku, myndgreiningu, gjörgæslu, skurðstofum og rannsóknarstofum, legudeildir með 180 rúmum sem öll eru í einbýli og sjúklingahótel með 80 herbergjum. Jafnframt er um að ræða frumhönnun á 10.000 fermetra byggingu fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands en kostnaður vegna þess hluta verkefnisins verður borinn af Háskóla Íslands. Við mat á innsendum samkeppnislausnum verður m.a. litið til arkitektúrs, ytra- og innra skipulags, áfangaskiptingar, sveigjanleika, tækni og tæknikerfa, umhverfissjónarmiða, byggingarkostnaðar, rekstrarkostnaðar bygginga og heildarhagkvæmni starfseminnar. Er ráðgert að sá þáttur vegi 85% af heildareinkunn en tilboð í hönnunarþóknun vegi 15%. Gert er ráð fyrir að það teymi sem verður hlutskarpast í samkeppninni vinni að hönnun verkefnisins fram að samstarfsframkvæmdarútboði en starfi að því loknu við verkefnisstjórn og hönnunarrýni með verkkaupa. Hvert teymi sem skilar inn tillögu sem uppfyllir skilyrði keppnislýsingar og tekin er til dóms í hönnunarsamkeppninni fær greiddar 18 milljónir króna, án virðisaukaskatts, fyrir vinnu sína við tillögugerðina í samkeppninni.
Heilbrigðisráðherra skipaði dómnefnd vegna samkeppninnar þann 9. mars 2010. Í dómnefndinni sitja Guðrún Ágústsdóttir, formaður, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Þrír eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Arkitektafélags Íslands, Finnur Björgvinsson, Sigríður Ólafsdóttir og Jakob Líndal, einn samkvæmt tilnefningu Verkfræðingafélags Íslands, Aðalsteinn Pálsson, einn samkvæmt tilnefningu Háskóla Íslands, Sigurlaug Lövdahl, og tveir samkvæmt tilnefningu Landspítala, Anna Stefánsdóttir og Ólafur Baldursson.
Gert er ráð fyrir að samningar séu gerðir við teymið sem vinnur í lok júlímánaðar 2010 og mun sjóðstreymi verkefnisins aukast verulega við það. Fram að þessu hefur verkefnið verið fjármagnað með fjárheimildum sem veittar voru á fjárlögum 2008. Í fjáraukalögum 2009 voru fjárheimildir þess árs bakfærðar og ekki er um frekari fjárheimildar á fjárlögum 2010 að ræða.
Í 6. gr. fjárlaga 2010 er að finna heimild um ráðstöfun eigna Landspítala inn í verkefnið sem geta tryggt veðhæfi þess á hönnunartíma. Þrátt fyrir þá heimild er talið mikilvægt að sérlög liggi einnig fyrir þar sem um er að ræða skuldbindingu ríkisins til langs tíma, verið er að ráðstafa eignum, kveðið er á um fyrirkomulag framkvæmda og heimildir og markmið verkefnisins er að leigja sjúkrahúsbyggingar til langs tíma, með það að markmiði að eignast síðan fasteignirnar að þeim tíma loknum.
Almennt um verkefnið.
Ríkisstjórnin heimilaði á árinu 2005 að efnt yrði til alþjóðlegrar skipulagssamkeppni um nýtt háskólasjúkrahús. Samkeppninni lauk haustið 2005 og var teymi hönnuða undir forystu dönsku arkitektastofunnar C. F. Möller hlutskarpast í samkeppninni. Fulltrúar ríkisins unnu með hönnunarteyminu á árunum 2006–2008 að ítarlegri þarfagreiningu, tæknigreiningu og að endanlegri útfærslu á verðlaunatillögunni. Mikið samráð hefur verið við skipulagsyfirvöld í Reykjavík á undirbúningstímanum. Í samræmi við lög um opinberar framkvæmdir var lokið við undirbúningsáfanga sem nefnist frumathugun.
Eftir fall bankanna var útséð um að gerlegt væri að fara í framkvæmdir í samræmi við þær tillögur sem fyrir lágu. Óskaði Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítala, eftir því að norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækin Momentum Arkitekter AS og Hospitalitet AS yrðu ráðin til þess að fara yfir áætlanir og hönnunarforsendur vegna nýs háskólasjúkrahúss og skila skýrslu um niðurstöður sínar. Hún fól sérfræðingunum meðal annars að:
– Meta fyrirliggjandi áform um nýtt sjúkrahús, einkum í ljósi efnahagsástandsins á Íslandi.
– Kanna hvort unnt væri að áfangaskipta framkvæmdum svo greiða mætti fyrir pólitískri ákvörðun um framhaldið.
– Komast til botns í því hvað það kostaði íslenskt samfélag að „gera ekkert“, þ.e. láta kyrrt liggja og búa áfram við núverandi aðstæður í rekstri Landspítala.
Meginniðurstöður ráðgjafarfyrirtækjanna eru eftirfarandi:
– Það er miklu dýrara að „gera ekkert“ en að ráðast í framkvæmdir.
– Undirbúningsvinnan fær góða umsögn frá fyrirtækjunum og þau staðfesta þá forsendu verkefnisins að miklir fjármunir muni sparast í rekstri með því að leggja af starfsemina í Fossvogi og sameina spítalareksturinn við Hringbraut.
– Sameining spítalanna tveggja er því forgangsmál og að mati ráðgjafanna er unnt að áfangaskipta verkefninu þannig að hagkvæmni hennar skili sér strax.
– Æskilegt er að hanna tilteknar byggingar með sveigjanleika í huga varðandi rekstur og fyrirkomulag þegar horft er til framtíðar.
– Tillögur gera ráð fyrir að við Hringbraut rísi ný hús, alls um 66.000 fermetrar, þar sem verði slysa- og bráðamóttaka, skurðstofur og gjörgæsla, legudeildir með 180 rúmum í einbýli og 80 herbergja sjúkrahótel.
– Gert er ráð fyrir að stór hluti núverandi húsnæðis við Hringbraut (53.000 fermetrar) verði gerður upp og nýttur áfram.
– Framkvæmdakostnaður er áætlaður 33 milljarðar króna fyrir nýbyggingar og húsgögn og kostnaður vegna tækjakaupa er áætlaður 7 milljarðar króna. Þegar lokið er við nýbyggingu er gert ráð fyrir endurbyggingu eldra húsnæðis og áætlað að hún kosti 11 milljarða króna.
– Selja má eignir og lóðir Landspítala og nota andvirðið til að greiða hluta framkvæmdakostnaðar.
Endurskoðaðar áætlanir um nýjan Landspítala breyta í engu áformum um uppbyggingu heilbrigðisvísindasviðs og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Ætlun Háskóla Íslands er að byggja þar hús sem mun hýsa læknisfræði, hjúkrunarfræði, sjúkraþjálfun, lyfjafræði, sálfræði, tannlækningar, matvæla- og næringarfræði, geislafræði og lífeindafræði auk starfsemi tilraunastöðvarinnar að Keldum. Norsku sérfræðingarnir gera ráð fyrir því að Læknagarður muni gegna hlutverki sínu lengur en miðað var við í fyrri uppbyggingaráætlunum við Hringbraut.
Nýr Landspítali í samstarfsframkvæmd.
Samstarf við lífeyrissjóði um verkefnið kallar á aðra nálgun við verkefnisstjórn og útboð en í hefðbundnum opinberum verkefnum. Almennt hefur aðferðafræði þar sem um samstarf af þessu tagi hefur verið að ræða gengið undir nafninu einkaframkvæmd opinberra verkefna. Við verkefni af þessu tagi verður að hafa fjölmörg atriði í huga og henni fylgja bæði kostir og gallar.
Telja verður að það sé mikill kostur fyrir hið opinbera að kostnaður þess sé ákveðinn fyrir fram og greiðslur til framkvæmdaraðila séu tiltölulega fastmótaðar yfir samningstímann, sem getur náð yfir nokkra áratugi. Með þessu móti getur hið opinbera fært talsvert af áhættu verkefnisins yfir á framkvæmdaraðilann sem ber allan ófyrirséðan kostnað. Tilhögunin skapar því hvata fyrir framkvæmdaraðila til að meta á raunhæfan máta heildarkostnað verkefnis þar sem nánast ógerningur er að krefjast viðbótargreiðslna vegna ófyrirséðs kostnaðar. Þetta hefur það í för með sér að við undirritun samnings um samstarfsframkvæmd vegna nýs Landspítala ná stjórnvöld að tryggja kostnað yfir allan framkvæmdatímann, sem er til bóta. Að sama skapi tryggir slík tilhögun að ríkið getur metið kostnaðinn heildstætt áður en það skuldbindur sig til greiðslu fjár og á því þann möguleika að snúa til baka frá hugmyndinni ef kostnaðurinn reynist of hár.
Stjórnvöld hafa talið það heppilegt fyrirkomulag við samstarfsframkvæmdarverkefni að útgjöldum vegna framkvæmdar sé jafnað yfir líftíma eignarinnar í stað þess að allur kostnaður sé gjaldfærður við upphaf framkvæmda eins og annars er gert. Fjárfesting í samstarfsframkvæmd kemur ekki inn á fjárfestingahreyfingar í ríkisbókhaldi. Venjan er að stjórnvöld hefji að sama skapi ekki greiðslur fyrr en eftir að framkvæmdum er lokið. Enn á ný skapar það hvata fyrir framkvæmdaraðila til að ganga eins hratt og örugglega frá verkinu og nokkur kostur er til að tryggja innstreymi fjár frá verkkaupa. Um þessi atriði þarf þó að semja sérstaklega vegna byggingar nýs Landspítala.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í 2. mgr. er fjármálaráðherra heimilað að leggja félaginu til lóðarréttindi við Hringbraut sem félagið mun svo nýta sér til að fjármagna rekstur sinn, svo sem kostnað við frumhönnun.
Um 2. gr.
Í 2. mgr. er félaginu heimilað að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.
Í samþykktum fyrir félagið verður nánar kveðið á um tilgang þess en meginverkefni félagsins verða eftirfarandi:
– Vinna að almennri samhæfingu, undirbúningi og áætlanagerð vegna verkefnisins í samræmi við fyrirliggjandi fjárhagsramma.
– Hafa samráð við skipulagsyfirvöld um skipulagsmál, lóðarmál og hönnun byggingarinnar.
– Afmarka nýjum spítala hæfilega lóð og vinna drög að lóðarleigusamningi við fyrirhugaða bjóðendur.
– Vinna í samráði við Ríkiskaup að gerð útboðsskilmála og útboðsgagna að lokinni hönnunarsamkeppni um verkefnið.
– Hafa umsjón með framkvæmd útboðsins í samráði við Ríkiskaup og vinna með henni að mati framkominna tilboða.
– Gera tillögu til fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra um hagstæðustu leigutilboð vegna byggingarinnar.
– Hafa fyrir hönd leigjanda eftirlit með verkframkvæmdum og skilum húsnæðisins í samræmi við útboðsgögn.
– Vinna að öðrum verkefnum sem tengjast beint eða óbeint umræddu verkefni og falin verða félaginu.
Í 3. mgr. er kveðið á um að stjórn félagsins skuli eins og unnt er vinna að verkefnum skv. 1. mgr. í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefnisins sem eru fjármálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn.
Um 3. gr.
Í 2. mgr. er kveðið á um að framkvæmdastjóri skuli hafa haldgóða menntun eða reynslu af sambærilegum verkefnum.
Í 3. mgr. segir að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli vera lögráða. Þeir megi ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrotaskipti o.fl.
Í 4. mgr. segir að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.
Um 4. gr.
5. gr.
Um 6. gr.
Fylgiskjal.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags
um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.
Í samræmi við viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar og tilgreindra lífeyrissjóða um aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun og undirbúningi að byggingu nýs Landspítala var skipaður vinnuhópur sem hefur unnið að undirbúningi verkefnisins. Vinnuhópurinn hefur meðal annars undirbúið frumhönnunarkeppni og gerð keppnislýsingar vegna þeirrar keppni. Valdir hafa verið fimm hópar til að keppa um hönnun bygginganna og fær hver hópur 18 m.kr. til verksins eða samtals 90 m.kr. Kostnaður vegna vinnu vinnuhópsins hefur verið greiddur samkvæmt fjárheimildum sem veittar voru til byggingar spítalans á fjárlögum 2008 og fluttar hafa verið áfram á milli ára. Ekki er gert ráð fyrir að til frekari fjármögnunar á starfi vinnuhópsins þurfi að koma og mun hlutafélagið taka yfir verkefni vinnuhópsins þegar það hefur verið stofnað.
Eins og að framan greinir er gert ráð fyrir að lóðir og lóðarréttindi landspítalans verði lögð inn í opinbera hlutafélagið. Félagið mun sjá um hönnun bygginga og frekari undirbúning verkefnisins og er miðað við að lífeyrissjóðirnir láni félaginu fyrir þessum útgjöldum gegn veði í lóðum og lóðarréttindum. Það er því ekki gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði með rekstri félagsins. Þegar hönnun nýs spítala liggur fyrir er ætlunin að bjóða byggingu húsnæðis og rekstur þess út og er miðað við að sá sem verði með hagstæðasta tilboðið kaupi hönnun spítalans af félaginu. Aðkoma lífeyrissjóðanna að verkefninu er að fjármagna framkvæmdina, þ.e. lána fyrir byggingar- og hönnunarkostnaði. Verkefnið mun falla undir lög og reglur um opinber innkaup og á það einnig við um fjármögnunina. Öllum á því að vera frjálst að bjóða í fjármögnun verkefnisins. Því gæti farið svo að annar aðili en lífeyrissjóðirnir yrði með hagstæðari fjármögnun og því ekki víst að þeir fjármagni framkvæmdina. Verktaki mun leigja Landspítala byggingarnar í lok byggingartímans sem áætlað er að verði á árinu 2016. Gert er ráð fyrir að sú hagræðing sem nýr spítali og sameining hans á einum stað gefur kost á muni mynda svigrúm hjá Landspítala til að standa undir leigugreiðslum. Miðað er við að leigusamningur verði til langs tíma og að honum loknum flytjist eignarhald fasteignanna yfir til ríkisins.
Áætlanir gera ráð fyrir því að heildarkostnaður við verkið verði um 51 milljarður króna, þar af um 33 milljarðar króna til nýbygginga og 7 milljarðar króna í tækja- og búnaðarkaup. Auk þess er gert ráð fyrir að 11 milljarðar króna fari í endurbætur á núverandi húsnæði spítalans við Hringbraut sem nýtt verður áfram undir rekstur hans. Eins og að framan greinir er gert ráð fyrir því að Landspítalinn greiði hönnunar- og framkvæmdakostnaðinn að viðbættum fjármagnskostnaði að fullu til baka í formi leigugreiðslna. Verkefni hlutafélagsins verður meðal annars að reikna það út áður en í framkvæmdirnar verður ráðist hvort þær forsendur muni ganga eftir en það er forsenda ríkisstjórnarinnar fyrir uppbyggingunni eins og fram kemur í viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra og lífeyrissjóðanna.
Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er í samræmi við ofanritað ekki gert ráð fyrir frekari framlögum úr ríkissjóði til starfsemi Landspítalans í tengslum við þetta verkefni umfram þær 20 m.kr. sem settar verða í hlutafé hins opinbera hlutafélags.