Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 563. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 953  —  563. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Eygló Harðardóttir, Kristján Þór Júlíusson,


Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Unnur Brá Konráðsdóttir.


1. gr.

    2. mgr. 63. gr. a fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að felld verði brott 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 1. mgr. ákvæðisins er einstaklingi veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef sýnt er fram á að hann verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Í 2. mgr. er gildissvið ákvæðisins þrengt þannig að heimildin nái ekki til einstaklinga sem undanfarin þrjú ár hafi borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi. Hafi einstaklingurinn hætt atvinnurekstrinum og skuldirnar sem stafa af honum eru aðeins lítill hluti af heildarskuldum einstaklingsins getur hann þó leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
    Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 24/2009, sem lögfesta fyrrgreint ákvæði og önnur sem lúta að greiðsluaðlögun, kemur fram að úrræðið ætti fyrst og fremst að vera fyrir almenna launþega. Þó kemur fram strax í I. kafla athugasemdanna að úrræðið geti bæði átt við um einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur og einstaklinga sem stundað hafa atvinnustarfsemi en þá að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Nauðsynlegt er við setningu slíkra skilyrða að gæta sanngirni, meðalhófs og jafnræðis. Í athugasemdunum kemur glöggt fram að greiðsluaðlögun sé ætlað að vera fyrir einstaklinga en enda þótt bæði einstaklingar og lögaðilar geti leitað nauðasamninga samkvæmt gildandi lögum þá hafi reynslan sýnt að það úrræði gagnast frekar þeim sem leggja stund á atvinnurekstur af einhverju tagi. Greiðsluaðlögun er því úrræði sem ætlað er að mæta sérþörfum einstaklinga og veita þeim möguleika á að nýta sér úrræði af svipuðum meiði.
    Ekki er að finna í athugasemdunum neina útlistun á því hvernig nauðasamningar hafa nýst og þá hverjum, heldur er eingöngu vísað til þeirra sem stunda atvinnurekstur af einhverju tagi. Hér verður að horfa til þess að þeir sem stunda atvinnurekstur með ótakmarkaðri ábyrgð eiga mun meira sameiginlegt með launamönnum en lögaðilum sem stunda atvinnurekstur. Einstaklingar með ótakmarkaða ábyrgð á atvinnurekstri eru í mjög svipuðum aðstæðum og launamenn. Slíkur rekstur einstaklings er oft smærri í sniðum og kaup og kjör einstaklingsins því líkari því að hann sé launamaður en atvinnurekandi. Þá færa menn fremur áhættusaman rekstur í félög til að takmarka ábyrgð sína og vart hægt að ætla að einstaklingur sem er með atvinnurekstur með ótakmarkaðri ábyrgð fari geyst í lántökum enda liggur ábyrgð hans að baki. Má því ætla að rekja megi til efnahagshrunsins þá erfiðleika sem einstaklingur í atvinnurekstri stendur frammi fyrir. Ótakmörkuð ábyrgð þýðir að rekstrargrundvöllur hefur bein áhrif á fjárhag einstaklingsins og fjölskyldu hans og hann ber beina ábyrgð á skuldbindingum sem koma til vegna atvinnurekstursins. Því er mikilvægt að slíkum einstaklingi sé gert kleift að leita úrræða til jafns við einstaklinga sem eru launamenn.
    Augljóslega þarf að skilja á milli reksturs með ótakmarkaðri ábyrgð og reksturs með takmarkaðri ábyrgð en slíkur rekstur er þá í félagi og um hann gilda aðrar reglur, auk þess sem auðveldara er fyrir lögaðila að leita nauðasamninga. Þá ber að hafa í huga að þó svo að skuldir einstaklinga í atvinnurekstri hafi hugsanlega verið lítill hluti af heildarskuldum hafa aðstæður breyst gríðarlega mikið á skömmum tíma. Í athugasemdum við ákvæðið kemur enn fremur fram að með því að setja skilyrði um að skuldir vegna atvinnureksturs séu einungis lítill hluti heildarskulda eigi ákvæðið að geta nýst t.d. iðnaðarmönnun og sölumönnum. Skuldir hafa vaxið mjög í kjölfar efnahagshrunsins og t.d. er algengt að vinnuvélar eða bifreiðar sem nýttar eru í rekstri séu keyptar með erlendum lánum sem hafa margfaldast vegna gengishrunsins. Þau skilyrði sem sett eru í ákvæðinu ganga því mun lengra en sanngjarnt er og líklegt að ákvæðið nýtist ekki eins og því var ætlað.
    Þess ber að geta að ríkisstjórnin hefur kynnt væntanlegar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun þannig að hún verði félagslegt úrræði fremur en vægara form gjaldþrots eins og nú er. Að auki eigi úrræðið að nýtast fleirum en nú er. Nauðsynlegt er að gæta jafnræðis við aðgang að greiðsluaðlögun og er það von flutningsmanna að tekið verði á þessu atriði í breytingum ríkisstjórnar og tryggt að einstaklingar í atvinnurekstri með ótakmarkaðri ábyrgð geti til jafns við aðra einstaklinga leitað nauðasamninga til greiðsluaðlögunar sýni þeir fram á þeir séu og verði um fyrirséða framtíð ófærir um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Verði ekki tekið á þessu atriði í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er eðlilegt að um þetta mál verði fjallað samhliða á Alþingi svo hægt verði að gera breytingar á fyrirkomulagi greiðsluaðlögunar með sjónarmið sanngirni og jafnræði að leiðarljósi.