Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 564. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 954  —  564. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Eygló Harðardóttir, Kristján Þór Júlíusson,


Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Unnur Brá Konráðsdóttir.


1. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Eignist viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki eða dótturfélög þeirra yfir 40% eignarhlut í viðskiptaaðila sínum skulu ákvæði í VII. og VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, gilda um viðskiptaaðilann eftir því sem við á.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið með lagabreytingu þessari er að stuðla að auknu gagnsæi, jafnræði og bættri samkeppnisstöðu á þeim mörkuðum þar sem að minnsta kosti einn samkeppnisaðili er kominn í eigu fjármálafyrirtækis. Nýju bankarnir, NBI hf., Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og dótturfélög þeirra, svokölluð eignaumsýslufélög, hafa nú tekið við eignarhaldi og rekstri hinna ýmsu fyrirtækja sem eiga í verulegum fjárhagsvandræðum. Fjármálafyrirtækin eiga útistandandi kröfur á fyrirtækin sem þau hafa talið betur tryggðar með yfirtöku á hlutafé í félögum þessum en með því að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Mörg dæmi eru um þetta fyrirkomulag en helst má nefna eignarhald NBI hf. á Húsasmiðjunni gegnum eignaumsýslufélag sitt, Vestia, og eignarhald Arion banka hf. gegnum eignaumsýslufélag sitt á Högum, auk eignarhalds Íslandsbanka hf. á Icelandair Group.
    Í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, er að finna ákvæði í 22. gr. þar sem fjallað er um heimild fjármálafyrirtækja til að yfirtaka eignir viðskiptaaðila sinna og tryggja þannig fullnustu krafna sinna. Þá er fjármálafyrirtækjum heimilað tímabundið að stunda aðra starfsemi en fjármálastarfsemi eingöngu í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila síns. Þessi heimild hefur nokkuð verið nýtt gegnum árin en þó líklegast aldrei eins og nú eftir efnahagshrunið. Í frumvarpi til laganna segir um ákvæðið að það sé einskorðað við starfsemi og eignir viðskiptamanna sem ratað hafa í erfiðleika og atbeina viðskiptabanka er þörf til að bæta úr.
    Þess ber að geta að efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þar er lögð til viðbót við ákvæði 22. gr. á þann hátt að við bætist nýr málsliður þar sem segir að Fjármálaeftirlitinu beri að meta hvort skilyrðum samkvæmt greininni sé fullnægt. Þá segir að Fjármálaeftirlitið geti sett fjármálafyrirtækjum tiltekinn tímafrest eða önnur skilyrði til þess að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu. Flutningsmenn styðja viðbót þessa enda telja þeir að hún setji fjármálafyrirtækjum strangari skilyrði en ella og hvetja til þess að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja ljúki fyrr en ella, söluferli geti þá hafist og eðlilegt samkeppnisástand komist aftur á.
    Samkvæmt frumvarpi þessu eru lagðar þær skyldur á fjármálafyrirtæki og viðskiptaaðila þeirra að á meðan fjármálafyrirtæki hefur yfir 40% eignarhald í viðskiptaaðila sínum skuli sá viðskiptaaðili lúta ákvæðum VII. og VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. VII. kafli laganna fjallar um þær reglulegu upplýsingar sem útgefendum verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði ber að birta opinberlega, en það eru ársreikningur, árshlutareikningur vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins og greinargerð frá stjórn. VIII. kafli fjallar síðan um aðrar skyldur til að veita upplýsingar, t.d. viðbótarupplýsingar vegna nýrra lána og upplýsingar um breytingar á stofnsamningi eða samþykktum. Einnig er að finna í kaflanum ákvæði sem lúta að upplýsingum sem útgefendum hlutabréfa og útgefendum skuldabréfa ber að veita. Lagt er til að félög í eigu fjármálafyrirtækis lúti þessum skörpu reglum um upplýsingaskyldu eftir því sem við á.
    Markmiðið með beitingu þessara reglna er að auka gagnsæi í starfsemi félaganna og auka þannig jafnræði með samkeppnisaðilum á viðkomandi markaði, en með eignarhaldi fjármálafyrirtækis eykst verulega hætta á markaðsmisnotkun enda er yfirlýst markmið fjármálafyrirtækis sem tímabundið tekur yfir rekstur viðskiptaaðila að hámarka virði eignarinnar. Er því hætta á því að fjármálafyrirtæki, í viðleitni til að hámarka virði eignar sinnar, skaði verulega heilbrigða samkeppni og skekki stöðu keppinauta á markaði. Margir hafa lýst áhyggjum sínum af samkeppnismarkaði vegna eignarhalds bankanna og telja yfirtekin félög misnota stöðu sína, þau nýti sér aukið fjármagn til þess að kæfa samkeppnisaðila sína. Með þessu njóti félög sem voru í erfiðri rekstrarstöðu góðs af því að hafa verið tekin yfir af fjármálafyrirtæki en samkeppnisaðilar standi frammi fyrir stóraukinni og ósanngjarnri samkeppni.
    Með því að skylda fyrirtæki í eigu fjármálafyrirtækja til þess að lúta ríkum kröfum um upplýsingaskyldu sem lagðar eru á félög skráð á markaði er það von flutningsmanna að gagnsæi aukist og að heilbrigðri samkeppni verði síður ógnað þar sem starfsemi yfirtekinna félaga er þá meira fyrir opnum tjöldum en annars væri.