Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 578. máls.

Þskj. 969  —  578. mál.
Prentað upp.

    Ákvæði til bráðabirgða.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla
(skipulag skólastarfs o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að fela skólameistara forstöðu í fleiri en einum framhaldsskóla.

2. gr.

    Í stað tölunnar „180“ í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 175.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Starfsþjálfunarsamningar skulu gerðir við upphaf vinnustaðanáms og kveða á um rétt og skyldur vinnuveitanda, skóla og nemanda, markmið vinnustaðanáms og gæðakröfur, gildistíma, meðferð ágreinings og samningsslit.
     b.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Ráðherra getur með samningi falið skóla eða öðrum aðila umsýslu með gerð og skráningu samninga og eftirlit með þeim.
     c.      Í stað orðsins „skólameistari“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: ráðherra.

4. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Skólasafn, með einni nýrri grein, 39. gr. a, er hljóðar svo ásamt fyrirsögn:

Skólasafn.

    Í öllum framhaldsskólum skal gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns.
    Hlutverk skólasafns er að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla. Í tengslum við húsnæði skólasafns skal vera lesaðstaða með aðgangi að upplýsingaritum á skólasafni.
    Í starfsemi skólasafns skal leggja áherslu á að þjálfa nemendur í sjálfstæðri leit upplýsinga og notkun gagnabanka.

5. gr.

    Við ákvæði I til bráðabirgða í lögunum bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Frestur framhaldsskóla til þess að setja sér námsbrautarlýsingar skv. 23. gr. er til 1. ágúst 2015.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir fyrirmæli 2. gr. skal við það miða að frá og með 1. ágúst 2015 verði árlegur fjöldi vinnudaga nemenda að lágmarki 180 dagar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í mennta- og menningarmálaráðuneyti, hefur þann tilgang að veita nauðsynlegt svigrúm til þess að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í ríkisútgjöldum til framhaldsskólans og jafnframt til þess að bregðast við ábendingum um mikilvægi þess að hafa áfram í lögum ákvæði um skólasöfn.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að heimilt verði að fela skólameistara forstöðu fleiri en einum framhaldsskóla eftir því sem aðstæður leyfa og við verður komið. Með slíkri ráðstöfun gefst svigrúm til aukinnar hagkvæmni og til þess að bregðast við aðstæðum tímabundið.

Um 2. gr.

    Í 15. gr. gildandi laga um framhaldsskóla er fjallað um grundvöll nýrrar námseiningar, en vinna nemenda skal metin í stöðluðum námseiningum. Eitt námsár sem mælir alla ársvinnu nemenda með fullnaðarárangri telst 60 einingar. Þá er miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé 180. Það er fjölgun um fimm daga á skólaári frá því sem var í eldri lögum, nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og er grundvöllur núverandi kjarasamninga framhaldsskólakennara. Fyrirhuguð lenging kallar því á breyttan kjarasamning kennara og hækkuð útgjöld. Til að ekki komi til kostnaðarauka af lengdu skólaári er lagt til að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda verði 175 í stað 180.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagðar til breytingar á 28. gr. gildandi laga er fjallar um vinnustaðanám. Ein meginforsenda þess að einstakir skólar gætu borið ábyrgð á gerð sérstaks starfsþjálfunarsamnings um vinnustaðanám nemenda var m.a. að komið yrði á fót sérstökum sjóði um vinnustaðanám. Í því sambandi miðar I. bráðabirgðaákvæði laganna við að 28. gr. laganna komi að fullu til framkvæmda 1. ágúst 2011. Hæpið er að skilyrði skólanna til þess að taka á sig fyrrnefnda ábyrgð batni í bráð. Því er lagt til að ráðherra geti í þess stað falið skóla eða öðrum aðila með samningi umsýslu með gerð og skráningu samninga og eftirlit með þeim.

Um 4. gr.

    Á grundvelli markmiðsgreinar laga um framhaldsskóla hefur við undirbúning námskrárgerðar verið lögð áhersla á fimm grunnþætti menntunar: Læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Ljóst er að skólasöfn munu gegna mikilvægu hlutverki í þessu sambandi, einkum að því er varðar skilning á eðli upplýsinga og gagna sem nemendur þurfa að hafa greiðan aðgang að í námi sínu og tómstundum. Skólasöfn eru mikilvægur liður í því að skapa öflugt námssamfélag í hverjum skóla. Efni ákvæðisins tekur mið af 36. gr. eldri laga, nr. 80/1996, um framhaldsskóla. Þó svo að ákvæðið hafi ekki verið tekið upp í gildandi lög hefur ekki verið litið svo á að í því fælist að skólasöfn skyldu aflögð í framhaldsskólum, enda er í starfsemi framhaldsskóla almennt gert ráð fyrir skólasöfnum og sérstöku starfsfólki með menntun á sviði bókasafna og upplýsingatækni, sbr. lokamálsgrein 8. gr. gildandi laga og 10. gr. reglugerðar nr. 1100/2007 um starfslið og skipulag framhaldsskóla. Ákvæðið gerir þannig ekki ráð fyrir því að lögð séu aukin verkefni á framhaldsskóla heldur frekar að skólasöfnum sé gefinn sá sess sem þeim ber að hafa í daglegu starfi framhaldsskóla. Verði safni ekki við komið í skóla gerir ákvæðið ráð fyrir að aðgangur að líku safni geti verið með öðrum hætti, svo sem í tengslum við bókasafn á vegum sveitarfélags eins og dæmi eru um.

Um 5. gr.

    Í 23. gr. gildandi laga er fjallað um námsbrautarlýsingar. Á ákvæðið að vera komið að fullu til framkvæmda 1. ágúst 2011. Til þess að draga úr útgjöldum og auka svigrúm framhaldsskóla er rétt að reikna með því að hægja þurfi á innleiðingu nýrra námsbrauta sem krefjast verulegrar breytinga. Hins vegar er ástæða til að halda þeim möguleika opnum að skólar innleiði nýtt nám eins og þegar er hafið í nokkrum skólum. Lagt er að framhaldsskólum verði gefinn sérstakur frestur til að innleiða ákvæði 23. gr. til 1. ágúst 2015.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla (skipulag skólastarfs o.fl.).

    Markmiðið með frumvarpinu er fyrst og fremst að veita framhaldsskólum nauðsynlegt svigrúm til þess að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í ríkisútgjöldum.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi er lagt til að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda verði 175 í stað 180. Í eldri lögum um framhaldsskóla var kveðið á um 175 vinnudaga nemenda og er það grundvöllur núverandi kjarasamninga framhaldsskólakennara. Fyrirhuguð lenging um 5 daga samkvæmt gildandi lögum hefði kallað á breyttan kjarasamning kennara og hækkuð útgjöld. Í öðru lagi er lagt til að frestur framhaldsskóla til að setja sér námsbrautalýsingar verði til 1. ágúst 2015 í stað 1. ágúst 2011. Til þess að draga úr nýjum útgjöldum og auka svigrúm framhaldsskóla er talið rétt að hægja þurfi á innleiðingu nýrra námsbrauta sem krefjast verulegrar breytinga. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar vegna vinnustaðarnáms. Ólíklegt þykir að skólarnir geti við núverandi aðstæður tekið á sig kvaðir samkvæmt gildandi lögum er varðar vinnustaðanám. Því er lagt til að ráðherra geti falið skóla eða öðrum aðila með samningi um umsýslu, gerð og skráningu samninga um vinnustaðanám og eftirlit með þeim. Í fimmta lagi er lagt til að ráðherra geti falið skólameistara fleiri en einum framhaldsskóla forstöðu. Í sjötta lagi er lögð til ný grein þar sem kveðið er á um að allir framhaldsskólar skuli vera með aðgang að bókasöfnum. Í dag eru allir framhaldsskólar með aðgang að bókasafni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur geri það fremur kleift að varna því að útgjöld framhaldsskóla aukist vegna gildandi lagaákvæða.