Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 581. máls.

Þskj. 972  —  581. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á varnarmálalögum, nr. 34/2008.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.


    6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Inngangsmálsliður orðast svo: Helstu verkefni sem undir varnarmál falla eru.
     b.      Í stað orðanna „starfssviði Varnarmálastofnunar“ í 9. tölul. kemur: varnarmálum.
     c.      Orðin „Ráðgjöf til utanríkisráðuneytisins á fagsviðum stofnunarinnar og varðandi“ í 11. tölul. falla brott.
     d.      12. tölul. fellur brott.
     e.      Í stað orðanna „á starfssviði stofnunarinnar“ í 13. tölul., er verður 12. tölul., kemur: varnarmála.
     f.      14. tölul. fellur brott.
     g.      15. tölul., er verður 13. tölul., orðast svo: Önnur verkefni samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.
     h.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Verkefni er falla undir varnarmál.

3. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Verksamningar.

    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. og V. kafla laga þessara er utanríkisráðherra heimilt, með samþykki hlutaðeigandi ráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir lögin falla, við aðrar ríkisstofnanir.

4. gr.

    8. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. og 2. mgr. kemur ein ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Stofnunum sem vinna við verkefni samkvæmt lögum þessum er óheimilt að ráða til slíkra starfa eða hafa við slík störf einstakling eða verktaka sem ekki uppfyllir skilyrði öryggisvottunar skv. 22. gr.
     b.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: utanríkisráðuneytið.
     c.      Orðin „og aðila máls leiðbeint um rétt til að kæra ákvörðunina til utanríkisráðherra“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.

6. gr.

    10. og 11. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 1. mgr. 12. gr., 1. málsl. 14. gr. og 17. gr. laganna kemur: Utanríkisráðherra.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 1. málsl. kemur: Utanríkisráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Utanríkisráðherra“ í 2. málsl. kemur: Honum.
     c.      4. málsl. fellur brott.

9. gr.

    Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna og sama orðs í 2. mgr. kemur: Utanríkisráðherra; og: hann.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ og orðsins „stofnunin“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: Utanríkisráðherra; og: hann.
     c.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnunar“ og orðsins „stofnunin“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: ríkissjóðs; og: utanríkisráðherra.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samningsbundin afnot af mannvirkjum og búnaði Atlantshafsbandalagsins.

    11. gr.


    Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 19. gr. og 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna kemur: Utanríkisráðuneytið.

12. gr.

    2. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Utanríkisráðuneytið annast í samvinnu við viðeigandi stofnanir undirbúning og framkvæmd varnaræfinga.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Starfsmenn Varnarmálastofnunar“ í 1. málsl. kemur: Þeir starfsmenn stofnana, verktaka og annarra aðila sem vinna við einstök verkefni samkvæmt lögum þessum.
     b.      3. málsl. fellur brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ og orðsins „stofnunin“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Utanríkisráðuneytið; og: það.
     b.      Í stað orðsins „Stofnunin“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Ráðuneytið.
     c.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. og orðsins „hún“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Utanríkisráðuneytið; og: það.
     d.      Orðið „utanríkisráðuneytisins“ í 1. málsl. 3. mgr. fellur brott.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 24. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 1. málsl. kemur: Utanríkisráðuneytið.
     b.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnunar“ í 2. málsl. kemur: ráðuneytisins.
     c.      Í stað orðsins „Varnarmálastofnun“ í 3. málsl. kemur: Ráðuneytið.

16. gr.

    25. og 26. gr. laganna falla brott.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      Orðin „verkefni Varnarmálastofnunar og“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      A-liður fellur brott.

18. gr.

    Í stað orðsins „Stjórnsýslukæra“ í fyrirsögn X. kafla laganna kemur: Reglugerðarheimildir.

19. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætast þrír nýir töluliðir sem orðast svo:
     3.      Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal Varnarmálastofnun starfa áfram til 1. janúar 2011. Til þess tíma fer stofnunin með verkefni skv. 7. gr. og V. kafla laga þessara, nema ráðherra hafi falið þau annarri stofnun skv. 7. gr. a, en frá þeim tíma skal hún lögð niður. Á þessu tímabili mega starfsmenn stofnunarinnar hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.
     4.      Við gildistöku laga þessara skipar utanríkisráðherra verkefnisstjórn, sem tekur yfir hlutverk forstjóra Varnarmálastofnunar en það embætti er lagt niður frá sama tíma. Verkefnisstjórnin ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar og verkefnum samkvæmt lögunum þar til stofnunin verður lögð niður, sbr. 3. tölul. Hún getur gert tillögur til utanríkisráðherra um ráðstöfun verkefna skv. 7. gr. a. Hún skal skipuð fimm einstaklingum sem tilnefndir eru af forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
     5.      Starfsfólki Varnarmálastofnunar, sem við gildistöku laga þessara fæst við þau verkefni sem kunna að verða falin öðrum stofnunum, skal boðið starf hjá þeim ríkisstofnunum sem falin verða verkefni samkvæmt lögum þessum til 1. janúar 2011, sbr. 7. gr. a. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

20. gr.

    Lögin öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í áformum ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu opinberrar þjónustu sem kynnt voru á síðasta ári kemur m.a. fram að Varnarmálastofnun verði lögð niður á árinu 2010 og verkefni hennar samþætt hlutverki annarra opinberra stofnana. Á fundi sínum 4. desember 2009 samþykkti ríkisstjórn Íslands minnisblað utanríkisráðherra um öryggismál og endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Ákvað ríkisstjórnin þar með að samræma ákvörðun um að leggja Varnarmálastofnun niður og samþætta verkefni hennar við hlutverk annarra opinberra stofnana við áform um stofnun innanríkisráðuneytis. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna hafði verið gert ráð fyrir því að lögfest yrði sameining samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis í nýju innanríkisráðuneyti fyrir lok kjörtímabilsins.
    Ákveðið var að á vegum ríkisstjórnarinnar yrði skipaður starfshópur undir forystu utanríkisráðuneytis til að undirbúa þær breytingar sem framangreint minnisblað fjallaði um. Í starfshópnum áttu sæti Guðmundur B. Helgason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, formaður, f.h. utanríkisráðherra; Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti; Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti; Angantýr Einarsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneyti; og Karl Alvarsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Starfsmaður starfshópsins var Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, sérfræðingur hjá varnarmáladeild utanríkisráðuneytis.
    Í erindisbréfi starfshópsins var áréttað að áformuðum breytingum væri ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif á varnar- og öryggisskuldbindingar Íslands, svo sem þátttöku í starfi Atlantshafsbandalagsins, varnarsamninginn við Bandaríkin eða annað fjölþjóðlegt samstarf um öryggismál. Var starfshópnum ætlað að greina þau varnar- og öryggistengdu verkefni sem nú eru falin utanríkisráðuneyti og Varnarmálastofnun, innviði hins áformaða innanríkisráðuneytis og þá möguleika sem skapast á endurskipulagningu öryggismála með tilkomu þess. Á grundvelli þeirrar greiningar var starfshópnum ætlað að gera tillögur um verkaskiptingu innanríkisráðuneytis og utanríkisráðuneytis og fyrirkomulag verkefna Varnarmálastofnunar á vegum innanríkisráðuneytis. Þá var starfshópnum ætlað að vinna verk- og samrunaáætlun vegna þessara breytinga og gera tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar.
    Í skýrslu starfshópsins sem skilað var til utanríkisráðuneytisins í mars 2010 kemur m.a. fram að í fyrirhuguðum breytingum felist tækifæri til að samþætta verkefni sem varnarmálalög aðskilja frá hefðbundinni borgaralegri starfsemi á sviði öryggismála á borð við almannavarnir og landhelgisgæslu. Með slíkri samþættingu væri stefnt að því að styrkja faglega starfsemi íslenskra stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum og tryggja sem best gagnkvæma hagsmuni Íslands og alþjóðlegra samstarfsaðila innan málaflokksins, með hliðsjón af þeirri staðreynd að Ísland er herlaus þjóð með borgaralega innviði til slíks samstarfs að leggja. Sterk rök hnígi að því að samhæfa ábyrgð og skyldur er varða framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna á eina hendi eins og lagður er grunnur að með þeirri stefnumörkun að koma á fót innanríkisráðuneyti og flytja til þess hlutverk varnarmálaráðuneytis frá utanríkisráðuneyti. Mikilvægt væri að stjórnsýsluleg, fjárhagsleg og fagleg ábyrgð færi saman.
    Samkvæmt skýrslu starfshópsins telur hann að þau verkefni sem nú eru falin Varnarmálastofnun falli ekki beint að neinni einni stofnun sem nú er starfandi. Horft til verkefna og starfsemi Varnarmálastofnunar annars vegar og verkefna hjá Landhelgisgæslu og ríkislögreglustjóra hins vegar þá væri góð samsvörun milli þeirra. Framtíðarsýn starfshópsins er að eftir endurskipulagningu á verkefnum Landhelgisgæslu Íslands, Vaktstöðvar siglinga og ríkislögreglustjóra fari undirstofnun innanríkisráðuneytis með framkvæmd verkefna á sviði varnar- og öryggismála, þ.m.t. þeirra sem áður voru falin Varnarmálastofnun. Er einnig gert ráð fyrir að unnt verði að fela fleiri aðilum framkvæmd einstakra verkþátta með þjónustusamningum.
    Niðurstöður starfshópsins taka mið af þeirri forsendu að innanríkisráðuneyti verði stofnsett í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og ákvörðun ríkisstjórnarinnar á fundi sínum 4. desember 2009. Fram að því er gert ráð fyrir óbreyttri verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins þannig að stofnunum sem heyra munu undir hið áformaða innanríkisráðuneyti kann um tíma að vera falið að annast verkefni á ábyrgðarsviði utanríkisráðuneytis. Til að unnt sé að samþætta verkefni Varnarmálastofnunar við áform um stofnun innanríkisráðuneytis með skipulegum hætti leggur starfshópurinn til að sameining hlutaðeigandi ráðuneyta verði nánar tímasett og undirbúningur að því markmiði hafinn til hliðar við þann feril sem starfshópurinn sér fyrir sér um ráðstöfun verkefna Varnarmálastofnunar.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að Varnarmálastofnun verði lögð niður frá og með 1. janúar 2011. Til að skapa svigrúm fyrir fyrirhugaðar breytingar og ráðstöfun verkefna er lagt til að embætti forstjóra Varnarmálastofnunar verði lagt niður við gildistöku laganna. Enn fremur er lagt til að utanríkisráðherra skipi verkefnisstjórn til að annast daglegan rekstur Varnarmálastofnunar og þá breytingastjórnun sem nauðsynleg er vegna niðurlagningar stofnunarinnar. Þá er lagt til að utanríkisráðherra verði fengin heimild til að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni við aðrar ríkisstofnanir að fengnu samþykki hlutaðeigandi ráðherra. Markmið lagafrumvarps þessa er að varnarmálalög endurspegli, verði frumvarpið að lögum, að stofnunin sé lögð niður.
    Skýrsla starfshópsins er birt á vef utanríkisráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta er það lagt fram í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Í því felst að Varnarmálastofnun verði lögð niður á árinu 2010 og verkefni hennar samþætt við hlutverk annarra opinberra stofnana við áform um stofnun innanríkisráðuneytis. Í samræmi við þetta er lagt til í greininni að ákvæði 6. gr. varnarmálalaga um starfsrækslu Varnarmálastofnunar verði fellt brott.

Um 2. gr.


    Með greininni er mælt fyrir um nokkrar breytingar á 7. gr. núgildandi laga. Í fyrsta lagi er þar um að ræða breytingu á fyrirsögn ákvæðisins, sem í varnarmálalögum ber fyrirsögnina Verkefni Varnarmálastofnunar. Þar sem lagt er til með frumvarpi þessu að stofnunin verði lögð niður þarf fyrirsögn ákvæðisins að taka breytingum. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að gildissvið varnarmálalaga, eins og því er lýst í 1. gr., breytist. Þau halda gildi sínu að því er varðar stjórnsýslu varnarmála á íslensku yfirráðasvæði og samstarf og samskipti íslenskra stjórnvalda við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála. Varnarmál verða m.ö.o. ennþá andlag lagasetningarinnar þrátt fyrir þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu. Með vísan til þess þykir fara vel á því að fyrirsögn ákvæðis 7. gr. laganna verði Verkefni er falla undir varnarmál.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til með greininni eru sprottnar af því sama.

Um 3. gr.


    Í greininni er lögð til ný grein, 7. gr. a, sem fjalli um verksamninga. Með því er utanríkisráðherra veitt heimild til að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni við aðrar ríkisstofnanir. Slíkir verksamningar verði gerðir með samþykki þess ráðherra sem fer með yfirstjórn þeirrar ríkisstofnunar er verksamningur er gerður við. Tillaga að þessu ákvæði er sett fram með hliðsjón af 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, sem heimilar einstökum ráðherrum, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu. Í skýringum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/1997 kemur fram að tilhneiging hafi verið til þess í stjórnun ríkisrekstrar að líta í auknum mæli á verkefni og rekstrarþætti ríkisins frekar en stofnanirnar sem rekstrareiningu. Litið sé til þess hvernig verkefnin séu leyst, hagkvæmni í vinnubrögðum, skilvirkni þjónustunnar, tilgangi verkefnisins o.s.frv. Sömu sjónarmið og greind eru í athugasemdum við það frumvarp er varð að lögum nr. 88/1997 búa að baki því ákvæði sem lagt er til með 3. gr. frumvarps þessa. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta ákvað ríkisstjórnin hinn 4. desember 2009 að samræma ákvörðun um að leggja Varnarmálastofnun niður og samþætta verkefni hennar við hlutverk annarra opinberra stofnana við áform um stofnun innanríkisráðuneytis. Stofnanir á borð við Landhelgisgæslu Íslands og embætti ríkislögreglustjóra kæmi helst til álita að gera verksamninga við á grundvelli þessa ákvæðis. Um væri að ræða undirstofnanir dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, sem áformað er að sameinist í nýtt innanríkisráðuneyti.
    Lögmætisregla íslensk stjórnsýsluréttar felur í sér að skýra lagaheimild þarf til að stjórnvaldi sé heimilt að framselja vald sitt til að hafa tiltekin verkefni með höndum. Samkvæmt 3. gr. varnarmálalaga, nr. 34/2008, fer utanríkisráðherra með yfirstjórn varnarmála og framkvæmd laganna. Varnarmálastofnun er í lögunum falið að vinna verkefni á sviði varnarmála, sbr. 6. gr., og eru helstu verkefni hennar skilgreind nánar í 7. gr. núgildandi laga. Við undirbúning að niðurlagningu stofnunarinnar um áramótin 2010/2011 kann að vakna þörf fyrir að flytja verkefni hennar annað og þá til undirstofnana þeirra ráðuneyta sem koma til með að mynda innanríkisráðuneyti, eins og áður var nefnt. Heimildarákvæðinu í 3. gr. frumvarpsins er ætlað að mæta þeirri þörf. Gerð verksamninga á grundvelli ákvæðis 3. gr. frumvarps þessa mundi fyrst og fremst koma til álita á tímabilinu frá gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, til þess tíma er Varnarmálastofnun er lögð niður um áramótin 2010/2011, svo vistun verkefna liggi fyrir á þeim tímapunkti.
    Ákvæðið heimilar ekki utanríkisráðherra að framselja vald sitt til töku stjórnvaldsákvarðana, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um ýmsar breytingar á 9. gr. núgildandi varnarmálalaga.
    Í fyrsta lagi er lagt til að í stað 1. og 2. mgr. 9. gr. komi ný málsgrein þar sem ákvæði 1. og 2. mgr. lúta annars vegar að hlutverki forstjóra Varnarmálastofnunar við ráðningu starfsliðs og hins vegar að kröfum sem gerðar eru um öryggisvottun starfsmanna og verktaka er vinna fyrir stofnunina. Það leiðir af sjálfu sér að þar sem frumvarpið leggur til að stofnunin verði lögð niður eru ákvæði þessi óþörf.
    Þá eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 9. gr. sem endurspegla það að Varnarmálastofnun er lögð niður. Ákvæði málsgreinarinnar fjallar um þær kröfur sem gerðar eru um öryggisvottun þeirra starfsmanna sem vinna við verkefni samkvæmt varnarmálalögum og andmælarétt einstaklings, verktaka eða starfsmanns verktaka komi til þess að vinnu- eða verksambandi er sagt upp sökum þess að skilyrði öryggisvottunar eru ekki uppfyllt. Þar er Varnarmálastofnun ætlað hlutverk, sem ekki verður fyrir hendi þegar stofnunin hefur verið lögð niður.
    Að því er varðar lokaorð ákvæðisins um kærurétt til utanríkisráðherra vegna synjunar um starf eða verk eða uppsagnar á gildandi vinnu- eða verksambandi, er ljóst að þessi kæruleið fellur brott við það að það er utanríkisráðuneytið sem kemur í stað Varnarmálastofnunar. Skylda til leiðbeiningar um kærurétt fellur því einnig brott. Þar sem hefðbundin málskotsleið innan stjórnsýslunnar er ekki tæk í þessu tilviki, er ítrekað hér að heimildir til að bera stjórnvaldsákvarðanir undir umboðsmann Alþingis leiðir af lögum um nr. 85/1997.

Um 6. gr.


    Í núgildandi 11. gr. varnarmálalaga segir að starfsmenn Varnarmálastofnunar megi hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun. Lagt er til að ákvæðið verði fellt brott út meginmáli laganna, en það haldi gildi sínu með bráðabirgðaákvæði til 1. janúar 2011 vegna mikilvægis þeirra starfa sem varnarmálalög mæla fyrir um fyrir varnir og öryggi landsins.

Um 7. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að lagt er til að 4. málsl. 1. mgr. falli brott, enda fellur brott lægra stjórnsýslustig við það að Varnarmálastofnun er lögð niður og þar með einnig kæruréttur til æðra stjórnvalds. Sömu athugasemdir eiga við hér og í umfjöllun um 5. gr. varðandi heimildir til að bera stjórnvaldsákvarðanir undir umboðsmann Alþingis.

Um 9. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Lagt er til að 1. mgr. 16. gr. laganna falli brott. Það sem eftir stendur af ákvæðinu við þá breytingu er 2. mgr., sem fjallar um samningsbundin afnot af mannvirkjum og búnaði bandalagsins. Því er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði Samningsbundin afnot af mannvirkjum og búnaði Atlantshafsbandalagsins í stað Rekstrarkostnaður. Annað í ákvæðinu þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Í 1. mgr. 20. gr. varnarmálalaga er tekinn af allur vafi um að utanríkisráðherra beri ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd varnaræfinga, sem haldnar eru hérlendis á vegum íslenskra stjórnvalda. Ekki er lögð til breyting á því í frumvarpinu, en vegna niðurlagningar Varnarmálastofnunar er nauðsynlegt að gera breytingar á 2. mgr. 20. gr. varnarmálalaga. Því er lagt er til í greininni að 2. mgr. 20. gr. verði breytt þannig að utanríkisráðuneytið annist í samvinnu við viðeigandi stofnanir undirbúning og framkvæmd varnaræfinga. Með þessari breytingu er þess gætt að utanríkisráðuneytið taki við hlutverki Varnarmálastofnunar að þessu leyti en því verði sinnt í fullri samvinnu við aðrar stofnanir eftir því sem við á.

Um 13.–16. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Í 27. gr. núgildandi varnarmálalaga er að finna almenna heimild til málskots innan stjórnsýslunnar. Með þeirri breytingu sem frumvarp þetta felur í sér fellur brott lægra stjórnsýslustigið, sem er ein af forsendum fyrir því að málskotsheimild skapist. Að sama skapi flyst ákvörðunarvald stjórnvaldsins til utanríkisráðuneytis. Heimildir til að bera stjórnvaldsákvarðanir þess undir umboðsmann Alþingis leiðir af lögum um umboðsmann, eins og áður hefur komið fram. Óþarfi þykir því að hafa almennt ákvæði um slíkt málskot í varnarmálalögum við þá breytingu sem stefnt er að með frumvarpinu.

Um 18. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.


    Í nýjum 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða er lagt til að búið verði í haginn fyrir aðlögunarferli sem stendur frá þeim tíma er lögin taka gildi og til þess tíma er nýtt innanríkisráðuneyti tekur til starfa.
    Í fyrsta lagi er lagt til að, þrátt fyrir ákvæði laganna, skuli Varnarmálastofnun starfa áfram til 1. janúar 2011. Vegna þeirra áforma, sem byggjast á samþykkt ríkisstjórnar frá 4. desember 2009, miðar lagafrumvarp þetta að því að gera varnarmálalög svo úr garði að þau endurspegli niðurlagningu stofnunarinnar. Þar sem hins vegar er gert ráð fyrir að breyting á varnarmálalögum taki þegar gildi, en að stofnunin verði ekki lögð niður fyrr en 1. janúar 2011, er nauðsynlegt að hún geti á tímabilinu frá gildistöku laganna til áramóta 2010/2011 rækt það hlutverk sem hún hefur haft samkvæmt núgildandi lögum. Þess vegna er í bráðabirgðaákvæði lagt til hún fari með verkefni samkvæmt lögunum, nema ráðherra hafi falið þau annarri stofnun skv. 7. gr. a, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Þá er í þessum tölulið lagt bann við því að starfsmenn Varnarmálastofnunar fari í verkfall eða taki þátt í verkfallsboðun á tímabilinu frá gildistöku laganna og þar til stofnunin hefur verið lögð niður. Er þetta ákvæði sama efnis og 11. gr. núgildandi laga sem lagt er til í frumvarpinu að fella brott, en það haldi gildi sínu til áramóta í bráðabirgðaákvæði.
    Í nýjum 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða er lagt til að verkefnisstjórn taki yfir hlutverk forstjóra Varnarmálastofnunar frá gildistöku lagann og það embætti sé lagt niður frá sama tíma. Verkefnisstjórnin beri þannig ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar og verkefnum samkvæmt lögunum þar til stofnunin verður lögð niður. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin geti gert tillögur til utanríkisráðherra um hvaða verkefni verði falin öðrum ríkisstofnunum skv. 7. gr. a, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Lagt er til að hún verði skipuð fulltrúum fimm ráðuneyta, þ.e. forsætis-, utanríkis-, fjármála-, dómsmála- og mannréttinda- og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyta.
    Í nýjum 5. tölul. ákvæðis til bráðabirgða er fjallað um stöðu starfsmanna Varnarmálastofnunar við niðurlagningu stofnunarinnar. Lagt er til að því starfsfólki sem við gildistöku laga þessara fæst við þau verkefni sem kunna að verða falin öðrum stofnunum, verði boðið starf hjá þeim ríkisstofnunum sem falin verða verkefni samkvæmt lögum þessum til 1. janúar 2011, sbr. 7. gr. a. Tekið er fram að ákvæði 7. gr. laga nr. 7071996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er varðar skyldu til að auglýsa störf eigi ekki við í þessum tilvikum.

Um 20. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum, nr. 34/2008.


    Með frumvarpinu er verið að bregðast við þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja Varnarmálastofnun niður og samþætta verkefni hennar hlutverkum annarra opinberra stofnana í tengslum við áform um stofnun innanríkisráðuneytis.
    Til þess að þessi áform geti gengið eftir eru lagðar til breytingar sem miða að því að varnarmálalög endurspegli niðurlagningu stofnunarinnar og að utanríkisráðherra verði fengin heimild til að gera samninga um rekstrarverkefni Varnarmálastofnunar við aðrar ríkisstofnanir þar til nýtt innanríkisráðuneyti hefur verið stofnað og forræði á verkefnum flyst þangað. Þá er bætt við þremur nýjum bráðabirgðaákvæðum sem hafa þann tilgang að skapa svigrúm fyrir fyrirhugaðar breytingar. Fyrsta ákvæðið lýtur að niðurlagningu stofnunarinnar 1. janúar 2011 og útvistun verkefna hennar. Einnig er kveðið á um bann við verkfalli starfsmanna. Annað bráðabirgðaákvæðið lýtur að starfslokum forstjóra og skipun sérstakrar verkefnastjórnar sem mun bera ábyrgð á daglegum rekstri og verkefnum stofnunarinnar frá gildistöku laganna þar til stofnunin verður lögð niður. Verkefnastjórnin skal skipuð fimm einstaklingum sem tilnefndir eru af forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Þriðja bráðabirgðaákvæðið lýtur að starfsfólki Varnarmálastofnunar. Ef þau verkefni sem starfsfólkið vinnur að flytjast til annarra stofnana skal þeim boðið starf hjá þeim. Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.
    Markmiðið með þeim breytingum á stjórnsýslunni sem þessu frumvarpi er ætlað að vera liður í er að auka skilvirkni og hagræði. Ekki er endanlega búið að ákveða til hvaða stofnana verkefnin verða flutt og því liggja ekki fyrir áætlanir um hversu mikið mun sparast til lengri tíma í útgjöldum ríkissjóðs en gert er ráð fyrir að hagræðið verði umtalsvert.
    Verði frumvarpið lögfest má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist óverulega á þessu ári vegna biðlauna og mögulegs kostnaðar við verkefnastjórn. Væntanlegrar hagræðingar mun hins vegar þegar fara að gæta við tilfærslu verkefna stofnunarinnar og því fljótt vega upp á móti þeim kostnaði.